12.12.1977
Neðri deild: 27. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

21. mál, kosningar til Alþingis

Pétur Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Um þetta mál hafa orðið langar og strangar umr. og ég ætlaði mér ekki að verða til þess að lengja þær, en vil þó aðeins koma nokkrum aths. að.

Ég tel að það beri að þakka hv. flm. fyrir að hafa flutt þetta frv., ekki þó vegna þess að ég sé alls kostar samþykkur því, heldur vegna þess að tímabært var að taka upp almennar umr. um þessi mál hér á Alþ. að þessu sinni. Það hafa komið upp í umr. að undanförnu hér á hv. Alþ. mál sem flokkast undir svokallaða aronsku. Í þessu máli hefur komið oftar en einu einni upp það sem ég kalla karvelsku, en það er sú árátta sumra þm., og þó aðeins nokkurra þm., að ráðast við öll tækifæri að Reykvíkingum og því sem reykvískt er og telja að Reykvíkingar sem slíkir hafi allt fram yfir aðra, sem hér á landi búa, sem er auðvitað hinn mesti misskilningur. Það væri ærin ástæða til þess í umr. um þetta mál, að þeim gefnu tilefnum sem ég hef hlustað á hér á hv. d., að ræða þetta nánar og efnislega, en þeir hafa staðið þar fremstir að, sá hv. þm. sem karvelskan er kennd við, hv. þm. Karvel Pálmason, og svo hv. 4. þm. Austurl., Tómas Árnason, og er í raun og veru undarlegt hvernig þeir hafa getað komið ýmsum hnútum sínum að Reykvíkingum og Reykjavík í sambandi við þetta mál.

Það, sem ég vildi benda á í sambandi við umr. um málið og þá væntanlega til athugunar fyrir þá hv. n., sem fær málið til meðferðar, eru aðrir vankantar en hefur verið getið um að undanförnu í umr., og bendi ég m.a. þar á tækifæri og rétt þeirra aðila, sem á landi voru búa, til þess að njóta jafnréttis til að kjósa. Það var gerð, að mig minnir í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstj., nokkur breyting, sem var mikið til bóta í sambandi við aðstöðu sjúkra til að geta neytt atkvæðisréttar síns. Það hefur líka, a.m.k. hér á þessum þéttbýlisstað, í Reykjavík, verið gert ýmislegt til þess að aldraðir á elliheimilum gætu neytt síns kosningarréttar, þó að þar þyrfti um að bæta í sambandi við utankjörstaðarkosningar fyrir það fólk líka. Þótt það sé ekki fjarverandi úr bænum þyrfti það þegar heilsa leyfir að geta notað tækifærið til þess að kjósa og þá utan kjörstaðar eða utan kjörfundar.

Fyrir þá, sem þurfa að neyta atkvæðisréttar síns á þann hátt að greiða atkv. í svokölluðum utankjörstaðarkosningum, sem fyrst og fremst eru sjómenn, flugfólk og ferðamenn, þá er auðvitað öllum ljóst að þeir hafa ekki þann rétt Sem hér hefur verið vitnað til og er þó mikið takmarkaður hin síðustu ár, en það er rétturinn til þess að breyta listum, bæði að strika út einstaka frambjóðendur og breyta röðun. Þetta er ekki hægt í utankjörstaðarkosningu og er ákveðinn hópur manna, stundum stór hópur kjósenda, þar með sviptur þessum rétti. Ég held að það væri vei hægt að koma þessu fyrir, að gefa þessu fólki tækifæri til að hafa þennan rétt eins og aðrir hafa. Auk þess tel ég að það sé orðið tímabært að færa til fyrra horfs þennan rétt, að hafa ekki þá miklu takmörkun sem er á þessum rétti til þess að strika menn út eins og nú er, því það er auðvitað lítið vil í því, að einhver kjósandi geti aðeins strikað yfir 1/3 af hv. frambjóðanda, en látið 2/3 hans halda áfram upp í þingsali eða inn í sveitarstjórn. Þetta er ekki rétt, tel ég. Þótt ekki sé alveg farið í þennan rétt að fullu, að geta strikað manninn út, sem getur auðvitað haft ýmsar afleiðingar sem m.a. var bent á á sínum tíma þegar þessum ákvæðum var breytt í það horf sem nú er, þá tel ég samt að þetta þurfi að breytast í átt að hinu fyrra horfi.

