29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

323. mál, sjósamgöngur við Vestfirði

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þegar málefni Skipaútgerðar ríkisins ber hér á góma, þá er eðlilegt að við, sem byggjum landsbyggðina, Leggjum þar orð í belg. Það er mála sannast, að áhugi Austfirðinga á bættum hag Skipaútgerðarinnar og bættri þjónustu hennar um leið er ekki minni en þeirra Vestfirðinga. Aðalmál á fundi okkar nú í haust hjá sambandi sveitarfélaga á Austurlandi var einmitt um Skipaútgerð ríkisins. Þar lýstu fulltrúar einróma yfir stuðningi við þau áform sem uppi eru hjá hinum nýja forstjóra Skipaútgerðarinnar um nýskipan allra þeirra mála sem hann kynnti á fundinum.

Mikilvægi þessarar þjónustu fyrir Austfirðinga er auðvitað ekki minna en fyrir þá Vestfirðinga, og því er von að við fögnum þeim áætlunum, sem uppi eru og trúa verður að látið verði á reyna, hvort eru raunhæfar og eins trúverðugar og þær virðast okkur leikmönnum, og síðan framkvæmdar eftir því sem fremstu tök eru á. Ég vil að vísu leggja áherslu á það, að lengi hefur verið stefna okkar Austfirðinga að við ættum í auknum mæli að fá flutningana utanlands frá beint til okkar, en ekki endilega að allt ætti að ganga í gegnum Reykjavík. Sú skoðun er vitanlega uppi enn hjá okkur Austfirðingum, að sú eigi að vera framtíðarskipan okkar flutningamála í miklu ríkari mæli. En hitt er jafnvíst, að Austfirðingar hafa sýnt það, síðast með samþykktum sínum í haust, að þeir vilja gera kost Skipaútgerðar ríkisins sem bestan, vilja eflingu hennar og hafa þannig lagt mjög mikla áherslu á að hún blómgist og þjónusta hennar batni, í stað þeirra úrtöluradda sem alltaf hafa heyrst hér á Alþ. öðru hvoru um að þessa mikilvægu þjónustu við landsbyggðina ætti hreinlega að leggja niður.