29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

88. mál, innheimta skemmtanaskatts

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 56 1973, þá eru allgreinargóð ákvæði nm starfsemi heilsugæslustöðva og fjallar raunar allur III. kafli laganna um það efni. Í 21. gr. er tekið fram, hvaða þjónustu skuli veita á heilsugæslustöð, en þar segir svo:

„Á heilsugæslustöð skal veita þjónustu, eftir því sem við á, svo sem hér segir:

1. Almenna læknisþjónustu, vaktþjónustu og vitjanir til sjúklinga.

2. Lækningarannsóknir.

3. Sérfræðilega læknisþjónustu og tannlækningar.

4. Heilsuvernd, svo sem:

a) Mæðravernd.

b) Ungbarna- og smábarnavernd.

c) Heimahjúkrun.

d) Skólaeftirlit.

e) Íþróttaeftirlit.

f) Atvinnusjúkdómaeftirlit.

g) Berklavarnir.

h) Kynsjúkdómavarnir.

i) Geðvernd, áfengis- og fíknilyfjavarnir.

j) Félagsráðgjöf.

k) Hópskoðanir og skipulagða sjúkdómaleit.

l) Sjónvernd og heyrnarvernd.

Aðrar heilsuverndargreinar eftir ákvörðun ráðh. Ráðh. getur og ákveðið, að heilbrigðiseftirlit hafi aðstöðu í heilsugæslustöð.“

Í þessari grein er einnig tekið fram, að ráðh. setji með reglugerð ákvæði um stærð heilsugæslustöðvar og fyrirkomulag, læknafjölda og sérmenntað starfslið, tækjabúnað og starfsháttu og fyrirkomulag heilsuverndarstarfs á hverjum stað, þ. á m. um móttöku sjúklinga utan stöðva.

Eins og hér hefur verið rakíð, er ekki gert ráð fyrir því í þessari grein og hvergi annars staðar í lögunum, að ráðh. setji reglugerð um rekstur heilsugæslustöðva. Í 22. gr. segir, að rekstrarkostnaður heilsugæslustöðva svo og kostnaður vegna aðstöðu lækna utan stöðva, annar en launakostnaður lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra, greiðist af þeim sveitarfélögum, sem hlut eiga að máli. Og í 23. gr. er stjórn heilsugæslustöðva falin að meiri hluta þeim sveitarfélögum sem að henni standa. Það er því ekki gert ráð fyrir að setja beri reglugerð um rekstur heilsugæslustöðva og vafasamt hvort sveitarfélög þyrftu að lúta slíkri reglugerð yrði hún sett. Um þau atriði, sem setja á í reglugerð, þ.e.a.s. um stærð og fyrirkomulag stöðva, fjölda sérmenntaðs starfsliðs, vil ég hins vegar fara nokkrum orðum, því að reglugerð hefur enn ekki verið sett um þessi atriði enda þótt af rn. hálfu hafi verið verulega um þau fjallað.

Í þessu sambandi vil ég í fyrsta lagi benda á rit rn.: Leiðbeiningar um hönnun heilbrigðisstofnana, sem er rit heilbr: og trmrn. nr. 1/1976 og kom út í jan. það ár. Í þessu riti er lýst hvernig byggja á upp heilsugæslustöð, hvaða starfsaðstaða þarf að vera þar fyrir hendi, um stærðir einstakra eininga svo og um fyrirkomulag starfsins, og er ritið bæði ætlað þeim, sem taka þátt í hönnun heilbrigðisstofnana, einkum heilsugæslustöðva, en samið þannig að það getur einnig komið að gagni þeim sem starfa við þessar stofnanir og annast rekstur þeirra.

Með ritinu er í raun lögð stefnumörkun rn. um fyrirkomulag og starf heilsugæslustöðva. Í skýrslu þeirri, sem ég lagði fram á síðasta þingi um heilbrigðismál og birt var sem rit heilbr.- og trmrn. nr. 1/1977, er á hinn bóginn gerð ítarleg grein fyrir því, hvaða húsnæði þurfi á hverjum stað fyrir heilsugæslu samkv. lögum um heilbrigðisþjónustu, hvaða starfsfólk þurfi til að annast þessa þjónustu á hverjum stað, bæði lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæður, og hvaða íbúðarhúsnæði þurfi að byggja til þess að ákvæðum laga um heilbrigðisþjónustu sé fullnægt. Vil ég í þessu sambandi vitna til þess rits, bls. 48–53, en þar eru þessi mál rakin mjög ítarlega.

Ég vil einnig geta þess, að á árinu 1974 var í sameiningu af hálfu rn. og landlæknisembættisins unnið að því að gera drög að reglugerð eða starfsleiðbeiningum fyrir heilsugæsluna. Allmikið starf var unnið á því ári að þessu máli, án þess að því yrði lokið og án þess að afstaða væri tekin til þess, hvor kosturinn yrði valinn þegar reynsla væri fengin, að setja rammareglugerð um starfsemi heilsugæslu og gefa síðan út sérstakar starfsleiðbeiningar, eða hvort hin leiðin yrði valin, að sett yrði reglugerð fyrir hverja heilsugæslustöð um sig. Á s.l. sumri sendi landlæknir þau drög, sem hér um ræðir, til umsagnar svæðafélaga Læknafélags Íslands og er gert ráð fyrir að þetta mál verði tekið upp að nýju nú á þessum vetri.

Af því, sem hér hefur verið sagt, má vera ljóst að á vegum heilbr.- og trmrn. og í samvinnu við landlækni hefur verið unnið að því að móta stefnu í heilsugæslumálum landsins. En það hefur ekki verið lögð á það áhersla að gefa út reglugerðir fyrr en veruleg reynsla væri komin í heilsugæslumálefnum að allra dómi.

Í fyrirspurn sinni ræðir fyrirspyrjandi um sérstaka starfsskyldu lækna sem starfa við heilsugæslustöðvar. í þessu sambandi er rétt að minna á að erindisbréf héraðslækna frá 6. mars 1964 er í fullu gildi hvað snertir læknisstörf á heilsugæslustöðvum, eftir því sem við getur átt, svo og reglur læknalaga, nr. 80 frá 1969. Hins vegar verður að minna á það, að að öðru leyti fer um starfsskyldur lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra eftir samningi fjmrh. og Læknafélags Íslands annars vegar og hins vegar kjarasamningum fjmrh. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, svo sem er um aðra starfsmenn ríkisins. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir því í lögum um heilbrigðisþjónustu, að sérstakir samningar séu milli Stéttarfélags lækna og Tryggingastofnunar ríkisins um almenn læknisstörf, og eru slíkir samningar nú í gildi.

Eins og ég sagði áður, þá er ekki gert ráð fyrir því, að sett sé reglugerð af hálfu heilbr.- og trmrh. um rekstur heilsugæslustöðva. Ég vil hins vegar lýsa þeirri skoðun minni, að til greina kemur að breyta ákvörðun um stjórn heilsugæslustöðva þannig, að heilbr.- og trmrn. eigi fulltrúa í stjórninni. Sérstaklega tel ég þetta eðlilegt ef breytt verður ákvæðum laga um skyldu ríkisins til þess að taka þátt í viðhaldskostnaði fasteigna stöðvanna og endurnýjunarkostnaði tækjabúnaðar.