08.12.1977
Sameinað þing: 28. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

80. mál, járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Þannig er mál með vexti, að ég er að hverfa af þingi, og þ.ess vegna hef ég farið fram á það við forseta að hann tæki þetta mál fyrir núna, þó að röðin sé að vísu ekki komin að því samkvæmt dagskránni, og gæfi mér þannig tækifæri til að tala fyrir till. Ég hef svo á móti heitið honum því að reyna að vera stuttorður, vænti þess að mér takist það, þó að ég hafi að vísu ekki hér í dag lært mikið í þeirri kúnst við að hlusta á þær ræður sem hér hafa verið fluttar.

till., sem hér er til umr., hljóðar svo: „Alþ. ályktar að kjósa 7 manna n. til að kanna rekstrarhorfur járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Verði störfum n. hraðað sem mest má verða. Leiði könnun í ljós að fyrirsjáanlegt tap verði af fyrirtæki þessu skulu framkvæmdir á Grundartanga stöðvaðar tafarlaust og leitað skynsamlegra ráða til að hagnýta aðstöðuna þar“

Flm. eru með mér aðrir tveir hv. þm. Alþb., Stefán Jónsson og Lúðvík Jósepsson.

Það er, hygg ég, öllum mönnum ljóst, hvers vegna við flytjum þessa till. Hér er þinglega að verki staðið. Það er lagt til, að Alþ. kjósi n, til þess að kanna rekstrarhorfurnar, og tekið fram í till., að ef könnunin leiði í ljós fyrirsjáanlegt tap, þá skuli framkvæmdir stöðvaðar á Grundartanga.

Staðreyndir liggja hins vegar nú þegar fyrir um það, að það verður tap á þessari verksmiðju. Og nú mun ég í sem allra stystu máli gera grein fyrir þeim staðreyndum. Ég mun m.ö.o. sleppa ýmsum öðrum þáttum þessa máls, enda hafa þegar verið miklar umr. um þetta mál. Það hefur komið hér fyrir í tveimur köflum, getum við sagt, tveimur löngum köflum. Fyrri kaflinn var sá sem fjallaði um samskipti íslenska ríkisins við Union Carbide í sambandi við fyrirhugaða verksmiðju þar efra og síðan norska fyrirtækið Elkem-Spigerverket. Í þessum umr, ræddum við Alþb: menn mjög ítarlega mengunarhættu og röskun mannlífs og fleiri slíka þætti þessa máls. Ég mun ekki að þessu sinni fjölyrða um það.

Þó vil ég minna á nokkur atriði sem snerta framkomu stjórnvalda í þessu máli. Það varð mjög snemma ljóst, að almenningur þar efra var því andvígur að þessi verksmiðja yrði reist. Það sýndi t.d. frægur fundur, haldinn fyrir 3 árum á Leirá, þar sem segja má að forsvarsmenn þessarar verksmiðju og þar með taldir ráðh., seðlabankastjórar og annað slíkt fólk hafi verið tekið heldur betur í karphúsið hjá heimamönnum. Viðvörunum, sem þessir menn fengu þar, var ekki sinnt. Og um vorið eftir voru samþykkt lögin um verksmiðjuna í samstarfi við Union Carbide, framkvæmdir hafnar, og sumarið 1975 stóðu þessar framkvæmdir og með þeim hætti að segja má að forustumenn Járnblendifélagsins og verktakar þeirra hafi vaðið forina allt það sumar fram og aftur bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu þess orðs. Má nefna mörg dæmi um það. Framkoman gagnvert því fólki, sem þarna vann, var með endemum. Það óð allt út á þessu rigningasumri, skemmdir miklar unnar á náttúru o.s.frv., og meira að segja voru reistar skorður við ferðafrelsi heimamanna um héraðið. Nei, ég mun ekki dvelja við þetta, ekki heldur hitt, hvernig brugðist var við tilmælum fólks þar efra um að það fengi að segja álit sitt á þessu máli. Hvað eftir annað bárust tilmæli um það, að málið yrði rætt við heimamenn, tilmæli ofan úr sveitunum sunnan Skarðsheiðar, og ég tók undir þessi tilmæli hér á Alþ. hvað eftir annað. Aðrir þm. Vesturlandskjördæmis tóku ekki undir þessi tilmæli, þrjóskuðust við í lengstu lög. Síðan kom áskorun þar ofan að, að haldinn yrði fundur, formleg áskorun, sem þeir neyddust til að verða við. Og það var haldinn fundur á Leirá, í Félagsheimilinu Heiðarborg, 1. maí í vor, þar sem samþykkt var ályktun þess efnis, að fundurinn skoraði á ríkisstj. að hlutast til um það, að fram færi almenn, leynileg atkvæðagreiðsla meðal fólks í nágrannasveitum Grundartanga, þar sem könnuð yrði afstaða þessa fólks til verksmiðjunnar, og á öðrum stað í ályktuninni sagði, að fundurinn beindi þeim tilmælum til þm. kjördæmisins að þeir ynnu að því að samþykkt þessi næði fram að ganga. Það var eins og fyrri daginn, að aðrir þm, en ég og þm. Alþb. létu þetta sem vind um eyru þjóta, því miður. Urðu um þetta langar umr., eins og menn muna. Nú, en sleppum þessu og snúum okkur að því sem þessi till. fjallar um, en það eru rekstrarhorfur þessarar verksmiðju, markaðshorfurnar.

