12.12.1977
Neðri deild: 27. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

Umræður utan dagskrár

Ellert B. Schram:

Virðulegi forseti. Mér var kunnugt um það að menn gætu kvatt sér hér hljóðs út af margvíslegustu málefnum utan dagskrár en ekki var mér kunnugt um það fyrr en nú að menn gætu kvatt sér hljóðs til þess að ræða eigið heilsufar. En að svo miklu leyti sem ræða hv. þm. sneri að fréttaflutningi Ríkisútvarpsins, þá vil ég aðeins segja nokkur orð, þar sem hann lét sér um munn fara allalvarlegar fullyrðingar, m.a, þær, að hér væri um beinan atvinnuróg að ræða í garð bændastéttarinnar og að fréttastofan beitti aðferðum nasista. Að vísu er þetta ekki í fyrsta skipti á þessu haustþingi sem þm. gera fréttir Ríkisútvarpsins að umtalsefni. Einn af hv. þm. Alþb. komst að þeirri niðurstöðu fyrr í haust, að vegna tilveru ákveðinna manna í útvarpsráði væru sálræn áhrif þeirra svo mikil á fréttamenn þessarar stofnunar, að þar gætti fyllstu hlutdrægni. Í sjálfu sér kemur ekki á óvart þótt slíkar fullyrðingar komi úr þeirri átt, því fólk, sem aðhyllist kommúnisma og aðrar öfgastefnur til vinstri skilur kannske best hvaða áhrif pólitísk ráðstjórn hefur á fréttastofur og fjölmiðla. En það kemur mér á óvart, að jafnlífsreyndur og umburðarlyndur bardagamaður eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson finnur tilefni til þess að standa upp út af minni háttar orðalagi á fréttaflutningi í tilteknu máli.

Ég held satt að segja að taugaveiklun manna út af flutningi frétta sé oft á tíðum of mikil og að þm. allra helst ættu að skilja, að fréttastofurnar starfa ákaflega sjálfstætt og eru undir nánast engum kringumstæðum undir áhrifum eða beinni stjórn pólitískra stjórnvalda. Ég þekki engin dæmi þess í tíð núverandi útvarpsráðs, a.m.k. hef ég aldrei gert minnstu tilraun til þess að hafa áhrif á hvernig fréttir eru fluttar. Ég held að þessi ræða hv. þm. sé sprottin af þeirri áráttu fulltrúa bændastéttarinnar að líta svo á að öll gagnrýni, sem fram kemur á landbúnaðarmál, sé árás á bændastéttina og að allar tillögur til breytinga séu gagnrýni á landbúnaðinn. Vitaskuld er fréttastofa Ríkisútvarpsins ekki heilög stofnun og hún á að sæta gagnrýni eins og aðrir aðilar, og sjálfsagt er oft tilefni til þess. En ég hygg að það sé ekki réttmætt að gera mikið veður út af því af þessu tilefni.

Ég skal ekki deila eða ræða ítarlega um þær fréttir sem hv. þm. gerir hér að umtalsefni. En ég vil þó sérstaklega vekja athygli á því, að í tilefni af þessari hækkun á landbúnaðarvörum, sem getið var um í fréttum hljóðvarps og sjónvarps, var fulltrúum sex manna n.: Guðmundi Sigþórssyni; formanni Stéttarsambands bænda, Gunnari Guðbjartssyni; forstöðumanni Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Birni Sigurbjörnssyni, öllum gefið tækifæri til þess að tjá sig um þetta mál, og mér finnst það ekki sanngjarnt, á sama tíma sem þessir ágætu menn fá allir að túlka sjónarmið bændastéttarinnar og gera grein fyrir þessum hækkunum og röksemdunum á bak við þær, að vera að halda því fram, að fréttastofan sé þar með aðferðir nasistanna og sé með atvinnuróg í garð bænda.

Ég vildi því að þessu tilefni standa hér upp og vísa þessum ásökunum á bug, ekkert endilega fyrir hönd fréttastofunnar, ekki endilega vegna þess að ég á sæti í útvarpsráði, heldur vegna þess að mér finnst menn vera allt of viðkvæmir fyrir því, hvernig fréttir eru fram fluttar, og að þetta stafi af því, að menn álíta enn að fréttastofum útvarpsins sé stjórnað af pólitískum yfirvöldum. Ég þykist hafa af því reynslu, að fréttamenn þessarar stofnunar gæti fyllsta sannmælis og hlutleysis í flestum málum, reyni að vinna sitt starf af fullri samviskusemi, og í þessu tilfeill, þrátt fyrir að ég hafi hlustað vel á hin tilteknu ummæli, get ég ekki séð að þeir hafi brotið þessa grundvallarreglu.

Ég vil síðan aðeins segja það, um leið og ég óska hv. þm. Stefáni Valgeirssyni til hamingju með að lifa enn þá þrátt fyrir að borða feita kjötið, að þá þurfi í sjálfu sér ekki að hafa miklar áhyggjur ef jafngreindir menn og hann taka jafnlítið mark á læknum og fjölmiðlum og hann var að lýsa fyrir okkur áðan.