29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

323. mál, sjósamgöngur við Vestfirði

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er rætt um og spurt um sjósamgöngur við Vestfirði, og vissulega er mikilvægt að þeim sé haldið uppi. Það er aðallega rætt um nýja skipan á vegum Skipaútgerðar ríkisins um að bæta þessar sjósamgöngur. Ég bendi á að undanfarin ár hefur flóabáturinn Baldur haldið uppi ferðum frá Reykjavík til Breiðafjarðar og yfir Breiðafjörð til Barðastrandar og Vestfjarða. Það hefur oft komið fyrir, að hann hefur hlaupið í skarðið, þegar á hefur þurft að halda, og farið til Patreksfjarðar og viðar um Vestfirði. Að vetrarlagi eru áætlunarferðir Baldurs frá Stykkishólmi yfir Breiðafjörð um Flatey til Brjánslækjar og í Breiðafjarðareyjar aðeins einu sinni í viku, en fyrir nokkrum árum var svo ákveðið af samgrn., að farnar yrðu tvær áætlunarferðir á viku. Það láðist aðeins að sjá fyrir auknum tekjustofnum í þessu efni, því að vissulega þarf nokkurt fé til að standa straum af slíkum ferðum.

Ég bendi í sambandi við þessar umr. á að flóabáturinn Baldur er reiðubúinn til frekari þjónustu við Vestfirðinga þegar tími er til og tækifæri leyfa.