Í vor, áður en lögin um járnblendiverksmiðjuna í samstarfi við Elkem-Spigerverket voru samþykkt, lögðu tveir fræðimenn, Ásmundur Ásmundsson og Elías Davíðsson, Ásmundur er verkfræðingur og Elías kerfisfræðingur, þeir lögðu fram skýrslu sem hét Járnblendiverksmiðjan, vafasamt fyrirtæki“ — og gerðu þar grein fyrir framtíðarhorfum þessarar verksmiðju, sýndu fram á að þróun verðlags viðkomandi hráefnis og aðrir þættir þessa máls bentu allir til þess, að það yrði mikilli taprekstur á þessari verksmiðju. Í umr., eins og menn muna, hér á hinu háa Alþ. hafði líka komið fram að samkv. niðurstöðu Þjóðhagsstofnunar hefði verið tap á verksmiðjunni, ef hún hefði verið komin í gang 1976, tap upp á 850 millj. kr.

Í umr. hér á Alþ. 7. febr. í fyrravetur vitnaði hæstv, iðnrh. í tímariti sem nefnist Metal Bulletin, og það átti að vera til marks um góðar horfur eða sæmilegar horfur í markaðsmálum járnblendiverksmiðjunnar, að sérfræðingar þeir, sem málið hafði verið sérstaklega borið undir, töldu, eins og komist er að orði, „að rannsóknir gæfu tiltölulega jákvæða mynd af markaðshorfum.“ Ég minni á þetta vegna þess, að frá þessu sama fyrirtæki hafa nú fyrir skömmu komið upplýsingar sem sanna allt annað.

2. sept. s.l. birtist í þessu tímariti, Metal Bulletin, þessari mjög svo þýðingarmiklu heimild sem hæstv, iðnrh. hefur áður vitnað í, svo hljóðandi frétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Kísiljárnsverksmiðja Íslenska járnblendifélagsins, sem framleiðir um 50 þús. tonn á ári, mun njóta mun hagstæðari kjara en flestar aðrar verksmiðjur, að því er nýlega var upplýst. Orkan fæst þar á sem svarar aðeins 350 norskar kr. á hvert tonn af kísiljárni, en til samanburðar er orkuverðið 1800 norskar kr. á hvert tonn af kísiljárni í Japan. Verksmiðja þessi, sem nú rís að Grundartanga í grennd við Reykjavík, er sameiginleg eigu íslenska ríkisins og hins nýstofnaða norræna fjárfestingarbanka.“ Þarna er að vísu um misskilning að ræða eins og menn vita. Það er Fjárfestingarbankinn sem veitir lánið, sem er að upphæð 50 millj. dollara. Svo er haft eftir bankastjóranum. — (Gripið fram í.) Já, ég heyri, að það er tautað hérna úti í horni: „Það gæti fleira verið misskilningur í þessari frétt.“ — Ég er þegar búinn að vitna til þess, að hæstv. iðnrh. hefur vitnað til þessarar heimildar sem mjög áreiðanlegrar varðandi markaðshorfur á járnblendi, og ef hv. þm. Oddur Ólafsson telur ástæðu til þess að vefengja þessa frétt, þá er hann líka að vefengja sinn ráðh. Ég hef enga ástæðu til þess að efast um að hægt sé að reiða sig á niðurstöður þessara aðila. — Og svo er haldið áfram:

