09.12.1977
Sameinað þing: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

67. mál, atvinnumöguleikar ungs fólks

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að taka mjög eindregið undir þessa till. og vekja á henni athygli.

Við Íslendingar höfum að heita má einir þjóða í norðvestanverðri og vestanverðri Evrópu haft lítið af atvinnuleysi að segja síðustu árin og fram til þessa dags. Okkur hefur hætt dálítið til að ljá því ekki eyra þegar nágrannar okkar ræða um atvinnuleysisvandamál sín. Ég tel að þetta sé misráðið hjá okkur og við verðum að gera ráð fyrir að þessi vandi geti aukist hér á landi á ýmsan hátt. Þess vegna eigum við að gera okkur grein fyrir hverju því sem við getum gert til þess að draga úr atvinnuleysi.

Meginhættuna á atvinnuleysi tel ég vera staðbundið atvinnuleysi. Það kemur fyrir á einstökum stöðum, og þeir geta allt að því lamast um tíma, eins og Raufarhöfn og Stokkseyri þessa dagana. Verðum við að taka það til nákvæmrar athugunar og reyna að koma í veg fyrir það. Í öðru lagi tel ég að hætta sé á því, að þessi till. fjallar um, að það geti orðið atvinnuleysi hjá nokkrum hópum ungs fólks og það atvinnuleysi stafað af þeim ástæðum, sem till. gerir grein fyrir, að ekki er eðlilegt samræmi á milli skólakerfis og vinnuaflsþarfar. Það er vissulega ástæða til að reyna að haga svo menntun íslenskra ungmenna að þau eigi sem allra flest og helst öll framtíðartækifæri til að vinna hér á landi fyrir lífvænleg laun á þeim sviðum þar sem þau hafa menntað sig. Ég hygg að athugun á vinnuaflsþörf með tilliti til þessa, sem till. fer fram á, gæti verið gagnleg ef til hennar væri vandað og síðan væri tryggt, að skólaæskunni væru kynntar niðurstöður. Þetta er ekki athugun sem dygði að gera einu sinni, heldur þyrfti hún að vera í því formi, að hún væri endurtekin með vissu millibili, vegna þess hve vinnuaflsþörf atvinnuveganna getur verið breytileg, t.d. nýjar greinar komið til.

Ég vil hins vegar benda á að ekki er einhlítt að ræða mál þetta í sambandi við skólagengið æskufólk. Við megum ekki gleyma því, að það er mismunandi hve langt á skólabrautinni unga fólkið fer, ýmist vegna vilja eða getu eða annarra aðstæðna. Það er jafnvel enn meiri hætta á að þau ungmenni, sem öðlast ekki nema lágmarksmenntun, eigi erfitt með að finna viðunandi atvinnu eða að þau falli niður í láglaunahópana og uni því illa strax frá byrjun þjóðfélaginu og þeim aðbúnaði sem það veitir þeim. Ég vil því leggja ríka áherslu á að varðandi atvinnuleysi ungmenna verði að hugsa um flokka með mismunandi mikla skólagöngu og ekki aðeins þá sem hafa sérhæft sig hver á sínu sviði.

Í nágrannalöndum okkar, þar sem barist er við atvinnuleysi, hafa menn yfirleitt komist að þeirri niðurstöðu, að það sé engin almenn hagstjórnarleið til að hindra það. Einu sinni var talið eftir hugmyndum Keynes og fylgismanna hans, að ríkisvaldið gæti með því ýmist að herða á peningadælunum eða hægja á þeim, ráðið hversu fer um atvinnuleysi og þá í beinu samhengi verðbólgu í þjóðfélaginu. Nú virðast þessar reglur ekki standast nema í einstaka landi og þau lönd eru fleiri þar sem þetta samhengi virðist alls ekki koma í ljós. Eina svarið, sem ég hef heyrt við þessu nýja ástandi sem nú er í löndum eins og Bretlandseyjum og næstu löndum á meginlandinu svo og á Norðurlöndunum, er að það verði að gera staðbundnar gagnráðstafanir, sem sagt taka vinnusvið fyrir hvert og eitt og reyna að leysa vandamálin þannig, af því að hér sé um að ræða einhvers konar kerfismisræmi sem ekki verður við ráðið á annan hátt.

Hvarvetna heyrast þær raddir, að efst á blaði sé glíman við atvinnuleysi unga fólksins, og menn bera sérstakan ugg í brjósti gagnvart þessu vandamáli vegna þeirra afleiðinga, að stórir hópar ungmenna snúast á móti þjóðfélaginu þegar á fyrstu starfsárum sínum og taka vegna eigin reynslu upp algjörlega neikvæð viðhorf gagnvart umhverfi sínu. Þess vegna er lögð á það rík áhersla, bæði með athugunum, eins og hér er farið fram á, og með sérstökum endurhæfingarmöguleikum fyrir ungt fólk, sem finnur sér ekki vinnu við sitt hæfi, að leysa úr þessum vanda.

Ég nefndi staðbundið atvinnuleysi, sem er vandamál okkar í dag, og í öðru lagi hið stóra mál sem þessi till. fjallar um. Til að ljúka upptalningunni tel ég næsta flokk atvinnuleysingja, sem eru konur. Þjóðfélög okkar hafa verið að breytast á undanförnum áratugum, þannig að konur hafa flykkst á vinnumarkað, og þetta hefur fylgt byltingu í réttindastöðu þeirra. En reynsla nágrannalandanna er sú, að þegar um þrengist á vinnumarkaði kemur það sérstaklega illa við konur og þær eru oft með þeim fyrstu sem eru hraktar úr atvinnu og inn á heimili sín aftur, — standa þá í sömu sporum og þær gerðu áður en hafin var hreyfingin til frelsunar þeirra sem nú stendur yfir.

Herra forseti. Ég vildi aðeins með þessum fáu orðum taka undir till. og vænta þess að hún hljóti afgreiðslu á þessu þingi.