12.12.1977
Efri deild: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

Umræður utan dagskrár

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár hér í hv. Ed., og ástæðan til þess að ég geri það nú í dag er sú, að ég tel þær spurningar, sem ég hef fram að flytja, þurfi að fá svör sem fyrst. Tilefni spurninga minna er fréttaflutningur í Ríkisútvarpinu 7. des. s.l., en þá gerðu fréttamenn Ríkisútvarpsins ákvarðanir 6 manna n., sem verðleggur landbúnaðarvörur, um verðlagningu að umræðuefni á þann hátt að vart getur samrýmst reglum Ríkisútvarpsins um hlutleysi að mínum dómi. Vil ég leyfa mér að gera fréttaflutning þennan að nokkru umræðuefni og víkja nokkrum spurningum til hæstv. menntmrh.

Ég tel rétt að rifja hér upp í örfáum orðum, að landbúnaðarvörur eru, eins og raunar öllum hv, þm. mun kunnugt, verðlagðar samkv. sérstökum lögum, lögunum um Framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl. Þeir, sem verðleggja vöruna, 6 manna n., er skylt að gæta þess í verðlagningu í senn að bændur njóti svipaðra tekna og svokallaðar viðmiðunarstéttir og eins að verði vörunnar sé stillt svo í hóf sem framast er kostur þegar þetta sjónarmið er haft í huga.

Ég tel ekki óeðlilegt að á það sé minnt, að þó að landbúnaðarvörur þyki nokkuð dýrar hér á landi af þeim sem neyta þeirra, þá eru sumar þeirra ódýrari í framleiðslu en tilsvarandi vörur í nágrannalöndum, og milliliðakostnaður hér er hlutfallslega mjög lítill miðað við það sem víða gerist annars staðar. En að undanförnu hefur sá kostnaður, sem leggst á vöruna frá því að bóndi skilar henni við vinnslustöðvarvegg og þangað til hún kemur í vörslu neytanda, verið í kringum 30% af heildarvöruverði.

Sá sérstaki þáttur verðlagningarinnar, sem vakið hefur verulega athygli nú, er breyting á verði undanrennu. Undanrenna hefur verið seld á mjög lágu verði í verslunum til þessa, og eimir þar eftir af því að undanrenna var lengi að mestu leyti seld til fóðurs. Má raunar rekja þetta lága verð einnig til þess, að það hefur verið veruleg tregða af sumum aðilum í 6 manna n. að breyta verðhlutföllum mjólkurvara og annarra landbúnaðarvara. En frá gömlum tíma hefur verið litið svo á, að fitan væri verðmætasti hluti mjólkurinnar, en nú á seinni árum hefur verulega borið á því, að ýmsir telja, að það sé ekki fyrst og fremst fitan, sem er verðmikil í mjólkinni, heldur engu síður próteinið í mjólkinni.

Eins og ég sagði áðan, hefur undanrenna verið verðlögð mjög lágt, og má geta þess, að fyrir þessa verðlagningu greiddu neytendur 38.98 kr. fyrir að fá undanrennuna pakkaða í góðar umbúðir, en umbúðirnar eru dýrar, en bændur fengu í sinn hlut aðeins 11 22 kr. af greiddu verði. Það er sami kostnaður við pökkun og dreifingin undanrennu og við aðra mjólk, og með jafnlágu verði og verið hefur á þessari vöru, en það var fyrir síðustu verðlagningu 50.20 kr. á lítra, fór meginhluti þess verðs í kostnað. Hins vegar var ákveðið við síðustu verðlagningu án ágreinings í 6 manna n. að hækka þetta útsöluverð, sem var 50.20 kr., upp í 100 kr. og við það hækkaði verðið á undanrennunni.

Nú er það svo, að það er út af fyrir sig ekki umræðuefni þó að verðbreyting verði á landbúnaðarvörum eins og öðrum vörum í landinu. Samt er það svo, að það virðist svo sem verðhækkanir á landbúnaðarvörum veki allt aðra og meiri athygli í þjóðfélaginu heldur en verðhækkanir á nokkrum öðrum vörum. Það er gömul venja, að Framleiðsluráð auglýsir verðbreytingar á landbúnaðarvörum með auglýsingum í fjölmiðlum, fyrst og fremst útvarpi, en þær gerast nú að jafnaði á þriggja mánaða fresti samkv. lögum. Jafnframt hefur sú venja skapast, að þessir fjölmiðlar segja mjög vandlega frá öllum verðbreytingum á landbúnaðarvörum.

