30.11.1977
Efri deild: 20. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

100. mál, leiklistarlög

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 116 að flytja frv. til l. um breyt. á leiklistarlögum þeim, sem sett voru á s.l. vori, svo hljóðandi, að liður IV í 2, gr, laganna orðist svo:

„Til leiklistarstarfsemi áhugafélaga“, þar sem áður stóð „Til almennrar leiklistarstarfsemi“, og síðan komi nýr liður, verði VI. liður, sem orðist svo: „Til annarrar leiklistarstarfsemi.“

Ég vil fyrst taka það fram, að þegar þessi lög voru sett taldi ég þau um margt mjög merka lagasetningu og henni var vel fagnað og þessi lagasetning snerti áhugafélögin í landinu fyrst og fremst.

Upphafleg till., sem leiddi til þessa frv., var flutt af mér og hv. þm. Karvel Pálmasyni árið 1972 og var þá samþ, um endurskoðun á lögum um fjárhagslega aðstoð við leiklistarstarfsemi. Sú endurskoðun var nauðsynleg vegna þess, að í þeim lögum voru mörg atriði úrelt með öllu og hins, sem verra var, að þar var um löngu úreltar hámarksupphæðir að ræða. Í þetta var sett ákveðin nefnd, sem vann sitt verk, og með frv. í fyrra fylgdi einmitt mjög góð grg. frá þessari nefnd um hennar verk og frv, sjálft eins og það kom frá nefndinni. Þar var um að ræða mjög ítarlega lagasetningu með traustri uppbyggingu, þar sem samtenging atvinnu- og áhugamennsku kom mjög skýrt í ljós, en einnig var fjallað um sérgreind svið hvors um sig.

Stuðningur hins opinbera á að vísu ekki hvað síst að vera í gegnum hið ríkisrekna leikhús, Þjóðleikhúsið, hvað snertir áhugafélögin. Og ákvæði frv. um Þjóðleikhús tengdust þessu mætavel. Þar er þegar að finna, að því er ég tel, lögbundinn stuðning í mörgum greinum ekki síst um gistileikara og leikstjóra, og sá stuðningur Þjóðleikhússins gæti svo komið í stað ríkisstyrks að hluta. Jafnvel að öllu leyti, eins og ríkisstyrkurinn hefur verið til þessara félaga á síðustu árum.

Ég bar fram fsp. á dögunum til hæstv. menntmrh. um það, hvaða þróun hefði orðið í þessum málum hjá Þjóðleikhúsinu. Það kom í ljós í svörum hans, að þróunin var jákvæð, en mjög hægfara, og sannleikurinn var sá, sem kom mjög ljóst fram af hans svörum, að fjárhagslegur ávinningur áhugafélaganna var í raun og veru enginn, því að leikfélögin greiddu full leikstjórnarlaun alls staðar nema í einu tilfelli, þó að leikararnir væru á fullu kaupi frá sinni stofnun. Nú skal það tekið fram að vitanlega er þarna um að ræða sök leikfélaganna sjálfra, en það sýnir að leikarar lita á þetta sem upplagða aukagetu og ég lái þeim það ekki. Yfirvinna og aukageta er keppikefli dagsins í dag og það er ekki meira þó að leikarar noti sér þau tækifæri, sem þeir hafa til þess, fremur en aðrir þjóðfélagshópar.

Ég vil benda á það sérstaklega, vegna þess að ég var mikill stuðningsmaður þessara leiklistarlaga í fyrra, hve leikfélögin víða um land eru afgerandi aðili í allri leiklistarsköpun og jafnvel leikritasköpun þar. Ég bendi á að Þjóðleikhúsið mun vera með um 11 frumsýningar á ári hverju, Leikfélag Reykjavíkur líklega með einar 7, Leikfélag Akureyrar mun vera með einar 6 eða líklega jafnmargar og Leikfélag Reykjavíkur, en áhugaleikfélögin með samtals 50 frumsýningar, 50 verkefni. Og ég man í svipinn eftir einum þremur frumsömdum verkum, sem hafa komið fram hjá áhugafélögunum, Gullskipi Hilmis Jóhannessonar, Sabínu Hafliða Magnússonar á Bíldudal og nú síðast Greninu eftir Kjartan Heiðberg í Neskaupstað. Ég verð að segja það, að þessi verk eru síst ómerkari en sum leikverkin sem við fáum frá útlöndum, hvað þá margt af þeim leikritum, sem kölluð eru svo, sem sjónvarpið er að sýna okkur. Ég sem sagt legg áherslu á það, þrátt fyrir þessa breytingu, sem ég er hér að leggja til að gerð verði, að leiklistarstarfsemi áhugafólks er mjög afgerandi og merkilegur þáttur í hinum dreifðu byggðum landsins.

