19.10.1977
Efri deild: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

14. mál, byggingarlög

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Í þessu frv., sem hér er lagt fram, felst það að sett verði ein heildarlög um byggingarmálefni fyrir allt landið. Nú eru í gildi mörg lagaákvæði, svo sem um byggingarsamþykktir í þéttbýli, um byggingarmálefni Reykjavíkur og mörg önnur einstök lög.

Fyrir fáum árum var sett á stofn n. manna með fulltrúum frá mörgum samtökum og stofnunum til að undirbúa heildarlöggjöf sem flestum þótti einsýnt að væri orðin tímabær. Árangurinn af starfi þessarar n. var frv. til byggingarlaga sem lagt var fyrir Alþ. haustið 1975, fyrir hv. Nd. Málinu var vísað til félmn. Hún leitaði umsagnar margra aðila og bárust að ég ætla 29 umsagnir. Ekki vannst tími til að vinna úr þeim umsögnum á því þingi, en fram að næsta Alþingi var unnið úr þessum umsögnum og gerðar nokkrar breyt. á frv. Þannig breytt var það lagt fyrir síðasta Alþingi, aftur fyrir Nd., og fór til félmn. sem afgreiddi svo málið frá sér og var frv. samþ, í hv. Nd. í marsmánuði s.l. Þegar málið kom til þessarar hv. d. var orðinn of skammur tími til að fjalla um svo viðamikinn lagabálk, en frv. er nú lagt fyrir þessa hv. deild eins og það var afgreitt frá Nd. á síðasta þingi.

Þetta frv. felur í sér ýmis mjög mikilvæg ákvæði, en þó er í lagafrv. sjálfu að eðlilegum hætti ekki farið mjög ítarlega út í ýmis einstök atriði sem verða að koma nánar í byggingarreglugerð sem gert er ráð fyrir að sett verði, þar sem ítarleg ákvæði verði um mörg þau atriði sem á er drepið í frv.

Á undanförnum þingum, þegar málið hefur legið fyrir, hef ég gert allítarlega grein fyrir efni málsins og sé ekki ástæðu til að endurtaka það nú, en vísa til þess og hinnar ítarlegu grg. með frv.

Ég vil leggja til að frv. verði vísað til ?. umr. og hv, félmn.