Ég hygg að það sé á vissan hátt neikvætt fyrir vöru, sem fylgir í öllum aðalatriðum nákvæmlega hinu almenna verðlagi í landinu og hinni almennu verðlagsþróun í landinu, að hún sé tekin út sérstaklega og henni sérstakur gaumur gefinn í fjölmiðlum og þess getið alveg sérstaklega með miklum fréttaflutningi þegar verðbreytingar verða á þessari vöru. En aftur á móti er ýmissa annarra vara, sem vissulega hafa hækkað engu síður hlutfallslega heldur en landbúnaðarvörurnar, vart eða ekki getið í fjölmiðlum. Þess vegna hefur það orðið svo, að á mörgum undanförnum árum hafa verðbreytingar á landbúnaðarvörum verið gerðar að miklu fréttaefni, og að því leyti er það eðlilegt að neytendur kaupa vissulega mikið af landbúnaðarvörum og verðlag þeirra kemur mjög við pyngju hvers og eins.

Ég minnist þess þó, sem segir kannske ofurlitla sögu um þessi mál, að fyrir nokkrum árum, þegar hafði orðið veruleg verðhækkun á mjólk, þá spurði ég allmarga neytendur hér í Reykjavík um það, hvað mjólkurlítrinn kostaði, og ég rakst ekki á neinn sem vissi það, en allir vissu að mjólkurlítrinn var dýr. Og ég hygg að einmitt þessi vitneskja, að neytendur vissu að mjólkurlítrinn var dýr þó þeir vissu ekki hvað hann kostaði margar krónur, sýni talsvert mikið hvaða áhrif fjölmiðlarnir hafa á hugmyndir manna um vöruverð.

Ástæðu fyrir því, að undanrennan var hækkuð svo sem raun her vitni, er fyrst og fremst að finna í því, að uppi hafa verið verulegar kröfur um að selja fitusnauðari mjólk en verið hefur. Það hefur ekki enn verið horfið að því ráði að selja mjólk með staðlaðri fituprósentu, en í staðinn er undanrenna seld í öllum mjólkurbúðum, og ég veit ekki annað en meðferð þeirrar undanrennu sé í ágætu lagi og þetta sé á sinn hátt ágæt vara. Þegar svo neysluvenjur sýna að neytendur kaupa í auknum mæli þessa tegund landbúnaðarvöru og í minnkandi mæli aðrar tegundir, sem áður voru verðmeiri, eins og t.d. smjör og rjóma, þá er mjög eðlilegt að um tilflutning á verði á milli þessara vörutegunda verði að ræða.

Það hefur mjög verið vitnað í það, að víða erlendis er seld mjólk með skertu fituinnihaldi, og yfirleitt er þá sú mjólk seld á mjög svipuðu verði og nýmjólkin. Það, sem verið er að gera með þessari verðbreytingu, er því eingöngu að færa verðlagninguna meira til samræmis við eftirspurn og gert með það í huga, að það sé eðlilegt að neytendur greiði verðið fyrir þá vöru, sem þeir vilja kaupa og þeir telja sér hagkvæmt að nota. Verð það, sem er á undanrennunni, er án niðurgreiðslu úr ríkissjóði, og þrátt fyrir þessa verðbreytingu verður ekki annað sagt en að verðið sé enn þá lágt.

En ástæðan til þess, að ég geri þetta allt að umtalsefni, er eins og fyrr segir fréttaflutningur Ríkisútvarpsins, bæði hljóðvarps og sjónvarps, í sambandi við þessa verðbreytingu. Ég vil með — leyfi hæstv. forseta — leyfa mér að lesa hér inngang að frétt Ríkisútvarpsins, hljóðvarps, um þessa verðbreytingu. En formálinn eða fyrstu orðin, áður en farið var að gera grein fyrir verðhækkuninni, voru á þessa lund:

„Veruleg hækkun á verði flestra tegunda landbúnaðarvöru tekur gildi í fyrramálið. Hækkunin er mismunandi eftir tegundum og með verðákvörðuninni er greinilega gerð tilraun til þess að breyta neysluvenjum neytenda, t.d. er reynt að draga úr sölu undanrennu með mikilli verðhækkun, en auka smjörsölu.“

