19.10.1977
Efri deild: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

15. mál, skipulagslög

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv 2. þm. Reykn. hreyfir með brtt. sinni mjög merku máli sem þarfnast vissulega athugunar. Það þarf að ganga miklu betur til móts við hina fötluðu og öldruðu í byggingar- og skipulagsmálum en gert hefur verið.

Ég vil í sambandi við frv. til byggingarlaga benda á. að eftir að frv. kom frá undirbúningsnefnd bætti ég inn í frv. 3. mgr. 4. gr. sem varðar þetta mál, þar sem segir: „Í byggingarreglugerð skal setja ákvæði varðandi umbúnað bygginga til þess að auðvelda ellihrumu og fötluðu fólki að komast leiðar sinnar.“ Gert er svo ráð fyrir að nánar verði um þetta ákveðið í byggingarreglugerðinni.

Hv- þm. flytur hér viðauka við skipulagslögin um svipað efni, sem snertir skipulagið sjálft. Þar leggur hann til að það verði lögákveðið, að í reglugerð skuli ákveðið að á skipulögðum svæðum sé fötluðum og öldruðum gert auðvelt að komast leiðar sinnar, og enn fremur, að götur, gangstéttir, bílastæði og opin svæði skuli gerð þannig, að fatlaðir og aldraðir eigi greiðan gang, og mörg fleiri ákvæði eru þar.

Ég vil lýsa stuðningi mínum við efni þessarar till. hv. þm., en bæti því aðeins við, að þetta mál kom til umr. áður en frv. var lagt fyrir og virtist sumum sem ekki væri þörf sérstaklega á lagaákvæðum í þessu efni. En ég er sammála hv. þm. um að það er auðvitað öruggara að mæla fyrir í lögum að slíkt ákvæði skuli sett í reglugerð.

Það er oft nokkur vandi að velja og ákvarða í því efni, hvað eigi heima í lögum beinlínis og hvað í reglugerð, og vænti ég þess, að hv. n. athugi það mál gaumgæfilega. Ég bendi aðeins á þetta atriði, hvað eigi heima í lögum og hvað í reglugerð, um leið og ég lýsi stuðningi við efni þessa máls og við till. hv. þm.