Þessi starfsemi beinist að mörgu fleiru en uppfærslu leikverka og, eins og ég tók fram áðan, stundum samningu leikverka, svo sem dæmi eru um, er um að ræða námskeið í listrænni tjáningu margs konar, námskeið fyrir leiðbeinendur, sem auðveldar svo aftur félögum að ráðast í verkefni og létta þeim róðurinn fjárhagslega, námskeið ýmiss konar í tækni sem nýta þarf í þágu sýninganna og alltaf fer vaxandi. Starfið er því margþætt og áhuginn mikill, og framkvæmdastjóri Bandalags ísl. leikfélaga, Helga Hjörvar gegnir þarna erfiðu, en stórmerkilegu hlutverki að mínu viti með miklum sóma og hefur átt sinn þátt t.d. í vandaðra verkefnavali þessara leikfélaga yfirleitt og vandaðri sýningum sem af því hefur þá leitt, betri leikverkum í meðferð betur þjálfaðs áhugafólks.

Ég hef þennan inngang vegna þess að frv. nú kemur e.t.v. á óvart einhverjum þeim sem heyrðu mig fagna nýjum leiklistarlögum í fyrra — að svo fljótt skuli ég koma fram með breytingu sem þessa sem hér er um að ræða. Ég taldi það vitanlega mína sjálfsögðu og ljúfu skyldu sem forsvarsmanns áhugafélaga um árabil að tryggja leiklistarlögunum framgang. Breytingar þær, sem ég hefði reynt að flytja, hefðu hæglega getað hindrað framgang heildarlaganna. Ég vissi vel um niðurfellinguna frá fyrstu frumvarpsgerðinni, þ.e.a.s. frá frv. nefndarinnar. Ég vissi vel um gagnrýni ýmissa þeirra, sem við atvinnuleikhús fást, og minnti á það í upphafi umr. um þessi lög í fyrra. Ég taldi ákvæðið þó ekki eins afgerandi neitandi fyrir þá sem harðast gagnrýndu, því ég taldi og tei raunar enn, að möguleikar séu innan ramma núgildandi laga um fjárstuðning við atvinnuleikhús eða leikhópa, sbr, bæði IV. liðinn um almenna leiklistarstarfsemi og jafnvel það atriði sem snertir önnur verkefni leiklistarráðs.

Það hefur hins vegar komið mjög glöggt í ljós, að framkvæmdin er þröng, það er ekki af andstöðu alfarið við þetta, heldur af því einu, að ég tel, hve fjármagn er hér af skornum skammti. Og þegar það kemur svo í ljós að lagaleg viðspyrna er engin til að ná fram þessum fjárveitingum, þá hlýtur að vera nauðsynlegt að reyna að tryggja hana, þó að ég viðurkenni að í raun séu það fjárveitingarnar í heild sem öllu skipta. Það gildir auðvitað jafnt hvort sem þetta frv. verður að lögum eða ekki, verða það þær fjárveitingar, sem ákveðnar verða hverju sinni, sem sköpum skipta fyrir þá sem að þessu vinna núna utan laganna, að því er þeir telja, og eftir því sem túlkunin á þessum lögum er í rn.

Ég veit hins vegar að margir hafa skilning á þeirri þróun sem orðið hefur síðan þáltill. okkar Karvels var samþykkt, og sú þróun hefur alltaf verið heldur í áttina. Ég benti á það þegar ég flutti þá till., að áhugafélögin væru í svelti og að upphæðirnar í þáverandi lögum væru orðnar úreltar. því miður hefur hins vegar ekki orðið sú bót á undanförnum árum sem maður hefði getað vænst. Sannleikurinn er sá, að tilraunir hafa verið gerðar, sumar hafa heppnast, aðrar ekki, sumar tilraunir til atvinnuleikhúsa hafa farið út um þúfur, m.a. af fjárskorti, sumpart af öðrum ástæðum, sumpart vegna þess að lífsneistann vantaði í þessar tilraunir. Ég man t.d. eftir Grímu, Leiksmiðjunni, sem út af fyrir sig voru merkilegar tilraunir og ágætar meðan þær stóðu við, en lífsneistann vantaði eða þá fjármagnsgetuna, hvort sem nú var, þannig að þessir aðilar gáfust upp.

