12.12.1977
Neðri deild: 27. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

21. mál, kosningar til Alþingis

Gunnlaugur Finnsson:

Hæstv. forseti. Um þetta þingmál hafa nú sennilega farið fram meiri umr. en um nokkurt annað þingmál það sem af er þessu þingi. Hlýtur að liða að því að málið verði afgr. til nefndar. Mig langar þó til þess áður að segja hér nokkur orð. Umr. hafa ekki aðeins fjallað um frv. sjálft sem slíkt, heldur gengið miklu lengra og viðar um kjördæmamálið og kosningalögin almennt séð.

Ég vil segja það fyrst um frv., að ég tel að sú hugmynd, sem þar er sett fram, sé allrar athygli verð. Ég vil ekki á þessu stigi, eins og sumir ræðumenn hafa gert, telja þessa aðferð forkastanlega, þó að ég sjái að vísu að á henni eru ýmsir gallar. Ég held að það hafi komið fram í umr. oft á tíðum of mikið vantraust á almenna hæfni og greind kjósenda að velja sér menn af viðkomandi lista. Ég lít þó samt ekki fram hjá því, að svo einföld regla sem þarna er gert ráð fyrir býður upp á alls konar baktjaldastarfsemi á sama tíma og kosningar fara fram, sem geta komið illa út eða á annan veg en raunverulegur vilji kjósendanna er. Ég held þess vegna að þetta mál verði að skoðast í tengslum við önnur mál varðandi kosningalög og kjördæmaskipan, ekki síst með tilliti til þess, að almennt séð er ég mótfallinn því að með litlum fyrirvara séu sett lög sem taka gildi strax, en þar gefist ekki nokkur umþóttunartími áður en lögin koma til framkvæmda. Ég tel að nú, eins og á stendur, séum við komin of nálægt kosningum og það sé búin að fara fram of mikil undirbúningsvinna til þess að það sé Fært að láta þessa breytingu á kosningalögum taka gildi fyrir þann tíma. En ég vil leyfa mér að minnast á aðrar breytingar, aðrar hugmyndir, sem flestir ræðumenn hafa komið inn á í þessum umr., þannig að ég á ekki að vera nein undantekning í því, — ýmsar aðrar breytingar sem þyrfti að gera á kosningalögum og kjördæmaskipan.

Hér hafa menn haldið margar ræður þar sem talað er um lýðréttindi, jöfn lýðréttindi allra í landinu, í þá veru að við berum fyrir borð rétt einstaklinganna miðað við það kerfi sem nú gildir.

Það hefur komið líka til greina að leiðrétta þetta misjafna vægi samkvæmt öðru máli, sem hér hefur verið á dagskrá, með því að úthluta uppbótarþingsætum eftir öðrum reglum samkvæmt kosningalögunum en nú er gert.

Ég verð að segja það, að mér þótti það athyglisvert sem kom fram hjá formanni stjórnarskrárnefndar í sjónvarpsþætti eigi alls fyrir löngu, þar sem hann var að velta því fyrir sér, hvort hér kynni að vera um stjórnarskrárbrot að ræða eða ekki, þ.e.a.s. kannske ekki beinlínis gagnvart orðalagi stjórnarskrárinnar, heldur þeim hugmyndum sem liggja að baki því orðalagi sem er í henni, — þar eru þau ákvæði, að landskjörnum þingsætum sé úthlutað til þess að jafna á milli flokka, — hvort það felist í því, þegar ákvæði séu sett til þess að framfylgja þessu í kosningalögum, að það mundi þá líka vera gert ráð fyrir í þessu orðalagi stjórnarskrárinnar að þetta skuli vera til þess að jafna á milli kjördæma. Ég heyrði að formaður n. efaðist um það. Ég held að það væri rétt þess vegna, að þessi atriði yrðu líka athuguð í samhengi við málið allt, um leið og hugsanlega yrði gerð breyting á stjórnarskránni.

