30.11.1977
Efri deild: 20. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

100. mál, leiklistarlög

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil segja út frá því frv., sem hér liggur fyrir, í fyrsta lagi, eins og fram kom í ræðu hv. 7. landsk. þm., að ekki liggur alveg ljóst fyrir, hvað við er átt með þessari brtt. Hann gerði ekki slíka grein fyrir því í sinni framsöguræðu að ég geti til fulls áttað mig á því, hvað hann á þar við. En efni ræðu hans var að öðru leyti þannig, að mér þykir sem þar megi teygja og toga ýmislegt eftir orðanna hljóðan í hans útlistunum. En það var nú ekki þess vegna sem ég stóð upp, heldur vegna hins, að það er rétt, sem hann segir, að leiklistarstarfsemi víðs vegar um land hefur mjög blómstrað nú hin síðustu ár og krefst að sjálfsögðu mikillar fórnar af þeim sem taka þátt í því starfi. Á hinn bóginn hefur hið opinbera verið vanbúið að leggja fram verulegt fjármagn til stuðnings þessari starfsemi, þótt það sé mismunandi í einstökum byggðarlögum hversu mjög sveitarfélögin taka undir það. En ég vil aðeins — og til þess stóð ég hér upp nú — vara við því, að við dreifum kröftunum of víða.

Eins og hv. þm. minntist á, hefur nú verið stofnað nýtt atvinnuleikhús á Akureyri, sem hefur reynst mikil lyftistöng fyrir menningarlíf bæjarins og er orðið svo snar þáttur í bæjarlífinu, að við getum ekki til þess hugsað og það má ekki fyrir koma að gefist verði upp við þessa tilraun. Ég verð að segja það eins og er, að ég er ekki trúaður á, að mjög aukið fjármagn fáist veitt til þessarar leikstarfsemi af opinberri hálfu á næstu missirum, og tei af þeim sökum að of ítarlegar lagagr., sem ekki er fylgt eftir með framlögum, geti vakið alls konar gyllivonir, falsvonir, um væntanlegan stuðning af opinberu fé sem ekki er fyrir hendi, því að eins og hv. þm. sagði réttilega er það fjármagnið sem hér skiptir máli, en ekki lagagr. sem ekki hafa neitt innihald. Það var einnig eftirtektarvert í hans málflutningi, að hann minntist ekki á fjárhæðir í þessu skyni og gerði heldur ekki grein fyrir þeirri þörf sem þarna er um að ræða.

Ég vil aðeins ítreka það, að ég er mikill áhugamaður um að leiklistarstarfsemi dafni víða um land. En ég álít, að það hafi ekki einungis jákvæðar hliðar að vekja margvíslegar gyllivonir, og vil áskilja mér rétt til þess að íhuga nánar, hvað felist í þessum nýja lið, eftir að gefist hefur tími til að athuga það í n. og nánari skýringar liggja fyrir um hvað þarna er átt við. En ég vil aðeins ítreka að fé til þessarar starfsemi, eins og margvíslegra annarra opinberra þarfa, er ekki eins mikið og við hefðum óskað, og gildir það raunar um flesta þætti fjárlagafrv.

Á hinn bóginn get ég ekki neitað því, að hinar almennu kröfur, sem koma frá ýmsum listamönnum um opinberan fjárstuðning, eru orðnar nokkuð ógnvekjandi upp á síðkastið. Það má raunar segja að varla standi svo upp talsmaður neins hóps listamanna, að ekki séu gerðar þar mjög freklegar kröfur. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að það sé aðalsmerki listarinnar, að safna opinberum framlögum og opinberum styrkjum. Ég álít, að við eigum að fara varlega í þeim efnum, en viðurkenni á hinn bóginn að starfsemi eins og þessi, leiklistarstarfsemi og einnig tónlistarstarfsemi, hefur nokkra sérstöðu og getur illa staðið án þess að hið opinbera hlaupi þar undir bagga.