29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

323. mál, sjósamgöngur við Vestfirði

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Síst ætla ég að kvarta yfir því, þó að hæstv. samgrh. sinni málefnum síns kjördæmis, síst þegar árangur er sá sem orðið hefur, þegar í þremur prófkjörum þriggja stjórnmálaflokka harla lítið eftir fyrir aðra. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, Það er að sjálfsögðu meginatriðið að tryggja öruggar sjósamgöngur til þeirra staða sem þurfa að treysta mjög á slíkar samgöngur til vöruflutninga. Meginatriðið er að það sé gert, en ekki endilega hvernig það er gert. Ef það næst með endurskoðun á leiðakerfi, þá er vel. Ef það næst ekki með öðru móti en með kaupum eða leigu á skipi, þá auðvitað verður til þess að taka.

Ég vona að þessi endurskoðun, sem hæstv. ráðh. skýrði frá, muni skila talsverðum árangri sem a.m.k. verði hægt að una við til einhverrar framtíðar, En ég vil leggja áherslu á að það er bráðnauðsynlegt að tryggja reglulega vöruflutninga til þýðingarmestu hafna á Vestfjörðum ekki sjaldnar en tvisvar í viku. Ég legg enn fremur ríka áherslu á, að gerðir verði samningar við flóabáta og landflutningafyrirtæki á svæðinu, milli Skipaútgerðarinnar annars vegar og slíkra fyrirtækja hins vegar, til þess að tryggja í senn góða þjónustu, skynsamlega nýtingu á fjármunum og eðlilega og æskilega verkaskiptingu, því að ég tel að sú verkaskipting sé ekki eðlileg sem gerir það að verkum, að á sumrin fara skip Skipaútgerðarinnar hálftóm til þeirra hafna sem síðan þurfa að treysta á eðlilegar sjósamgöngur að vetrarlagi þegar landflutningar eru útilokaðar.

Ég tel sem sé að til þess að árangur náist verði að leysa þessi mál í samvinnu milli Skipaútgerðarinnar annars vegar og heimamanna hins vegar, flóabáta og landflutningafyrirtækja. Og ég ætla að leyfa mér að vona það, herra forseti, að bæði hinn nýráðni framkvæmdastjóri Skipaútgerðarinnar og hæstv. ráðh. vilji taka höndum saman um að stuðla að því að slík lausn fáist fram.