07.12.1977
Efri deild: 23. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

113. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég tel að þau gögn, sem hafa verið lögð fram í sambandi við þetta mál, séu engan veginn fullnægjandi, og þar sem lagt hefur verið til að þessu máli verði vísað til hv. iðnn. þessarar d. og ég á ekki sæti í henni mun ég fara þess á leit að fá ýmsar upplýsingar. Hitt er svo annað mál, að það er að mínum dómi út af fyrir sig óeðlilegt að vísa máli sem þessu til iðnn. Hér er um skattlagningu að ræða og skiptingu á þeim skatti sem er fyrst og fremst fjárhagsmál, og þess vegna á þetta mál í reynd fremur heima í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar.

Í fyrsta lagi vil ég segja það, að hér á Alþ., eins og kom fram hjá hæstv. iðnrh., voru samþykkt lög, ekki um stofnun Orkubús Vestfjarða, heldur um heimild fyrir ríkisstj. til þess að setja á stofn orkufyrirtæki er nefnist Orkubú Vestfjarða. Þegar þessi lög voru afgreidd voru ýmsir liðir óljósir og ýmsir hlutir óljósir, og ég tel nauðsynlegt að deildinni verði gerð nánari grein fyrir gangi mála frá því að þau heimildarlög voru samþykkt.

Í fyrsta lagi vil ég fá gögn um það, hver rekstrargrundvöllur Orkubús Vestfjarða er á næsta ári sérstaklega og á næstu árum. Í frv. til l. um Orkubú Vestfjarða var fjárhagsáætlun um rekstur Orkubús Vestfjarða sem var dregin í efa og Rafmagnsveitur ríkisins voru með ýmsa fyrirvara við, og ég mun koma að því síðar.

Einnig vildi ég fá að vita í öðru lagi, hvernig sölu á eignum RARIK til Orkubús Vestfjarða var háttað. Það er ljóst og var ljóst, að fjmrh. var á sinum tíma, þegar frv. var samþykkt, með fyrirvara þess efnis, að þessar eignir yrðu ekki seldar nema fullt samkomulag næðist á milli Rafmagnsveitnanna eða ríkisins annars vegar og Orkubúsins hins vegar. Og 5. gr. var breytt þannig, að Rafmagnsveitur ríkisins og ríkissjóður skuli afhenda Orkubúi Vestfjarða til eignar sem stofnframlag öll mannvirki sín á Vestfjörðum, enda yfirtaki fyrirtækið samkv. samkomulagi skuldir vegna mannvirkja þeirra sem það tekur við. Ég vil fá að vita hvernig þessum málum var háttað og á hvaða verði þessar eignir voru yfirteknar.

Í þriðja lagi vil ég fá að vita, hvaða áhrif þessi breyting hefur á rekstur Rafmagnsveitna ríkisins og í framhaldi af því verðlagningu á þjónustu frá Rafmagnsveitum ríkisins og hvernig það hlutfall, sem hér er ákveðið að eigi að renna til Orkubús Vestfjarða, 20%, er almennt fengið og hver er forsenda þess, að þetta hlutfall er þannig ákveðið. Ég sagði áðan, að þegar lögin voru samþykkt á sinum tíma hafi ýmsar spurningar verið uppi, og ég vil — með leyfi hæstv. forseta — vitna í umsögn Rafmagnsveitna ríkisins sem send var Alþingi þegar þessi lög voru samþykkt. En m. a. segir þannig í þeirri umsögn:

„Vegna erfiðra aðstæðna, strjálbýlis, fjöllótts landslands og veðurfars, hefur rekstur Rafmagnsveitna ríkisins á Vestfjörðum ávallt verið með fjárhagslegum halla. Verðlag raforku hefur verið hið sama og á öðrum svæðum landsins þar sem Rafmagnsveitur hafa á hendi raforkusölu. Hallinn hefur verið borinn uppi með betri afkomu annarra svæða og með verðjöfnunargjaldi óskiptu í heild fyrir öll svæðin.“

Þetta kemur út af fyrir sig ekkert á óvart. Þetta er svona í fleiri landshlutum, eins og allir vita. Ef Rafmagnsveiturnar hætta starfrækslu á Vestfjörðum dettur að sjálfsögðu út sá fjárhagslegi stuðningur sem Vestfirðir njóta nú af því að vera í fjárhagslegum tengslum við þau raforkusvæði sem betri afkomu hafa. Ég hygg að m.a. til þess að bæta hér um sé lagt hér fram frv. til I. um að Orkubú Vestfjarða fái 20% af verðjöfnunargjaldi, og þess vegna er nauðsynlegt að vita hvernig það kemur út fyrir þetta fyrirtæki.

