18.10.1977
Sameinað þing: 6. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

6. mál, starfshættir Alþingis

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hér var að ljúka máli sínu form. þess flokks sem á undanförnum árum hefur oftar efnt til umr. utan dagskrár í Sþ. og deildum en nokkur annar stjórnmálaflokkur á Íslandi fyrr eða síðar. (Gripið fram í.) Það er auðvelt að telja það. (Gripið fram í.) Það er auðvelt. Ég hef að vísu ekki talið það, mér gafst ekki tími til þess meðan þm. var að tala, en ég skal hafa það tilbúið næst þegar við eigum orðaskipti. Ég er það minnugur að mér skjátlast þar örugglega ekki, að þm. þessa flokks hafa oftar kvatt sér hljóðs utan dagskrár en þm, nokkurs annars þingflokks. Þetta staðhæfi ég að er rétt og skal við annað tækifæri færa fram tölur því til sönnunar. Ég hef ekki verið að finna að því á undanförnum árum, þótt þetta hafi átt sér stað, og mundi ekki gera það nú ef hv. þm. hefði ekki haldið jafndæmalausa ræðu og hann hélt hér rétt áðan. Hann finnur að því, að umr. skuli hafa farið fram utan dagskrár á einum fyrsta starfsdegi þingsins um eitt aðalmál íslenskra þjóðmála í dag, þ.e.a.s. hugsanlega endurskoðun á stjórnarskrá og kosningalögum, til þess að bæta úr augljósu misræmi sem kosningar leiða til skv. gildandi kosningareglum, þ.e.a.s. til þess að bæta úr þeim ójöfnuði, sem ríkir milli kjósenda í landinu, og því réttleysi, sem kjósendur eiga nú við að búa varðandi það hverjir hljóta kosningu á ákveðnum framboðslistum.

Hv. þm, heldur því fram að einhverjar óeðlilegar hvatir hafi legið til þess, að þingflokkur Alþfl. einum rómi, að loknum mörgum umræðufundum, ákvað að form. hans skyldi kveðja sér hljóðs við fyrsta tækifæri á Alþ. til þess að leita upplýsinga um með hvaða hætti eða hvort ríkisstj. hefði undirbúið að leggja þetta mikilvæga mál, sem ég nefndi áðan, fyrir þetta þing, sem er síðasta þingið sem háð er á þessu kjörtímabili.

Ég vil taka það skýrt fram og um það bera fundargerðarbækur þingflokks Alþfl. ótvírætt vitni, að þingflokkur Alþfl. hefur á mörgum fundum, áður en þing kom saman, rætt það mál sem hér er um að ræða, ásamt öðrum þingmálum sem hann hugðist leggja fyrir þetta þing. Þingflokkurinn var á einu máli um það, að hér væri um að ræða eitt stærsta málið, auk fjárlaga og lausnar brýnustu efnahagsmála, sem koma ætti til kasta þessa síðasta þings kjörtímabilsins. Ég veit ekki hvernig þingflokkur Alþb. hagar vinnubrögðum sínum, en við í þingflokki Alþfl. högum vinnubrögðum þannig, að við hittumst allgóðum tíma áður en þing kemur saman til þess að ráðgast um hvaða mál við eigum að leggja fyrir þingið. Sem sagt, þetta mál, sem þm. sagði alveg réttilega að er ekki nýtt, töldum við engu að síður vera svo mikilvægt, að það mætti ekki dragast, það yrði að leggja á það áherslu í byrjun þingsins, að þetta mál yrði að hljóta einhverja afgreiðslu á þessu síðasta þingi kjörtímabilsins.

Hv. þm. og nokkrir samflokksmenn hans lögðu fram till. um örlítinn þátt þessa máls á fyrsta degi þingsins. Okkur hafði ekki verið kunnugt um það, og auðvitað höfðum við ekki séð þessa till. Við sáum það eins og allir aðrir þm. á fyrsta degi þingsins. Ég veit ekki hvenær þessi till. hefur verið samin, hvort hún er gömul eða hvort hún er ný, en ég geri ráð fyrir að hún sé samin í þingflokknum eða af einhverjum úr þingflokknum. Dettur hv. þm. í hug að til þm. annarra flokka leki um samningu till. eða umr. í þingflokki Alþb.? Við satt að segja höfðum ekki séð till, fyrr en fyrsta daginn, og þá vorum við búnir að ákveða það, búnir að semja till. sem við mundum leggja fram, ef ekki fengjust um það jákvæð ummæli frá hæstv. forsrh. að ríkisstj, sjálf mundi gera þetta mál að þingmáli.

