08.12.1977
Sameinað þing: 28. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

39. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Þessu máli var hreyft á síðasta þingi, í fyrravetur, er ég flutti þá fsp, til hæstv. samgrh. nokkurn veginn samhljóða efnislega þeirri þáltill. sem nú er hér borin fram af okkur fjórum Vestfjarðaþm. Ég vil nú í upphafi þakka kollega mínum, hv. 5. þm. Vestf., fyrir háttvísi hans að bjóða mér í þetta skipti að verða meðflm. að máli sem ég hóf umr. um hér á þingi. Það láðist honum hins vegar í fyrra og þótti mér einkennilegt, þar sem hann notaði framsögu mína með fsp. svo til orðrétta í grg. sinni með till. fluttri nokkrum dögum síðar en fsp, kom fram á Alþingi.

Þrátt fyrir þennan smámisbrest á háttvísi hv. þm., þá styð ég hann nú að sjálfsögðu eindregið í þessu máli. Þetta er mál sem okkur Vestfjarðaþm. liggur öllum mjög á hjarta og munum vafalaust gera okkar til að það fái framgang hér, hér á hinu háa Alþ. Till., eins og hv. frsm. hefur þegar gert grein fyrir, fjallar ekki um annað nú heldur en að fram fari athugun á þessum málum. Það er ekki farið fram á mjög mikið, og við teljum sjálfsagt að við þeirri ósk verði orðið. Till, fjallar að miklu leyti um að athygli skuli vakin á hinu ófullkomna öryggi í flugsamgöngum til Vestfjarða.

Ég minntist á það í máli mínu hér á Alþ. í fyrra, að þarna kæmi ekki til a.m.k. ekki eingöngu að Vestfirðir hefðu verið settir hjá miðað við aðra landshluta, heldur öllu fremur sú staðreynd, að náttúruleg aðstaða á Vestfjörðum er ólík því sem víða gerist annars staðar á landinu. Um Patreksfjörð, sem er syðst á Vestfjörðum, er það að segja, að flugvöllurinn þar þykir gefa möguleika á því að þar mætti koma við næturlýsingu. En jafnvel þó svo yrði, sem maður vonar að verði í næstu framtíð, að þarna komi öryggistæki sem geri kleift að fljúga þangað næturflug, þá er norðurhluti Vestfjarða, þar sem mesta þéttbýll kjördæmisins er, jafnafskorinn, einfaldlega vegna þess að á milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar liggja þrír fjallvegir sem má óhikað telja í flokki Erfiðustu fjallvega á öllu Íslandi, þ.e. Dynjandisheiði, Hrafnseyrarheiði og Breiðadalsheiði. Allar þessar heiðar eru lokaðar af fannfergi helming ársins og stundum meira, þannig að hér eru í rauninni tvö aðskilin vandamál hvað Vestfirðina sem heild snertir, og það gerir málið allt örðugra. Því er það, að bent hefur verið á, bæði í umr. um þetta í fyrra og nú, að sérstaklega Breiðadalsheiðin í þessu tilliti, sem er á milli nyrstu hluta Vestfjarða, Ísafjarðar og Bolungarvíkur annars vegar sem þéttbýlisstaða og hins vegar Flateyrar og Þingeyrar, er þröskuldur í samgöngumálum sem okkur Vestfirðingum öllum er vaxandi þyrnir í augum, ekki síst vegna þess að flugið á norðurhlutann er svo ákaflega stopult sem raun ber vitni.

Ég þarf ekki að endurtaka það hér aftur, sem sagt hefur verið í þessum umr., að flug til Ísafjarðar er teppt dögum saman, jafnvel þó að besta veður sé, af því að aðflugsaðstæður á Ísafirði eru þannig að lítil vindgola úr vissri átt, suðaustri og austri, gerir lendingu ófæra , þannig að þetta getur þýtt einangrun dögum saman sem kemur sér vægast sagt ákaflega illa. Það þarf ekki mörgum orðum að eyða að því, að menn, sem þurfa að reka erindi sín hér í Reykjavík sem taka kannske part úr degi eða einn dag, tekur ferðin í reynd viku til 10 daga, vegna þess að menn teppast vegna flugskilyrða. Kostnaður, sem þetta hefur í för með sér, liggur í augum uppi og er aðeins einn hluti af þeim erfiðleikum sem fólk úti á landsbyggðinni á oft og tíðum við að etja vegna erfiðra samgangna.

