29.11.1977
Sameinað þing: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

60. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Páll Pétursson:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. 1. flm., þá er þetta endurflutt till. og í fyrra urðu um hana talsverðar umr. og sumir þm. tóku henni illa, þ. á m. ég. Ég verð að upplýsa hv. 5. þm. Reykn. um það, að ég er af þessum heimi, ég er ekki af öðrum heimi. Ég er af þessum heimi, en ég á heima kannske ofurlitið norðar í þessum heimi en hv. 5. þm. Reykn„ sem hefur búið nú um sinn í Reykjaneskjördæmi. Hann er fæddur norður á Siglufirði, ef ég man rétt, og á að þekkja nokkuð til staðhátta þar og þess vegna á honum í sjálfu sér ekki að vera það sjónarmið, sem ég held fram, neitt framandi eða hafa ástæðu til þess að furða sig mjög á því.

Ég er út af fyrir sig ekki á móti olíumöl. Og það er gaman að geta ekið hratt og það er gaman að hristast ekki mikið á akstrinum, en þó er það mest nm vert og enn þá meira um vert að geta komist leiðar sinnar.

Ég hef ásamt ýmsum öðrum þm. hér á hv. Alþ. lagt fram till. til þál. um uppbyggingu vega í snjóahéruðum landsins. Við viljum leggja megináherslu á þá framkvæmd. Þessi till. fjallar hins vegar um að leggja aðaláherslu á slitlag, bundið slitlag á þjóðvegi. Bæði þessi verkefni eru nauðsynleg, en við lítum bara svo á að hitt sé enn þá nauðsynlegra, þó að sjálfsagt sé að vinna nokkuð að lagningu olíumalar. Ef sú stefnumörkun, sem felst í þessari till., yrði ofan á, óttumst við að í skuggann hyrfi þessi uppbygging í snjóahéruðum, þ.e.a.s. að hækka upp úr snjónum og aurnum þannig að fólk eigi nokkra von til þess að komast leiðar sinnar mikinn hluta ársins. Þarna er verið að marka stefnu og við leggjum til, að áhersla verði fyrst og fremst lögð á upphækkunina. Það mætti segja sem svo, að hægt væri að vinna af fullum krafti að hvoru tveggja. En sjóðurinn, sem við höfum til að ganga í, gildnar ekki þó að við ætlum að gera mikið. Fé það, sem bifreiðaeigendur leggja fram, þ.e.a.s. tekjur af umferðinni eins og þeir kalla það hjá FÍB, er að vísu talsvert mikið, en hv. þm. Ólafur G. Einarsson, sem er formaður fjh: og viðskn. Nd. veit alveg fyrir víst að ríkissjóði veitir ekkert af tekjum, og flokksbróðir og ráðgjafi fjmrh. veit að erlendar skuldir eru komnar mjög hátt, greiðslubyrði af þeim er orðin mjög þung. Langtímaskuldir voru, þegar við settumst hér á rökstóla árið 1974, eitthvað í kringum 330 þús, á hvert mannsbarn. Ætti við komumst í það að tvöfalda þær á þessu kjörtímabili? Þær eru a.m.k. komnar eitthvað yfir 500 þús. nú þegar.

En ég vil láta koma fram, að ég held að það sé ofrausn að leggja bundið slitlag á allan hringveginn, m.a. með tilliti til slysahættu. Þar sem ísingarhætta er mest á bundið slitlag ekki rétt á sér, og staðhættir geta verið slíkir að varhugavert sé að leggja bundið slitlag, nema þá með öryggisgrindum framan við veginn, eins og reynslan sýnir á olíumalarkafla á Vestfjörðum, milli Bolungarvíkur og Hnífsdals, þar sem hafa orðið mörg hörmuleg slys. En ef þessi kantur er settur framan við þannig að bílarnir renni ekki fram af í hálkunni, þá safnar kanturinn náttúrulega snjó á veginn þannig að þarna er við talsverðan vanda að etja.

Það er í sjálfu sér nauðsynlegt að gæta hagsýni, og það er alveg rétt hjá hv. flm., að hörmulegt er að sjá mölina fjúka út í loftið á sumrin, og kostnaður við viðhald malarvega er geysimikill. Kostnaður við vegi með bundnu slitlagi er líka mikill. Stundum er þetta kallað varanlegt slitlag, en það er alls ekki réttnefni og er heldur ekki notað hér í þessari till. En þetta er náttúrlega í sjálfu sér alls ekki varanlegt slitlag og kostnaður við viðhald þess er geysimikill.

Ég hef hér í höndum þál. um vegáætlun fyrir árin 1977–1980. Vonandi fáum við tækifæri til þess að endurskoða hana, en þetta er sem sagt það sem samþ. var í vor. Hér vil ég lesa, með leyfi forseta, nokkrar tölur um viðhald þjóðvega.

Viðhald malarvega — og er þá átt við sumarviðhald – átti að vera á þessu ári 652 millj. Eins og fram kom í ræðu flm., er lengd vegakerfisins eitthvað um 8500 km. Þar af eru einungis 138 km með bundnu slitlagi, ef ég hef tekið rétt eftir, en viðhaldið á þessum 188 km átti nú að vera hvorki meira né minna en 100 millj. á móti 652 á allt hitt.

7978 var fyrirhugað samkv. þessu plaggi að leggja í viðhald malarvega 884 millj., en 182 millj. í vegi með bundnu slitlagi. Ég vil vísa til till. til þál. um þessa vegáætlun, en þar segir á bls. 23, með leyfi forseta:

„Kostnaður við viðhald á olíumalarvegum við áðurnefndan umferðarflokk er um 76% af kostnaði við samsvarandi malarveg.“

Þetta er kannske kjarni málsins, sem gleymist í hita umr., að kostnaðurinn við viðhald á bundnu slitlagi er 76% af því sem hann væri við malarvegi. Ef miðað er við fjárveitingar til viðhalds vega, samsvarandi þörf og stefnt er að með þessari till., og áðurnefndir 190 km væru olíumalarbornir, þá mundi það þýða um 36 millj. kr sparnað á ári við sumarviðhald þessara veg: Það er að vísu þarna nokkur sparnaður, en hann er sem sagt ekki meiri en þetta. Hins vegar er það alveg rétt hjá hv. 1. flm. till., að slit á bifreiðum verður allmiklu minna, ef þeim er ekið á bundnu slitlagi. Það gefur náttúrlega auga leið að bíll á Reykjanesinu á að geta enst miklu lengur en bíll norður á Siglufirði eða norður í Húnavatnssýslu, sem maður þarf að slíta út í snjó og hrista sundur á malarvegunum, þannig að þar af leiðir að við þurfum að endurnýja okkar bíla að öðru jöfnu miklu oftar og leggjum verulegan skatt af mörkum á þann hátt til umferðarinnar.