09.12.1977
Sameinað þing: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

67. mál, atvinnumöguleikar ungs fólks

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir með öðrum sem hér hafa talað um þetta mál, að ég tel að hér sé hreyft góðu máli og nauðsynlegu og það sé fullkomlega eðlilegt að athugun af þessu tagi fari fram og góðar upplýsingar liggi jafnan fyrir um atvinnumöguleika fyrir ungt fólk. En það er aðeins eitt atriði í sambandi við þetta mál sem ég vildi vekja athygli á, að þetta er ekki alveg eins auðvelt og mér finnst að komi fram í máli manna. Það væri að sjálfsögðu tiltölulega auðvelt að gera svona athugun og koma fram með aðgengilegar upplýsingar um atvinnumöguleika, ef mörkuð hefði verið nokkuð ákveðin stefna um þróun atvinnulífsins, að hverju er stefnt, í hvaða átt er haldið.

Það hafa áður verið gefnar upplýsingar um þessi mál, eins og við þekkjum öll. Það hafa verið birtar spár um þörf atvinnulífsins á vinnuafli nokkuð langt fram í tímann. Ég minnist þess, að slíkar spár voru birtar á vegum Þjóðhagsstofnunar og Efnahagsstofnunarinnar þar áður, og þar var lögð megináhersla á að þannig horfði hér í okkar þjóðfélagi, að það mætti búast við því að á næstu áratugum yrðu ný atvinnutækifæri fyrst og fremst á sviði þjónustugreina í atvinnulífinu. Því var slegið föstu, sem virðist hafa verið nokkuð rétt, að það yrði um að ræða samdrátt í störfum í landbúnaði. Því var einnig slegið föstu, að það yrði frekar um samdrátt eða stöðnun að ræða í atvinnutækifærum í sambandi við sjávarútveginn í heild, ekki aðeins fiskveiðar, heldur fiskvinnslu og allt sem honum tilheyrir. Talið var að iðnaður mundi geta tekið við nokkru viðbótarvinnuafli á komandi árum, en þó lögð höfuðáhersla á að ný atvinnutækifæri yrðu bundin við þjónustustörf.

Nú höfum við alþm. tiltölulega nýlega fengið býsna merkilega skrá í hendur um þróun atvinnutækifæra í landinu á undanförnum árum, mannaflaskiptingu á hinar ýmsu starfsgreinar í þjóðfélaginu. Þar komu fram býsna athyglisverðar upplýsingar. Þar kom það m.a. fram, að iðnaðurinn, sem átti gjarnan að taka við fleira fólki en áður var, hefur ekki gert það. Hlutdeild hans í heildarvinnuaflinu hefur farið minnkandi. Þó er það enn alvarlegra, að í þeim hluta iðnaðarins, sem kallaður hefur stundum verið framleiðsluiðnaður, framleiðslustörf, þar sem iðnaðurinn framleiðir tilteknar vörur, ýmist til útflutnings eða til sölu hér innanlands, en er ekki sá viðgerðar- eða þjónustuiðnaður sem við þekkjum í býsna ríkum mæli, þar er þó um enn meiri samdrátt að ræða. En aðrar greinar iðnaðarins eru, eins og við vitum, mjög háðar framkvæmdamagni í landinu á hverjum tíma. Það hefur hins vegar komið í ljós, að nú á síðustu árum hefur fremur fjölgað fólki í fiskiðnaði og miklum mun meira en spámennirnir höfðu gert ráð fyrir.

Mér sýnist að þessar spár, sem hafa verið gerðar og birtar, hafi að einhverju leyti haft þau áhrif, að það hefur borið mjög á því að frá okkar skólakerfi hefur komið fólk í vaxandi mæli sem hefur búið sig undir þjónustustörfin. Það hefur að mörgu leyti verið rétt, því að ef við lítum til þeirra greina í þjóðfélaginu, sem hafa verið að taka við vaxandi vinnuafli, þá eru það bankarnir í landinu öðrum fremur, það eru vátryggingafélögin í landinu, þau hafa stórfjölgað við sig starfsliði, og svo er það öll hin svonefnda stjórnsýsla, hún hefur kallað til sín vinnuaflið í vaxandi mæli.

