08.12.1977
Sameinað þing: 28. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

39. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa um þetta mörg orð af minni hálfu. Ég á sæti í ráði sem fjallar um flugmál allan ársins hring, og ég verð að segja það strax, að ég get ekki verið á móti því að menn leggi fram till. eins og þessa um að athuga betur hlutina, því það er svo sannarlega ekki vanþörf á að hugsa sitt ráð í tíma og skoða hlutina fyrir fram, svo menn lendi ekki í vandræðum síðar meir og þurfi stöðugt að verja sig fyrir of fljótfærnislegar ákvarðanir eins og dæmin sanna hér hjá þessari þjóð.

Hitt er svo annað mál, að margt hefur verið athugað býsna vei, eins og hæstv. ráðh. benti á og komið hefur fram í skýrslu flugvallanefndar, sem skilaði áliti fyrir ári eða svo. En þar er líka gert ráð fyrir því, að til þess að koma þessum málum í sæmilegt horf þurfi um 1000 millj. á ári, þ.e.a.s. ef miðað er við verðlag 1976. Og ef miðað er við verðlag 1978 þyrfti það að vera býsna miklu hærri upphæð, en það, sem ætlað er til framkvæmda í flugmálum á Íslandi samtals. Það eru 530 millj. af nýju fé, + 70 millj. sem fást vegna sölu á flugskýli nr. 4 hér á Reykjavíkurflugvelli, þannig að það er sýnilegt að þarna eru sannarlega nauðsynlegir fjármunir skornir við nögl og svo hefur lengi verið.

En varðandi Vestfirði og þau orð, sem hv. þm. Karvel pálmason hafði um það allt saman, þá er það nú svo, að venjulega er óhætt að sleppa úr a.m.k. annarri hvorri setningu og jafnvel miklu fleiri því að það er mest hávaði og sjálfumgleði sem á sér stað, þegar þessi hv. ræðumaður kemur hér í stólinn, og leiðindafullyrðingar, eins og t.d. þess efnis að yfirvöld og flugmálafólkið hafi verið afskiptalaust og áhugalaust um úrbætur til Vestfjarða í þessum efnum. Ef það er rétt, þá höfum við alltaf verið afskipta- og áhugalausir um flugmál á öllu landinu. Það er ekki hægt að gera allt í einu og það er í mörg horn að líta. Menn hafa sjálfsagt tekið eftir því, hvað voru nefndir hér margir flugvellir og þeir eru allir meira eða minna vanbúnir. Sannleikurinn er sá, að það er enginn flugvöllur á landinu með fullkomnum búnaði nema Keflavíkurflugvöllur. Reykjavíkurflugvöllur nálgast það mjög og eins Akureyri. Þar með búið. En það er sífellt verið að vinna að því að auka öryggið í fluginu, og öryggið í fluginu er ekki fengið með því að raða upp ljósum meðfram brautinni á Ísafirði. Flugmennirnir þurfa þó að finna Ísafjörð fyrst, og svo er heldur ekkert gagn að þessum brautarljósum í lendingu. Það gagn, sem getur orðið að brautarljósum á Ísafirði, er í flugtaki. Hins vegar þarf að koma upp aðflugshallaljósum á Ísafirði.

Ég vil segja það varðandi Vestfirði, að nú að undanförnu hafa verið veittar sæmilegar fjárhæðir til Vestfjarða í fluginu og þeir hafa ekki verið afskiptir miðað við aðra landshluta á þessu ári. Það er t.d. langt komið að koma upp hluta blindlendingarkerfis, svokölluðum localizer eða stefnuvita. Það er hluti af blindlendingarkerfinu. Það er þess konar radioviti sem sendir lóðrétt plan af geisla beint fram eftir miðlínu flugvallarins, en ef það á að vera fullkomið blindlendingarkerfi þá þarf annað plan, sem liggur í fleti og stefnir upp með 3° halla. Það er kallaður aðflugshallageisli á íslensku. Ég nenni nú ekki að fara að kenna þessum hv. þm. yfirleitt nokkurn skapaðan hlut. Ég hef ekki tíma til þess og allra síst hluti í sambandi við flugmál yfirleitt eða loftsiglingar. Það væri hins vegar velkomið að taka hann í tíma heima ef hann hefur áhuga. En aðalatriðið er að það þarf að bæta þarna marga hluti vissulega og er nú verið að ganga frá í Ögri þessum hluta blindflugskerfisins og öðrum hluta þar sem er um að ræða sjálfvirkan fjarlægðarmæli, sem kallað er, svo maður noti nú útlenskuna líka, DME. Næsta skrefið á Ísafirði að mínum dómi væri þá að setja upp svokölluð aðflugshallaljós. En brautarljós á Ísafirði koma að mjög litlu haldi að mínum dómi vegna þess að landið er nú bara svona í laginu og erfitt eins og margt fleira þarna fyrir vestan. Og það eru vissir hlutir, sem menn eru ábyggilega ekki mjög gráðugir í að mæta í myrkri, sem þarna eru vestur frá, eins og t.d. fjöll og kannske fleira, og það lagast ekkert þó að menn séu í litlum flugvélum, eins og hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir sagði áðan. Það er ekkert meira öryggi að fljúga í þeim þar sem aðflug er slæmt. Menn þurfa að vita hvert þeir eru að fara þó þeir séu í litilli flugvél, jafnvel þó að frúin tæki upp á því að fljúga bara alveg ein.