Það er, held ég, aðeins einn hv- þm., sem hefur komið inn á það í sambandi við umr. um þetta mál, að miklu af því, sem stefnt er að því að ná, mætti ná með prófkjörum, eins og þau eru framkvæmd í dag jafnvel. En þó hefur verið bent á það hér í umr., að til þess að þau gætu náð tilgangi sínum þyrfti að koma löggjöf um þau, og eftir síðustu reynslu manna af prófkjörum tel ég það nauðsynlegt, þannig að alla vega séu aðilar ekki að misbeita valdi sínu milli flokka, þó ekki sé annað nefnt. Flokkarnir sjálfir geta og eiga auðvitað að koma í veg fyrir misnotkun og misferli innan sinna vébanda. En ég hefði talið að lög um prófkjör gætu komið mikið á móti því sem fjallað er um í frv. og hefur komið fram í umr., og þar á ég við röðunina. Ég minnist þess, að í heimabyggð hv. flm. hefur farið orð af því að allir flokkar komu sér saman um prófkjör í eina tíð, og ég hef alltaf heyrt vitnað til þess, að það hafi tekist með ágætum vei og það voru ekki nein eftirmál þar um. Flokkarnir komu sér saman um að hafa prófkjör á sama degi. Þessu mætti auðvitað breyta á þann veg, að það væru trúnaðarmenn hins opinbera, þeirra sem með kosningamálin fara, sem sæju um þetta á hverjum stað á hverjum tíma.

Frv., eins og það er, tel ég að eigi illa við fyrir alla flokka, eins og stærð þeirra er í dag, þetta sé mjög erfitt í framkvæmd, og stafrófsröðunum er ég alfarið á móti. Alla vega hef ég þá skoðun ef ég ætti einhvern tíma eftir í framtíðinni að lenda í prófkjöri, að þá mundi ég reyna að ná fram nafnbreytingu fyrst. Það er enginn vafi og það hafa sagt mér menn, sem við talningu hafa fengist þegar slík röðun fer fram sem prófkjör í sjálfu sér að nokkru leyti er, að þá sé áberandi hvernig stafrófsröðunin kemur út hjá kjósendum sem þurfa að velja mörg nöfn, 8–13 eins og er hjá stærsta flokknum, Sjálfstfl., hér í Reykjavík, enda er till. á því höfuðbóli, gömul nokkuð, um það, að áður en til prófkjörs væri gengið yrði fyrst hlutað um sæti á prófkjörslistanum. Sú till. náði ekki fram á sínum tíma , enda virðast allflestir í þeim flokki ekki ná aftar í stafrófinu en aftur að M eða svo. — En það er enn eitt atriði, sem ég vil benda á til viðbótar þeim mönnum, sem um málið hafa rætt, og það er, að það er í sjálfu sér engin nauðsyn að raða út allan listann, enda skilst mér að það sé ekki sú hugsun, sem að baki liggur, að þess þurfi, enda afskaplega erfitt við að eiga. Ég held að það mundi koma fram nóg prófun og vilji kjósenda þó að þeir hefðu rétt til þess aðeins að merkja við einn, tvo eða þrjá á listanum, þannig að það væri nóg röðun hinum almenna kjósanda til viðbótar því sem á undan færi fram hjá flokknum sjálfum.

Ég sé ekki ástæðu, virðulegi forseti, til þess að hafa þessi orð fleiri við 1. umr. málsins. En ég hef tekið eftir því, að það eru allmargir sem hafa lýst skoðunum sínum almennt á þessum málum, og ég tel það vel. Þessi mál eru kannske meira í brennidepli nú en nokkru sinni áður, m.a. vegna þess sem einnig hefur verið bent á í þessum umr., að það hefur hallast mjög á hin seinni ár um það atkvæðamagn sem býr að baki hverjum þm. Og það er enginn vafi að leiðrétting þar á mundi vera ekki aðeins talin eðlileg, heldur og réttlætanleg, og hafa verið nefndar til þess leiðir sem ég skal ekki fara út í hér að ræða. En ég vil aðeins endurtaka þau orð mín, að ég fagna því að þetta frv. kom fram og það hafi gefist kostur á að ræða þetta mál. Það hafa margir menn, sem hér hafa um þetta mál rætt, talað spaklega og vitlega, en þó ekki allir.