Það, sem mér finnst mjög athugavert við þessa frétt, er það, að áður en landsmönnum eru sögð tíðindin, þá skapar fréttamaður sér ákveðnar hugmyndir sem hann flytur landsmönnum um það, hvers vegna þessi verðlagning fer fram á þennan hátt. Ég veit ekki til þess, að það hafi komið til tals í þeirri n., sem verðleggur vöruna, að þessi væri tilgangurinn með verðbreytingunni, og ég veit ekki heldur til þess, að þessi fréttamaður hafi sótt heimildir um þetta til fulltrúa í 6 manna nefnd. Það er þessi tegund fréttaflutnings sem ég vil leyfa mér að átelja hér.

Þá var í fréttum sjónvarps rækilega sagt frá þessum verðbreytingum. Ég vil leyfa mér líka — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér stuttan inngangskafla úr fréttaþætti um þetta mál í sjónvarpinu. Hann var á þessa leið:

„Að undanförnu hafa heilbrigðisstéttir víða um heim rekið áróður fyrir breyttum neysluvenjum almennings í þá átt að neysla grænmetis og ávaxta sé aukin svo og neysla á grófu korni og mögrum kjöt- og fisktegundum. Hins vegar er mælt með því, að dregið sé úr neyslu sykurríkra fæðutegunda og fituríkra og aukin neysla fitusnauðra mjólkurafurða á kostnað feitra. Manneldisfræðingar bæði vestan hafs og austan hafa í stórum dráttum verið á einu máli um þessi ráð og telja að með því að fara eftir þeim megi draga úr ýmsum þeim sjúkdómum sem nú höggva stærst skörð, svo sem hjartasjúkdómum og æðasjúkdómum. Í okt, s.l. kom það fram í fréttum sjónvarpsins, að sala á undanrennu hefði aukist um 130% fyrri hluta ársins miðað við sama tíma í fyrra. En á sama tíma minnkaði sala á nýmjólk um 0.9%. Hér á landi er fituinnihald mjólkur um 3.8–3.9%, en undanrenna er um 0.05% feit, og var því þessi aukning á sölu undanrennunnar í fullu samræmi við þær breytingar sem taldar eru nauðsynlegar á fæði kyrrsetufólks nútímans.“

Svo kemur það sem ég vildi vekja sérstaka athygli á, með leyfi hæstv. forseta:

„Í gær gerðist það, að Framleiðsluráð landbúnaðarins tilkynnti 18.4% meðaltalshækkun á landbúnaðarvörum og gekk hún í gildi í morgun. Hækkunin á mjólkurvörunum er mjög mismunandi, en það, sem mesta athygli vekur, er að mjólk hækkar um 23.9%, en undanrenna um hvorki meira né minna en 66.7%. Þessar verðhækkanir stefna að þróun sem gengur í berhögg við það sem manneldisfræðingar mæla með.“

Þarna gerist nákvæmlega það sama, að fréttamaður, sem samkvæmt lögum Ríkisútvarpsins á að vera hlutlaus, leggur dóm á það, hvaða vörur séu hollar og hverjar vörur séu ekki hollar, og hann leggur dóm á afleiðingar þessarar verðbreytingar.

Um þetta er allmikið lengra mál í fréttinni, og ég ætla ekki að rekja það. En ég get þó ekki stillt mig um að geta þess, að fréttamaður spurði vegfarendur um þessar verðbreytingar og spurningin var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Heldur þú að þessi mikla hækkun á undanrennu komi til með að draga úr neyslu á henni?“ Það er verið að gera því skóna, að þetta muni draga úr neyslu á undanrennu. Það er ekki spurt t.d. á hlutlausan hátt, eins og: hvaða áhrif heldur þú að verðhækkunin hafi?

