07.12.1977
Efri deild: 23. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

113. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að blanda mér í þær umr. sem hér hafa farið fram, m.a. vegna þess að sem formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga tel ég mig hafa þó nokkra yfirsýn yfir forsögu þessa máls.

Þar er fyrst til að taka, að með hinni miklu verðhækkun, sem varð á olíu, urðu öll þau svæði, þar sem upphitun íbúðarhúsnæðis fór fram með olíu á eftir öðrum stöðum hvað lífskjör snerti, menn yrðu látnir borga skatta af því fjármagni sem fór til upphitunar íbúðarhúsa. Tekjurnar, sem menn þurftu að hafa fram yfir önnur svæði til að geta þetta, voru alls ekki svo litlar. Þetta skipti hundruðum þúsunda.

Við horfðum á það, að Rafmagnsveitur ríkisins voru að selja raforku til upphitunar á íbúðarhúsnæði langt undir kostnaðarverði. Þarna var um raforkusölu að ræða til beinnar rafhitunar. Ég vil halda því fram sem staðreynd, að rafhitun í því formi eigi engan rétt á sér í þorpunum hér á landi. Aðalástæðan er einfaldlega sú, að á þeim tíma sem vatnið er minnst í ánum og raforkuframleiðslan þar af leiðandi minnst er orkuþörfin mest fyrir beina rafhitun. Það er ekki hægt að gera meiri vitleysu í orkumálum en þá að keyra dísilstöðvar á fullu dag eftir dag til að framleiða rafmagn sem á að fara að hita upp íbúðarhúsnæði.

Jafnframt horfðum við á það, að ef svo færi að á mörgum stöðum vestra, sem ekki er nú vitað, fyndist heitt vatn, þá gæti farið svo, að þó að heitt vatn fyndist væri enginn grundvöllur fyrir því að koma þar upp hitaveitum, einfaldlega vegna þess að búið væri að koma þar upp beinni rafhitun. Við horfðum jafnframt á það, að þar sem það er staðreynd að hin beina rafhitun hefur verið seld langt undir kostnaðarverði, þá væri það alveg óvíst atriði gagnvart framtíðinni, hvort haldið yrði áfram að selja rafmagn svo langt undir kostnaðarverði, þegar menn almennt væru búnir að breyta til, eða hvort þá yrði farið í að breyta verðhlutföllunum.

Á Ísafirði og Patreksfirði voru reknar sjálfstæðar rafveitur og eru reknar þar enn. Þar er því þannig háttað, t.d. á Ísafirði, að menn kaupa visst magn af raforku frá Rafmagnsveitum ríkisins. Þetta er keypt af toppi. Sjálfir selja þeir svo Rafmagnsveitum ríkisins raforku frá dísilstöðvum. Það er keypt eftir þörf á hverjum tíma. Þeir hafa engan ávinning af því að minnka rafmagnskaup sín þó að minnki það rafmagn sem þeir selja til neytenda. Það er hagkvæmt hjá þeim að keyra dísilstöðina á fullu og láta vatnið renna fram hjá eigin virkjun og kaupa toppinn allan af Rafmagnsveitunum, eins og í pottinn er búið í dag.

Þarna er náttúrlega um beina sóun á fjármunum að ræða. Ég tel að það sé þungamiðjan í þessu atriði, hversu mjög sem menn greinir á um þetta, að sami aðilinn verði að selja orkuna til upphitunar íbúðarhúsnæðis og raforkuna. Ég tel jafnframt að það verði að taka það upp sem meginstefnu varðandi sölu á orku til upphitunar íbúðarhúsnæðis, að það sé verið að:,el ja heitt vatn, þ.e.a.s. þegar næg raforka er til, verði hún notuð til að hita vatnið upp og selja það, en þegar raforkan er ekki til nema með keyrslu dísilstöðva, þá tel ég eðlilegt að vatnið verði hitað upp með svartolíu. Það er miklu ódýrari lausn.

Aðalástæðan fyrir því, að farið er af stað með Orkubú Vestfjarða, er ekki hugmyndin um það, að við teljum að almenningur eigi með því kost á að fá raforku á ódýrara verði en aðrir landsmenn. Það hvarflar ekki að nokkrum manni þar vestra sem að þessum málum hafa staðið. Hins vegar horfðum við á það sem staðreynd, að raforkan er ekki þyngsti liðurinn í kostnaði á orku sem almenningur þarf að greiða. Þyngsti liðurinn er upphitun á íbúðarhúsnæðinu. Og við horfum á það sem staðreynd, að ef sami aðilinn hefur á hendi sölu á raforku og sölu á heitu vatni, þá getur hann látið þessa þætti vinna saman á miklu skynsamlegri hátt en þau viðskipti virðast hafa verið sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa átt við hinar ýmsu rafveitur sem hafa verið og eru á þessum svæðum.

Ég vil bæta því við í lokin, að ég tel að það sé mjög til óþurftar, eins og þessi mál standa nú, ef Alþ. færi að stöðva þá stefnu sem þarna er búið að marka. Ég vil þá beina því til þeirra, sem leggjast hart gegn því að Orkubúið fái þessi 20% af verðjöfnunargjaldinu, að þeir hugleiði það, að samkvæmt umsögn Rafmagnsveitna ríkisins blasir við að þetta orkusvæði muni hafa fengið fullkomlega þessi 20%. Það er látið í það skina, að það hafi fengið mestallt verðjöfnunargjaldið. Jafnframt vil ég bæta því við, að ég tel að það væri mjög tímabært hjá Rafmagnsveitum ríkisins að fara að hugleiða það, hvort þær væru reiðubúnar að selja orku í því formi heits vatns til upphitunar í íbúðarhúsnæði í þorpum úti um land, og endurskoða afstöðu sína til sölu á rafmagni til beinnar rafhitunar íbúðarhúsnæðis.