Spurningin í þessum efnum, þegar á að reyna að gera sér grein fyrir jafnþörfu og ágætu máli og því sem hér er um að ræða, er því þessi: Að hverju ætlum við að stefna á næsta áratug eða tveimur næstu áratugum? Ætlum við að leggja áherslu á að nýta stórum betur en við höfum gert þá möguleika sem tengjast við okkar sjávarútveg og vinnslu þess sem við getum fengið úr sjávarfangi og sölu á því? Ég er þeirrar skoðunar, að við þurfum í þá grein miklum mun fleiri menn en við höfum í dag. Þar eru okkar möguleikar hvar mestir eins og málin horfa í dag. Við þurfum því gjarnan ungt fólk og menntað fólk sem vill gefa sig að þessum fjölbreytilegum framleiðslustörfum, sem í sumum greinum hefur varla verið byrjað á, þó að það tengist þessari atvinnugrein sem ég minntist þarna á. Við þurfum gjarnan menntað ungt fólk til að takast á við þessi verkefni.

Það er einnig skoðun mín, að á sviði hins almenna iðnaðar, jafnt fyrir útflutning og fyrir innlenda framleiðslu, sé um margvíslega möguleika að ræða, og við þurfum að mennta okkar unga fólk til þess að takast á við þau verkefni. En spurningin er sem sagt þessi, þegar athugun af þessu tagi yrði gerð, hvernig menn setja upp þetta dæmi. Ef það verður sett upp á svipaðan hátt og gert hefur verið hingað til í þeim skýrslum, sem birtar hafa verið, eða spám, sem hafa verið settar fram, þá verður ávísunin gefin á það að menn skuli búa sig undir það í vaxandi mæli að ráða sig í bankakerfi landsins, að ráða sig til vátryggingafélaganna og ráða sig í stjórnsýslukerfið á öllum sviðum, ef vöxturinn á að vera þeim megin í kerfinu. Mér finnst að okkar framhaldsskólakerfi hafi mjög borið keim af þessu nú í langan tíma, enda í fullu samræmi við það sem stjórnvöld hafa helst látið frá sér fara varðandi hugsanlega þróun atvinnulífsins.

Við þekkjum það, að í ýmsum greinum erum við í rauninni mjög illa stödd nú. Mér dettur í hug ein starfsgrein hjá okkur, sem er okkar járniðnaður allur. Það er ekkert um það að villast, að við erum þar þegar komnir í mikla manneklu og vandræði að fá fólk til þeirra starfa á þessu sviði sem þjóðfélagið þarf. En til þess að ungt fólk sæki í þessa grein og henni skyldar greinar þarf vitanlega að koma fram eitthvað í þá átt, að það sé meiningin að efla þessa grein og búa þannig að henni, að ungt vinnuafl vilji til hennar leita.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu, að hér er hreyft þörfu máli að mínum dómi og mjög nauðsynlegu. Það þarf að reyna að gera sér grein fyrir þessu og reyna að samhæfa sem best skólakerfið okkar og þarfir atvinnulífsins á hverjum tíma. En þetta kallar á það, að menn geri sér grein fyrir því, hvert á að stefna og hvert er verið að halda varðandi þróun atvinnulífsins. Ég álít að þar þurfi að verða mjög stórfelld breyting frá því sem verið hefur. Það er skoðun mín. Ég hef minnst á áður, að ég tel að eitt af okkar meiri háttar vandamálum nú varðandi efnahagsmál í landinu sé að okkur skortir fólk til þess sem við köllum almennt framleiðslustörf sem gætu miðað að aukinni útflutningsframleiðslu á mörgum sviðum og sparað okkur innflutning. Við þurfum fleira fólk og það vel menntað fólk á ýmsum sviðum til að takast á við þessi verkefni. En það er skoðun mín, að það mætti fækka verulega fólki í ýmsum öðrum greinum í þjóðfélaginu sem eru almennt flokkaðar undir þjónustugreinar. Við þyrftum að færa þarna til vinnuafl, og þá mundi margt koma öðruvísi út í okkar efnahagskerfi ef við næðum þessu marki. Ég tel að þróunin hafi nú um alllangt skeið verið röng í þessum efnum, og þær spár, sem hafa verið settar fram einmitt um þetta sama efni og till. fjallar um, hafa verið að mínum dómi varðandi þetta hættulegar og rangar og haft sín áhrif hreinlega til þess að þróunin hefur verið þessi. Ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir þessu atriði þegar tekist er á við það verkefni sem þessi annars ágæta till. fjallar um.