13.12.1977
Sameinað þing: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

1. mál, fjárlög 1978

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft frv. til fjárlaga fyrir árið 1978 til umfjöllunar frá því um miðjan október, eða í hart nær tvo mánuði. Haldnir hafa verið 39 fundir í nefndinni, en undirnefnd fjvn., sem skipuð er einum fulltrúa frá hverjum þingflokki, vann að þessu sinni með minnsta móti að undirbúningi fjárlaganna. Til þess að nefndin starfaði minna en áður lágu þær ástæður, að formaður n. lést á þeim tíma og truflaðist starf hennar verulega af þeim sökum, en vinna undirnefndarinnar hefur jafnan flýtt fyrir afgreiðslu frv.

Ég tel að það þyrfti að verða fastur starfsháttur fjvn. að kynna sér rekstur og framkvæmdafyrirætlanir forsvarsmanna hinna ýmsu ríkisstofnana að nokkru marki á milli þinga og þó aðallega síðasta mánuðinn fyrir þingbyrjun. Við það verklag vinnst tvennt: Í fyrsta lagi mætti með ítarlegum viðræðum samræma sjónarmið fjvn. og ráðamanna hinna ýmsu stofnana svo að fjármunir hins opinbera nýttust betur en ella, og í öðru lagi fengist lengri tími fyrir nefndina að gaumgæfa fjárlagafrv. sem ásamt lánsfjáráætlun ríkisstj. er orðið giska viðamikið verkefni og margslungið, en þýðingarmikið tæki til stjórnar efnahagsmálum, ríkisfjármálum og lánamálum á komandi ári.

Eins og að undanförnu hafa nefndarmenn skipt sér í vinnunefndir sem tekið hafa fyrir einstaka málaflokka til athugunar. Má þar til nefna sérstaklega hafnarframkvæmdir, skólabyggingar, uppbyggingu sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva, framkvæmdir í flugmálum, fyrirhleðslur til varnar við ár, svo og sjóvarnargarða, framlög til íþrótta- og æskulýðsmála, eftirlauna, dagvistarstofnana og til ýmiss konar starfsemi á sviði menningarmála. Alþingismenn hafa átt aðgang að þessum vinnuhópum og hafa getað komið á framfæri við þá viðhorfum sínum til margs konar málaþátta, og hafa þeir hagnýtt sér það að þessu sinni eins og jafnan áður. Þá hefur nefndin átt góða samvinnu við hagsýslustjóra og starfslið hans í fjárlaga- og hagsýslustofnun og hefur það gert nefndinni kleift að vinna að endurskoðun frv. á svo skömmum tíma. Hefur það samstarf verið svo gott sem best verður á kosið, og vil ég þakka það fyrir hönd fjvn.

Samnefndarmönnum mínum vil ég þakka gott samstarf í nefndinni, og gegnir þar einu máli um fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna sem samherja. Allir hafa jafnan verið reiðubúnir að leggja sig fram til að auðvelda nefndarstörfin er leysa þurfti úr miklum vanda sem oft hefur verið fyrir hendi þegar takmörkuðu fjármagni skal skipta í marga staði til aðkallandi verkefna. Nú er mér tjáð, að frá því sé skýrt í Þjóðviljanum í morgun, að minni hluti fjvn. muni ekki skila nefndaráliti við þessa umræðu. Ekki er mér ljóst hvað veldur — og væntanlega mun verða skýrt frá því hér á Alþingi af talsmönnum minni hlutans. Að svo komnu máli mun ég ekki ræða þetta frekar, en mun síðar við þessa umræðu víkja frekar að þessum óvenjulegu viðbrögðum stjórnarandstöðunnar, ef tilefni er þá til þess.

Enda þótt fjvn.-menn hafi ekki orðið á eitt sáttir um heildarstefnu varðandi afgreiðslu fjárlagafrv., þá er það svo að brtt. þær, sem nefndin flytur á þskj. 148, eru fluttar af nefndinni sameiginlega, en minni hlutinn hefur áskilið sér rétt til að hafa óbundnar hendur um afstöðu til einstakra tillagna sem fram koma svo og að flytja frekari brtt.