Það er rétt í sambandi við þetta að geta þess, að við síðustu fjárlagaafgreiðslu fékk að vísu einn atvinnuleikhópur, atvinnuleikhús, smáviðurkenningu — aðeins smáviðurkenningu. Þar á ég við Ferðaleikbús Kristínar Magnús, sem starfað hefur óslitið í 12 ár og m.a. annast kvöldvökur fyrir erlenda ferðamenn og aðra gesti á Hótel Loftleiðum undanfarin ár undir nafninu „Light nights“. Hér var ekki um upphæð að ræða sem risið gæti undir nafni sem viðurkenning í raun, en þó sýndi þetta að auðvitað getur og á fjvn. að meta aðstæður og styrkveitingar til atvinnuleikhópa og veita þeim viðurkenningu er að mati n. eiga þar að njóta. Lögfesting þessa ákvæðis er einmitt ágæt, vegna þess að þá á fjvn. eða rn. heina tilvísun í lögum til stuðnings sínum fjárveitingum til atvinnuleikhópa eða atvinnuleikhúsa.

1975, hygg ég að það hafi verið, breytist Leikfélag Akureyrar í atvinnuleikhús. Það fékk að vísu viðurkenningu í fjárlögum á undan lagasetningu. Það leikfélag var þá í Bandalagi ísl. leikfélaga, en fékk alltaf sérstaka sundurgreinda fjárveitingu. Nú er um að ræða að það er lögbundið, að þetta atvinnuleikhús, Leikfélag Akureyrar, eigi að hljóta ríkisstyrk. En það verður að telja óeðlilegt að miða við tvö atvinnuleikhús aðeins, eins og gert er í leiklistarlögunum nú. Þess vegna einmitt lagði hin stjórnskipaða nefnd til aðra atvinnuleikhúsaðila, en í þessari nefnd voru ekki bara fulltrúar áhugafélaga, heldur einnig fulltrúar leikstjóra og rn. sjálfs. Þess vegna einmitt er þetta frv: ákvæði nú flutt um að til viðbótar við þá liði, sem fyrir eru, komi liðurinn: „Til annarrar leiklistarstarfsemi.“

Ég vil að skýrt komi fram, að ekki er ég meðmæltur því, að allir sem vilji geti notið þessa ákvæðis. Tilraunir tilraunanna vegna geta verið ágætar að vissu marki, en hvergi nægilegur grunnur að styrkveitingu hins vegar. Í grg. nefni ég Alþýðuleikhúsið. Frv. er ekki aðeins komið þess vegna, en það felur hins vegar í sér réttlætingu slíks ákvæðis einnig. Hér er um að ræða leikhús sem hefur gert mikið fyrir landsbyggðina. Ég held að Þjóðleikhúsið sjálft standist þar illa samanburð, og greinilegt er að hér er um skapandi listrænt starf að ræða sem styrkja ber svo sem unnt er, en engin viðurkenning hefur fengist á. Hér er um leikhús nýrrar leikritunar að ræða, þó einhverjir kunni að styggjast við boðskapinn, og móttökur fólks hvarvetna sýna, að metið er að verðleikum framlag Alþýðuleikhússins til listrænnar tjáningar og til eflingar leikstarfsemi landsbyggðarinnar, enda leikkraftar þar óumdeilanlegir. Sannleikurinn er sá, að heimsóknir slíkra leikhópa út á landsbyggðina eru örvun og hvatning fyrir þá sem heima eiga þar að reyna að gera sitt til þess að skapa slíkar sýningar. Þetta leikhús er sem sagt alveg án opinbers stuðnings. En ég skal ekki endurtaka fyrri ræður mínar hér á þingi um þetta framtak og þýðingu þess.

Ég get nefnt Leikbrúðuland, sem að vísu er innan samtaka áhugafólks til þess að hljóta þó þar einhvern styrk, en er þó með starfsemi á öðrum grunni, — starfsemi sem á vaxandi hylli að fagna, og er listform sem leggja ber aukna rækt við. Þar er auðvitað um alveg það sama að ræða, þar er hvergi fullnægjandi styrkur vegna þess, hve starfsemin felur í sér mikla og háa kostnaðarliði, um sumt alveg umfram hið hefðbundna leikform. Þessi starfsemi hefur einnig þjónað landsbyggðinni vel og rækilega við góðar undirtektir.