„Bankastjórinn, Bert Lindström, sagði að verksmiðjan væri gott dæmi um það, hvernig sérstök náttúruskilyrði yrðu hagnýtt til þess að koma á lífvænlegum iðnaði.“ — innan sviga segir svo ritstjóri þessa tímarits: „Alþjóðlegi kísiliðnaðurinn er samt í þvílíkri óreiðu, eins og sakir standa, og svo ólíklegt að úr rætist fljótlega, að eitthvað meira en hagstæð náttúruskilyrði þarf til þess að gera þennan iðnað lífvænlegan á næstu árum.“

Það hafa fleiri verið leiddir til vitnis nýlega í þessu sambandi. Í Vísi 5. des. s.l. birtist grein eftir Stefán Þorsteinsson sem býr í Ólafsvík. Hann er garðyrkjumaður, vel kunnur í Noregi, hefur mikið samband við ýmsa kunningja sína þar og þ. á m. blaðamenn, og hann byggir þessa grein á upplýsingum sem frá þeim eru komnar. Ég ætla að vitna í þessa grein, með leyfi hæstv. forseta:

„Við verðum að skera niður stálframleiðsluna, segir Bjartmar Gjerde, iðnmrh. Noregs, í Dagblaðinu í Osló 10. nóv. s.l. Hún gleypir ótaldar millj. kr., þessi vonlausa hít, bætir hann við. Og enn fremur leggur ráðh. áherslu á að birgðir hrannist upp, eftirspurnin sé á þrotum, — og um ófyrirsjáanlega framtíð sé vart raunhæft að gera sér vonir um neitt það sem geti bent til aukinnar eftirspurnar á þessari framleiðslu. Hann gerir nokkra grein fyrir þeim miklu fjármunum sem norska ríkisstj. hafi ekki komist hjá að veita til að styrkja rekstrargrundvöll þessara fyrirtækja í Noregi. Lengra geti norska stjórnin ekki gengið og nú verði Stórþingið að taka við, en fram undan sé einungis um björgunarstarf að ræða, að sínu mati.“

Það er verið að vitna í iðnmrh. Noregs.

„Og það er ekki bara norska ríkisstj. sem neyðist til að grípa til opinberra ráðstafana fólkinu til hjálpar sem að stáliðnaðinum starfar. Hægri stjórn Thorbjörns Fálldins í Svíþjóð hefur ekki heldur komist hjá því að grípa til þess óyndisúrræðis að beita hér opinberum neyðarráðstöfunum, svo að ekki sé fastar að orði kveðið.“

Og ég held áfram að vitna í þessa grein: „Nefndar eru stál- og járnblendiverksmiðjur sem um áratugi hafa skilað prýðilegum arði og jafnvel verið bjargvættir heilla byggðarlaga, en segi nú stöðugt upp starfsfólkinu og séu sem östarfhæfar.“

Og enn segir: „Við þorum ekki að hugsa fram í tímann, segja þeir hjá Stavanger Stál“ — en það mun vera ein af stærstu verksmiðjunum af þessu tagi, — „þar sem vinna í dag 800 manns. Án ríkisstyrks, sem hlýtur eins og nú er komið að verða að mynda rekstrargrundvöllinn, er verksmiðjan óstarfhæf. Verkamennirnir og starfsfólkið yfirleitt sér einungis fram á atvinnuleysi. ... Og þannig er ástandið víðs vegar á athafnasvæðum stál- og járnblendiveranna í Noregi, má m.a. lesa í Dagblaðinu í Osló 12. nóv. s.l. Verkafólkið er heltekið vonleysinu og þorir ekki að hugsa til þess sem framtíðin ber í skauti sínu. Iðnmrh. landsins, Bjartmar Gjerde, segir: „Nú verður Stórþingið að taka við og ráða fram úr vanda þessa fólks sem stáliðnaðurinn er að setja út á kaldan klakann. Ríkisstj. getur ekki gengið lengra.“ Ýmsar óhugnanlegar tölur lætur ráðh. hafa eftir sér því til staðfestingar að járnblendiiðnaðurinn í Noregi sé þegar kominn á heljarþröm og engar horfur á því, að úr muni rætast á næstunni.“