Ég rek ekki hér svörin. En þegar svarið er eins og sá fyrsti svaraði: „Ég held að það hljóti að gera það“ — þá er ekki frekar spurt. En þegar svarið verður öðruvísi, næsti maður svaraði: „Ég býst ekki við því“ — þá getur fréttamaður ekki stillt sig um að spyrja áfram þangað til hann fær það svar sem hann vill fá, að verðbreytingin hafi áhrif á söluna. Og fréttamaður leyfir sér meira að segja að spyrja, þar sem honum finnst svarið ekki nógu afdráttarlaust í fyrstu: „Finnst þér þetta rétt ráðstöfun, að hækka þetta á sama tíma eins og búið er að tala um það, það væri búið að minnast á það, að fólk þurfi að grenna sig?“

Þarna finnst mér að fréttamaður fari langt út fyrir þann ramma sem honum er ætlað. Því miður sá ég ekki þennan fréttaþátt, en heyrði af honum. Mér er sagt af þeim sem sáu bann, að það hafi ekki farið leynt í þættinum hverjar voru skoðanir fréttamanns á þeirri verðbreytingu sem verið var að gera sérstaka grein fyrir.

Ég veit að þær lífsvenjubreytingar, sem við höfum tamið okkur á undanförnum áratugum, þegar við höfum flust frá sjávar- og sveitarstörfum inn í skrifstofur og til kyrrsetulífs, þá hljóta slíkar lífsvenjubreytingar að hafa áhrif á mataræði okkar. Þetta hefur orðið til þess, að það hafa myndast ákveðnar skoðanir um hollustu vara, sem fyrrum þótti ekki vafamál að væru undirstaða heilbrigðs lífs þeirra sem erfiðisvinnu stunda. Hitt skilst mér aftur á móti, að þrátt fyrir það að slíkar skoðanir hafi myndast, þá hafi verið miklu meiri erfiðleikum bundið að sanna þær heldur en koma fram með þær og túlka þær og trúa þeim.

Það er þó rétt og skylt að geta þess, að ekki eru allir á einu máli um hollustu mjólkurvara. En því er ekki að neita, að það hefur beinlínis verið sagt af sumum, að mjólkurvörur, svo sem smjör og nýmjólk, væru ekki hollar vörur.

Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — leyfa mér að lesa hér stuttan kafla úr erindi, sem Baldur Johnsen fyrrverandi borgaryfirlæknir flutti fyrir nokkrum árum og fjallaði um mjólk og mjólkurvörur, þar sem gerð er grein fyrir hollustu þessara vara. Í þessu erindi segir svo, og er sleppt nokkrum formálsorðum til að stytta málið:

„Allan þennan tíma hefur verið viðurkennt að mjólkurhvíta og eggjarauða hafi verið bestu byggingarefni líkamans, ómissandi ungviði í uppvexti og einnig nauðsynlegt gamalmennum, þar sem endurnýjun vefja reynir að halda í við hrörnunina. Þannig hefur hver sú þjóð verið talin hólpin, sem ætti nóg af mjólkurafurðum, og kvikféræktandi þjóðflokkar og þjóðir hafa skorið sig úr hvað líkamlegt og andlegt atgervi snertir. Reynsla kynslóðanna og vísindalegar rannsóknir hafa staðfest þetta. Það hefur verið sannað með tilraunum, að af þremur aðalundirstöðuþáttum heilbrigðinnar, heilsugæslu, húsnæði og mataræði, þá er mataræðið þyngst á metunum.

Það mundi lengja mál mitt um of að fara nákvæmlega út í einstök atriði til skýringar. En allir eru sammála um það, að mjólk innihaldi öll nauðsynleg næringarefni fyrir líkamann nema járn. En þess er sérstaklega vert að gefa, að nýmjólkin hefur verið Íslendingum svo til eini C-vítamíngjafinn á umliðnum öldum, áður en kartöflur og annað grænmeti kom til sögunnar, og þannig haldið skyrbjúg frá þjóðinni. Það mun heldur ekki vera fjarri sanni, að nýmjólkin og þá sérstaklega fituhluti hennar, rjóminn og smjörið, hafa um langan tíma verið aðalvörn gegn beinkröm og A-vítamínskorti hér á landi og víðar, því að lýsi var ekki alltaf notað sem skyldi, a.m.k. ekki til sveita og jafnvel ekki við sjávarsíðuna, þar sem auðvelt var þó að afla þess.

