08.12.1977
Sameinað þing: 28. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

39. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Þetta er nú farið að verða býsna langt og það var ekki ætlun mín að halda hér langa ræðu, enda ástæðulaust. Þeir hv. þm., sem hafa tekið til máls eftir að ég sagði hér nokkur orð fyrr í umr., hafa að undanskildum að sjálfsögðu hv. þm. Karvel Pálmasyni talað mjög skynsamlega um málið og fjallað um það efnislega og lagt áherslu á staðreyndir og lagt enn meiri áherslu á að það þurfi að gera allt sem unnt er til að tryggja flugsamgöngur í þessum landshluta, eins og hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði orðrétt.

Viss misskilningur hefur orðið hjá mönnum í ýmsum atriðum, og vil ég þá fyrst víkja að misskilningi hv. 2. þm. Vestf., Ólafs Þórðarsonar. Ég minntist alls ekki á lengd flugbrauta í mínu máli, og það var ekki það sem ég var að tala um í sambandi við mismunandi flugvélastærð, heldur hafði hv, þm. Sigurlaug Bjarnadóttir sagt að það þyrfti að athuga um aðflugsskilyrði mismunandi stærða flugvéla. Það eru sömu aðflugsskilyrði fyrir þessar flugvélastærðir, en það eru hins vegar önnur skilyrði sem gerð eru til lengdar flugbrauta, og það er auðvitað alveg sjálfsagt að nota flugvélar sem þurfa styttri brautir, svo kallaðar STOL-vélar, eins og þegar eru í notkun hér á Íslandi, eins og Twin Otter vélar og Britten Norman Islander vélar, sem Vængir hafa á sínum snærum. Þær þurfa afar stuttar brautir og fyrir þær þarf auðvitað ekki eins voldug flugvallarmannvirki. En þessar vélar þurfa auðvitað að sæta sömu reglum hvað varðar öll aðflugsskilyrði, og það var það sem var rætt um. Ég vil aðeins leiðrétta þetta hjá hv. þm. Þetta hefur auðvitað verið misskilningur.

Mér þykir leitt að hv. þm. Karvel Pálmason hefur misskilið margt í mínu máli, ekki einu sinni heyrt meginatriðin í því sem ég sagði. Ég er ekki að gera því skóna að hann hafi ekki alla burði til þess að skilja venjulegt mælt mál, en það hafi aðeins farið fram hjá honum og sjálfsagt að leiðrétta það í örfáum orðum. Mér er það bæði ljúft og skylt að leiða hv. þm. út úr hans villu í þessum efnum.

Ég vil fyrst taka það fram, að hann virðist alls ekki hafa heyrt það, þegar ég byrjaði á því að lýsa yfir stuðningi mínum við till. Sjálfsagt er að athuga þessi mál vel, og það verður auðvitað gert af þeim sérfræðingum sem við eigum varðandi þennan málaflokk. Það verður ekki gert af þeim, sem sitja í flugráði, heldur verður það gert af sérfræðingum sem við höfum til þess, Hann fullyrti hins vegar hið gagnstæða, að ég hefði ólmast hér á móti till. efnislega. Það er auðvitað alrangt. Ég lagði hins vegar áherslu á að það þyrfti að athuga þá þætti sem hugsanlega gætu komið best að gagni, og ekki kannske eingöngu þá sem bent er á í þeirri till. sem um er verið að ræða. Það var nú allt og sumt um það atriði.

Hv, þm. Karvel Pálmason var að segja að þetta lýsti ekki ábyrgðartilfinningu. Ég hefði talað hér í gamansömum tón og ekki af þeirri alvöru sem hæfði svari við hans ræðu. Nú er það hans mat að sjálfsögðu og hans eins að allt beri að taka alvarlega sem hann segir. En ég er ekki víss um að sama álit sé hjá öðrum hv. þm. hvað það snertir. Það getur verið, að ég hafi ekki verið nógu ábyrgðarfullur í framan, og það er ekki mín sök þó að mér hafi ekki tekist að vera eins þrautleiðinlegur og hv, þm. Karvel Pálmason er vanur að vera hér í stólnum.

