09.12.1977
Sameinað þing: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

67. mál, atvinnumöguleikar ungs fólks

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka 1. flm. þessa máls, hv. 6. landsk. þm., fyrir frumkvæði hans að því að taka þetta mál upp. Á því er ekki síður þörf í dag en oft áður, að til séu upplýsingar um hver sé þörf íslensks atvinnulífs fyrir fólk með hinar ýmsu tegundir menntunar. Áður en fólk velur sér námsgrein, fólk fer til háskólanáms eða leggur út í dýrt sérnám, þá þurfa að vera tiltækar upplýsingar fyrir fram um hvaða atvinnumöguleikar bíða þess.

Það er vitanlega rétt, að mennt er máttur, ekki einungis vegna þess að menntunin eykur manngildið, heldur á menntunin einnig að veita mönnum möguleika til þess að tryggja afkomu bæði sína eigin og þjóðar sinnar. Það er áreiðanlegt að okkar litla þjóð þarf á allri þeirri menntun að halda sem hið unga fólk getur fengið. En það þarf líka að átta sig á því, að sú menntun sé í þeim farvegi að hún raunverulega nýtist á sem heppilegastan hátt. Margar námsbrautir eru of dýrar til þess að halda þeim uppi einungis ef ske kynni að einhverjum dytti í hug að afla sér þeirrar menntunar sem þar er í boði, án þess að raunveruleg þörf væri fyrir hana. Við höfum oft séð að ýmsar greinar komast eins og í tísku á tilteknum árum og fjöldi námsmanna stefnir í nám í tilteknum greinum á meðan í aðrar greinar skortir tilfinnanlega fólk. Á ýmsum sviðum okkar atvinnulífs vantar bæði sérfræðinga og fólk í starfsgreinar þar sem sérstaka starfsmenntun þarf. Úr þessu þarf að bæta, og það er engan veginn rétt, sem stundum hefur heyrst, að með því að leggja inn á slíkar brautir að hafa upplýsingar til um þetta væri verið að takmarka aðgang í einhverjar greinar og auka hann í aðrar. Menn hafa stundum viljað líta svo á, að sú væri hugsunin á bak við þetta mál. Svo er ekki. Það er nú sem betur fer svo, að ungt fólk stendur yfirleitt með báða fætur á jörðinni og vill vita hvort atvinnumöguleikar eru í þeim greinum sem það leggur fyrir sig. Það er einungis það sem hér er um að ræða. Ef þær upplýsingar liggja fyrir, þá held ég að straumur námsmanna beinist í þær greinar þar sem þörfin er mest fyrir okkar þjóðfélag hverju sinni.

Ég vil sérstaklega taka undir eitt atriði sem hv. 2. landsk, þm. benti á í ræðu sinni og það var að athugun sem þessi er ekki nægileg, ef hún er aðeins uppgjör um ástandið á ákveðnum tíma. Það er nauðsynlegt að tiltækar séu upplýsingar um málefni eins og þetta að staðaldri. Ég get ómögulega ímyndað mér annað en það sé unnt með allri þeirri nútímatækni sem beitt er við ýmiss konar tölfræðilegar upplýsingar. Okkur er einnig öllum kunnugt um að í menntmrn. er mikill fjöldi starfsmanna og þar ættu að geta verið til enn betri upplýsingar um þetta en nú eru. Að vísu er þar nokkuð í þá átt, en úr því þyrfti mikið að bæta. Það er ekki heldur nóg, eins og gert var á sínum tíma í tilefni af þeirri þáltill. sem ég flutti fyrir löngu, að skipuð sé samstarfsnefnd með fulltrúum frá höfuðatvinnugreinunum til að gera athugun á þessu. Slíkt er ekki nægilegt. Aðalatriðið er að slíkar upplýsingar séu jafnan tiltækar ungu fólki sem er í námi eða ætlar að leggja út á námsbrautir í ýmiss konar starfsmenntun og sérgreinum.

Annað atriði í máli hv. 2. landsk. þm. vil ég aðeins nefna, þótt það heyri ekki beinlínis undir þessa till. Hann gerði að umtalsefni atvinnuerfiðleika kvenna. Mér sýnist nú ekki að þessi till. geti að öllu leyti bætt úr þeim, en hún gæti að nokkru leyti komið til móts við konur eins og aðra sem kynnu að eiga í atvinnuerfiðleikum. En aðalatriði þess máls er allt annað. Það er staðreynd sem verður að átta sig betur á. Það hefur mikinn vanda í för með sér að konur á tilteknu aldursskeiði eiga oft í ótrúlegum erfiðleikum með að fá atvinnu. Það er líka staðreynd að konur, sem hafa margra ára reynslu í heimilisstjórn, húsmóðurstörfum, eiga stundum í enn meiri erfiðleikum að fá atvinnu þar sem þessi starfsreynsla kæmi þó að góðum notum. Þær eiga í meiri erfiðleikum að fá atvinnu við ýmis störf heldur en ungt fólk með enga starfsreynslu og ekki meiri starfsþekkingu en þær. Ég veit um þó nokkur dæmi þess, að konur með reynslu bæði í heimilisstörfum og ýmiss konar störfum annars staðar á vinnumarkaði, bæði verslunarstörfum og fleiru, og konur, sem hafa þá starfsreynslu og eru kannske yfir fimmtugt, komnar milli fimmtugs og sextugs, eiga mjög erfitt með að fá atvinnu í þeim greinum sem þær best þekkja. Þetta held ég að sé fyrst og fremst atriði er varðar hugsunarhátt almennings. Ég held, að það sé viðhorf almennings og þar með vinnuveitendanna til starfskraftanna sem þarna þarf að hreyta og menn átti sig á að konur á þessum aldri búa oft yfir mikilli starfsþekkingu og mikilli starfsreynslu og eru stöðugri og betri vinnukraftur en margir úr öðrum hópum. Ég ætla ekki að fara út í það hér, enda er það ekki hluti af þessu máli, hvaða leiðir til úrbóta kæmu þarna til greina. Þær eru ýmsar. Þetta hefur í ýmsum löndum verið töluvert athugað. En ég tel fyllilega eðlilegt, að athugun á þessum málum sé upp tekin í framhaldi af þingmáli síðar, og ræði það þess vegna ekki frekar í sambandi við þetta mál.

Ég legg áherslu á það, herra forseti, að þetta mál, sem hv. 6. landsk. þm, er 1. flm. að, fái sem greiðastan gang í gegnum þingið og framhald þess verði að æskufólk verði jafnan tiltækar nýjar upplýsingar um atvinnumöguleika í ýmsum sérgreinum.