Ég hef sem sagt sannfærst æ betur um rök leikhúsfólks fyrir nauðsyn lagaákvæðis af þessu tagi. Ég tek hins vegar fram: sem viðspyrnu, sem ómissandi atriði í leiklistarlögum, sem sjálfsagðan lið í eðlilegri þróun leiklistar í landinu. Hins vegar legg ég áherslu á að hér er um máttvana ákvæði að ræða ef fjárveitingar fylgja ekki í kjölfarið, viðunandi fjárveitingar. Ég bendi á að áhugaleikfélögunum er í leiklistarlögum nú tryggð þessi viðspyrna, en hún dugar þó hvergi nærri til viðunandi lausnar á fjárhagsvanda þeirra. Bæði atvinnuleikhúsin, sem lögin taka skýrt til. þau kvarta og Leikfélag Akureyrar virðist blátt áfram í andarslitrunum, ef ekkert verður að gert. Þetta er auðvitað eðlilegt, ef litið er á staðreyndir fjárlaga og fjárlagafrv. Fjárl. 1977 eða fjárl. þessa árs færa Leikfélagi Reykjavíkur 9 millj. Hins vegar mun stuðningur Reykjavíkurborgar vera ellefufaldur á við stuðning ríkisins og það bjargar því, en þó segja þeir að staðan sé ekki of góð. Ríkið leggur Leikfélagi Akureyrar til 5 millj. á móti því að Akureyrarbær mun leggja því til á þessu ári, að ég hygg, 8.5 millj. kr. Þar er staðan nú slík að þar mun verða að segja upp þeim leikurum, sem ráðnir hafa verið, og Leikfélag Akureyrar sem atvinnuleikhús er í mikilli hættu. Öll félög áhugamanna með sin rúmlega 50 verkefni fá 6.5 millj. eða um 130 þús. kr. á verkefni. Síðan, eins og ég tók fram áðan, hefur Ferðaleikhúsið fengið þessa litlu viðurkenningu, sem varla er hægt að nefna hér á nafn, en þá er líka allt upp talið sem fer í þessa starfsemi.

Varðandi áhugafélögin skal það tekið fram sérstaklega, að sveitarfélögin leggja þeim til misháar fjárhæðir, sum leggja fram meira en ríkið, önnur svipað og enn önnur allt að helmingi eða rétt um helming þess, sem ríkið leggur fram. En svo eru aftur dæmi þess, að sveitarfélög leggi fram mun meira eins og varðandi Leikfélag Reykjavíkur, atvinnuleikhúsið hér, þar sem Reykjavík mun leggja fram eitthvað ellefu- eða tólffalt á við ríkið.

Þegar ég var í fyrirsvari fyrir leikfélagi á sínum tíma voru leikstjóralaunin sú viðmiðun sem styrkurinn var veittur eftir, og þá nægði styrkurinn til að greiða þessi leikstjóralaun. Nú held ég að þessi styrkur nægi vart til að greiða 1/3 og í rauninni enn minna, ef allur kostnaður er talinn. Og til viðbótar því þurfa áhugaleikfélög sem aðrir einnig að fylgjast með, þurfa að vanda allt betur. Þar eru gerðar auknar kröfur, sem betur fer, en það táknar aukinn kostnað án þess að gefa meira í aðra hönd.

Söluskatturinn leikur þessa aðila mjög grátt og þeir greiða margir miklu hærri upphæð til ríkisins en styrk ríkisins nemur. Leiklistarþing, sem háð var um helgina 20. nóv., benti á margt sem aflaga fer í þessum málum. En athyglisverðust þótti mér sú staðreynd, sem þar var fram dregin og mun vera rétt, að framlag okkar til almennra menningarmála nemi aðeins um 1.6% af þjóðarútgjöldum okkar. Ég læt menn dæma um það, hvort prósentan sé of lág, of há eða kannske rétt. mín skoðun er hiklaust sú, að hún sé of lág, allt of lág, ekki síst hvað þetta snertir, þar sem um er að ræða einn merkasta þáttinn í okkar menningarstarfi með þátttöku fjölmargra. Í þessu fjárlagafrv. er upphæðin samtals 26 millj. í staðinn fyrir um 22 millj. á síðasta ári. Hér er innan við 20% aukning og heldur auðvitað hvergi í við hækkun fjárlaganna. Þó er viðurkennt að launaliðurinn er hér mjög stór og einmitt nú er hækkun fjárlaga ekki hvað síst rökstudd og réttlætt með því að hækkun þessa liðar sé gífurleg.

Leiklistarþingið vakti athygli á þessu og alveg sérstaklega óskaði það eftir breytingu á leiklistarlögunum í þá átt, sem hér er lagt til. Ég er ekki endilega að segja að þetta form, sem ég hef lagt til hér, sé hið eina rétta. Það kann vel að vera að það þurfi að taka fram enn skýrar, en þó hygg ég að þetta standist fyllilega ef fjárveitingar koma svo í kjölfarið, því að með þessu ákvæði, þótt að lögum verði, er engan veginn allt fengið. Það eru fjárveitingarnar sem þar skipta öllu.

Ég ætla ekki hér og nú að fara að tíunda alla þá gagnrýni sem leiklistarlögin hafa hlotið vegna vöntunar þessa ákvæðis. Ég get ekki tekið undir allt sem þar hefur verið sagt. En ég fellst á meginrökin: eðlilega þróun skapandi listar sem veittur er eðlilegur stuðningur hins opinbera, og sem meira er: stjórnskipaðri nefnd, sem um þetta fjallaði, þótti eðlilegt að hafa þetta bundið í lögum og hér er því komið á framfæri í frv.formi.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr, vísað til 2. umr. og hv. menntmn.