Það var önnur missögn í ræðu hv. þm., þar sem hann fullyrðir að ég hafi sagt að þetta væri allt saman heildarmál, þannig að ekki mætti taka neitt sérstakt út úr. Þetta sagði ég aldrei. Það er alltaf reynt að raða málum í forgangsröð miðað við það fjármagn sem fyrir hendi er, og síðan er fjármagnið skorið niður og aftur niður frá því sem okkur er gefið undir fótinn með að hugsanlegt sé að fá til framkvæmdaáætlunar, og þá endar þetta venjulegast með því að fátt stendur eftir af því sem menn hefðu haft vilja til að gera. Eins og ástandið er núna, þá er auðvitað nauðsynlegt, eins og ég tók fram í ræðu minni og lagði þunga og alvarlega áherslu á, að stefna fyrst og fremst að úrbótum þar sem þeirra væri mest þörf. En það var ekki hægt að byrja á því að taka erfiðustu staðina út úr. Það væri ekki hægt að byrja á því í íslenskum flugmálum að leysa vandamál t.d. Þórshafnar, Raufarhafnar, Önundarfjarðar, Siglufjarðar og þessara staða. Það er nauðsynlegt að gera það núna. En ef hefði verið byrjað á þessum minnstu og erfiðustu stöðum,þá hefðu engir flutningar verið til þess að halda uppi flugsamgöngum í landinu til þess að byggja upp flugið. Það varð að byrja fyrst að hafa þá staði flugfæra og lendingarhæfa sem gáfu hámarksfarþegafjölda.

Á því varð að byrja í upphafi flugsins að hugsa um þá staði sem mest var flogið til. Ef það hefði ekki verið gert, þá hefðum við ekkert flug. Nú er hins vegar svo komið, sem betur fer, að þeir staðir, þar sem mest umferð er, hafa flestir verið sæmilega tryggðir. Það eru Reykjavík og Akureyri og að talsverðum hluta Egilsstaðir og Vestmannaeyjar. En úti á landi eru þeir staðir, sem skera sig alveg úr með flugumferð á árinu, Akureyri og Vestmannaeyjar. Hlutur Vestmannaeyja hefur farið yfir 50 og líklega nálægt 60 þús, yfir árið þegar mest var, og auðvitað er flug ekki tryggt þar enn þá. Við vitum að veðurskilyrði eru þannig þar, að flug verður aldrei hægt að tryggja til fullnustu. Hins vegar hefur verið tryggð samgöngubót með öðrum hætti, sem kemur þá í staðinn sem betur fer. Í gegnum árin hafa fallið úr um og yfir 90 flugdagar á ári, þ.e.a.s. fjórði hver dagur að jafnaði. Og þeir dagar raða sér ekki jafnt þannig að það sé auðvelt að reikna með fjórða hverjum degi og gera þá áætlun samkv. því. Þeir dagar koma auðvitað þegar veður er verst að vetrarlagi og eru oft margir þétt saman, þannig að ég þekki af eigin reynslu og við Vestmanneyingar hvernig það er að búa við mjög hæpnar samgöngur. Þess vegna er mér mjög vel ljóst hversu nauðsynlegar tryggar samgöngur eru, og vil þess vegna leggja áherslu á það, að ég mun reyna að stuðla að því, eftir því sem ég get, þann tíma sem ég á eftir að vera í þessu ráði, að flugsamgöngur verði bættar við Vestfirði að svo miklu leyti sem kostur er á. En þannig hagar nú til á Vestfjörðum, eins og ég gat um áður, landslagi er þannig háttað, að þar verður aldrei hægt að ganga eins vel og tryggilega frá þessu og æskilegt er. Það er sjálfsagt að reyna það til hins ýtrasta. Hv. þm. Karvel Pálmason segir það hér alveg blákalt og án þess að blikna eða blána í stólnum og næstum því öskrar það yfir hv. deild, að í mínu máli hafi það falist að láta bara athuga eitthvað, bara gera eitthvað. Það eru nægilega margar till. komnar fram í Sþ. sem eru um það að athuga bara eitthvað, gera bara eitthvað, eins og t.d. í sambandi við kosningalögin, stofna bara n. til þess að gera bara eitthvað, til þess að vera lýðræðislegur í framan. Og mér er nær að halda að sumt af því, sem hér hefur verið sagt, eins og að lýsa upp Ísafjarðarkaupstað og flugvöllinn samtímis, og allur hávaðinn í sambandi við það mál sé ekki til þess að orðræður slíkra manna séu traustvekjandi. Menn verða að halda sig innan ramma sæmilegrar skynsemi þó að þeir séu ákafir kjördæmismenn.

