29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

323. mál, sjósamgöngur við Vestfirði

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Um leið og ég þakka hæstv. samgrh. upplýsingar um bætta þjónustu Skipaútgerðar ríkisins, sem er ákaflega mikilvægt, og mér heyrðist á þeim upplýsingum að það væri um töluverðar endurbætur á þjónustunni að ræða, verð ég að taka undir það sem kom fram hjá hv. 9. landsk. þm. Það urðu mér nokkur vonbrigði, að hugmyndir Skipaútgerðarinnar eða forstjóra þeirrar stofnunar um bættan skipakost eru ekki lengra komnar en fram kom hjá hæstv. ráðh. Ég hef haft tækifæri til þess að kynnast þessum hugmyndum lítillega og mér sýnast þær ákaflega athyglisverðar. Þar er um það að ræða að selja þau tvö skip, sem Skipaútgerðin hefur nú, og kaupa þrjú önnur töluvert minni og langtum hentugri að ýmsu leyti, T.d. krefjast þessi minni skip það miklu minni áhafna, að ég hygg að um allt að 130 millj. kr. sparnað sé að ræða á ári af þeirri ástæðu einni, auk þess sem þessi skip henta betur bæði til útskipunar og uppskipunar.

Mér sýnist af þeim upplýsingum, sem ég hef séð, að með þessu móti sé unnt að koma rekstri Skipaútgerðar ríkisins á betri grundvöll en verið hefur upp á síðkastið. Því virðist mér að hér sé um svo athyglisverðar hugmyndir að ræða, að leggja verði á það mjög ríka áherslu að hrinda þeim í framkvæmd, að sjálfsögðu að undangenginni ítarlegri athugun. Ég vil treysta því, að sú athugun sé þegar í gangi og henni verði hraðað eins og frekast er unnt, þrátt fyrir ummæli hæstv. ráðh, þar að lútandi.