06.12.1977
Sameinað þing: 26. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

Umræður utan dagskrár

Iðnrrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á þingfundi 28. nóv. gerði einn hv. þm., Kjartan Ólafsson, að umtalsefni utan dagskrár frásögn í blaðinu Vísi sama dag. Í blaðinu er sagt frá tilmælum sem Gunnar Thoroddsen hafi viðhaft í umr. um varnarliðið á flokksráðsfundi sjálfstæðismanna tveim dögum áður. Í fyrirsögn Vísis eru mér lögð í munn þessi orð innan tilvitnunarmerkja: „Getum ekki lagt vegi af eigin rammleik.“ Í frásögninni sjálfri er haft eftir mér, einnig innan tilvitnunarmerkja: „Við getum ekki lagt varanlega vegi af eigin rammleik.“

Þessi frásögn er röng, báðar útgáfur. Hin tilvitnuðu orð hef ég aldrei viðhaft og slík ummæli eru mér víðs fjarri. Þennan þingfundardag og þá næstu á eftir hafði ég fjarvistarleyfi frá þingi þar sem ég sótti fund iðnrh. Norðurlanda í Osló. Í þessum umr. á Allb. var óskað eftir skýringum frá minni hendi. Ég mun verða við þeim tilmælum og gera í stuttu máli grein fyrir þeim viðhorfum mínum sem virðast hafa orðið tilefni þessarar blaðafréttar og umr, á Alþingi.

Ég er andvígur þeirri hugmynd, að Íslendingar taki leigugjald fyrir varnarstöðina. Ég get ekki heldur fallist á að allt skuli óbreytt standa um framkvæmd varnarmála. En oft er unnt að byggja brú milli ólíkra sjónarmiða. Hér skulu nefnd nokkur þau atriði sem ég tel tímabært að taka til nýrrar athugunar og umr.

1. Í öllum öðrum löndum Norður-Atlantshafsbandalagsins er ekki aðeins séð fyrir landvörnum, heldur einnig hugað að vörnum fyrir fólkið sjálft, almannavörnum. Í lögum okkar um almannavarnir eru hugsanlegar hernaðaraðgerðir nefndar fyrst af þeim atriðum sem almannavarnir eigi að beinast að. Þessu mikilvæga verkefni höfum við Íslendingar ekki sinnt sem skyldi, fyrst og fremst vegna kostnaðar. Margs konar varnarviðbúnað fyrir fólkið vantar. Ástand vega og brúa er víða þannig, að torvelt yrði að flytja fjölda manna skyndilega burt frá hættusvæðum. Ef til ófriðarátaka kemur eru borgararnir ofurseldir hættu og hörmungum séu þessum málum ekki gerð skil. Þetta hafa aðrar þjóðir skilið og sýnt þann skilning í verki, Allar slíkar varnaraðgerðir vegna fólksins sjálfs kosta mikið fé. Þótt þær yrðu að sjálfsögðu undir stjórn Íslendinga sjálfra, þá eru þær hluti af vörnum Íslands og því eðlilegt að undir þeim útgjöldum verði staðið í samræmi við það. Það er ekki nægilegt að verja landið, það þarf að vernda fólkið sjálft.

2. Íslendingar þurfa að eignast menn með sérmenntun í landvörnum til þess að við þurfum ekki við mat á vörnum lands og þjóðar að sjá allt með annarra augum, heldur höfum íslenska sérfræðinga til ráðuneytis.

3. Það hefur valdið vandkvæðum, að vörur, sem varnarliðið flytur inn til eigin nota, skuli undanþegnar tollum og söluskatti. Þetta hefur leitt til ólöglegra viðskipta. Það er óeðlilegt og ástæðulaust að varnarliðsmenn njóti slíkra forréttinda fram yfir landsmenn sjálfa.

4. Varnarliðsmenn fá greidd laun sín hér á landi í erlendum gjaldeyri. Það heftar leitt af sér ólögleg gjaldeyrisviðskipti. Eðlilegt væri að varnarliðsmenn fengju greiddan í íslenskum krónum þann hluta launa sinna sem þeir nota hér á landi og að viðskipti í varnarstöðinni færu fram í íslenskum gjaldmiðli.

5. Varnarliðið ætti að geta keypt meira af íslenskum iðnaðarvörum en nú er.

6. Varnarliðið ætti að kaupa í meira mæli en nú íslenskar búvörur, svo sem kjöt, osta og smjör.

7. Íslendingar greiða sjálfir háan bensínskatt, sem notaður er till nýbygginga og viðhalds vega. Það er ekki eðlilegt að varnarliðið, sem einnig notar þessa vegi, sé undanþegið bensínskatti og njóti þeirra forréttinda fram yfir landsmenn.

8. Það þarf að athuga hvort fleiri íslenskir verktakar en nú er gætu átt þess kost að taka þátt í framkvæmdum á vegum varnarliðsins.

Ég tel það nauðsyn, að Ísland haldi áfram að vera varið land og aðili að NATO, en jafnframt þarf að endurskoða ýmis framkvæmdaatriði, eins og ég hef gert hér grein fyrir.