29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

323. mál, sjósamgöngur við Vestfirði

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er eru samgöngur milli landshluta mjög misgóðar. Ég held ég fullyrði ekki of mikið þó ég segi að Vestfirðir séu hvað verst settir í þessum efnum, einkum og sér í lagi hvað varðar vöruflutninga. Mikinn hluta ársins eru vöruflutningar til Vestfjarða landleiðis útilokaðir og sömuleiðis vöruflutningar landleiðis milli fjarða. Þetta á að sjálfsögðu fyrst og fremst við um vetrarmánuðina, en þá þurfa Vestfirðingar fyrst og fremst að treysta á Skipaútgerð ríkisins til vöruflutninga.

Skipasamgöngur Skipaútgerðarinnar hafa oft verið mjög strjálar og erfitt um vik með vöruflutninga til fólksins á Vestfjörðum. Eru mörg dæmi þess, m.a. um stærstu kaupstaðina á Vestfjörðum, að jafnvel jólavarningur, sem pantaður hefur verið í verslanir fyrir jól og átti að koma fyrir jól, hefur ekki borist fyrr en talsvert var liðið af nýju ári. Að sjálfsögðu gefur það auga leið, hversu erfitt er fyrir fólk að þurfa að una slíkum samgönguháttum, því að enda þótt nauðsynlegt sé að flutningar fólks til og frá stöðum úti á landi séu viðunandi, þá er ekki síður nauðsynlegt að vöruflutningar séu með skaplegum hætti.

Á síðasta Alþ. flutti ég till. til þál. sem í senn var nýtt mál og gamalt mál endurflutt. Á mörgum þingum hafa ýmsir þm. Vestfirðinga hreyft þeirri hugmynd, að Skipaútgerð ríkisins geri út sérstakt skip til siglinga á Vestfirði, og einnig hefur þeirri hugmynd verið hreyft að Skipaútgerð ríkisins geri með svipuðum hætti út sérstakt Austfjarðaskip. Þáltill. sú, sem ég flutti á síðasta þingi, gerði ráð fyrir því, að þetta mál yrði endurvakið, það er að segja að athugaður yrði möguleikinn á því, að Skipaútgerð ríkisins ræki sérstakt Vestfjarðaskip til vöruflutninga milli Reykjavíkursvæðisins annars vegar og Vestfjarðahafna hins vegar. Nýmæli, sem í till. fólst, var að jafnframt þeirri athugun yrði gerð könnun á samstarfi milli Skipaútgerðarinnar annars vegar og landflutningafyrirtækja á Vestfjörðum hins vegar, þannig að Skipaútgerðin annaðist flutninga á vörum frá Reykjavikursvæðinu til Vestfjarða, en landflutningafyrirtæki Vestfirðinga tækju við vörunni í uppskipunarhöfn og sæju um að koma henni áleiðis til neytenda. Með þessu samstarfi hefði unnist tvennt: Í fyrsta lagi hefði verið hægt að tryggja öruggar og greiðar vöruflutningasamgöngur. Í annan stað hefði það unnist við þessa skipun mála, að hægt hefði verið að nýta fjármagn mun betur en nú er gert. Komist hefði verið hjá því, að landsflutningafyrirtækin þyrftu að leggja í mjög fjárfreka og dýra flutninga, eins og flutningar á landi svo langa og erfiða leið sem hér um ræðir hljóta að verða, og jafnframt komið í veg fyrir að Skipaútgerð ríkisins missti mjög verulega spón úr aski sínum hvað varðar vöruflutninga á sumrin.

Sú nýja hugmynd, sem fólst í þáltill. þeirri sem ég flutti í fyrra, var á þá leið, að reynt yrði að taka upp samstarf um þessi flutningamál milli Skipaútgerðar ríkisins annars vegar og landflutningafyrirtækjanna á Vestfjörðum hins vegar. Nú er mér kunnugt um að nýr forstjóri Skipaútgerðar ríkisins hefur mikinn áhuga á því að sinna vel málefnum Skipaútgerðarinnar, einkum hvað varðar flutninga á vörum. Ég er einnig sannfærður um að hæstv. samgrh, hefur áhuga á því að bæta vöruflutninga Skipaútgerðar ríkisins og sjósamgöngur yfirleitt. Því hef ég leyft mér að flytja til hans svo hljóðandi fyrirspurn á þskj. 53.

„Hvaða áætlanir eða hugmyndir eru uppi hjá forráðamönnum Skipaútgerðar ríkisins um að bæta sjósamgöngur við Vestfirði?“