Í fjárlögum fyrir árið 1977 er í fyrsta sinn gert ráð fyrir kauphækkunum fram á mitt fjárlagaár, en lengst af hefur verðlag og gildandi launataxtar í desember verið lagðir til grundvallar við gerð fjárlaga. Sú breyting, sem gerð var á þessu í fyrra, veldur því, að minni munur verður á fjárlögum og ríkisreikningi, þ.e.a.s. að fjárlög verða með þessum hætti traustari og betra stjórntæki til að beita aðhaldi og eftirliti með ríkisútgjöldum og efnahagsmálunum í heild. Nú hefur þetta eftirlit verið hert á þessu ári og ríkisbókhaldið eflt og gert virkara á þessu sviði. Árangur þessara aðgerða kemur m.a. fram í því, að fjölgun ríkisstarfsmanna hefur verið tiltölulega lítil og opinber útgjöld hafa lækkað þegar miðað er við þjóðarframleiðslu. Þannig reyndust heildarútgjöld ríkisins ú árinu 1975 vera 31.4% af þjóðarframleiðslu, en á yfirstandandi ári er þetta hlutfall áætlað 27.3%. Og um leið verður minna frávik ríkisreiknings frá niðurstöðu fjárlaga. Á sama hátt hefur tekist að hamla gegn fjölgun starfsmanna við opinber störf þannig að á árinu 1976 fjölgaði ríkisstarfsmönnum um 0.76%, eða um 90 manns, á sama tíma og aukning á vinnumarkaði í heild varð 1.9% eða 1800 manns. Fullyrða má að í þessu efni verði svipaða sögu að segja um árið sem nú er brátt á enda. Fjvn. hefur áformað að gæta þess, að á þessu sviði verði gætt hófs svo að ríkisumsvifin vaxi ekki frá því sem nú er. Henni er það ljóst, að í ríkisrekstrinum þarf að breyta ýmsu í átt til frekari hagræðingar og endurskoða nánar stofnanir ríkisins og opinberan rekstur yfir höfuð. Það er mikið verk, sem ekki verður unnið á skömmum tíma, en ugglaust gæti leitt til sparnaðar og minni útgjalda fyrir ríki og sveitarfélög.

Í sumar, þegar verið var að leggja síðustu hönd á gerð fjárlagafrv., hafi orðið mjög jákvæð þróun í verðlagsmálum á síðustu 12 mánuðum, svo að verðbólgan hafði sigið niður í um það bil 26% og hafði þá minnkað um helming frá því sem hún var mest. En þegar áhrif launasamninganna á þessu ári eru metin kemur berlega í ljós að þau raska jákvæðri þróun síðustu ára og stefna í tvísýnu þeim árangri sem náðst hefur í því að draga úr hraða verðbólgunnar.

Samkvæmt síðustu áætlunum er gert ráð fyrir að útgjaldahlið fjárlaga muni hækka um fulla 17 milljarða króna sem tengjast nýjum kjarasamningum með ýmsum hætti. Koma þar til fyrst launahækkanirnar sjálfar ásamt hækkunum 1, des. svo og áætlaðar verðbætur á næsta ári, 9.8%, sem koma á öll laun, lífeyrisgreiðslur og sjúkratryggingar, auk þess sem launahækkanir hafa áhrif á ýmis rekstrargjöld og viðhaldsliði fjárlagafrv. Þessum mikla vanda verður mætt með niðurfærslu og aðhaldsaðgerðum á ýmsum sviðum. Dregið verður úr framkvæmdum opinberra aðila með ýmsum hætti, en það haft að endanlegu marki að tryggja greiðslujöfnuð hjá ríkissjóði á næsta ári, viðskiptajöfnuð við útlönd og koma í veg fyrir hækkun erlendra skulda.

Forstöðumenn Þjóðhagsstofnunar komu á fund fjvn. og skýrðu frá hugmyndum sínum um breytingu á tekjum ríkissjóðs þegar tekið hefur verið mið af þeim forsendum sem nú verður að byggja á og óðum skýrast. Fullnaðarniðurstaða þess endurmats mun hins vegar liggja fyrir eftir fáa daga og endanleg afgreiðsla frv. verður byggð á því.

Við 3. umr. mun fjvn. fella saman við fjárlagafrv. áhrif lánsfjáráætlunar ríkisstj. umfram það sem áætlun var um áður, en hún er nú endanlega birt. Verður við það miðað og að því stefnt, að þjóðarútgjöld aukist ekki á næsta ári miðað við þjóðarframleiðslu og þjóðartekjur. Það mundi leiða til þess að viðskiptahalli við útlönd yrði svipaður því sem hann er áætlaður á árinu 1977, og að því er stefnt að hallinn aukist ekki.

