29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

42. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég veit ekki af hverju hæstv. ráðh, fór að draga kjaradeiluna á s.l. sumri inn í þessar umr. hér með því að segja að líklega hefðu mér þótt nógu háir símareikningarnir í sambandi við það, nema þá að það sé meiningin að skella því á verkalýðshreyfinguna, að það sé hennar sök að þetta mál hafi ekki náð fram að ganga. Ef verið er að láta í það skina, þá mótmæli ég því harðlega. Það hefur ekki mér vitanlega nokkurn tíma komið fram, hvorki í þessari kjaradeilu, sem var á s.l. sumri, né áður, að það væri andstaða hjá verkalýðshreyfingunni gegn því að þessi einróma vilji Alþ. næði fram að ganga. Og mér finnst það nær hlægilegt þegar hæstv. ráðh. ætlar að skjóta sér á bak við það, að hér sé aðeins um heimild að ræða. Það liggur fyrir einróma viljayfirlýsing þingsins um það, með hvaða hætti þetta mál skuli leyst, og þá ber að gera það. Ef þetta er stórt fjárhagsmál, hvort sem það yrði Póst- og símamálastofnun, sem það greiddi, eða einhver annar aðili í ríkiskerfinu, þá vil ég til ábendingar fyrir hæstv. ráðh. leggja til að það verði ekki nema helmingurinn af símakostnaði sem alþm. fái greiddan. Hinum helmingnum verði varið til þess að borga niður símaafnot aldraðs fólks, ef það er fjárhagsatriði ríkissjóðs sem stendur í vegi fyrir því að málið nái fram.