29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

42. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Ég hlýt þó að viðurkenna að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með það, hve litlu þessi n. hefur enn sem komið er áorkað og að ekki er sýnt hvenær niðurstöður muni liggja fyrir. Þar fyrir held ég að hv. 3. þm. Reykv. hafi nú tekið nokkuð mikið upp í sig.

Ég var ein þeirra sem á s.l. vori töldu einsýnt að þessa heimila mætti misnota. Það er augljóst mál. Og því miður er fólki þannig háttað, að það getur lagst svo lágt að nota sér ákvæði sem eiga að koma til góða meðbræðrum í þjóðfélaginu sem hjálpar þurfa með, nota sér vandræði þeirra og þær samfélagslegu ráðstafanir sem gerðar eru í þeirra þágu. Fram hjá þessu verður því miður ekki gengið, og því er fyllilega eðlilegt að athuga þessi mál vel. (Gripið fram í: Hvernig er hægt að misnota þetta?) Hv. þm, spyr hvernig misnota megi þetta. Það liggur að sjálfsögðu í augum uppi, að það er hægt að skrá á nafn aldraðrar manneskju síma sem aðrir nota svo, en láta greiða fyrir nafn hins. Þetta vitum við öll. Hins vegar má þessi hugsanlegi agnúi á framkvæmd þessa máls ekki verða til þess að tefja þau óhæfilega.

Ég tek heils hugar undir það sem fram kom hjá hv. 3. þm. Reykv., að hér er um mikið nauðsynjamál og mikið réttlætismál og mikið öryggismál að ræða. Ekki síst þar sem svo háttar til að aldrað fólk býr eitt í íbúð, þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt að það hafi síma og óverjandi að það hafi hann ekki. En símaafnotagjald er nú svo hátt að það er nokkuð tilfinnanlegt fyrir aldraðan einstakling sem ekki hefur á öðru að byggja en ellilífeyri, þó svo að tekjutrygging bætist við.

Ég vil því skora á hæstv. ráðh. að flýta þessu máli og einnig athugun á bifreiðum fatlaðra. Enda þótt við séum í fjárhagslegum vanda stödd megum við ekki láta það bitna meira en alltaf hlýtur að verða á þessum einstaklingum í þjóðfélaginu, sem við hljótum að bera fyrir brjósti meira en þá sem eru fullfrískir og þess umkomnir að ráða fram úr vanda sínum sjálfir.

Ég endurtek: ég vænti þess að störfum þessarar n. verði hraðað sem kostur er og út úr því komi niðurstaða sem við getum við unað.