Þegar rjómabúin voru stofnsett um síðustu aldamót og fituhlutinn, smjörið, var seldur úr landi skapaðist hálfgert vandræðaástand í heilbrigðismálum, jafnvel til sveita. Undanrennuandlitin, sem Guðmundur Hannesson, þá héraðslæknir í Eyjafirði, lýsir svo átakanlega og því valæði, sem fylgdi með, hafa síðan lengi verið mönnum víti til varnaðar. Á þeim árum, allt fram undir fyrra stríð, eru líka skráð mörg dauðsföll úr beinkröm hér á landi. Það var afleiðing af undanrennudrykkjunni. Danir urðu fyrir barðinu á hinu sama um og eftir fyrra stríð, er þeir seldu smjörfitu sína úr landi til Þjóðverja, en notuðu sjálfir undanrennu og margarín í staðinn. Urðu afleiðingarnar þær að mörg börn urðu blind í Danmörku vegna A-vítamínsskorts.

Þetta var um börn og unglinga. Það er einnig ástæða til að gefa gamla fólkinu gaum, en tíð og alvarlegu beinbrot þess benda til úrkölkunar beina, sem e.t.v. væri hægt að draga úr með meiri mjólkurnotkun. Þar sem gamalt fólk þolir ekki alltaf vel nýmjólk þarf að flóa mjólkina og nota meira skyr, ost og rjóma, nema lýsi sé notað óspart. Hitt er svo annað mál, að enginn getur lifað á eintómri mjólk nema kornabörn, sem enn nota jafnforða þann sem móðirin lagði þeim til.“

Ég ætla ekki að lengja þennan lestur. En þetta er dálítið athyglisverður lestur á sama tíma og fréttir berast af því, að á barnaheimilum þessarar borgar sé farið að ráðleggja að gefa börnunum smjörlíki í stað smjörs og undanrennu í stað nýmjólkur. Ég er ekki manneldisfræðingur, en ég óttast að það verði hér sem stundum oftar, að tiltölulega takmörkuð vitneskja, sem sett er fram af mönnum, sem trúa þessari vitneskju statt og stöðugt, breyti neysluvenjum til hins verra, þannig að erfitt sé að bæta það sem aflaga fer.

Mér finnst athyglisvert t.d. í þessu sambandi, að það heyrist varla nokkurn tíma á það minnst, að Íslendingar nota helmingi meira smjörlíki heldur en smjör. Smjörlíkisneysla í landinu er um eða yfir helmingi meiri, tvöfalt meiri heldur en smjörs, og það er aldrei um það talað, að meginhluti af þessari fitu er hert fita, og það finnast engin rök fyrir því, svo ég viti til, að sú fita sé hollari en sú sem í smjörinu er.

Ég ætla ekki að hafa þetta mál öllu lengra, en ég vil að lokum vegna þessara ummæla, sem ég hef lýst og komið hafa fram í Ríkisútvarpinu, leyfa mér að spyrja hæstv. menntmrh. eftirfarandi spurninga:

1. Hvaða aðili innan Ríkisútvarpsins fylgist með því að gætt sé hlutleysis í almennum fréttaflutningi í útvarpinu?

2. Hafa þær fréttasendingar um verðbreytingar landbúnaðarvara, sem ég hef nú gert að umtalsefni, verið ræddar innan stofnunarinnar?

a. Hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að fréttasendingar af þessu tagi endurtaki sig ekki? Þessar spurningar eru vissulega fram bornar vegna þess að í lögum Ríkisútvarpsins er gert ráð fyrir að útvarpið sem stofnun sé hlutlaust. Ég hef ekki tíma til þess nú að gera að umræðuefni annan þátt, sem mér hefur fundist vera landbúnaðinum ákaflega erfiður að undanförnu, og það er leiðaralestur í morgunútvarpinu. Þar hafa á undanförnum mánuðum dunið á landsmönnum fullyrðingar um landbúnað á Íslandi sem hvergi nærri fá staðist. Ég er ekki einn þeirra manna sem vilja hefta málfrelsi manna í landinu. Ég hefði þó álitið að það væri nauðsynlegt fyrir stofnun eins og Ríkisútvarpið að gefa því gaum um allt það, sem flutt er í Ríkisútvarpinu, að það verði ekki túlkað sem atvinnurógur eða sé það, eins og mér finnst að sumt af þeim leiðaralestri, sem dunið hefur á landsmönnum, hafi verið á undanförnum mánuðum.

Landbúnaðurinn á við ýmsa örðugleika að stríða. Þeir verða ekki ræddir hér. En landbúnaður, eins og allar aðrar atvinnugreinar í landinu, þarf á því að halda að njóta skilnings fólksins í landinu, og skilningur á landbúnaði sem atvinnugrein verður ekki fyrir hendi nema þar sé þekking líka.