Ég hét hæstv. forseta því að vera stuttorður, svo að ég mun ekki bæta miklu við þetta. Þó vil ég minna á það, að fyrir rúmlega hálfu ári, þegar Alþ. samþykkti lögin um járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, lagði ríkisstj. fram rekstraráætlun fyrir verksmiðjuna og þar var gert ráð fyrir að söluverðið á kísiljárninu, sem verksmiðjan á að framleiða, yrði 3405 norskar kr. á tonn á næsta ári. Miðað við þetta verð taldi ríkisstj. að hægt væri að hafa nokkurn hagnað af rekstri verksmiðjunnar, og þó því aðeins að hún fengi orkuna á langtum lægra verði en almennt gerist. En fyrir tilmæli fulltrúa Alþb. í iðnn. var farið þess á leit við Þjóðhagsstofnun að hún kannaði þessi mál, og þrátt fyrir það að ekki gengi vel að fá þar upplýsingar kom í ljós að tapið mundi hafa orðið 850 millj. kr. árið 1976. Þessir útreikningar sýndu að verðið á kísiljárni hefði ekki verið 3405 norskar kr. 1976, það hafði verið 2388 norskar kr., og að miðað við raunverulegt verð ársins 1976 á kísiljárni, þá var að sjálfsögðu ekki við að búast neinum hagnaði heldur bullandi tapi. En talsmenn ríkisstj. lýstu því hins vegar yfir hver á fætur öðrum, að þótt verð á kísiljárni hafi verið 2388 norskar kr. á árinu 1976, þá yrði það örugglega komið upp í 3405 norskar kr. á árinu 1978 og þess vegna væri allt tal um yfirvofandi tap á verksmiðjunni ekkert annað en venjulegt kommúnistaraus og þar fram eftir götunum. Og þm. Alþfl, tóku undir þetta heldur betur, því að þeir samþykktu athugasemdalaust frv. um járnblendiverksmiðjuna.

Eins og mönnum er kunnugt, er járnblendiverksmiðjan á Grundartanga, þar sem horfurnar eru svona með framleiðsluna, langsamlega fjárfrekasta framkvæmdin sem nú er unnið að á Íslandi. Framkvæmdum er haldið áfram af fullum krafti og heildarkostnaður við byggingu iðjuversins og mannvirkja, sem því tilheyra, verður a.m.k. 20–30 milljarðar ísl. kr. eða svona á við 2–3 Kröfluvirkjanir, sem mikið er nú býsnast yfir.

Ég get ekki stillt mig um að skjóta hér inn athugasemd, af því að ég minntist áðan á afstöðu Alþfl. til þessara mála. Hann samþykkti einn flokka frv. um járnblendiverksmiðjuna alveg athugasemdalaust. Þm, stjórnarflokkanna gerðu ýmsir fyrirvara fyrir atkv. sínum og tveir þm. Framsfl. greiddu harðir og ákveðnir atkv. gegn frv. um Grundartangaverksmiðjuna. En þm. Alþfl. skipuðu sér athugasemdalaust allir til stuðnings við það mál. En í siðvæðingu þeirri og siðabót, sem þeir hafa beitt sér fyrir undanfarið og bent réttilega á mörg hneykslismálin, þá hafa þeir alveg látið hjá líða að minnast á Grundartangaverksmiðjuna.

Útreikningar í dag benda allir til þess, að halli á verksmiðjunni væri nú a.m.k. einn milljarður, 1000 millj, kr. Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir því, að öll fjárfesting í nýju íbúðarhúsnæði verði yfir landið í heild um 22 milljarðar 400 millj. kr, á árinu 1977. Það er álíka upphæð og sá sem verið er að sökkva í fenið á Grundartanga.

