29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

42. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Sú n., sem hér hefur verið til umr., n. embættismanna úr fjórum rn., er orðin til vegna brtt. sem ég bar fram við frv. um Póst- og símamálastofnun og fjallaði m.a. um fjarskiptamál öryrkja. En símamál eru þó annar aðalþáttur þessarar fyrirspurnar, og það er ekki bara fjárhagsatriði fyrir aldrað fólk og öryrkja að hafa síma í sínum íbúðum, það er ekki síður öryggisatriði.

Það er mikill áhugi ráðamanna víða einmitt á því að þessir aðilar geti látið frá sér heyra ef eitthvað er að hjá þeim. Með það í huga hefur verið að störfum n. á Norðurlöndum sem nú að reyna að finna tæki til þess að tryggja að það komi í ljós, ef t.d. aldraður íbúi getur ekki látið frá sér heyra og þarf á hjálp að halda. Till. hefur komið fram um það, að ísskápar þessa fólks verði þannig útbúnir, að ef þeir eru ekki opnaðir innan 12 klukkustunda hringi bjalla á lögreglustöð eða einhvers staðar annars staðar. Nú er komin fram till. um að koddar verði útbúnir á sérstakan hátt, þannig að ef ekki væri lagst á þá innan ákveðins tíma, þá gerist hið sama. Eins er um stóla. Af þessu er Sýnilegt, að það er mikið áhugamál margra að aldraðir geti verið heima í íbúðum sínum eins lengi og mögulegt er, jafnvel þó þeir séu einir, og enn fremur að gerðar séu ráðstafanir til þess að þeir geti látið vita um sig. Enn fremur hefur síminn að sjálfsögðu þá kosti, að hann er tæki til þess að afla sér félagsskapar, fólk getur talað við einhverja og einmannakenndin verður minni.

Allt þetta er þess valdandi, að það er mikil nauðsyn að þessi till. verði framkvæmd. En það er ekki þar með sagt, eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni, að póstur og sími þurfi að greiða þessi gjöld. Það má alveg eins hugsa sér að hann sendi einhverjum opinberum aðilum reikning fyrir þeim kostnaði, sem af þessu leiðir, og hann verði greiddur af þeim aðilum. Hins vegar er það vitað mál, að þótt tryggingabætur yrðu hækkaðar þannig að samsvaraði þeirri upphæð sem síminn kostar, þá mundi nokkur hluti af þeim, sem hér um ræðir, ekki nota þá fjármuni til þessara hluta vegna þess, að bætur verða alltaf þær lágmarkstekjur, að það verður nóg fyrir þá að gera við peningana annað en borga síma.