30.11.1977
Neðri deild: 21. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

85. mál, skráning og mat fasteigna

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til að gildistöku nýs fasteignamats verði í ár frestað frá 1. des. til 31. des. Slík breyting er nauðsynleg, vegna þess að sýnt er að ekki tekst að ljúka undirbúningi að framreikningi matsverðsins og frummati nýrra eigna fyrir 1. des. Ein meginástæða þessarar tafar er að nokkrum sveitarfélögum hefur reynst erfitt að skila nauðsynlegum gögnum og upplýsingum til Fasteignamats ríkisins á tilsettum tíma. Einungis er lagt til að fresturinn gildi fyrir þetta eina ár, þar sem þess er vænst að byrjunarörðugleikar, sem tengdir eru árlegu fasteignamati, verði yfirstignir á næsta ári.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að óska eftir því, að þessi hv. þd. geti tekið þetta mál til endanlegrar afgreiðslu á dag, þar sem við erum á síðasta degi nóvembermánaðar, og vonast til að svo geti orðið.

Ég leyfi mér að leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.