29.11.1977
Sameinað þing: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

55. mál, þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort heimila skuli framleiðslu og sölu áfengs öls

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég skal reyna að hafa um þetta fá orð. Ég er því sammála að þjóðaratkvgr. eigi að fara fram um mikilsverðustu mál sem um er fjallað í okkar þjóðfélagi. Það getur verið mjög réttmætt og eðlilegt að um þau fari fram þjóðaratkvæðagr. Mál sem, t.d. snerta sjálfsforræði þessarar þjóðar á einhvern hátt, ættu vitanlega að vera þar í forgangsröð, og það hefur því miður oft verið ástæða til þess að slík atkvgr. færi fram, þar sem fólkið fengi að velja eða hafna leiðum.

Þetta mál, sem hér er reifað, er vitanlega ekki þess eðlis, þótt það snerti sjálfsforræði manna að nokkru leyti. Þessi þáttur einn sér, þessi mynd sem hér er dregin, — mér þætti miður og illa farið ef mál þessa eðlis yrði fyrsta málið sem við teldum ástæðu til í okkar unga lýðveldi að láta fara fram þjóðaratkvgr. um, eins og það er í pottinn búið. Ég teldi hins vegar annað að láta reyna á það meðal þjóðarinnar og láta fara fram þjóðaratkvgr. um það, hvaða úrbætur fólk helst vildi í okkar áfengismálum.

Það virðast nær allir, sem um þessi mál tala, sammála um að ástandið sé hrikalegt og geigvænlegt. Skoðanir eru vitanlega skiptar um orsakirnar. Skoðanir eru líka skiptar um leiðir sem á að fara til að bæta úr því ástandi sem allir viðurkenna að er geigvænlegt. Um einstök atriði eru menn að vísu sammála. Ég held að flestir séu sammála t.d. um að hlutlaus og fordómalata fræðsla og upplýsingastarfsemi af ýmsu tagi gæti á einhvern hátt komið í veg fyrir ofneyslu áfengra drykkja. Og menn eru sammála um að ástandið sé slíkt, að við það sé ekki hægt að una. Ég held að einmitt þessi staðreynd hafi stuðlað að þeim fjöldasamtökum, sem nýlega hefur verið stofnað til hér á landi. Og ég hef ekki heyrt frá þeim samtökum, þar sem ríkir þó hið mesta frjálslyndi, sýnist mér, gagnvart áfenginu í heild, — ég hef ekki séð það þar, að meginkrafa þeirra fjöldasamtaka væri sú, að við þyrftum við það ástand, sem nú þegar ríkir, að fá bjórinn til viðbótar við það áfengismagn sem menn hafa nú hér á landi.

Ég hef svo oft rætt um þetta mál í heild, að ég get litlu þar við bætt. Það er rétt að leiðir okkar hv. flm, fara engan veg saman. Ég viðurkenni að mín leið getur ekki verið allra leið. Mín leið er leið bindindis, mín eigin leið, og það er um leið vissa mín að með því sé skapað visst fordæmi. Og ég geri mér ljóst, að sú leið er mín og auðvitað margra annarra, en hún getur ekki verið allra leið í þessum efnum.

Leið hv. flm. þessarar till., að láta fara fram þjóðaratkv., er fyrst og fremst leið sem veitir aukið frelsi í þessum efnum. Það er auðvitað fallegt nafn, frelsi, og það er gott að nota það í þessu efni. Hve mikið frelsið er í raun réttri skal ég ósagt láta. Ég er ekki fær um að dæma, hvor leiðin er réttari, mín leið eða leið hv. flm. Ég er þó fremur á því, að leiðin til þess að bæta úr þessu ástandi sé ekki endilega einhver ein leið. Ég held að sameiginlegt átak leitt af sterku almenningsáliti gæti kannske einhverju um þokað á betri veg fyrir okkur. Ég veit að það er ekki auðvelt, og þess vegna fylgist ég af miklum áhuga með þeim samtökum, sem mjög nýlega hafa verið mynduð um þessi mál, til þess að sjá hvers þau eru megnug, hvað þau geta gert. Ég efa ekki að þau eigi við mikil vandamál að stríða, en þó að ég sé í mörgu ósammála þeim markmiðum, sem þau stefna að, og sérstaklega þeirri skilgreiningu, sem þau eru með í sínum samtökum, þá hlýt ég að styðja þau alfarið í þeirri viðleitni, sem kemur þó fram mjög áberandi í stefnu þeirra.

