12.12.1977
Neðri deild: 27. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

21. mál, kosningar til Alþingis

Ingvar Gíslason:

Virðulegi forseti. Þessar umr. eru nú farnar að verða ansi langdregnar og kannske líka að lokum þreytandi. Auk þess er svo langt síðan ég bað um orðið, að ég veit ekki nema eitthvað sé farið að hripa úr mér af því sem mér hafði dottið í hug að ræða, enda var ég búinn að lýsa hér áður skoðun minni á þessu máli og hún hefur auðvitað ekkert breyst á þessum tíma. En ég vil þó segja um þessar umr., að þær hafa yfirleitt verið gagnlegar og þær hafa verið málefnalegar og þær hafa m.a. leitt það í ljós, að hér er ekki fjallað um mjög auðleyst mál eða einfalt mál, og ég held að flestum sé ljóst að þetta frv. er gallað og að þeirri till., sem hér er hreyft um fyrirkomulag kosninga, ætti að hafna.

Hins vegar er líka ljóst, að það er almennur skilningur á því, að það ætti að auka möguleika kjósenda til þess að hafa áhrif á framboð og kosningu til Alþingis. En hins vegar kemur það nú í ljós, að þetta er engan veginn auðvelt mál og engan veginn vandalaust hvernig fara á með þetta. Ég held að menn þurfi að gera það upp við sig, hvernig þeir vilja leysa þetta mál, og þá held ég að við verðum að athuga margt í því sambandi og hrapa ekki að því að grípa fyrstu till. sem kann að koma fram. Alveg sérstaklega held ég að það komi hér til miklu fleira en þessi viðtæki réttur til röðunar sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég sagði það, held ég, í fyrri ræðu minni og vil gjarnan endurtaka það, að ég held að ef kosningar yrðu með þessum hætti, þá yrðu þær óþarflega illvígar, innbyrðis illvígar í flokkunum, og ég held að þær yrðu mjög „persónulegar“ í vondri merkingu þess orðs, og auk þess held ég að þær yrðu mjög sérgæðingslegar, í stað þess að kosningar, ef þær fara fram á siðmannlegan hátt, eiga að vera málefnalegar og byggðar á sameiginlegum málstað þeirra frambjóðenda sem saman eru í framboði.

Ég held sem sagt að sú leið, sem hv. flm. bendir hér á, gangi gegn þessu, hún yrði til þess að ala á skrumi og það miklu frekar en flestar aðrar leiðir sem til greina koma. En auðvitað er það rétt, sem hefur komið fram í þessum umr., að það er aldrei hægt að koma í veg fyrir lýðskrum í stjórnmálabaráttu. Það er út af fyrir sig aldrei hægt að koma í veg fyrir það. En ég held þó að sumar kosningaaðferðir séu öðrum líklegri til þess að ala á slíku. Ég hef í rauninni ekki miklu við þetta að bæta, en minnist enn einu sinni á þetta atriði sem ég finn sérstaklega að í þessu frv.

