09.12.1977
Sameinað þing: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

67. mál, atvinnumöguleikar ungs fólks

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja örfá orð til að lýsa stuðningi mínum við þessa till. um atvinnumöguleika ungs fólks. Hún er í raun og veru sjálfsögð, næstum því of sjálfsögð til þess að hægt sé að halda um hana langa ræðu. Till. fjallar um það að fela ríkisstj. að láta gera athugun á vinnuaflsþörf íslenskra atvinnuvega í nánustu framtíð með sérstöku tilliti til atvinnumöguleika ungs fólks. Og vissulega er þetta afar mikilvægt. Mig minnir að það sé gamall málsháttur sem segir eitthvað á þá leið að sá, sem sitji auðum höndum og ekkert geri, sitji undir sjö djöflum og hampi þeim áttunda. Hvað sem þessu líður, þá er það vissulega einn af allra mikilvægustu þáttum í hverju þjóðfélagi að atvinna sé næg.

Það segir í lok till.: „Athugun þessari skal lokið fyrir árslok 1918.“ Það má vera að það sé rétt. En í raun og veru þarf slík athugun alltaf að vera — það þarf alltaf að vera að vinna að slíkri athugun, því að atvinnuleysi er það mesta böl sem hent getur. Það er í sjálfu sér furðulegt, hvað við höfum getað sneitt hjá þessum vanda hér á Íslandi, a.m.k. um langan tíma, þegar það er haft í huga hvað aðrar þjóðir og það ýmsar af okkar nánustu vina- og nágrannaþjóðum hafa lent í miklum erfiðleikum í glímunni við þetta vandamál. Ef talað er um núv. hæstv, ríkisstj., þá tel ég vera eina stærstu rós í hennar hnappagati að henni skuli hafa tekist að halda uppi fullri atvinnu.

Vissulega er eitt og annað sem mætti ræða nánar um í þessari allítarlegu grg. En það er þó að sjálfsögðu margt af því að manni finnst sjálfsagðir hlutir, eins og þetta atriði, að það sé keppikefli sérhverrar þjóðar að sem flestir geti notið mikillar og góðrar menntunar. Vissulega er það mikið keppikefli hverrar sjálfstæðrar þjóðar. En menn þurfa líka að gæta þess, að menntunin sé á þá lund að hún auki manngildi þess, sem hana tileinkar sér, og verði þannig styrkur hans í lífsbaráttunni.

Sagt er að hver sé sinnar gæfu smiður, og vissulega gildir það hér. Hitt er rétt, að stjórnvöld verða vítaskuld að hafa frumkvæði í þessum efnum eftir mætti og miðla þar af upplýsingum og reynslu. Í lok grg. er vikið nokkuð að skólakerfi nútímans hér á landi og bent á það, að ef þessi till. verður tekin alvarlega af valdhöfum muni það væntanlega geta forðað ýmsum ungmennum frá því að elta mýrarljós í skólakerfinu. Vissulega er skólakerfi okkar gagnrýnivert á ýmsan hátt, og það er ekki hægt að neita því, að eins og nú er geta menn látið leiðast þar af ýmsum mýrarljósum. En vitanlega þarf skólakerfið að vera byggt þannig upp, því þarf að verða komið fyrir á þann veg, að það sé ekki villu-ljós, heldur leiðarljós til aukinnar sjálfsmenntunar og þjóðhollra starfa.