05.12.1977
Efri deild: 22. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forsett. Ég verð að segja eins og er, að mér er afskaplega kært að taka þátt í umr. af þessu tilefni hér á hinu háa Alþ. og raunar þó að umr. hefðu snúist nokkru víðar en um þann sérstaka vanda sem Þórshafnarbúar standa í nú. Hann er þó svo alvarlegur, að augljóst er að hann hefur þegar haft veruleg áhrif á atvinnumöguleika og þar með byggð á þeim stað.

Ef við lítum nokkuð aftur í tímann, þá rifjast það upp að fyrir nokkrum árum var vaxandi byggð í Þórshöfn. Það var myndarleg byggð sem hafði blómgast, en eins og fram hefur komið olli samdráttur í aflabrögðum í Þistilfirði því, að útvegur minni báta þar lagðist niður og er nú aðeins svipur hjá sjón frá því sem áður var.

Þetta mál með togarann Font er að sjálfsögðu hið mesta óhappamál. Þegar þessi togari var keyptur til Þórshafnar voru bundnar við hann miklar vonir. Nýtt frystihús var þar í byggingu, og menn gerðu sér vonir um að með þessum kaupum væri hægt að koma í veg fyrir árvisst eða árstíðabundið atvinnuleysi sem þar hafði áður verið.

Ég lít svo á að það verði að snúast við þessum vanda á tvennan hátt. Annars vegar verður að leysa þá fjármagnsþörf, sem nú er, í bili til þess að unnt sé að halda viðgerð togarans áfram og koma honum út, og ég veit ekki betur en þegar þeirri viðgerð verður lokið sé þessi togari í ágætu lagi og ekki ástæða til að óttast að frekari óhöpp komi fyrir í sambandi við útgerð hans. Þetta er náttúrlega sá vandi sem fyrst og fremst verður við að snúast. Ég er ekki sammála því, sem hér hefur komið fram að Byggðasjóður hafi engar skyldur í þeim efnum, heldur tel þvert á móti að það sé ekki síst hlutverk hans að bæta hér úr og hlaupa undir bagga. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að finna frambúðarlausn fyrir atvinnulífið á Þórshöfn til þess að hægt sé að byggja það upp á sterkari grunni. Ég get vel tekið undir það, að úr því að svo er komið sem komið er, þá er kannske óhjákvæmilegt að Síldarverksmiðjur ríkisins kaupi síldarverksmiðjuna á Þórshöfn. En miklu hefði hitt verið ánægjulegra ef staðarbúar sjálfir hefðu getað átt verksmiðjuna áfram og rekið hana til hagsbóta fyrir staðinn, og er raunar sama að segja um Raufarhöfn, að ég álit að það hefði verið æskilegra og betra fyrir byggðarþróun þar, ef sú verksmiðja hefði ávallt verið í höndum þorpsbúa sjálfra.

Ég vil taka undir það, að nauðsynlegt er að þessi síldarverksmiðja komist í rekstur. Fyrirsjáanlegt er að það gerist ekki nú á næstu missirum, en nauðsynlegt er að vinna að því, og eftir því sem ég hef kynnt mér þarf ekki að óttast að hráefnisöflun til hennar ætti að bitna svo verulega á Raufarhafnarbúum að slíkt geti orðið neitt úrslitamál. Það, sem hér er um að ræða, er fyrst og fremst að byggja upp atvinnulífið að nýju á Þórshöfn, þessum blómlega stað, og í því sambandi hlýtur einnig að koma til álita með hvaða hætti sé hægt að treysta byggðina í Þistilfirðinum almennt, eins og nú eru uppi áætlanir um í Bakkafirði.

Það væri einnig nauðsynlegt í þessu sambandi, að það yrði athugað — og ég tek fram, að ég álit að það sé ekki hlutverk hæstv. ríkisstj. — hvort takast mætti að koma á samvinnu milli Raufarhafnar og Þórshafnar um nýtingu sjávaraflans og þeir staðir ynnu saman og í samvinnu að hráefnisöflun.

Ég vil svo að síðustu taka undir það sem hér hefur verið sagt um þá nauðsyn sem er á því að þessi vandi verði leystur, að Þórshafnarbúar geti á ný séð fram á að þessi togari beri þeim björg úr sjó og á þann hátt rætist úr og svo verði frá hnútum gengið hvað fjármagnshliðina snertir, að unnt sé að koma þessum rekstri á heilbrigðan grundvöll, þannig að ekki þurfi að halda áfram með skyndiúrræði til þess að reksturinn geti haldið áfram.