Það er álit meiri hl. fjvn. að til þess að ná því marki, sem að er stefnt og ég hef lýst hér í máli mínu, verði að halda áfram að veita ekki aðeins sterkt aðhald í útgjaldaáformum ríkissjóðs við fjárlagagerð, heldur verði og að hafa á því vakandi auga að eftir fyrirmælum Alþingis sé farið um mannaráðningar og eyðsla rekstrarfjár fari ekki fram úr fjárlagaákvörðunum nema um vanáætlanir sé að ræða.

Svo sem áður hefur fjvn. átt viðtöl við fjölmarga aðila við athugun sína á fjárlagafrv. Er þar um að ræða forstöðumenn ráðuneyta og hinna ýmsu ríkisstofnana, forsvarsmenn sveitarfélaga og fjölda annarra einstaklinga og forvígismenn félagasamtaka, sem komið hafa með erindi til nefndarinnar vegna margvíslegra málefna sem öll eiga það sammerkt að farið er fram á fjárveitingar í einu eða öðru formi. Nefndin hefur eftir föngum reynt að kynna sér öll þau erindi sem henni hafa borist. En því miður er það svo, að enda þótt vakin hafi verið athygli á því, að hafi menn málefni, sem ætlast er til að tekið sé tillit til við afgreiðslu fjárlaga, þá þurfi þau að berast viðkomandi ráðuneyti eigi síðar en um mitt sumar, þá er reynslan hins vegar sú, að erindi eru að berast nefndinni allt fram á síðasta dag fyrir afgreiðslu fjárlagafrv. Þess vegna er þess naumast að vænta að nefndinni vinnist tími til að lesa slík erindi, hvað þá að taka þau til afgreiðslu.

Hjá nefndinni liggja enn nokkur erindi sem hún mun taka til nánari athugunar á milli 2. og 3. umræðu. Þar er um að ræða m.a. endanlega afgreiðslu fjárveitinga til ríkisspítalanna, bæði stofnkostnað og rekstur. Á sama hátt bíður enn afgreiðslu rekstrarkostnaður dómsmála- og löggæsluembætta. Þá bíða einnig tillögur um dagvistarheimill, ýmsa þætti er varða þjóðkirkjuna, menntaskólana og skipting eftirlauna og styrktarfjár. Þá eru enn óafgreiddar tillögur um Orkusjóð og Rafmagnsveitur ríkisins og fleiri framkvæmdir sem tengdar eru lánsfjáráætlun.

Ég mun nú í stuttu máli gera grein fyrir þeim brtt. sem nefndin flytur á þskj. 148.

Koma þar til fyrst brtt, sem varða forsrn.

Gjöf Jóns Sigurðssonar: Lagt er til að framlag hækki um 1315 þús. kr. og er það í samræmi við ákvörðun Alþingis og háð launabreytingum. — Við embætti húsameistara ríkisins er lagt til að sértekjur stofnunarinnar hækki um 5500 þús. kr. vegna hækkaðrar þjónustugjaldskrár, og lækkar þá ríkisframlag um sömu upphæð. — Lagt er til að framlag til þjóðgarðsins á Þingvöllum hækki um 500 þús. kr. er gangi til líffræðirannsóknar í Þingvallavatni sem kostuð er til jafns af ríkissjóði og Landsvirkjun.

Þá koma næst brtt. varðandi menntamálaráðuneytið.

Fjárlög 1978. 1002 Fjölbrautaskólinn í Breiðholti: Framlag hækki um 236 000 þús. kr., og er það stofnkostnaðarframlag tekið út af lið nr. 792, sem er um framlög til grunnskóla. — Flensborgarskóli, fjölbrautaskóli hækki um 13 000 þús. kr., og er það stofnkostnaðarframlag tekið út af lið nr. 792. —

