07.12.1977
Efri deild: 23. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

113. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnrh, fyrir að verða við því að leggja hér fram ýmsar upplýsingar sem ég tel eðlilegt að hefðu verið lagðar fram með þessu frv. Það hefði a.m.k. getað flýtt fyrir afgreiðslu þessa máls, sem er svo stórt að mínum dómi og nokkuð seint fram komið, að það hefði verið eðlilegra að það hefðu fylgt ítarlegri gögn. T.d. kemur hér ekki fram, hvað þessi 20% eða hvað þetta verðjöfnunargjald allt er mikið. En ég veit að það er einfalt mál að upplýsa það og einfaldur útreikningur.

Hins vegar verð ég að segja það, að ég harma það sem ég vil kalla hreina útúrsnúninga, að þegar ég vitna í grg. Rafmagnsveitna ríkisins, þá leggur hæstv. iðnrh. það þannig út að Vestfirðingar muni væntanlega hlusta með athygli á ráðleggingar mínar. Ég var aðeins að lesa upp athugasemdir sérfræðinga, sem starfa og hafa starfað undir forsjá hæstv. iðnrh., og ég sagði það í upphafi máls míns, að ég hefði ekki fengið aðstöðu til að meta svo fjárhagsleg vandamál í þessu tilfelli að ég gæti dæmt um það. Þess vegna er ég undrandi á þeim útúrsnúningum sem þar komu fram. Ég vitnaði hér aðeins í skýrslu sem öllum þm. var send, að því er mig minnir, þegar þetta mál hafði verið afgr. héðan frá Ed., frv, til l. um stofnun Orkubús Vestfjarða, eða um það leyti sem lög um heimild fyrir ríkisstj. til stofnunar Orkubús Vestfjarða voru samþ.

Það má vel vera að skoðanir mínar séu ekki í samræmi við skoðanir Sambands ísl. sveitarfélaga og meiri hl. manna á Vestfjörðum.

Ég skildi hæstv. iðnrh. þannig, að varðandi áframhald þessa máls og framhald í öðrum landshlutum yrði fyrst og fremst farið eftir óskum einstakra landshluta, og það er út af fyrir sig mjög göfugt markmið og göfug stefna, ekki skal ég draga úr því, að fara eftir óskum manna, hvort sem bað eru menn í heild sinni í einstökum landshlutum eða einstakir menn í þjóðfélaginu. Það er hins vegar ljóst, að skoðanir manna í hinum einstöku landshlutum geta verið mjög skiptar, og hér er um það að ræða að taka fyrsta skrefið án þess að tekið sé tillit til skoðana manna í öðrum landshlutum. Hér er verið að fjalla um eina heild, Rafmagnsveitur ríkisins, og hér er stigið fyrsta skrefið til skiptingar á því fyrirtæki.

Hæstv. iðnrh. sagði að ég vildi auka miðstýringuna í landinu. Ég gerði grein fyrir því í umr. í Sþ., að ég hef engan áhuga á því, þvert á móti, að auka miðstýringu í landinu. Þetta er einnig útúrsnúningur. Það er ekki þannig, að til þess að draga úr miðstýringu í einu þjóðfélagi sé nauðsynlegt að taka eitt fyrirtæki fyrir og skipta því upp í eins margar einingar og hugsanlegt er, með því sé dregið sem mest úr miðstýringunni. Það er hægt á ýmsan annan máta. Það er hægt að dreifa valdinu innan þessa fyrirtækis og dreifa stjórnun fyrirtækisins. Og þetta á við um fleiri fyrirtæki, eins og Póst og síma, Vegagerð ríkisins og fleiri fyrirtæki. Hins vegar er alveg ljóst, að það verður að vera ákveðin heildarsýn yfir þessi mál, hvort sem menn vilja kalla það miðstýringu eða eitthvað annað, það skiptir mig engu máli. Það er einnig ljóst, að ef við ætlum að tryggja jafnt raforkuverð í landinu, sem ég legg út af fyrir sig höfuðáherslu á, þá verður að vera á því ákveðin stýring. Verðjöfnun er stýring, og verðjöfnun er út af fyrir sig miðstýring. Það er svo að þessi markmið rekast oft hvert á annað og þarna verður að velja og hafna. Svo lengi sem við stefnum að því að ná svipuðu raforkuverði um allt land, þá býst ég ekki við að verði hjá því komist að á þessu verði ákveðin miðstýring.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég vil aðeins endurtaka það, að ég fagna því, að þessi gögn skuli vera lögð fram. Hins vegar finnst mér það óþarfi af iðnrh., þegar við biðjum um ákveðnar upplýsingar og vitnum í ákveðnar heimildir, að hann svari með útúrsnúningum af því tagi sem hér komu fram.