Síðan segir í þessari grg.: „Verði stefnt að sömu eða svipaðri meðferð á Rafmagnsveitum ríkisins eða þátttöku ríkisins í rafveitumálum landsins almennt og gert er í frv. um Orkubú Vestfjarða kemur sjálfsagt til beinna kasta Alþ. að leysa hinn stórkostlega fjárhagsvanda raforkuiðnaðarins sem við blasir í náinni framtíð. Þetta verður væntanlega gert í formi einhvers konar verðjöfnunar, í formi beinna rekstrarstyrkja eða með yfirtöku ríkisins á lánum og eða framlögum til nýframkvæmda. Hér kemur vafalaust til sviptinga um skiptingu fjárins á milli kjördæmanna ef enginn er samnefnari lengur frá ríkisins hálfu, þ.e.a.s. Rafmagnsveitur ríkisins.“

Síðan segir í þessari umsögn: „Í nefndri grg. er skýrt frá samstarfshópi sem hefði starfað að henni. Hér er um að ræða nafngreinda verkfræðinga o.fl. Þá fylgja grg. ítarlegar töflur um væntanlega afkomu Orkubús Vestfjarða, svo og uppdrættir, en ekki verður séð hver beri ábyrgð á þeim gögnum, því að engin áritun finnst á þeim er sýni höfund þeirra. Í grg. þessari eru margvíslegir ágallar og skal því bent á nokkra þeirra.

Svo sem kunnugt er hafa Rafmagnsveiturnar nýlokið Mjólkárvirkjun II og eru nú að hefja framkvæmdir við svonefnda Hófsárveitu, sem mun auka framleiðslugetu Mjólkár í um 6 gwst., en kostnaður þeirrar framkvæmdar er áætlaður um 165 millj. kr. Næsta skref Rafmagnsveitnanna er síðan fyrirhugað Dynjandisvirkjun með 12 mw. afli, en kostnaður hennar er áætlaður 1960 millj. kr. Í grg. er hins vegar ekkert minnst á Hofsárveitu, sem að sjálfsögðu hefur áhrif á vinnslu- og fjárhagsmál heildarkerfisins. Á hinn bóginn er tekin í grg. Suður-Fossárvirkjun, sem ekki er hafin bygging á og sem sérskipuð nefnd rn. annast um. Vegagerð er hafin, en framkvæmdir stöðvaðar með brottfellingu fjárveitinga á þessu ári.“

Það kom fram t.d. í sambandi við þessa virkjun, að hún hefði ekki fjárhagsgrundvöll. Síðan kemur hér:

„Í rekstraráætlun grg. er gert ráð fyrir að orkuverð á veitusvæði Orkubús Vestfjarða verði sambærilegt við það sem best gerist annars staðar á landinu. Þessi bjartsýni er fengin með því að fella niður stóran hluta kostnaðarliða og auk þess safna saman vaxtalausum skuldum af hallarekstri og skal það hér skýrt nánar.“

Mér þykja þetta það alvarlegar fullyrðingar, sem koma fram í þessari umsögn, að ég tel nauðsynlegt að þessi mál verði skýrð.

Í framhaldi af þessu kemur hér fram:

„Áður hefur verið minnst á að stofnkostnaður og skuldir, sem Orkubú Vestfjarða yfirtaki samkv. frv., séu pr. 31.12. 1974 um 946 millj. kr. Pr. 31.12. 1975 mun þessi tala vera mjög nálægt 1587 millj. kr. Ef yfirtaka fer fram í lok þessa árs, pr. 31.12. 1976, má lauslega áætla að hér sé um 1800 millj. kr. að ræða. Ef afborganir og vextir af þessari fjárhæð eru reiknaðir 18%, þá er hér fjármagnskostnaður að upphæð 324 millj. kr.“

Síðan segir: „þó að Suður-Fossárvirkjun sé ekki meðtalin, en Orkubú Vestfjarða reiknar ekki með henni til yfirtöku. Kostnaður virkjunarinnar ásamt tengingu við Vestfjarðakerfið mun vera áætlaður nálægt 570 millj. kr. og fjármagnskostnaður af þeim sökum einum um 100 millj. kr. eða alls eftir yfirtöku 424 millj. kr.“

Og síðan segir hér: „Þrátt fyrir niðurfellingu þessa fjármagnskostnaðar og enda þótt enginn rekstrarkostnaður sé talinn vegna þeirra mannvirkja, sem Orkubú Vestfjarða yfirtekur, kemur fram rekstrarhalli í áætlun þeirra að upphæð 299 millj. kr. Árið 1985 er þannig reiknaður halli á árinu 727 millj. kr. án vaxta af þeim skuldum sem þannig skapast. Með 12% vöxtum er þessi halli þá orðinn um 1400 millj. og ársvextir um 150 millj. kr. Hér er þó ekki öll sagan sögð um það fjárhagsfen sem Vestfirðingar hætta sér út í með stofnun Orkubús Vestfjarða.“