En hvað segja þá þeir sem bera ábyrgð á þessu fyrirtæki? Það var stutt viðtal við forstjóra Grundartangaverksmiðjunnar í Dagblaðinu 15. nóv. Dagblaðið hringdi í forstjóra Járnblendifélagsins í tilefni af þeirri skýrslu frá þeim Ásmundi Ásmundssyni og Elíasi Davíðssyni sem fylgir sem grg. með þessari till. okkar Alþb: manna. Og í fyrirsögn segir eftir forstjóra Járnblendifélagsins: „Ekki spurning um hvort, heldur hvenær markaðsmálin verða viðunandi.“ Nánar segir svo í fréttinni eftir forstjóra Járnblendifélagsins:

„Hvað sem um markaðsmálin má segja nú eru sérfræðingar sammála um að það sé ekki spurning um hvort markaðurinn verður viðunandi, heldur hvenær það gerist.“

Hvenær mun það gerast, að við hættum að tapa einum milljarði á ári á verksmiðjunni? Mundi það gerast eftir 10 ár? Eftir 20 ár? Forstjóri Járnblendifélagsins fjallar ekki nánar um þetta atriði, en hann segist vera á förum til útlanda og kveðst ekki vera nægilega kunnugur orðinn þessum málum til þess að geta rætt þau opinberlega. En síðan bætir hann við orðrétt: „En náin samvinna verður höfð við fjölmiðla um málefni verksmiðjunnar.“ Og hann segir að hann muni skýra frá gangi málsins fljótt eftir heimkomuna.“

„Náin samvinna við fjölmiðla.“ Það er ekki langt síðan spurt var hér á Alþ. um það, hvað þessi tiltekni maður, forstjóri Járnblendifélagsins, hefði í laun. Það var ekki nokkur leið að fá að vita það. Það var ekki nóg með að það vantaði samvinnu við fjölmiðla í því tilfelli, heldur vantaði líka samvinnu við viðkomandi ráðh. Hvorki fjmrh. né iðnrh. gat svarað þessari spurningu. En þarna eru gefin fyrirheit um nána samvinnu við fjölmiðla. Og fullyrt er, að það sé ekki spurning um hvort, „heldur hvenær markaðurinn verður viðunandi“. Ætti maður fái þá ekki einhvern tíma það svar varðandi laun þessa forstjóra, að það sé ekki spurning um „hvort, heldur hvenær þau verði viðunandi“. Hann heitir því, að fljótt eftir að hann komi heim muni hann láta fjölmiðla vita um stöðu þessa máls. Ég bað eina símastúlkuna okkar í morgun að afla upplýsinga um það, hvar forstjóri Járnblendifélagsins væri staddur og „Jón er kominn heim“. Það var að vísu ekki alveg ljóst hvenær hann hefði komið. Stúlkan innti eftir því, fékk það svar, að viðkomandi myndi ekki hvort það hefði verið s.l. fimmtudag eða fimmtudaginn fyrir hálfum mánuði. Það er ekki alveg ljóst reyndar, hvort þessar upplýsingar koma frá einhverjum millilið sem veit ekki hvort forstjórinn er búinn að vera hér í eina viku eða tvær eftir reisu sina til útlanda, eða hvort það er hann sjálfur, sem gerir sér þetta ekki fyllilega ljóst. En maður verður þó að vona að þær upplýsingar, sem hann veitir fjölmiðlum, sbr. fyrirheitið sem hann gefur í viðtalinu við Dagblaðið, — þær upplýsingar verði ljósari en þær sem okkar ágæta símastúlka, Bryndís, fékk í morgun þegar hún hringdi í skrifstofu Járnblendifélagsins.

Ég þakka forseta fyrir að gefa mér þetta tækifæri til þess að komast hér að, manni er úr öðru kjördæmi en Vestfjarðakjördæmi. Ég legg til að máli þessu verði vísað — ekki til allshn., eins og menn búast kannske við, heldur til fjvn. Ég tel að þetta mál heyri undir fjvn., henni beri að fjalla um mál af þessu tagi.