29.11.1977
Sameinað þing: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

55. mál, þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort heimila skuli framleiðslu og sölu áfengs öls

Flm. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti, 2. þskj. því, sem hér liggur fyrir til umr., hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram í sambandi við næstu alþingiskosningar þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort heimila skuli framleiðslu og sölu áfengs öls í landinu. Þátttaka í væntanlegri atkvgr, skal heimil öllum sem náð hafa 18 ára aldri þegar atkvgr. fer fram.“

Þessari till. fylgir svo hljóðandi grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Á undanförnum árum hefur allmikið verið rætt um það, hvort heimila skuli framleiðslu og sölu áfengs öls í landinu. Mjög skiptar skoðanir eru manna á meðal um þetta mál, og sýnist sitt hverjum eins og gengur. Á síðasta Alþ. var til meðferðar frv. sem gerði ráð fyrir nokkrum breytingum á núgildandi áfengislöggjöf. Flm. þessarar þáltill. flutti þá till. í sambandi við umrætt frv., sem gerði ráð fyrir því að núgildandi áfengislögum skyldi breytt á þann veg, að framleiðsla og sala áfengs öls yrði heimiluð. Örlög umrædds frv. urðu hins vegar þau, að það komst aldrei úr n. og dagaði uppi í þinginu, og reyndi því aldrei á hvort þingvilji væri fyrir því að leyfa framleiðslu og sölu áfengs öls eða ekki.

Næsta ár fara fram almennar þingkosningar. Flm. er þeirrar skoðunar, að í máli því, sem hér er til meðferðar, sé ekki óeðlilegt að leitað sé eftir því að fá vitneskju um hver sé hinn raunverulegi þjóðarvilji í jafnumdeildu máli og hér er fjallað um. Auðveld leið og kannske sú marktækasta er að mati flm. að láta fara fram þjóðaratkvgr. um málið. Og þar sem almennar þingkosningar eru á næsta leitt telur flm. sjálfsagt að nota það tækifæri sem þannig býðst. Flm. telur sjálfsagt að miða þátttöku í væntanlegri atkvgr. við 18 ára aldur og vill með því leggja áherslu á þá skoðun sína, að ákvörðun um framleiðslu og sölu á áfengu öll er ekki síður mál ungu kynslóðarinnar en hinnar eldri, og því ekki nema eðlilegt að unga fólkið fái að láta í ljós álit sitt á málinu.“

Herra forseti. Ég kýs að hafa þann hátt á að leggja þetta mál algerlega hlutlægt fyrir hið háa Alþ. til meðferðar. Því tel ég ekki rétt á þessu stigi málsins að hafa ítarlega framsögu fram yfir það sem felst í grg. Aðeins vil ég til skýringar taka fram, að það ákvæði till, að miða þátttöku í væntanlegri atkvgr, við 18 ára aldur stafar af því, að það er sá aldur sem miðað er við þegar um er að ræða að leyfa mönnum aðgang að þeim stöðum sem rétt hafa til sölu áfengra drykkja. Þess vegna er ekki nema sjálfsagt, að dómi flm., að leyfa þessum aðilum að segja álit sitt á þessu máli, enda, eins og tekið er fram í grg., er ákvörðunin, sem felst í efni till., ekkert síður mál ungu kynslóðarinnar en hinnar eldri.

Flm. er ljóst að nokkur aukakostnaður mun fylgja því að útbúa kjörskrár vegna þessa aldursákvæðis. En með hliðsjón af þeirri tölvutækni, sem við höfum yfir að ráða, mun kostnaður við slíka breytingu kjörskrár ekki verða umtalsverður.

Herra forseti. Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að eftir þá umræðu, sem um þetta mál kann nú að verða hér í hv. Sþ., verði umr. frestað og málinu vísað til meðferðar hv. allshn.