Fjölbrautaskóli Suðurnesja, stofnkostnaðarframlag verði 30 000 þús. kr., upphæðin tekin út af lið nr. 792. — Til tónlistarstarfsemi, 2000 þús. kr, fellur út af lið nr. 563, og kemur aftur inn á „Listir, framlög“ nr. 982. — Til Tónlistarskóla Seyðisfjarðar verði veitt 500 þús. kr. byggingarframlag, og er það nýr liður. — Framlag til héraðsskóla, gjaldfærður stofnkostnaður, hækki um 5000 þús. kr., og er það ætlað til endurbóta á skólahúsnæði að Núpi, að öðru leyti vísast til sundurliðunar á sérstöku yfirliti. — Framlög til byggingar grunnskóla og íbúða fyrir skólastjóra lækka um 279 000 þús. kr., sem skýrist af því að fé af þessum lið í frv. er ráðstafað til þriggja fjölbrautaskóla, eins og sagt var hér að framan. Sundurliðun er á sérstöku yfirliti á þskj. 148 og vísast til þess. En rétt er að geta þess, að á árinu 1978 er gert ráð fyrir framkvæmdum við 138 mannvirki á grunnskólastigi, en í ár voru þau 145, en framlag til undirbúnings framkvæmdum fer nú til 39 verkefna á móti 36 á sl. ári. – Framlögum til skólabygginga fyrir þroskahömluð börn er skipt á þessi viðfangsefni: Hlíðaskóli 8000 þús. kr., Öskjuhlíðarskóli 26 000 þús. kr. og skóli við Lyngás 26 000 þús. kr. — Lagt er til að fjárveiting til stofnana afbrigðilegra barna hækki um 10 000 þús. kr., sem skýrist af því, að ætlað er að koma á fót slíkri stofnun á Staðarfelli í Dalasýslu haustið 1978. Er ætlað til launa 5000 þús. kr., til annarra rekstrargjalda 3000 þús. kr., til stofnkostnaðar 1000 þús. kr., svo og til stofnkostnaðar við Sólborg á Akureyri 1000 þús. kr. — Til náms- og hælisvistar unglinga er tillaga um hækkað framlag um 200 þús. kr. og til sumardvalarheimila 500 þús. kr. — Til Félagsstofnunar stúdenta er tillaga um hækkun sem nemur 5000 þús. kr., og er það ætlað beint til viðhalds á stúdentagörðunum. Fjvn. hafði áformað að kynna sér ástand stúdentagarðanna og meta þörf þeirra og athuga rekstrarstöðu þeirra, en tími hefur ekki unnist til þess. En nefndin mun láta verða af því síðar í vetur.

Tillaga er um að hækka framlag til Vísindasjóðs um 3000 þús. kr. — Þá er næst tillaga um hækkun á liðnum „Listir, framlög“ um 27 249 þús. kr. sem stafar af eftirfarandi: Framlög rithöfunda hækki um 6216 þús. kr., sbr. sérstaka sundurliðun. Framlög til tónlistar er lagt til að hækki um 3050 þús. kr. Á þennan lið kemur framlag að upphæð 2000 þús, kr. sem flutt er til af öðrum lið, en af þessum lið er áskilið að 1250 þús. kr. gangi til lúðrasveita. Tillaga er um að framlag til myndlistar hækki um 2900 þús. kr. og skiptist þannig, að til listasafna verði varið 3500 þús. kr., til myndlistarsýninga 500 þús. kr. og til listiðnaðarmála 400 þús. kr. Þá er lagt til að framlag til kvikmyndagerðar hækki um 500 þús. kr. Lagt er til að heiðurslaun listamanna hækki um 3000 þús. kr. og listamannalaun um 10000 þús. kr., og er það í samræmi við almennar launabreytingar. Þá er lagt til að „Önnur framlög“ hækki um 1583 þús. kr. og verði að upphæð 14 080 þús. kr., sem skiptist þannig, að til listkynningar verði varið 1000 þús. kr., til Bandalags ísl. listamanna gangi 250 þús. kr., starfslaun listamanna verði 6530 þús. kr. og til lista og menningarmála almennt verði varið 6300 þús. kr., en undir þeim lið er gert ráð fyrir framlagi til Listahátíðar í Reykjavík og listkynningar í skólum. — Tillaga er um að styrkur til Norræna félagsins hækki um 300 þús. kr. — Þá er tillaga um að liðurinn rekstrarstyrkir Íþróttasjóðs o.fl. hækki um 5300 þús. kr. og verði 19 000 þús. kr. Þessu fé hefur einkum verið varið annars vegar til kennslustyrkja og hins vegar til sérfræðiaðstoðar vegna mannvirkjagerðar. Það er vilji nefndarinnar að hlutur kennslustyrkja í þessum lið aukist og hækkunin er gerð með það í huga, enda er eðlilegt að sérfræðileg aðstoð greiðist beint af þeim mannvirkjum, sem hennar njóta hverju sinni, eða þá af fjármagninu sem skipt er á mannvirkin. — Framlög til byggingar íþróttamannvirkja eru á sérstöku yfirliti sem birt er á þskj. 148 og vísast til þess. — Þá er lagt til að framlög til æskulýðsmála hækki um 9430 þús. kr., og verður sú hækkun á þessum undirliðum: Æskulýðsráð ríkisins hækki um 580 þús. kr., UMFÍ um 6000 þús. kr., Bandalag ísl. skáta um 1760 þús. kr„ starfsemi skáta að Úlfljótsvatni hækki um 280 þús. kr., Íslenskir ungtemplarar hækki um 150 þús. kr., starfsstyrkir KFUK og KFUM hækki um 200 þús. kr. og starfsemi KFUK í Vindáshlið um 380 þús. kr. — Lagt er til að til ýmissa íþróttamála hækki framlög um 19 618 þús. kr. Skíðaskólinn í Kerlingarfjöllum hækki um 500 þús. kr, vegna kaupa á snjóbíl, sumarnámskeið í Heiðarskóla um 300 þús. kr. og styrkur til íþróttamála fatlaðra hækki um 2100 þús. kr., þar af til Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík 500 þús. kr. Felldir eru niður styrkir til frjálsíþróttasambands Íslands 150 þús. kr„ til Knattspyrnusambands Íslands 300 þús. kr. og til útgáfu handbókar um skólaíþróttir 100 þús. kr.

