29.11.1977
Sameinað þing: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

60. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um þessa till. Ég tel hana einhverja þá bestu sem fram hefur komið hér á Alþ., og ég vil vekja athygli á því, að seinasta setning í grg. þessarar till. er þannig:

„Það, sem vantar, er pólitískur vilji til þess að ráðist verði í framkvæmdir með þeim hætti sem hór er lagt til.“

Þetta vil ég undirstrika. Við verðum að þora að hafa pólitískan vilja og gera það, sem er rétt hér á landi, gera bókstaflega það sem er rétt, þótt stundum geti verið stefnubreyting frá því sem verið hefur.

Það eru talin upp þrjú meginatriði í grg. sem eru mikilvægust. Ég vil undirstrika þriðja atriðið: „Í þriðja lagi eru vegaframkvæmdir sem þessar. hinar arðbærustu.“ Það hefur nú svo mikið verið fjárfest hér á Íslandi með ýmsu móti að kominn er tími til þess að menn þori að taka pólitíska ákvörðun, þótt um stefnubreytingu sé að ræða, um arðgæfa og skynsamlega ráðstöfun fjármagns. Fyrri flm, og frsm. till. gerði góða og glögga grein fyrir fjármagni því er ríkissjóður fær af bifreiðaumferð og bifreiðaeign landsmanna og hversu ömurlega lítið rennur aftur í vegaframkvæmdir. Ég þarf ekki að endurtaka það. Ríkissjóður hirðir 2/3 — hirðir bókstaflega 2/3 — og mætti nú verða einhver stefnubreyting á. Og þó að það væru helmingaskipti, þá fáum við meira en nóg í þetta sem lagt er til í till. Hins vegar vil ég undirstrika það, að ég tel að við eigum að ganga allmiklu lengra í að leggja olíumöl en reiknað er hér með, allt að 200 km á ári. Við skulum hugleiða það, að mjög víða um landið eru vegir upphleyptir og góðir í héraði, — og sleppum öllum vangaveltum um heiðar eins og síðasti ræðumaður kom réttilega inn á. Við skulum ekkert vera að ergja okkur á því að tala um að leggja á fjallvegina bundið slitlag á þessu stigi. Það getur bara farið í skapið á nokkrum góðum dreifbýlismönnum. Nei, við skulum halda okkur við það að leggja slitlag á vegi í héraði, sem eru upphleyptir og þola að þegar sé lagt á þá bundið slitlag, og þá munum við nú þegar eiga möguleika, án þess að hafa sérstakan undirbúning á vegalagningu er næmi nokkrum hundruðum km á ári og gætum dreift framkvæmdum á öll kjördæmi — ég undirstrika það — og jafnvel fyrst og fremst utan þess kjördæmis er fyrri flm. er fulltrúi fyrir, — fyrst og fremst úti um landið. Ég get nefnt hér strax t.d. kafla sem ég ók í sumar og ræddi um við einn fjvn: mann, kaflann frá Ljósavatnsskarði út að Húsavík og svo aftur frá Húsavík upp í Mývatnssveit. Þessir vegarkaflar eru svo góðir og svo þéttir og öruggir, að það er ekkert annað en hefla og leggja síðan slitlagið á. Auðvitað kostar það peninga, en viðhaldið kostar milljónir og aftur milljónir, vegna þess að umferðin um þessa vegarkafla er orðin svo mikil að ekki nær nokkurri átt, vegirnir bera ekki umferðina. Við verðum að horfast í augu við þær staðreyndir, að vegirnir þola ekki þessa umferð.

Auðvitað eru í heimahögum 3. þm. Norðurl. v. góðir kaflar líka er geta tekið á móti olíumöl, út frá Blönduósi í báðar áttir og jafnvel viðar, og það er sjálfsagt að sé lagt slitlag svo að nemi tugum km. Þannig er þetta um allt land, E.t.v. koma verkfræðingar og segja að við þurfum að gera tilraunir áður á nokkrum stöðum á landinu til þess að vita nákvæmlega út í hvað við erum að fara. Það var rætt um það í ákveðnum bæjarfélögum á sínum tíma, er leggja átti olíumöl. að alveg væri vonlaust nema undirhyggja og undirbyggja. En svo bý ég nú reyndar við eina götu þar sem ekki fór fram nein undirbygging, en olíumöl var lögð á hana fyrir nokkrum árum, og hún hefur staðið sig með prýði. Sú forsenda féll því fyrir borð og saknar hennar enginn.

Ég er þess vegna mjög ánægður með þessa till. og mun styðja hana eindregið. Ég vil að fleiri þm. hugleiði hana vel og taki þá pólitísku ákvörðun, stefnumörkun, eins og till. gengur út frá, að þetta sé gert. Ég tel tíma til kominn. Hér er ekki um óskaplegar upphæðir að ræða. Flm. var að tala um 1.2 milljarða, 1200 millj, kr, eða jafnvel upp undir 2 milljarða í þessu skyni. Ég tel að við getum gert mun meira, sérstaklega vegna þess, eftir því sem hann upplýsir, að tekjur ríkissjóðs eru mjög miklar af bifreiðaeign landsmanna.

Það er auðvitað rétt, að ríkissjóður og flestir stofnfjársjóðir landsmanna eru févana. Það gerir sú óskaplega verðbólga sem eyðir öllu og brennir allt upp. En hinu verður ekki móti mælt að þessar framkvæmdir eru mjög arðbærar, og þá hljóta þær í eðli sínu að vera skynsamlegar, það leiðir af sjálfu sér. Og ég vænti þess að menn átti sig á því við rólega yfirvegun að við verðum að taka þessa pólitísku ákvörðun og gera þessa stefnumörkun, og ég undirstrika nauðsyn þess að öll kjördæmi landsins nái verulegum áfanga, ef þessi till. verður samþ., fái lagt bundið slitlag á sína vegi. Ef menn geta ekki komið sér saman um hvar á að leggja vegi, þá verður að hafa einhverja óhlutdræga nefnd, — ég á við ef þm, geta ekki komið sér saman um það, — er velur þessa vegarkafla. En ég get lýst því sem minni skoðun, að það er allt í lagi að leggja bundið slitlag t, d. á 2–3 km, þó að 500 m kafli sé á milli þess og næsta bundins slitlags og við geymum þessa 500 m um óákveðinn tíma. En víða háttar þannig til, að það eru gamlar brýr, þó að búið sé að byggja upp vegi að brú eða því næst. Víða eru þannig vegir, að þeir geta tekið þetta bundna slitlag strax, þó að ekki sé samfellt um allt vegakerfið.

Ég gæti haft hér miklu fleiri orð um vegagerð í landinu. Það er staðreynd, þrátt fyrir að oft hafi verið gerð átök til að bæta vegakerfið, að við erum mjög aftarlega í vegagerð. Við verðum að þora að taka þá pólitísku ákvörðun, sem þessi till. gengur út frá að gerð sé hér á hv. Alþ. Það skref væri verulegt heillaskref fyrir alla landsmenn.