En aftur á móti vil ég ekki að það misskiljist, að ég álít að kjósendur eigi að hafa röðunarrétt. Vissulega eiga kjósendur að hafa sinn röðunarrétt, og það hefur líka komið fram í þessum umr. hjá fleiri en einum, að í rauninni hafa kjósendur skv. núgildandi lögum röðunarrétt, og ég sé enga ástæðu til þess að gera lítið úr því, þó að e.t.v. sé hugsanlegt að það megi eitthvað breyta þar út af og auka rétt manna til þess að breyta röð á listum. En ég er sem sagt mjög andvígur þessari tegund af rétti til þess að raða, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég held nefnilega að þarna sé verið að einfalda flókið mál eða öllu fremur verið að flækja einfalt mál. Það er verið að bjóða heim óæskilegri kosningabaráttu og það er verið að láta undan kröfum fáeinna hávaðamanna í fjölmiðlum. Ég álít að það sé kominn tími til þess að sporna við fótum gegn þessu lýðskrumi og gegn þessum óhugnaði sem æsifréttamennskan er. Það er t.d. varla nema hálfur sannleikur, að það sé einhver krafa hjá fólkinu að breyta þurfi kosningarfyrirkomulagi með ákaflega róttækum hætti. Ég held að þetta sé ekki nema hálfur sannleikur. Þetta er fullyrðing, ein af mörgum, sem er búin til af örfáum mönnum sem hafa alið á þessu nú missirum saman í fjölmiðlunum, og svo kalla menn þetta kröfu fólksins. Þetta er aðeins eitt dæmið um það, hvernig fréttamenn hér á landi, eins og kannske víðar, eru farnir að „búa til fréttir“, ef svo má segja, búa til málefni handa fólkinu til að ræða um og segja svo að þetta sé krafa fólksins. Við höfum ótal dæmi um svona fréttamennsku. Við höfum ótal dæmi um það núna að undanförnu, að það eru „búin til“ sérstök mál sem menn eiga að ræða og skulu ræða og annað kemst ekki að, og málin eru yfirleitt rædd þannig, að það er búinn til einn ákveðinn skilningur sem er barinn inn í vitund manna og allt látið snúast um þann skilning einan. Ég verð að segja það um þetta mál, þegar því er haldið fram að það sé einhver „krafa fólksins“ að það þurfi að gera róttækar breytingar á kosningatilhögun, þá er það ekkert annað en meira og minna tilbúningur úr örfáum fréttamönnum sem lifa á því að búa til fréttir og búa til oft og tíðum sáraómerkileg viðfangsefni handa fólkinu til að hugsa um. Sannleikurinn er sá, að þó að almenningur á Íslandi eins og víðar sé undirlagður af svona ómerkilegum áróðri fyrir tilstilli fjölmiðlanna, sem í gangi eru, þá held ég þó að fólk hér á Íslandi sé fúst til þess að rökræða hvert mái, ég held að það sé við því búið að rökræða þetta mál og ég held að það sé óþarfi að vera að gera almenningi upp einhverjar fyrir fram skoðanir í þessu máli, eins og mér hefur fundist koma mjög sterklega fram í ræðum margra sem hér hafa talað og látið eins og þeir séu sérstaklega að tala máli fólksins og þeir séu að bera fram almenna kröfu frá fólkinu.

En eins og ég segi, þá er ég andvígur þeirri tegund af röðunarrétti sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég tel langeðlilegast að flokkarnir ákveði framboð, og ég álit að flokksleg samtök eigi að ákveða röðun á framboðslista. En jafnframt legg ég áherslu á að kjósendur geti á kjördegi umraðað að vild sinni og e.t.v. bætt við nýjum nöfnum á listann. Þetta tel ég fullnægja eðlilegri kröfu um röðunarrétt kjósenda. En jafnframt vil ég leggja á það áherslu, og ég legg á það mikla áherslu, að stjórnmálaflokkarnir starfi af þrótti og að þeir starfi þannig, að það sé óhætt að segja að þeir séu ábyrgir gagnvart kjósendum og gagnvart því lýðræðisskipulagi sem þeir starfa undir. En ég held að það sé líka praktísk nauðsyn, að framboðslistarnir eigi sér sína forustumenn og sína málsvara. En þetta atriði er sáralítið rætt og þessu hefur ekki verið gefinn mikill gaumur. Ég hef bent á þetta hér í umr. og geri það enn þá. En eins og ég segi, þá tel ég þetta fyrst og fremst praktískt vandamál, en það er í rauninni miklu meira. Það er líka spurning um það, hvernig kosningabaráttan fer fram. Það er spurning um það, hvaða innihald kosningabaráttan hefur. Það er spurning um það, hvort kosningabaráttan eigi að vera málefnaleg, þannig að hafin sé barátta og átök á milli stjórnmálafylkinga eða hvort stjórnmálabaráttan á að vera einhvers konar frumskógahernaður þar sem menn standa að nafninu til saman, en er þó ætlað í reynd að vegast á innbyrðis. Þannig held ég að það sé mjög óheppilegt að ætla að fara að blanda saman prófkjöri og almennum kosningum, eins og þó virðist vera meining hv. flm.