Þá er brtt. varðandi utanrrn. þar sem lagt er til að liðurinn „Samskipti við Vestur-Íslendinga“ hækki um 2000 þús. kr.

Næst kynni ég brtt. sem varða landbrn. Lagt er til að við embætti veiðistjóra verði tengt nýtt viðfangsefni sem varðar rannsóknir á vistferli íslenska refsins og að til þess verði varið 500 þús. kr. Rannsókn þessi verður gerð af Páli Hersteinssyni lífeðlisfræðingi. — Gerð er tillaga um að á vegum Landnáms ríkisins hækki liðurinn til grænfóðurverksmiðja um 6348 þús. kr. vegna vélakaupa við verksmiðjuna í Flatey á Mýrum, A.-Skaftafellssýslu, og liðurinn til skipulagningar hækki um 3750 þús. kr. og breytist viðfangsefnið á þá lund, að það nefnist Inn-Djúpsáætlun. Er hér um að ræða lokagreiðslu til þeirrar áætlunar. — Lagt er til að framlag til byggingar dýralæknisbústaða hækki um 4800 þús. kr, og verði 30 000 þús. kr. sem verði varið svo sem hér segir:

Þórshöfn

1500

þús. kr.

Skógar

1 500

þús. kr.

Hvolsvöllur

7 700

þús. kr.

Barðaströnd.

2 000

þús. kr.

Borgarnes

1 500

þús. kr.

Búðardalur

1 500

þús. kr.

Egilsstaðir

800

þús. kr.

Lagt er til að framlög til landþurrkunar hækki um 200 þús. kr. og vísast til sundurliðunar á sérstöku yfirliti sem birt er á þskj. 148. — Þá er lagt til að styrkur til Landssambands hestamannafélaga hækki um 50 þús. kr.

Þá koma till. sem varða dóms- og kirkjumrn. Tillaga er gerð um að framlag til Almannavarna hækki um 1500 þús. kr. Er gert ráð fyrir að af því fé fari 1000 þús. kr. til uppsetningar á viðvörunarkerfi við Mývatn og Kötlu, og eins og áður er gert ráð fyrir að Almannavarnir hafi 1300 þús. kr, til þess að standa straum af rannsóknum á snjóflóðavörnum. Tillaga er um að styrkur til Kirkjukórasambands Íslands hækki um 150 þús. kr.

Næst eru till, sem varða félmrn.