Þess er skammt að minnast, að sjúkt barn á Ísafirði þurfti að flytja suður með þyrlu sem lenti á sjúkrahústúninu, því að hvergi var lendandi fyrir flugvél Flugfélagsins. Mér kemur í hug í þessu sambandi ferð nokkurra manna, að ég hygg á vegum flugmálastjórnar, sem fóru s.l. sumar til Noregs og kynntu. sér flugmál Norðmanna. Það var margt fróðlegt sem kom út úr þeirri heimsókn og þeirri athugun. En ég lagði við eyrun þegar einn af þeim mönnum, sem fóru þessa ferð, sagði mér að Norðmenn hefðu lýst því afsakandi fyrir Íslendingum, að flugvellirnir væru nú kannske ekki í eins góðu lagi og flugmálin yfirleitt eins og þeir óskuðu, enda væri það svo að þeir í Noregi yrðu að sjá fyrir flugvelli á hverja 100 þús. íbúa. Borið saman við okkar aðstæður hér og mannfjölda teljum við þessar tölur ekki koma okkur á óvart. Sannleikurinn er sá, að við á Íslandi höfum 99 flugvelli á 220 þús. íbúa, en þessir flugvellir eru að sjálfsögðu ekki flugvellir nema að nafninu til margir hverjir og þurfa að sjálfsögðu mikilla endurbóta við til þess að þeir nái þeim tilgangi sem til er ætlast, að létta einangrun þeirra staða þar sem þeir eru. Þar fyrir vil ég þó í leiðinni benda á það sem kom fram í þessari athugun á norskum flugmálum, að þar virðist töluvert öðruvísi vera haldið á málum. Þar eru flugvellir, þar sem aðflugsaðstæður eru erfiðar, miðaðir við öðruvísi flugvélar en Flugfélag Íslands notar í áætlunarflugi út um land. Þeir eru með minni flugvélar sem henta á stuttu aðflugi. Og ég hef ekki skilið hingað til hvers vegna Flugfélag Íslands hefur ekki viljað taka upp þá skipan að hafa jafnhliða stóru Fokkerflugvélunum smærri flugvélar sem gætu hentað fyrir þessa staði sem erfiðastir eru í aðflugi. Að vísu höfum við önnur flugfélög sem eru með þessar litlu vélar, og góðu heilli hefur tekist viss samvinna milli Flugfélags Íslands og smærri flugfélaganna.

Ég þarf ekki að fjölyrða frekar um þetta. Við bentum á í fyrra máli okkar til stuðnings að Vestfirðir hafa í þessu tilliti greinilega sérstöðu. Á því er enginn vafi. Á þeirri forsendu töldum við að vænta mætti sérstakrar athugunar sem allra fyrst á því að ráða hér bót á. Það er enginn vafi á því, að sá skortur á öryggistækjum, sem nú bagar víða flugsamgöngur á landinu öllu, á ekki bara við um Vestfirði. Þetta kemur þannig út, að flugtíminn styttist. Það ráð, sem gripið var til í fyrra, í desembermánuði, var að stytta þann mjög svo takmarkaða tíma sem hægt er að fljúga í dagflugi í skammdeginu, og það munar um hvert kortérið og hálftímann í desembermánuði og svartasta skammdeginu sem mögulegur flugtími verður styttri. Að sjálfsögðu er það svo, að því betur sem flugvellirnir eru búnir öryggistækjum, því lengri verður flugtíminn og því meiri líkur á að þessi mál séu í sómasamlegu horfi.

Fsp. þeirri, sem ég flutti á Alþ. í fyrra, og þáltill., sem kom fram í kjölfar hennar, fylgdum við eftir, nokkrir Vestfjarðaþm., á s.I. sumri með sérstöku bréfi til flugmálastjóra, þar sem farið var fram á að þessi mál yrðu tekin til sérstakrar athugunar. Ég veit raunar að það bréf gerði lítið annað en að minna á málið og halda því vakandi hjá flugmálastjórn. Okkur er svarað því til sem við vitum að er eðlilegt: Þetta fer eftir því fjármagni sem við fáum til flugmálanna. — Að sjálfsögðu gerir það það. En við teljum engu að siður, þótt fjármagnið sé takmarkað þar og margfalt minna en við vildum þar eins og í öðrum málaflokkum, að þá verði að taka tillit til þessarar sérstöðu Vestfirðinga með erfiðar samgöngur. og ég vænti þess ásamt frsm. þessarar till., að þetta mál fái góða afgreiðslu í n. og sú athugun, sem þarna er farið fram á, verði framkvæmd á næsta sumri.