12.12.1977
Neðri deild: 27. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

21. mál, kosningar til Alþingis

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Mér er ljóst að ég hef talað tvísvar í þessu máli og skal því ekki lengja umr. óhóflega úr því sem komið er.

Þegar mál þetta var hér síðast á dagskrá vék ég nokkuð að því, að á því hefði borið að einstakir þm. hefðu fullyrt hér um það, hvað aðrir þm. hefðu sagt í málinu, sem ekki var í neinu samræmi við staðreyndir, og lagt mjög út af slíkum fullyrðingum. Ég benti á í þessu tilfelli sérstaklega ýmsar fullyrðingar sem fram höfðu komið í ræðu hv. 5. þm. Vestf., Karvels Pálmasonar. Ég afsakaði þetta að nokkru leyti með því, að langt hefði liðið milli funda og menn hefðu af þeim sökum sennilega vel getað misst niður þráðinn og því hafi ekki verið fullt samræmi í því sem sagt var.

En ég tók eftir því á síðasta fundi, að það þurfti ekki að líða langt á milli til þess að menn færu alrangt með það sem sagt hafði verið. Þessi sami hv, þm. kom á nýjan leik með hinar furðulegustu fullyrðingar um það, hvað ég hefði m.a. sagt rétt áður en hann fór hér upp í ræðustól. og það er einkum það sem ég vil leiðrétta hér af því sem hann sagði.

Hann fullyrti t.d. að hann hefði skrifað eftir mér, að ég vissi ekki einu sinni hvort ég væri sammála öðrum flokkssystkinum mínum um það, hvort veita ætti kjósendum frekari rétt en þeir hefðu nú til þess að hafa áhrif á röðun framboðslista. Auðvitað sagði ég ekkert í þessa átt, heldur þveröfugt og margendurtók það í minni ræðu. En það, sem hv. þm, var hér að vitna til, hafði ég talað um á þennan hátt samkvæmt þeirri skrifuðu ræðu sem liggur hér fyrir í þinginu og ég mun tilfæra orðrétt, með leyfi forseta, þar stendur:

„Það kann vel að vera, að nokkur munur sé á sjónarmiðum mínum og þeirra varðandi það skipulag sem á að gilda í þessum efnum. Það get ég ekki sagt um á þessu stigi. En ég er þeim sammála að því leyti til, eins og ég hef hér margundirstrikað, að ég tel sjálfsagt að athuga hvort hægt er að breyta þeim reglum, sem í gildi eru, um rétt hins almenna kjósenda til þess að hafa áhrif á röðun nafna á framboðslista.“

Þetta lagði hv. þm, þannig út, að ég vissi ekki hvort ég væri sammála þeim um það að veita kjósendum nokkurn rétt. En þetta var aðeins eitt af mörgu sem fram kom hjá hv. þm. í þessa átt. Ég skal ekki fara að elta ólar við það. Það er með öllu tilgangslaust, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, að þræta við þm. sem aðeins fullyrða eitthvað að mínum dómi út í bláinn og eru í rauninni tilbúnir til að taka það aftur í lok setningar sem þeir fullyrða í upphafi setningar, eins og það sem fram kom hjá hv. 5. þm. Vestf. þegar hann sagði að hann undraðist að ég vissi ekki í hvaða flokki hann hefði verið, þar sem hann hefði verið í Alþb. og þar hefði hann nú heldur betur kynnst flokksræðinu. En hann var ekki búinn að gleypa andann til þess að byrja á næstu setningu þegar hann sagði, að að vísu hefði hann aldrei verið í Alþb. sem stjórnmálaflokki — aldrei. En bann kynntist flokksræðinu í Alþb. áður en Alþb. varð til. Á meðan Alþb. hafði ekki verið myndað sem stjórnmálaflokkur, þá beitti það þennan hv. þm. ofbeldi í sambandi við líklega framboðsmál þau sem hér var verið að ræða um, þó að hann viðurkenndi að hann hefði aldrei verið í Alþb. sem stjórnmálaflokki. En þetta er aðeins í fullu samræmi við aðrar fullyrðingar hv. þm, um þessi mál, sem í rauninni tekur ekki að vera að tala hér um. Það þekkja allir, að Alþb, var starfandi sem kosningasamtök áður en stjórnmálaflokkurinn Alþb. var myndaður. Þá var vitanlega ekki um neina flokksstjórn að ræða og ekkert flokksræði. Það var samkomulag þeirra aðila sem höfðu komið sér saman um að standa sameiginlega að framboðum. Og sem sagt, allar fullyrðingar hv. þm. í þessa átt detta auðvitað dauðar eins og hvert annað sem ekki verður sannað með neinum hætti.

Sama er auðvitað að segja um fullyrðingar þar sem hann bar að mínum dómi mjög ómaklega á þá Vestfirðinga að þeir létu kúga sig á þann hátt, að þó að þeir væru búnir að bjóða fram til. Alþingis, þá kæmu menn stundum frá flokkunum í Reykjavík og sneru þeim í hring og píndu þá til þess að leggja af skoðun sína og taka upp það sem flokkarnir vildu. Ég tel að þetta sé mesti óhróður um Vestfirðinga og sagt um þá alveg ómaklega, að þeir séu svo aumir að þeir láti snúa sig niður á þennan hátt, hafandi réttinn og vera búnir að bjóða fram, en svo senda flokksforustumenn menn vestur og þá snarsnúast Vestfirðingar og gefast upp undireins. Þetta er svo sem eins og fullyrðing um það, og var greinilegt að hv. þm. átti við Vestfirðinga, að það tíðkaðist að flokksforustan réði menn til lífstíðar til þingmennsku. Hvað er að heyra! Er svona komið fyrir Vestfirðingum virkilega, að þeir láti fara svona með sig, þó að það sé upplýst að flokkarnir hafi þann hátt á, að það sé fullkomlega á valdi flokksmannanna í viðkomandi kjördæmi gegnum kjördæmisráðin að ráða framboðum? En það er eins og ég segi, það er auðvitað alveg þýðingarlaust að vera að þræta við menn sem fullyrða á þennan hátt og koma í rauninni hvergi nærri því að rökræða um mál. Við getum auðvitað alltaf sagt: Ég var píndur, það var farið illa með mig, og flokkarnir voru svona óbilgjarnir, jafnvel áður en flokkarnir urðu til ákváðu þeir þetta eða hitt.

Ég skal ekki lengja þessar umr. frekar, hæstv. forseti, vegna þess að ég veit að það er ástæða til að þetta mál komist til n. Ég hef lýst afstöðu minni til þessa máls og bent á hvað ég tel vera aðalatriði málsins. En fullyrðingar út í bláinn um það, hvernig hafi verið farið með einstaka menn eða hvernig einstakir menn hafi látið fara með sig af einhverjum flokksstjórnum, koma málinu ekki við. Og það er í rauninni allt annað sem hér hefði átt að ræða um og að mínum dómi hefur verið rætt um í þessum umr. af nálega öllum þeim sem hafa tekið þátt í þeim, öðrum en hv. 5. þm. Vestf , sem bara hefur kastað fram svona fullyrðingum, jafnvel um að flokkar, sem ekki voru orðnir til, hafi farið illa með hann.