Tillaga er um að nr. 0110 undir liðnum Vinnumál hækki um 1000 þús. kr, og verði texti orðaður svo: Hagdeildir Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaga. — Þá er gerð tillaga um að liðurinn „Ýmis framlög“ hækki um 4325 þús. kr. og skýrist sú hækkun þannig: Neytendasamtökin hækki um 250 þús. kr. — Til sjómannastofa hækki framlag um 500 þús. kr. Gert er ráð fyrir að ráðuneytið skipti þessum lið að venju, en nefndin mælir með ríflegum byggingarstyrk til sjómannastofu í Grindavík. — Þá er tillaga um að Öryrkjabandalagið fái hækkaðan styrk um 500 þús. kr. — Tillaga er um að Landssamtökin Þroskahjálp fái 1000 þús. kr. styrk, og er það nýr liður, en um leið falla niður sérstakir styrkir til Styrktarfélags vangefinna 25 þús: kr., Styrktarfélags vangefinna á Norðurlandi 100 þús. kr. og Styrktarfélags vangefinna ú Austurlandi 100 þús. kr., enda falla þau undir Landssamtökin Þroskahjálp. — Tillaga er um að niður falli liðurinn „Aðstoð við blinda“ 1200 þús. kr., en styrkur til Blindrafélagsins hækki um 1800 þús, kr. og verði nú 2500 þús. kr., sem skiptíst þannig að byggingarstyrkur verði 1200 þús. kr., félagsráðgjöf 1000 þús. kr. og starfstyrkur 300 þús. kr. Þá er lagt til að inn komi nýr liður, Blindravinafélagið 500 þús. kr., en þetta viðfangsefni var áður við menntmrn. Tillaga er um nýtt viðfangsefni: Styrkur til talbókagerðar fyrir blinda og sjónskerta 1200 þús. kr.

Næst koma tillögur sem varða heilbr.- og trmrn.

Ekki er gerð tillaga um breytta upphæð til byggingar sjúkrahúsa, sjúkraskýla, læknamiðstöðva, annarra en ríkissjúkrahúsa, en sundurliðun á því fé eftir viðfangsefnum er birt í sérstöku yfirliti á þskj. 148 og vísast til þess. –Þá er lagt til að styrkur til sjúkraflugs hækki um 1700 þús. kr. og verði 7500 þús, kr. Mun fjvn. skipta því fé milli aðila eins og áður hefur verið gert. — Tillaga er um að inn komi nýr liður: Grensásdeild Borgarspítalans, sundlaug, að upphæð 3000 þús, kr., sem verði varið til frumhönnunar sundlaugarinnar. — Þá leggur nefndin til að inn komi nýr liður að upphæð 2000 þús. kr.: Starfslaun Ófeigs J. Ófeigssonar, til rannsókna hans, úrvinnslu gagna og útgáfu bókar um meðferð brunasára.

Næst koma tillögur sem varða samgrn. Tillaga er um að liðurinn Vegagerð, undirliður nr. 94: Til einstaklinga og samtaka, hækki um 1000 þús. kr., en þetta eru styrkir til gististaða sem sinna ferðafólki að vetri til, og mun fjvn. skipta þessu fé síðar eins og venja hefur verið. — Ekki er gerð tillaga um breytta upphæð til hafnarmannvirkja og lendingarbóta, en sundurliðun er birt í sérstöku yfirliti á þskj. 148 og vísast til þess. — Þá er lagt til að framlag til ferjubryggja hækki um 7000 þús. kr. og er skiptingin kynnt í sérstöku yfirliti. — Tillaga er um að framlag til sjóvarnargarða hækki um 1300 þús, kr, og er skipting þess fjár alls sýnd á sérstöku yfirliti. — Þá er lagt til að framlag til sjóslysanefndar hækki um 1000 þús. kr. vegna kaupa á gúmbjörgunarbátum. — Ekki er gerð tillaga um breytta fjárhæð til fjárfestingar í flugmálum. Sundurliðun kemur fram í sérstöku yfirliti. Ágreiningur var um þá skiptingu í nefndinni og er minni hlutinn andvigur 70 000 þús. kr. framlagi til flugstöðvarbyggingar í Reykjavík.

Þá eru að síðustu tillögur sem varða iðnrn. Gerð er till. um að liðurinn 299 0108 orðist svo: Til athugana á orkufrekum iðnaði. —Tillaga er um að framlag til ullar- og skinnaverkefna hækki um 3000 þús. kr.

Herra forseti. Ég hef nú í stórum dráttum gert grein fyrir þeim brtt. sem fjvn. flytur við þessa umræðu um frv. til fjárlaga fyrir árið 1978. Eins og ég hef áður vikið að bíða ýmis erindi og málefni afgreiðslu nefndarinnar til 3. umr. En verði þessar brtt. nefndarinnar samþykktar sem ég hef nú lýst, þá valda þær auknum útgjöldum sem nemur 125 035 þús. kr.

Eigi að síður og þrátt fyrir það að vitað er um að mæta þarf verulega hækkuðum útgjöldum, sem ég hef áður greint frá, mun meiri hluti nefndarinnar miða afgreiðslu sína á fjárlagafrv. við það að fjárlög verði afgreidd greiðsluhallalaus.