08.12.1977
Sameinað þing: 28. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

39. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það mun hafa verið haustið 1975, sem ég skipaði n. til þess að gera úttekt á flugvöllum á landinu og tillögur um framkvæmdir í þeim málum og þá röðun sem sú n. eftir úttekt sína teldi heppilegast að hafa. Skýrsla af hálfu þessarar n. er mjög vönduð og hún var lögð fram hér á hv. Alþ. Fyrst var henni útbýtt meðal hv. þm., síðar var hún lögð hér formlega fram, en fyrir henni var ekki talað fyrr en rétt á síðasta degi þingsins, og þá gat ég þess, vegna þess að hér væri um mjög ítarlega skýrslu og gott verk að ræða, að ég mundi óska eftir umr. um skýrsluna á því þingi sem nú stendur yfir. Þetta hefur ekki komist í framkvæmd enn þá, en ég tel mig bundinn af þessu og líka að málið sé mesta nauðsynjamál, því skýrslan var þannig úr garði gerð að það ber nauðsyn til þess að hv. alþm. ræði málið í heild, eins og þar er lagður grunnur að. Ég mun því hlutast til þess við hæstv. forseta eftir áramótin, þegar við komum þá saman og vinnulag verður með þeim hætti að hægt er að taka slík mál fyrir, að þá fari þessi umr. fram, og mun ég þá búa mig undir framsöguræðu í þeim efnum á nýjan leik.

Ég vil vekja athygli á því, að í þeirri skýrslu er úttekt gerð á flugvöllum á Vestfjörðum sem og annars staðar á landinu. Og einu vil ég nú vekja athygli hv. þm, á, að það er út af fyrir sig gott og ágætt að óska eftir eilífum úttektum, en úttektirnar kosta sína fjármuni og við megum ekki eyða allt of miklu í úttekt ofan á úttekt, heldur reyna að nota það fé, sem við höfum til umráða, til framkvæmda og úrbóta í þeim efnum sem búið er að gera úttekt á.

Í till. samgrn. til fjmrn. á s.l. hausti við fjárlagaundirbúning var farið alveg að till. þessarar n. um fjárhæð. Því miður tókst ekki að fá þá fjárhæð í fjárlagafrv. sem lagt var til í till. þessarar úttektarnefndar og við urðum að draga þar nokkuð úr, en þó var verulega til úrbóta unnið í þá átt að reyna að hafa meira fé til flugvallagerðar á næsta ári heldur en verið hefur, og hefur svo verið bæði á þessu ári og því næsta að sótt er í rétta átt. Ég veit að það mun dragast lengur en n. taldi ástæðu til eða þörf á að koma í framkvæmd því sem hún lagði til, en þar koma náttúrlega til möguleikar okkar á sviði fjármála, og sú verðbólga, sem kann að verða í landinu, mun hafa þar að sjálfsögðu sín áhrif eins og annars staðar. En í fjárlagaafgreiðslunni núna er stefnt að því að láta það ganga fyrir sem n. lagði til að gert yrði sem eru öryggismál á sviði flugvalla. Eru með nefndarskýrslunni alveg mótaðar till. í flugvallagerð hér á landi eða framkvæmdir í sambandi við flugvelli, og ég tel því að það góða verk eigi að ræða í heild hér á hv. Alþ. og mun því ekki fara út í einstaka þætti þess.

Ég minnist þess, að hv. 2. þm. Austurl. óskaði eftir því og lét í ljós þá skoðun við þær litlu umr. sem hér urðu í fyrra, að hér væri um stórt og merkilegt mál að ræða sem hann óskaði eftir að yrði rætt í þinginu síðar, og við því verður orðið.

Ég vil að lokum segja það, að ég tel að með fjárlagaafgreiðslunni núna verði farið inn á þá stefnumótun sem fólst í skýrslu þeirrar n. sem endurskoðaði þessi mál og gerði ítarlegar till. þar um. Síðar munum við svo ræða þessar till. og þá geta einstök sjónarmið hv. þm. komist að. Ég tel að ekki sé ástæða til að fara að taka umr. um einstaka þætti út úr nú, því það sé heildarmálið sem við eigum að fjalla um, og það verður gert, enda verður ekki breytt um framkvæmd á því tímabili sem þar er á milli.

Ég vil líka segja það út af till., sem bárust rn. á s.l. sumri í sambandi við Vestfjarðamál, að samgrn. hafði enga möguleika til þess að breyta þar neinu frá því sem fjvn. hafði lagt til við fjárlagaafgreiðslu og samþ. var hér á Alþingi.

Ég tel að það sé svo mikið fengið með því að hafa fengið þarna verk sem hægt er að byggja fjárlagaafgreiðslu á í sambandi við uppbyggingu flugumferðar hér á landi, að það sé verkið sem við eigum að snúa okkur að þegar við komum saman á ný eftir áramótin. Ég geri ekki ráð fyrir að það verði hægt að ræða það nú fyrir jólahlé, en það skulum við gera og þá skýrast ýmsir þeir þættir, sem menn vilja skýra betur en kemur fram í þessari skýrslu.