30.11.1977
Neðri deild: 21. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

92. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er rætt um frv. til l. um breyt. á l. um fuglaveiðar og fuglafriðun að því er rjúpuna varðar. Frv. þetta virðist flutt af ást á rjúpunni. Er ekki nema gott eitt um það að segja. En þegar málið er nánar skoðað, þá virðist nokkurs tvískinnungs gæta í þessu. Það er að vísu lagt til að veiðitíminn hefjist síðar á hausti en verið hefur, en hann er jafnframt framlengdur fram á nýtt ár. Það er sagt hér í grg.: „Hér er lagt til að rjúpnaskyttum verði uppálagt að hafa hemil ú sér einum mánuði lengur en hingað til, rjúpnaveiðar hefjist ekki fyrr en 15. nóv., en standi svo til 22. jan. í staðinn fyrir 22. des., eins og kveðið er á í núgildandi lögum. Þannig mundi veiðitíminn færast dýpra inn í skammdegið og styttist sá tími sem skotljóst yrði dag hvern. Þetta yrði nokkur friðun. Ekki veitir af.“ — Þetta er mjög vafasamt. Ég veit að hv. flm., sem hér lauk máli sínu, veit mætavel hvenær skammdegið er dimmast á Íslandi. Ég get út af fyrir sig fallist á að stytta veiðitímann og auka friðunina, en ég held að þetta frv. horfi ekki í þá átt. Þetta er fyrst og fremst tilfærsla „ veiðitíma.

Það er alveg rétt, að það er engin goðgá að Alþ. tali um fugla, síður en svo. Og eins og ég sagði áðan, þá verður að ætla að frv. sé flutt af ást á rjúpunni. En þá skýtur nokkuð skökku við að benda á þá leið að létta ekki skothríðinni á þennan fugl fyrir Þorláksmessu, eins og nú er lögákveðið heldur halda henni áfram um jólin, milli jóla og nýárs, kveðja gamla árið með skotum á rjúpnastofninn og hefja það nýja á sama hátt. (Gripið fram í.) Jú, að vísu þá gerði frsm, nokkra bragarbót í lok ræðu sinnar þegar hann var að ræða um hv. menntmn. sem fær þetta frv. til meðferðar. En eins og frv. litur út þegar maður les það af blöðum, þá vaknar þessi hugsun. Ef það á að vera markmiðið með þessu frv. að auka friðunina, þá held ég að það þurfi ýmislegs annars að gæta. Það má segja það náttúrlega, að á haustin eru ungarnir ekki fullvaxnir, en aftur á móti eftir áramótin eru þeir orðnir matarmeiri, eftir meiru að slægjast. En ég bendi á og vil eins og hv, flm. benda hv. menntmn. á það, að það er ekki nóg að friða lengur á haustin, ef rjúpan er síðan skotin allt til jóla, um hátíðarnar og árásir á rjúpnastofninn eru hertar með hækkandi sól á nýju ári.