Það má spyrja, af hverju við höfum tekið þá ákvörðun að bera þetta mál upp hér á Alþ. í formi fsp, til ríkisstj., en ekki í tillöguflutningi. Ástæðan var einfaldlega sú, eins og ég raunar gat um í minni stuttu ræðu, — ég flutti ekki langa ræðu, eins og þm. gat um áðan, hún var þvert á móti mjög stutt, hún var skrifuð og þess vegna gat hún verið mjög stutt, — en ástæðan var sú, eins og ég gat um áðan, að við teljum hér ekki vera um þess konar mál að ræða sem venja er að kalla flokksmál og ákveðinn þingflokkur eigi þess vegna ekki að tengja það við sig sem þingflokkur. Við gerum okkur ljóst, að ef von á að vera um einhverjar úrbætur á kosningaskipan til jöfnunar kosningarréttar og aukinna áhrifa kjósenda á það, hver er kosinn, þá er engin von til að þær úrbætur nái fram að ganga, nema því aðeins að víðtækar umr. fari fram milli allra fimm þingflokkanna um málið og leitað sé í slíkum umr. eftir sem víðtækustu samkomulagi milli þingflokka. Hér er ekki um mál að ræða sem neinn einn þingflokkur á að geta þakkað sér upphafið að, því að hér verður engu áorkað nema með víðtæku samkomulagi allra þingflokka eða a.m.k. stórs meiri hluta í öllum þingflokkum.

Það var af þessum ástæðum, það var af þessu lítillæti, en ekki neinni auglýsingatilhneigingu, sem við tókum þá afstöðu að spyrjast fyrir um það, hvort hæstv. ríkisstj. vildi hafa forustu í málinu. Það er eðlilegt að í slíkum málum sem þessum hafi ríkisstj. landsins, hver svo sem hún er, forustu um viðræður á milli flokka, milli stjórnar og stjórnarandstöðu, milli allra þingflokka, til þess að freista þess hvort um viðtæka samstöðu getur verið að ræða. Þess vegna fluttum við till. Þess vegna tókum við málið upp í fyrirspurnarformi. Og ég gerði það með allvenjulegum hætti. Ég talaði við hæstv. forseta Nd. daginn áður en hægt var að bera fram fsp. og sömuleiðis við hæstv. forsrh. Þetta kann að vera ástæðan til þess, að einhverjir þm. hafa fengið að vita um, að von var á fsp., og getað búið sig undir umr. Það er alveg eðlileg skýring á því. Ég sýndi þá sjálfsögðu kurteisi að biðja um orðið daginn áður, en ekki í fundarbyrjun, eins og ýmsir þm. Alþb., sem efnt hafa til umr. utan dagskrár, hafa látið sig hafa það að gera. Þetta er væntanlega skýringin á hinni ítarlegu og merku ræðu sem hv. þm. Ingólfur Jónsson hélt við þessa umr. og mér skilst að hv. þm. hafi átt við.

Um frv. hv. þm. Jóns Skaftasonar er það að segja, að því var ekki útbýtt fyrr en sama daginn og þessi umr. fór fram. Hvernig í ósköpunum hefðum við átt að vita um það áður? Það var lagt á borðið um svipað leyti og ég sté í ræðustólinn. Ég er ekki gæddur neinni forspárgáfu til að sjá hvað væntanlega kemur á borðin hér um það leyti sem ég er að standa upp úr stól mínum til þess að ganga í ræðustólinn. Þetta vona ég að öllum sé ljóst.

Nei, sannleikurinn er sá, að hér er ekki um neitt við okkur að sakast í þingflokki Alþfl. Við fórum hér algjörlega eðlilega að. Sú fsp., sem ég bar fram fyrir hönd flokksins, hafði verið rækilega undirbúin, og þingflokkurinn hafði rækilega rætt þá till. sem við mundum flytja ef ríkisstj. hefði neikvæða afstöðu til málsins eða engar fyrirætlanir um að gera málið af þingmáli. En af því að svör hæstv. ríkisstj. voru jákvæð vorum við að sjálfsögðu eftir á sammála um að láta þennan tillöguflutning vera, gera enga tilraun til þess að eigna okkur eitt eða neitt í þessu máli með tillöguflutningi eða frv: flutningi, heldur sætta okkur fullkomlega við þau eðlilegu vinnubrögð að ríkisstj. beitti sér fyrir viðræðum milli þingflokkanna um þetta mikilvæga mál.

M.ö.o.: niðurstaðan af málatilbúnaði okkar hefur verið jákvæð. Það er komin hreyfing á málið. Ríkisstj. er búin að lýsa yfir að þetta mál muni vera þingmál á þessu þingi, þó enginn geti að sjálfsögðu sagt fyrir um það, hvort við­ tæk samstaða náist um eitthvað, annaðhvort mikið eða lítið. Það verða viðræðurnar að leiða í ljós.

Munurinn á starfi okkar í þingflokki Alþfl, og þeirra í þingflokki Alþb. er sá, að hv. þm. er ekki enn tilbúinn að tala fyrir þeirri till. sem hann flutti á fyrsta degi þingsins. Það er kominn 18. okt., þingið kom saman 10. okt., það er komin önnur vika þingsins, og hv. þm. er ekki tilbúinn að tala fyrir till. sinni enn. Þetta er nú allur áhuginn, þetta er nú allur undirbúningur hans á málinu. Við vorum hins vegar búnir að ræða málið áður en þing kom saman og erum þegar búnir að koma því til leiðar að málið verður þingmál á þessu þingi. M.ö.o. niðurstaðan af atferli okkar hefur þegar leitt til jákvæðrar niðurstöðu, áður en hv. þm. er tilbúinn að tala fyrir till, sem hann flytur á fyrsta degi þingsins.