En ég er ekkert á móti því að athuga þetta betur, ég skal bjóðast til að taka þátt í því. En á eftir sjálfri till. kemur setning sem er kannske ekki alveg eins góð og hún gæti verið, enda ekki svo sem við því að búast, og það er nefnilega það, að það á að takmarka athugunina fyrst og fremst við það sem þessir hv. þm. hafa í huga, eins og þeir séu búnir að ákveða hvað þurfi að skoða og í hverju umbæturnar geti átt sér stað. Ef svo er, þá þarf ekkert að athuga. Ég held, að það sé sérfræðinganna að ákveða að hverju athugunin ætti fyrst og fremst að beinast og á hvaða sviðum úrbæturnar gætu helst komið að gagni, sem ég vonast til að sé nú aðalatriðið, en ekki bara auglýsa áhuga sinn á bættum samgöngum Vestfjarða.

Ýmislegt var það í máli þeirra hv. þm., sem kom hérna fram, sem lýsti mjög góðu hugarfari og góðum vilja, en því miður heldur lítilli þekkingu á ýmsum atriðum í þessum efnum, og það er ekkert óeðlilegt. Okkur vantar alla sjálfsagt þekkingu á mörgu því sem við eigum að fást við hér. En það er afar erfitt að koma við blindflugi í landslagi eins og er á Vestfjörðum, með þröngu aðflugi og stuttum, oft þröngum fjörðum með háum fjöllum í allar áttir. Það er bókstaflega ómögulegt að koma venjulegu blindflugi að við slík skilyrði, og þá þýðir ekkert að raða þar niður ljósum, ef menn finna ekki einu sinni fjörðinn, sem þeir ætla á, og geta ekki komist niður fyrir ský vegna þess að allt of miklar hindranir eru í vegi. Þetta er alvara málsins. En ég vil fullyrða það, að þeir, sem hafa verið að fást við þessi mál með allt of litla peninga á milli handanna undanfarin ár, hafa ekki gleymt Vestfjörðum, og ég vil enn fremur leyfa mér að fullyrða það, að menn hafa nú sérstakan áhuga á því að reyna að gera betur við Vestfirði heldur en gert hefur verið, því að það gera sér allir ljóst, að nauðsynlegt er fyrir þennan landshluta að hafa góðar samgöngur. Þetta er einn merkasti landshluti, sem við höfum, og afkastamesti og sá sem framleiðir einna mest, og þarna er auðvitað mjög merkilegt fólk, eins og mér ætti að vera manna kunnugast. Við höfum svo sannarlega ekki glatað áhuganum fyrir okkar ágætu fjörðum og leggjum áherslu á að gera það sem unnt er til þess að lagfæra þarna hlutina.

Þau atriði, sem þarna eru upp talin, eru fjögur.

Fyrsta atriðið varðar öryggistæki og lýsingu á ísafjarðarflugvelli.Lýsingin kemur varla tilgreina að mínum dómi, a.m.k. ekki fyrst í stað, nema þá aðflugshallaljós. Öryggistækin eru að komast í gang, þ.e.a.s. stefnuvitinn.

Um lið nr. 2 er það að segja, að það hefur ekki verið kannað um lengingu á brautinni um Holt í Önundarfirði og þeir á staðnum hafa sennilega ekki verið mjög bjartsýnir um að það væri alveg á næstu grösum, vegna þess að það er búið að leggja þarna volduga, háspennta raflinu við endann á vellinum. Það er að sjálfsögðu mjög auðvelt að klippa hana niður þegar þar að kemur. En þetta hefur ekki verið kannað og er sjálfsagt að fara út í það. Þessi lýsing kemur ekki neins staðar að gagni nema hægt sé að koma við blindlendingarkerfi, nema þá helst á Patreksfirði.

Það er ein till, athyglisverð. Að vísu held ég að það yrði nokkuð erfitt að framkvæma hana, en hún er framúrstefnuhugmynd eins og margar fleiri frá þessum hv. ágæta þm. Það er að lýsa Ísafjarðarkaupstað o,g flugvöllinn með einum og sama ljósgjafanum. Það vill svo til að Ísafjarðarkaupstaður er myndarlegur kaupstaður, en hann er bara á allt öðrum stað en flugvöllurinn. Það er nokkur leið frá kaupstaðnum og þarna suður eftir og yfir á flugvöllinn, og mikið þyrfti það að vera glansandi og góð pera þarna á milli sem næði því að lýsa kaupstaðinn allan og flugvöllinn á sömu stundu í þeirri fjarlægð sem henni yrði nauðsynlegt að ver a. En kannske verður þetta leyst með aukinni tækni og nægilegri orku, þegar Orkubú þeirra Vestfirðinga hefur skilað þeim árangri sem ætlast er nú til. En hugmyndin er góð. Hún hefur næstum engan galla nema þann að það sé ekki hægt að framkvæma hana. En hvað gerir það til, þegar menn þurfa að láta það heyrast að þeir hafi nú áhuga á að gera þetta og hitt fyrir Vestfirðinga til þess að verða síðan þm. þeirra.

En ég vil þó að lokum, eins og alltaf þegar við segjum eitthvað um flugmál, endurtaka það, að það er eiginlega ómögulegt að ætlast til þess að þeir, sem þurfa að skipta þessum fjármunum, geti leyst öll þau verkefni sem nauðsynleg eru um alla landsbyggðina, og notað til þess aðeins í ár 530 millj. kr. af nýju fé, 378 millj. í fyrra, í því ástandi — svo að maður segi nú ekki ljótt um efnahagsástandið og þróun þeirra mála hér í landinu, en það er öllum ljóst hvernig það hefur verið. Ég veit að menn vita ósköp vel hvernig þetta hefur verið og þá verða auðvitað peningarnir ósköp litlir og lítið hægt fyrir þá að gera. En ég vil leyfa mér að fullyrða það, að það er ekki rétt að við höfum ekki áhuga á Vestfjörðum. Við viljum örugglega reyna að bæta fyrst og fremst úr þar sem úrbótanna er helst þörf.