Ég vil segja það í sambandi við þetta algjörlega jafna vægi eða tiltölulega lítinn mismun á vægi atkvæða, að mér þykir þetta tal allt dálítið undarlegt, m.a. þegar við lítum til þess, að þetta vægi er á öðrum sviðum feikilega misjafnt. Hvernig stendur á því, að Reykvíkingar skuli una við það, að það eru litlu færri atkvæði á bak við hvern fulltrúa sem þeir kjósa til borgarstjórnar en til Alþingis. Þar hefur ekki fjölgað mönnum enda þótt heimild sé til í lögum og lúti þá ákvörðum borgarstjórnarinnar sjálfrar. Þar er vægi atkvæða feikilega misjafnt um allt land. Sums staðar er ekki nema örfá atkvæði á bak við hvern sveitarstjórnarfulltrúa. Ég geri mér grein fyrir því að valdsviðið er líka mjög misjafnt. En þarna kemur margt til athugunar, og ég er þeirrar skoðunar, að við þurfum að finna visst vægi í stjórnarskránni, annars vegar á milli landshlutanna og hins vegar vægi persónulegs atkvæðis.

Þetta mál er ekki eins á dagskrá, enda kemur ekki fram jafnmikill mismunur í öðrum löndum, en það er líka þjóðfélagsgerðin allt önnur, þar sem tiltölulega jöfn byggð er um landið allt eða hvert land fyrir sig, og þess vegna koma ekki slík vandamál upp. Hins vegar hef ég bent á það áður, að Bandaríkjamenn leysa þetta á allt annan hátt þar sem um er að ræða öldungadeildina. Það hefur verið nefnt hér í umr., þar sem öldungadeildin er mynduð af fulltrúum allra fylkja, þar sem hvert fylki út af fyrir sig hefur jafnmarga fulltrúa, hversu fjölmennt sem það er, þar sent kemur fram sextugt vægi atkvæðis í Alaska miðað við New York-ríki. Þetta getur gerst þar. vegna þess að þar stendur ekki og fellur ríkisstjórn með því hvernig þingið í heild er skipað, vegna þess að þeir búa ekki við þingræðisform eins og við gerum. Ég efast um að það sé vilji fyrir því að breyta því stjórnarformi hér að hverfa frá þingræðisforminu og taka upp það form sem er í Bandaríkjunum.

En þá er spurningin: Getum við tryggt rétt landsbyggðarinnar eða landshlutans á einhvern annan veg en þann að taka það upp hér, að önnur deildist yrði kosin beint af landshlutunum sjálfum og í hinni deildinni væri gert ráð fyrir jöfnu vægi atkvæða allra kjósenda? Getum við tekið eitthvert annað form, sem yrði eins konar millileið og tryggði þessi sjónarmið hvor tveggja. Ég er ekkert efins í því, að það er hægt að finna slíka leið. Ég geri ráð fyrir því, að ef menn athuga til hvers það mundi leiða, þá fæ ég ekki betur séð en að það mundi leiða til nokkuð svipaðrar niðurstöðu og þeirrar sem við búum við núna. Ég fæ a.m.k. ekki annað séð, ef við athuguðum hvernig við ættum að tryggja þessa hluti vítt um landið.

Það er alveg tómt mál að tala um það, að þetta séu einhver sérstök lýðréttindi sem við eigum að líta á, út af fyrir sig, í engu samhengi við annað, og ræðumenn hafa talað um það, að þeir vildu jafna aðstöðuna þannig að allir búi við sömu aðstöðu alls staðar um landið. Við verðum að sjálfsögðu að bæta aðstöðuna eins og við getum þannig að menn eigi félagslega séð rétt til sömu þjónustu, t.d. í heilbrigðismálum og skólamálum og öðrum slíkum þáttum. En við jöfnum aldrei aðstöðuna til áhrifa, því það er landfræðilegs eðlis, þannig að það eru ýmsir þættir þarna sem gera það að verkum, að það er tómt mál að tala um það, það er fjas eitt.

Ég vil leggja á það alveg sérstaka áherslu í sambandi við þessar umr., að ég tel að það þoli ekki bið að taka ákvarðanir um það, hvort og hvaða breytingar verða gerðar á stjórnarskránni. Ég tel að það þoli ekki ýkjalanga bið að taka ákvarðanir um það, hvort kjördæmaskipuninni sem slíkri verði breytt eða hvort sú kjördæmaskipun, sem nú er, verður áfram. Og ég tel að við stöndum nú frammi fyrir framkvæmd ýmissa málaflokka þannig að við þurfum að samhæfa stjórnunarlega séð hvernig þar verður komið fyrir hlutunum annars vegar og hvernig landið skiptist í kjördæmi hins vegar.