Ég lagði þessa spurningu um forustu fyrir frambjóðendum fyrir hv. flm. í fyrri ræðu minni og mér þykir vænt um að hann tók eftir þessari spurningu, því hún er afar mikilvæg, og hv. flm. gerði tilraun til að svara spurningu minni. En ég held þó að svar hans hafi verið mjög ófullnægjandi. Flm. segir að ef frambjóðendur geti ekki komið sér saman eigi flokkarnir að ákveða það, t.d. stjórnir kjördæmissambandanna, þá eigi þær að ákveða hvaða frambjóðendur eru í málsvari fyrir listanum. En ég verð nú að bera fram þá spurningu á móti eða leggja þá spurningu fyrir, hvort þetta sé nógu gott og hvort þetta sé nógu lýðræðislegt. Ég held að það hljóti að vera ansi miklir annmarkar á þessu. Og það leiðir aftur til þess, að maður fer að spyrja: Hvað mundi ske frekar ef till. hv. flm, yrði að lögum. Ég er nefnilega sannfærður um að það sækti fljótlega í það horf, að flokkar og aðstandendur framboðslista fyndu til þess skipulagsleysis, sem leiðir af óröðuðum lista, og reyndin yrði auðvitað fljótlega sú, að flokkarnir færu að halda fram ákveðnum mönnum og reka áróður fyrir þeim. En hvað er þá unnið við þetta fyrirkomulag? Þegar svo er komið erum við komnir hringinn.

Hér hefur líka verið rætt mikið um flokkana og flokksræðið og það væri kannske ástæða þess að gera það lítillega að umræðuefni. Ég gerði það svolítið í fyrri ræðu minni, og þá lagði ég áherslu á að flokkarnir væru mikilvægir fyrir það þjóðskipulag sem við aðhyllumst, sem er lýðræði og þingræði. Ég sagði þá fullum fetum að það eigi að efla starfsemi flokkanna og ekki síst frumeininganna í flokkunum, þ.e.a.s. einstakra flokksfélaga á afmörkuðum svæðum, og kjördæmissambandanna. Ég álít að slík efling flokksstarfsemi yrði til styrktar lýðræðinu í landinu. Lýðræði okkar byggist nefnilega á margflokkakerfi. Það byggist á því, að til séu skipulögð stjórnmálasamtök, og við höfum hér á Íslandi eins og annars staðar búið við marga flokka. Og þannig er það yfirleitt í vestrænu lýðræði, að það eru margir flokkar, sem bjóða fram, og út af fyrir sig ekkert óeðlilegt við það og við verðum að miða okkar aðgerðir við þessa staðreynd.

En ég held líka að það hljóti að vera eitt af aðalhlutverkum stjórnmálasamtakanna að bjóða fram menn til Alþingis og halda mönnum fram til forustu í landsmálum. Þetta er að mínum dómi réttur flokkanna í lýðræðislandi, en þessum rétti fylgir auðvitað líka ábyrgð. Og þegar talað er um það, að flokksræði hafi vaxið, þá held ég að það sé beinlínis rangt. Ég held að ef þessi fullyrðing á að merkja það, að flokksforingjarnir hafi meiri áhrif núna í sambandi við ákvarðanatöku, bein áhrif, þá held ég að þetta sé rangt. Ég held að ýmsar geðþóttaákvarðanir flokksforingja séu varla þekkjanlegar nú. A.m.k. kannast ég ekki við það úr mínum flokki. Óeðlilega afskiptasemi flokksforingja af einstökum málum þekki ég ekki, og ég held að það sama sé upp á teningnum í öðrum flokkum. Sannleikurinn er sá, að lýðræðið í stjórnmálaflokkunum hefur vaxið, en ekki minnkað. Það er t.d. ekkert annað en skrum þegar sagt er að foringjaklíkur ráði framboðum. Ég þekki ekkert dæmi um slíkt, og jafnvel þó að hv. þm. Karvel Pálmason hafi verið að reyna að draga fram eitthvað slíkt hér um daginn að því er varðaði Framsfl. einhvern tíma á Vestfjörðum, þá verð ég að segja það, að ég kannast ekki við þetta dæmi og er ekki í vafa um að hann fer stórlega rangt með.

