29.11.1977
Sameinað þing: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

60. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég get ekki snúið til baka með það, að mér finnst að í þessari tillögugerð, annars vegar till. um áætlanagerð um uppbyggingu þjóðvega í snjóahéruðum landsins og hins vegar í till. um framkvæmdir við lagningu bundins slitlags á þjóðvegi, felist mismunandi áhersla á tvo ólíka framkvæmdaþætti. Það er, eins og hv. formaður fjh.- og viðskn. veit, ekki hægt að nota sömu krónuna tvisvar, — það er ekki hægt að nota hana tvisvar.

Hvað varðar það, sem kom fram í máli flm. um sérstaklega mikinn kostnað við yfirlögn sem hefði komið á þetta ár, þá er það kannske rétt. En kostnaður við yfirlögn heldur áfram, og þetta hlutfall raskaðist ekki á þeim tveim árum sem eftir voru á vegáætluninni og ég gat ekki um í máli mínu hér áðan. Mergurinn málsins er náttúrlega þessi, að kostnaður við viðhald á olíumalarvegum í áðurnefndum umferðarflokki er um 76% af kostnaði samsvarandi malarvegar. Ég geri ráð fyrir að þessi prósenttala sé ekki fundin af handahófi hjá vegagerðarmönnum. Hins vegar er ég ekki neinn fræðimaður um vegagerð eins og hv. 1. flm., sem er sérstakur fræðimaður a.m.k. um olíumöl, og get ekki fullyrt hvort þessi tala er nákvæmlega rétt eða hvort hún getur eitthvað breyst frá ári til árs eftir útkomu. o.s.frv.

Þessi till. á við hringveginn og helstu vegakafla út frá honum. Það er nú víðar fólk en beint við hringveginn, Þó að hringvegurinn sé mikilvægur, þá eru líka aðrir vegir mikilvægir. Það var alveg hárrétt hjá hv. þm. Jóni G. Sólnes, að óskin um bættar samgöngur er ofarlega á baugi í Norður-Þingeyjarsýslu og hún er ofarlega á baugi meira að segja inni í Svarfaðardal. Það er ekki ofmælt að vegamál og samgöngumál séu málaflokkur sem hugur dreifbýlisfólks dvelji við ekki síður en þéttbýlisfólks, nema fremur sé.

Hv. þm. Jón Árm. Héðinsson benti á arðsemiútreikninginn. En arðsemiútreikningurinn er sem betur fer ekki einhlítur. Það er mikilvægt líka að lífsaðstaða fólksins í landinu sé sem jöfnust. Einu sinni stóð hv. 1. landsk. þm. ásamt öðrum fjvn.-mönnum að ákvörðun um um lagningu olíumalar hjá Blönduósi. Þar var endurbyggður með mjög myndarlegum hætti og fyrir ákaflega mikla peninga vegarkafli vestan við Blönduós. Í fjvn. komu þeir sér saman. Samkv. því dreifbýlissjónarmiði, sem hv. þm. hafði hér uppi, og jöfnun milli kjördæma, eins og þeir nota nokkuð í fjvn. sem betur fer, var það till. þeirra að leggja olíumöl á þennan kafla. Seinna fór nú svo, að hætt var við að leggja þessa olíumöl, og ég held allflestir heimamenn og þm. urðu sammála um að það væri skynsamlegra að nota þessa peninga heldur til þess að endurbæta bágborna og vesæla vegakafla á hringveginum, þar sem hann liggur um héraðið.

Það er alveg rétt hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., Jóni G. Sólnes, að þetta er djörf ákvörðun að fara að leggja þetta bundna slitlag, og í sjálfu sér eru djarfar ákvarðanir ákaflega mannlegar. En djarfar ákvarðanir geta verið óskynsamlegar, og djarfar fjármálalegar ákvarðanir hafa nú komið þessu landi hér um bil á hausinn. Það, sem okkur vantar fyrst og fremst, eru ekki djarfar ákvarðanir, heldur hyggilegar ákvarðanir.