Það eru miklar umr. t.d. um skólamál, um grunnskólastigið og framkvæmd laga um grunnskóla. Það eru líka miklar umr. uppi varðandi framhaldsskólastigið, í hvers höndum það verði, hverjir kosti það, hverjir fari með yfirstjórn þessara mála, hver verði landfræðileg mörk fræðsluumdæmanna, hvernig verði háttað yfirstjórn þar. Verður hún sjálfstæð eða að meira eða minna leyti í tengslum við rn.? Og þá kemur upp spurningin: Eigum við að binda okkur þarna við kjördæmin eða eigum við að mynda nýjar einingar þar sem ein eining kannske verður hluti af kjördæmi, en, önnur eining hluti af tveimur kjördæmum? Getum við samhæft þessi mörk?

Það sama er uppi varðandi athuganir á heilbrigðisþjónustunni. Heilbrigðislögin eru ekki að fullu komin til framkvæmda enn, og ég veit ekki til þess að úti um landið hafi embættislæknar, sem í þessum lögum eru nefndir héraðslæknar, hafi tekið til starfa. Getum við fundið þarna einhver eðlileg landfræðileg og félagsleg mörk fyrir nýjum umdæmum? Eiga þessi umdæmi að vera önnur en þau í skólamálunum, eða eiga þau að vera önnur en þau sem kjördæmin koma til með að marka ef breyting verður gerð?

Eitt atriði enn: Við hljótum líka að líta alvarlega á það, og það er eitt af því sem ég tel að ekki þoli bið, hver verður framtíð sýslunefnda í því formi sem þær eru nú. Alls staðar fara saman nú í landinu mörk sýslna og mörk kjördæma enda þótt margar sýslur séu víðast í sama kjördæminu. Starfssvið eða starfsvettvangur sýslnanna hefur á undanförnum áratugum breyst geysilega mikið og verkefni þeirra hafa horfið frá sýslunefndum yfir til ríkisins. Þær hafa mismunandi mikil verkefni á sinni könnu, sum sárafá.

Það er önnur breyting sem hefur gerst: Kaupstaðir hafa horfið út úr umdæmum sýslnanna og á þann hátt hafa þær veikst svo að staða þeirra og stærð þeirra er orðin minni en svo að það séu starfhæfar einingar stjórnunarlega séð.

Ég hef t.d. áður bent á sjálfstæða sýslu hér í okkar næsta nágrenni. Mér sýnist að það horfi þann veg, að innan nokkurra ára kunni í heilu sýslufélagi, sjálfstæðu sýslufélagi, að vera aðeins eftir einn — kannske tveir, en þó sennilega ekki nema einn hreppur ef byggðaþróun hér heldur áfram svo sem hún hefur verið á undanförnum árum. Á ég þá við Kjósarsýslu.

Þess vegna er nauðsynlegt að samræma bæði störf sýslunefnda, eins og þær eru núna, sem og þau störf sem fara fram á vegum landshlutasamtakanna, stokka þarna algjörlega upp, e.t.v. að formi til að leggja hvort tveggja niður. Það er ekkert mál fyrir mig, hvort hin nýja stjórnunareining kemur til með að heita sýslunefnd eða eitthvað annað. En þarna knýr á að taka hendinni til og ýta ekki endalaust slíku vandamáli á undan sér. Þess vegna held ég að Alþ. þurfi annaðhvort að krefjast þess að stjórnarskrárnefnd verði sett ákveðin tímamörk til að ljúka sínu starfi eða þá að taka málið í sínar hendur, til þess að snemma á næsta kjörtímabili liggi fyrir ákveðnar niðurstöður sem verða afgreiddar það tímanlega að þær geti komið til framkvæmda fyrir aðrar þingkosningar hér frá.

Niðurstaða mín er sú í sambandi við þessar umr., að ég held að það sé rétt, að þoka fram yfir þessar kosningar þeim breytingum sem reifaðar hafa verið í umr, á þessu haustþingi, en að það komi fram ákveðin yfirlýsing um það, að að þessu máli verði unnið og að það verði komist að niðurstöðu það snemma á næsta kjörtímabili, að niðurstaða liggi nægilega tímanlega fyrir.