08.12.1977
Sameinað þing: 28. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

39. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Sú þáltill., sem hér liggur fyrir, er í upphafi mjög almennt orðuð og markmið hennar er að tryggja sem bestar og öruggastar flugsamgöngur við Vestfirði. Aftur á móti kemur á eftir upptalning á fjórum atriðum, og ég verð að lýsa yfir óánægju minni með þá þrengingu sem á sér stað með þeirri upptalningu. Ef verið er að biðja um fjármagn fyrir Vestfirði alla er ekki óeðlilegt að allir þeir flugvellir, sem þar eru, séu hafðir með, nema það sé fyrir fram gengið út frá því sem vísu að þeir flugvellir, sem hér er beðið um athugun á, séu hættulegustu flugvellirnir á Vestfjörðum. Þetta hlýtur að vera fyrsta spurningin sem höfð er í huga ef það eru öryggismálin sem eiga að vera nr. eitt.

Jafnframt tel ég að sú uppsetning á lið 2, þar sem látið er að því liggja að svo geti farið að það verði tveir varaflugvellir fyrir Ísafjarðarflug, er að mínu mati ekki í samræmi við það sem menn almennt hafa hugsað sér fyrir vestan. Þegar talað er um varavöll fyrir Ísafjarðarflug er fyrst og fremst verið að tala um varavöll fyrir Ísafjörð þegar vindur er að sunnan eða suðaustan og veður gott. Það þurfa ekki að vera nema nokkur vindstig af þessari átt til þess að ekki sé hægt að lenda á Ísafjarðarflugvelli fyrir þær flugvélar sem Flugfélag Íslands notar.

Nú liggur beint við að ætla að það sé eðlilegt að finna stæði fyrir einn flugvöll til að leysa af flug í þessari átt. Hér er því slegið föstu, að það komi ekki nema tveir möguleikar til greina: annars vegar Holt í Önundarfirði og hins vegar flugbrautin í Bolungarvík. Þetta tel ég allt of þröngt orðað, því að það liggur fyrir að sumir flugmenn telja að á Hvilftarströndinni sé e.t.v. besta stæðið fyrir varaflugvöll fyrir Ísafjörð. Ég hefði þess vegna talið eðlilegt að þetta orðalag yrði rýmkað svo að mætti skoða það á breiðari grundvelli, hvar varaflugvöllur fyrir Ísafjörð ætti að vera. Jafnframt hefði ég talið eðlilegt að þessir fjórir liðir yrðu ekki hafðir það afmarkaðir, að þeir flugveilir fyrir vestan, sem sennilega eru hættulegastir í dag, það er flugvöllurinn í Súgandafirði og það er flugvöllurinn við Bíldudal, geti ekki einnig komið inn á þetta plan.

Ég verð að segja það, að í þeim umr., sem áttu sér stað áðan, varð ég fyrir vonbrigðum með þann málflutning sem hv. 5. þm. Suðurl. viðhafði. Ég varð sérstaklega fyrir vonbrigðum með þann málflutning þegar hann vék að þeim þætti í málflutningi hv. 9. landsk. þm., að það þyrfti að athuga með aðrar flugvélategundir. Ég vil spyrja þennan hv. flugráðsmann að því: Hvaðan koma rökin fyrir því að það þurfi að byggja á Íslandi 1200 m flugbrautir þegar í Noregi er innanlandsflug framkvæmt með flugvélum sem taka jafnmarga farþega en þurfa 600 m langar brautir? Ég tel að í þeim fjárhagsvandræðum, sem við erum nú löngum í Íslendingar, sé það ekkert einkamál hjá Flugfélaginu hvaða tegund af flugvélum er notuð. Að mínu viti á flugráð að skoða það mjög ákveðið, hvort í dag eru notaðar hér innanlands þær flugvélategundir sem eru heppilegastar til þess að halda uppi viðunandi farþegaflugi.