Síðan segir: „Í áætlun Orkubús Vestfjarða um rekstrarafkomuna, að slepptum áðurnefndum fjármagnskostnaði, 424 millj. kr., er reiknað með fjármagnskostnaði nýrra mannvirkja aðeins 12%(40 ára lán). Ef hér er reiknað raunsærra og miðað við 18% vexti, eykst útgjaldabyrði um nálægt 317 millj. kr. á ári. Halli Orkubús Vestfjarða er sem áður segir í grg. Orkubús Vestfjarða talinn 299 millj. kr. árið 1978, en ætti að reiknast,“ segir í umsögn Rafmagnsveitnanna, „299 millj. + 424 + 317 + 90 eða samtals 1140 millj. á því ári. Hugleiðingar um verðlækkun á raforku á Vestfjörðum með tilkomu Orkubús Vestfjarða, eins og gefið er í skyn í skýringum við frv., virðast því í hæsta máta óraunhæfar.“

Síðan ætla ég aðeins að vilna í það sem segir hér að lokum í þessum kafla:

„Eins og áður er um getið munu Vestfirðir vera erfiðasti landshluti til rafvæðingar, en þeir njóta nú fjárhagsaðstoðar með því að vera hluti af heildarkerfi um landið svo og með hluta af verðjöfnunargjaldi sem á árinu 1976 mun vera um 650 millj. kr. fyrir allt landið. Það er því augljóst að stofnun Orkubús Vestfjarða er mikils til bjarnargreiði fyrir íbúa fjórðungsins nema til komi sérstök fjárhagsleg aðstoð í verulegum mæli frá ríki, sem þyrfti að vera langt umfram þær fjárhæðir sem fást með verðjöfnunargjaldi.“

Ég skal út af fyrir sig ekkert fullyrða um þá hluti sem hér eru sagðir, ég hef enga aðstöðu til þess. En ég vil fá að vita hvaða skoðun Rafmagnsveitur ríkisins hafa í dag á þessu máli. Þetta er sú skoðun sem forystumenn Rafmagnsveitna ríkisins lýstu á þeim tíma, þ.e.a.s. Valgarð Thoroddsen rafmagnsveitustjóri og Guðjón Guðmundsson skrifstofustjóri Rafmagnsveitna ríkisins, og ég vil fá að vita hvaða hreytingar hafa hér á orðið.

Ég tel út af fyrir sig ekkert því til fyrirstöðu, að stefnt verði að því að stofna Orkubú Vestfjarða, þ.e.a.s. ég er algerlega mótfallinn því, að Orkubú Vestfjarða sjái á einhvern hátt um raforkuvinnslu. En hins vegar er mjög óljóst hvert verður framhald þessara mála í öðrum landshlutum, og ég tel algerlega ótímabært nú að hefja rekstur á þessu fyrirtæki nema fyrir liggi mörkuð stefna og yfirlýsingar um það, á hvern hátt skuli staðið að þessum málum í öðrum landshlutum. Ég tel það ekki vera neinum til góðs að hefja þennan rekstur nú án þess að hafi verið gerð heildarúttekt á þessum málum. Það má vel vera að niðurstaðan verði sú, að það verði stofnuð orkubú í hinum ýmsu landshlutum, og ég skal verða fyrstur manna til að sætta mig við þá niðurstöðu verði komin fram sannfærandi rök og niðurstöður í því máli. En ég tel algerlega ótímabært að ana í þessa hluti fyrr en þetta liggur ljóst fyrir. Ég býst við að það væri vel hægt að vinna þannig að málum, að þetta mundi liggja nokkuð ljóst fyrir og stefna tel að það geti vart legið svo á um byrjun á rekstri þessa fyrirtækis að það geti ekki beðið heildarstefnu í þessum málum. En ég ítreka það, að ég vil fá upplýsingar um gang mála síðan þessi lög voru samþykkt. Ég var þeirrar skoðunar, að Alþ. hefði alls ekki fengið nauðsynleg gögn til þess að byggja á samþykkt þeirra laga á þeim tíma, og þess vegna er enn þá brýnna að við þm. fáum skýr svör um það, hvernig þessum málum er háttað og. hvernig afkomuhorfur bæði Orkubús Vestfjarða og ekki síst Rafmagnsveitna ríkisins eru.