Herra forseti. Ég harma það að hv. þm. Karvel Pálmason skuli í enn fleiri atriðum hafa farið rangt með. Hann fullyrðir það og hefur það eftir mér, að ég hafi sagt að ég væri ánægður með það, sem Vestfirðingar hafa fengið, og ég hefði víst sagt, að Vestfirðingar hefðu nú fengið nóg, og væri ósköp kátur yfir. Þetta er auðvitað alrangt líka. Þetta er að sjálfsögðu alveg alrangt. Ég er alls ekki ánægður með það, sem Vestfirðingar hafa fengið, og vildi gjarnan, að þeir gætu fengið miklu meira. Og ég vil leyfa mér að vona, að þeir fái enn meira en gert er ráð fyrir í fjári., og hef jafnvel vonir til þess að svo geti orðið.

Meginmisskilningurinn í öllum þessum hamagangi hv, þm. Karvels Pálmasonar er fólginn í því að segja að það, sem ég sagði í málinu, hefði ekki verið því til framdráttar, Það er meginmisskilningurinn. Allt það, sem ég sagði í þessu efni, var jákvætt með tilliti til flugsamgangna við Vestfirði. Þess vegna hefði hv. þm. Kjartan Ólafsson getað tekið þar undir hvert einasta orð. Hann talaði hins vegar rembingslaust um málið og gerði sér grein fyrir staðreyndum, hélt sig við þær. Það eru menn, sem tala þannig, sem í mínum augum eru meira traustvekjandi og líklegri til þess að öðlast traust hv. kjósenda á Vestfjörðum til þess að fara með þeirra umboð hér á hinu háa Alþ. heldur en þeir sem gaspra og misskilja, rangfæra og hafa vitlaust eftir.

Hv, þm, talar um það, að ekkert hafi verið kannað í þessu efni. Það er auðvitað líka vitleysa, það þarf auðvitað ekki að taka það fram. Vissulega hafa sumir af þeim þáttum, sem nefndir eru í till., verið rannsakaðir, og það eru auðvitað til um það opinber plögg og teikningar. En þeim kann ég ekki að lýsa hér. Hitt er svo annað mál, að áhrif lengingar flugbrauta í Holti í Önundarfirði hafa ekki verið kannaðar, enda sagði ég frá þeirri staðreynd áðan. Það misskildi hv. þm. Karvel Pálmason líka.

Lengri þarf þessi lestur ekki að vera. Ég vil að lokum leggja á það áherslu, að menn átti sig á því, í hverjum vanda þeir eru staddir sem skipta þurfa mjög takmörkuðu fjármagni í risastór verkefni, og það hefur verið reynt núna að undanförnu, eftir að meginþunginn hefur verið lagður á að búa ýmsa illa stadda flugvelli tækjum: blindflugstækjum, aðflugstækjum. Slíkt tæki er að komast í samband á Ísafirði með mjög góðum aukabúnaði, upp á marga tugi millj. Sama hefur verið gert á Sauðárkróki fyrir stuttu og væntanlegt að það verði gert á Húsavík eða Aðaldalsflugvelli á næsta ári. Það er einmitt horft til þeirra staða þar sem lendingarskilyrði eru hvað verst vegna veðráttu og annarra aðstæðna, og ég vona sannarlega, að jafnvel hv, þm. Karvel Pálmason skilji það, að það er ekki anað bilinu áfram í þessum efnum. En þeir fjármunir, sem til þessara verka eru skammtaðir, eru það litlir, að því miður kemst allt of lítið áfram.