Ég held að við ættum nú frekar í þessum sölum að reyna að sameina kraftana til þess að leita þess besta sem við gætum gert í áfengismálunum. Ég hef að vísu mína einkaskoðun á því, ákveðna og rökstudda, en vitanlega er ég tilbúinn að hliðra til, ef ég sé að skynsamlega er á málum haldið af hálfu þeirra, sem aðrar leiðir vilja reyna. En hér ber ekki á því, því miður, að um traustvekjandi upphaflega till, hafi verið að ræða í mínum augum, því að till. um þjóðaratkv. nú er upphaflega till. um bjórinn beint. Nú er hún aðeins klædd í viðkunnanlegri yfirhöfn, og lýðræðis- og frelsishjalið hlýtur að koma í kjölfarið. Ég hef svo sem heyrt þetta lýðræðistal og frelsistal hljóma af vörum ótrúlegustu manna, meira að segja kannske þeirra, sem hafa verið hvað fastast fjötraðir í þessum efnum, þeirra sem eru hreinlega ánauðugir í áfengismálum. Þeir tala oft mikið við mig um frelsið, og ég hef viðurkennt að einnig þeir hafa frelsi til þess að eyðileggja líf sitt, ef þeim er það svo mjög umhugað sem mér sýnist oft að sé. En mér finnst þetta hryggilegra mál og meira þjóðarböl en svo, að því hæfi gamanleikur af því tagi sem hér er fluttur ár eftir ár, að því er virðist í fullri alvöru, þó mér hafi alltaf þótt nokkurs hálfkærings gæta hjá hv. flm. og hef alltaf í hjarta mér verið að vona það og haft um það rökstuddan grun, að alvara hans í þessu eina atriði væri ekki eins ein-strengingsleg og hann hefur viljað vera láta.

Ég hef hér í þingsölum boðið hv. fim. að leita með honum raunhæfra leiða. Ég skal bjóða það enn. Ég hef meira að segja gengið svo langt, að ég hef boðið að kannske ættum við að skipta á þessum bjór, sem hann álítur að sé allra meina bót í þessum efnum, og sterkari drykkjum til þess að prófa nú í alvöru hina miklu blessun þessa drykkjar sem hann er hér að fara fram á. Ég veit að hann flokkar það vitanlega undir frelsisskerðingu, sem hann getur ekki tekið þátt í að leiða yfir þjóðina. En ég vona samt sem áður að enn getum við ásamt öðrum sameinast um kjarna málsins, þ.e.a.s. einhverja úrbótaleið í staðinn fyrir þetta.

Ótti minn gagnvart þessu máli hefur áður komið fram. Ég skal ekki rökstyðja hann miklu frekar. Reynsla annarra þjóða er ólygnust, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á. Ótti minn er því bundinn, án þess að ég geti frekar en hv. flm. leitt að því óyggjandi rök, en ótti minn er því bundinn, að bjórinn verði óhjákvæmileg viðbót við aðra drykkju, þ.e.a.s. ef sú ráðstöfun ein er gerð sem hv. flm. hefur lagt til áður í frv., — ef þessu er aðeins bætt ofan á, en ekkert annað gert í staðinn, eins og hann hefur blátt áfram lagt til. Sömuleiðis álít ég að neysla þessara drykkja færist neðar í aldursflokkana. Fyrir því er margföld reynsla. Hún verður almennari þar og annars staðar samkv. margfenginni reynslu annarra þjóða. Og hvað þá um okkur Íslendinga, því sögur eru um, eflaust sannar, að við förum verst með áfenga drykki allra þjóða?

Ég minni á það hve bjórinn í vinnunni hefur alvarleg áhrif, bæði hvað snertir afköst manna þar og ekki síður hvað snertir öryggi manna. Þetta er almennt viðurkennt, t.d. af atvinnurekendum í þeim löndum þar sem bjórinn er hvað almennastur. Og gróðasjónarmiðin eru auðsæ. Þau eru kannske aðalhvatinn í þessu máli, ekki hjá hv. flm., en hjá þeim sem sífellt eru um þetta að tala, því að bjórkrárnar eru auðvitað peningaþjófar til viðbótar við annað og ekki síst fyrir unglingana. Og bjórauðvaldið er ekki besta hlið þess auðmagns, sem fjötrar menn víða um heim. Það bjórauðvald t.d., sem nú sækir fast á í Afríku, er að nema þar land óðfluga til ófarnaðar íbúunum þar, en til áhrifa og aukins auðs fyrir bjórframleiðendur í Danmörku. Þetta hef ég beint úr frásögnum hlutlausra aðila og veit að þetta auðvald er síst hættuminna en aðrar tegundir auðvalds.

Ef ég tryði einhverju atriði, og ég hef reynt að gera það, ef ég tryði einhverju atriði í máli þeirra, sem mæla fastast með bjórnum, að ekki sé nú talað um meginrökin, þ.e.a.s. bætta stöðu í áfengismálum okkar, þá skyldi ég meira að segja vera tilbúinn að reyna þrátt fyrir andstyggðina, — ef ég tryði einhverju af þessu. En ég trúi bara engu af því. Ég hef fyrir mér rök og reynslu annarra að vísu í þessum efnum, en þau duga mér fullkomlega. Skynsemi mín, hversu mikil sem hún kann nú að vera, reynsla annarra þjóða, sem er þó alla vega ólygnust fyrir okkur, og blákalt raunsæið segja allt annað, og því er ég andvígur þessu máli í hvaða sauðargæru sem það verður flutt.