05.12.1977
Neðri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

103. mál, gjaldþrotalög

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að láta í ljós sérstaka ánægju yfir því, að þetta frv. hefur verið samið og það skuli nú lagt fyrir hið háa Alþ., og ég tek eindregið undir þær óskir hæstv. dómsmrh., að sú n., sem fær það til meðferðar, vinni kappsamlega að afgreiðslu þess á þessu þingi, þannig að það takist að lögfesta það áður en þingi lýkur.

Ég er að vísu ekki lögfræðingur, en vegna kennslustarfa minna við viðskiptadeild háskólans hefur það legið í hlutarins eðli, að ég hef kynnst íslenskum félagarétti og skiptarétti og er því ljóst hversu brýna nauðsyn ber til þess að nú, þó seint sé, séu sett ný lög um gjaldþrotaskipti. Í þessu sambandi minni ég á að enn eru ekki til nein teljandi, hvað þá tæmandi lagaákvæði um ýmis veigamikil atriði félagaréttar, t.d. engin teljandi, hvað þá tæmandi ákvæði um einstaklingsfyrirtæki eða sameignarfélög, og gildandi lög um hlutafélög eru enn frá árinu 1921. Margar tilraunir hafa verið gerðar m.a. af minni hálfu meðan ég gegndi embætti viðskrh, til að fá hlutafélagalöggjöfina endurskoðaða. En af ástæðum, sem ekki er ástæða til þess að ræða hér, hefur það dregist allt til þessa dags. Því ber að vísu einnig að fagna, að fyrir þessu þingi liggur frv. að nýjum hlutafélögum sem yrði að sjálfsögðu til stórkostlegra bóta frá þeim rétti, sem nú gildir um íslensk hlutafélög, og er ekki síður ástæða til þess að láta í ljós ósk um að það frv. hljóti nú afgreiðslu.

Við lauslegan lestur á þessu frv. fæ ég fyrir mitt leyti, þó ekki sé sérfræðingur, ekki betur séð en það sé að öllu leyti mjög vandað og vel samið. Ekki er við öðru að búast en að nauðsyn sé hreytinga, þegar það er haft í huga, að í raun og veru eru þær grundvallarreglur, sem gilda um gjaldþrot hér á landi, byggðar á lögum sem samin voru í Danmörku fyrir um það bil einni öld, og þó að þau lög hafi á sínum tíma í Danmörku og þegar þau voru í grundvallaratriðum lögtekin hér á Íslandi verði ágæt og hæft vel þeim tímum, sem þá voru, þá gefa auga leið að þau eiga ekki lengur við. Þær breytingar, sem gerðar hafa verið á undanförnum áratugum og allar hafa í raun og veru verið smærri í sniðum en þær hefðu átt að vera, hafa að vísu allar verið til bóta. Enn stendur það þó eftir, að grundvallaratriði gildandi gjaldþrotaskiptalaga er næstum aldargömul dönsk lagasetning, og ætti ekki að þurfa frekari rökstuðning fyrir því, að sannarlega er tími til þess kominn að Alþ. hefjist hér handa og setji ný lög, og hér sýnist einmitt vera kominn hinn ákjósanlegasti grundvöllur að nýrri lagasetningu um gjaldþrotaskipti. En í því sambandi vil ég minna á, og er það raunar aðalástæða þess, að ég kveð mér hljóðs að ný og góð lög eru ekki einhlít í þessu sambandi, eins og reyndar reynsla undanfarinna áratuga hér á landi sýnir okkur.

Í sambandi við gjaldþrotaskipti skiptir framkvæmd gildandi lagaákvæða ekki síður miklu máli heldur en hitt, að lagagrundvöllurinn sjálfur sé góður og traustur. Þetta kemur einmitt greinilega fram í skýrslu sem fylgir grg, þessa frv., því að eins og raunar kom fram hjá hæstv. ráðh. þótti ástæða til þess að gera réttarfélagsfræðilega könnun á gjaldþrotamálum til að fá upplýsingar um fjölda þeirra, greiðslu upp í fram komnar kröfur og tímann sem skiptin taka. Lagastofnun Háskóla Íslands tók að sér það vandasama verk að framkvæma þá könnun. Hún var gerð af núv. aðstoðarmanni ráðh.. ungum lögfræðingi, Eiríki Tómassyni, sumarið 1975, og hefur sú skýrsla verið prentuð í Tímariti lögfræðinga og er prentuð sem fskj. með þessari grg. mjög vandað, gott og nauðsynlegt verk.

En ég tel ástæðu til þess að vekja alveg sérstaka athygli á niðurstöðum þessarar skýrslu, því að hún undirstrikar það sem ég sagði áðan, að ekki einvörðungu góð lagasetning er nauðsynleg, heldur einnig vönduð framkvæmd þeirra lagaákvæða sem gilda. Rannsókn Eiríks Tómassonar tók til áranna 1960–1974. Á þessum 14 árum reyndust gjaldþrotaúrskurðir vera 318, þar af 85% í Reykjavík, og eru þetta tiltölulega mjög margir gjaldþrotaúrskurðir ef miðað er við reynslu í nágrannalöndunum. Það á sér að sumu leyti eðlilegar skýringar, eins og kom fram í máli hæstv. ráðh. og ég þarf ekki að endurtaka hér. En engu að siður er hér um að ræða óeðlilega háa tölu gjaldþrotaúrskurða.

En það, sem alveg sérstaka athygli hlýtur að vekja á sambandi við skýrsluna, er það, að í 81% tilfellanna fundust engar eignir í gjaldþrotabúinu, og ef einhverjar komu fram, þá reyndust þær aðeins nema litlum hluta krafnanna, Það. sem ég tel þó vera enn athyglisverðara við þessa rannsókn Eiríks Tómassonar, er að könnun hans, sem náði til ársins 1974, en var framkvæmd á árinu 1975. kom í ljós að í júlí á miðju ári 1975 var enn ólokið skiptum í 58 búum, — skiptum sem hófust á árunum 1965–1969. Þetta undirstrikar það sem ég vildi leggja sérstaka áherslu á, að brýna nauðsyn ber til þess að stórbæta framkvæmd gjaldþrotaskipta og þá auðvitað ekki síður ef komnar verða nýjar og nákvæmari reglur um gjaldþrotaskiptin en hingað til hafa verið í gildi.

Ég veitti því athygli, að hæstv. dómsmrh. skýrði frá því í niðurlagi ræðu sinnar, að hann og dómsmrn. hefðu veitt þessum niðurstöðum. rannsóknanna sérstaka athygli og gerðu sér ljóst, að þessi niðurstaða bæri vott um að framkvæmd gjaldþrotaskipta á undanförnum áratugum hefði verið mjög ábótavant hér á landi og rn. hefði þegar gert ráðstafanir til þess að úr þessu yrði bætt. Vildi ég mega vænta þess, að sú viðleitni bæri árangur, og dreg ég ekki í efa, að svo muni verða. En engu að síður fannst mér rétt, um leið og ég vil taka undir þá ósk hæstv, ráðh. að þetta frv. verði afgreitt á þessu þingi, eins og raunar allir málavextir benda til að brýna nauðsyn beri til. að láta ekki hjá líða að undirstrika hitt, að í kjölfar nýrrar og betri lagasetningar verður að koma ný og miklu betri framkvæmd gjaldþrotaskiptamála en átt hefur sér stað um langt undanfarið skeið hér á landi.