Ég held að svo sé, að allir flokkar beiti lýðræðislegum aðferðum við val frambjóðenda. Það er auðvitað ekki alltaf beitt nákvæmlega sömu reglunni, en ég held að óhætt sé að segja, að allir flokkar beiti lýðræðislegum aðferðum þegar um framboð er að ræða.

Og það er alveg fráleitt að halda því fram, að foringjaklíkur ráði öllu um framboð. Foringjaklíkur, sem svo eru stundum kallaðar, ég held að þær ráði nánast engu um framboð.

Nú er verið að ganga frá framboðum til Alþingis yfirleitt í öllum flokkum og í öllum kjördæmum. Þetta er að ske núna, hefur verið að ske að undanförnu og er enn að ske. Og hvaða aðferðum skyldi nú vera beitt? Það vita allir hv. alþm. og þarf í rauninni ekki að telja það upp. En ég ætla þó að nefna það, að það er beitt skoðanakönnunum, beinum prófkjörum, og fjölskipaðar framboðsnefndir fjalla um málin og þær leggja fram tillögur til kjördæmisþinganna eða fulltrúaráða, og kjördæmisþing eða fulltrúaráð hafa síðan æðsta valdið, en þessi fulltrúaráð og kjördæmisþing eru býsna fjölmenn fulltrúaþing flokksmanna í kjördæminu. Þetta hefði einhver tíma talist vera lýðræðisleg aðferð, og er það, þó að sjálfsagt megi gera eitthvað betur. En yfirleitt þekki ég ekki annað en að þetta fari fullkomlega eðlilega fram og á fullkomlega lýðræðislegan hátt, og það er engin ástæða til þess að gera lítið úr þess háttar starfsemi flokkanna. Ég tel einmitt að það sé ástæða til að minnast á það, að flokkarnir starfa nú og hafa starfað á síðustu árum miklu lýðræðislegar en e.t.v. kann að hafa verið hér einhvern tíma fyrrum.

Þetta vil ég að menn hugleiði og að menn viti. Þess vegna segi ég það, að allar fullyrðingar um að það sé eitthvert flokksræði í landinu, flokksræði í merkingunni foringjavald, þá er ég viss um að það er rangt.

Þessar fullyrðingar eru ekkert annað en hávaði í vissum mönnum, og ég mundi nú vilja leggja það til að hinir hófsamari menn, sem láta í sér heyra um þetta, séu ekki að bergmála þetta og éta þetta upp eftir einhverjum lýðskrumurum og æsingamönnum.

En eins og ég segi, virðulegi forseti, þá eru þessar umr. orðnar býsna langar og ég hef áður sagt skoðun mína á þessu máli. Ég sé enga ástæðu til þess að lengja þessar umr. úr hófi, en ég endurtek það, að ég held að þessar umr. hafi þrátt fyrir allt verið gagnlegar. Málefnaágreiningur hefur vissulega komið í ljós í sambandi við þetta mál, hann hefur komið skýrt í ljós, og það var í rauninni nauðsynlegt að hann kæmi fram. Það er bara sá galli á, að þessi málefnaágreiningur hefði átt að vera kominn fram miklu fyrr, helst fyrir 2–3 árum, þannig að það hefði verið hægt að kveða fyrr í kútinn ýmis konar skrum og ósannindi sem uppi hafa verið í blöðum og öðrum fjölmiðlum í sambandi við þessi mál. Að þessu leyti tel ég, að framlagning þessa frv. hafi orðið að gagni, og get þakkað hv. flm. það, en efnislega er þetta mjög óaðgengilegt frv. og þarf greinilega mikillar athugunar við.