13.12.1977
Sameinað þing: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

1. mál, fjárlög 1978

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram hvað mig varðar og ég hygg raunar líka hv. þm. sem hér lauk máli sínu, að það er samkvæmt ákvörðun míns þingflokks sem ég afréð í fjvn. að standa ekki að útgáfu nál. við þessa umr. Þingflokkur Alþfl. telur að ástandið, eins og því hefur verið lýst af hv. síðasta ræðumanni, sé þannig, að fulltrúi hans í fjvn. geti undir engum kringumstæðum staðið að útgáfu nál. við 2. umr. Þetta vil ég aðeins taka fram, til þess að það sé ljóst að hér er ekki aðeins um mótmæli við málsmeðferðina að ræða af minni hálfu sem nm. í fjvn., heldur stendur þingflokkur Alþfl. að þeim mótmælum. Af því tilefni gætu ræður manna við þessa 2. umr. verið stuttar, því það er bókstaflega ekkert hægt að segja um þá stefnumótun sem á að felast í fjárlagagerð, einfaldlega vegna þess að ekkert er enn um hana vitað.

Að vísu er þetta ekki í fyrsta sinn sem til 2. umr, um fjárl. er gengið án þess að vitað sé um hugmyndir eða till. stjórnvalda um meginatriði þeirrar fjárlagagerðar. Slíkt hefur margoft gerst áður, þó ekki sé það til fyrirmyndar. og er þetta nánast frekar orðið regla en undantekning. Hins vegar veit ég ekki til þess. að það hafi áður gerst að fjvn., þegar komið er til 2, umr, fjárl.. viti ekki um eðli og umfang þess vanda sem fólginn á að vera í því að koma fjárl. saman. Ég tel að fjvn. sé þetta ekki ljóst, þó vera kunni að fulltrúar meiri hl. í fjvn. viti eitthvað um þetta. Fjvn. veit sem slík ekki annað en það, sem formlega er tekið fyrir í fundi þeirrar n., og fjvn, hefur ekki verið greint frá þessum atriðum. Það sem meira er: fulltrúar ríkisvaldsins hafa neitað fjvn um slíkar upplýsingar þegar nm. hafa óskað eftir þeim. Það skiptir ekki máli í því sambandi hvort þeir nm. eru úr hópi minni hl. eða meiri hl. á þingi. Það, sem skiptir máli í því sambandi, er að málsvarar hæstv, ríkisstj. hafa neitað fjvn. Alþ. um upplýsingar um eðli og inntak þess vandamáls, sem fjvn. lögum samkvæmt er ætlað að fást við. Ég veit ekki til þess, að slíkt hafi áður gerst. Að vísu á ég ekki langa þingsögu að baki og hef ekki setið nema eitt ár í fjvn. Hins vegar hef ég átt sæti nokkuð lengi í þingflokki Alþfl. með fullum réttindum, eða frá því að ég tók við ritstjórn Alþýðublaðsins, og hef því fylgst með þingstörfum um talsvert langan tíma, og mér er ekki kunnugt um dæmi þess áður að til 2. umr, um fjárlagafrv. hafi verið gengið við slíkar aðstæður.

Slíkur losarabragur hefur að mínu viti aldrei áður verið á stjórn landsins og það hefur aldrei áður gerst að Alþ. sem stofnun hafi verið sýnt slíkt virðingarleysi, að sú n. þjóðkjörinna fulltrúa. sem lögum samkvæmi er falið það verkefni af löggjafarsamkomunni að fjalla um fjármál ríkisins og gera till. þar að lútandi til þingsins, sé að yfirlögðu ráði leynd upplýsingum um meginviðfangsefni sín með þeim afleiðingum að n. er allsendis ófær um að sinna lögboðnum verkefnum sínum. Ég tel að n. hafi verið leynd þessum upplýsingum að yfirlögðu ráði einfaldlega vegna þess að í áliti meiri hl. nál., sem dreift var hér í gær, eru fram teknar upplýsingar, sem við fulltrúar minni hl. á fjvn.-fundum höfum óskað eftir að fá, en fengum afsvar. A.m.k. í því gagni kemur fram, að meiri hl. fjvn.-manna og þeim ráðunautum, sem ríkisstj. hefur sér til aðstoðar við fjárlagasmiði, var kunnugt um þessar upplýsingar, sem við óskuðum eftir, en fengum ekki. Hér erum við alþm. sem sé látnir sitja bróðurpart ársins og látið heita að verkefni okkar sé að fjalla um úrlausn á vandamálum þjóðarinnar í því umboði sem okkur er veitt í almennum kosningum. En í raun réttri er farið að standa þannig að málum, að þegar stjórnarmyndun er lokið í kjölfar þingkosninga má heita að verkefnum alþm. sé að mestu lokið og eftir það gagni þeir nánast hlutverki einhvers konar opinberra handauppréttara á meðan aðrir stjórna landinu í þeirra nafni. Þegar svo er komið, að hæstv. ríkisstj. virðir fjvn. Alþ. svo lítið, að henni er ekki svo mikið sem veittar upplýsingar um eðli og umfang þeirra vandamála, sem n. hér að fást við og gera till. um, þá er Alþingi Íslendinga .og þeim, sem há stofnun skipa, ekki lengur ætlað að gegna því hlutverki sem þeim er falið. Þá er farið að stjórna landinu í samræmi við reglur fámennisstjórnar, en ekki í anda þeirra reglna, sem við þekkjum hér á Vesturlöndum, um lýðræði og þingræði.

Um miðja s.l. viku var fjvn. þannig ekki farin að afgr, svo mikið sem eitt einasta erindi viðvíkjandi fjárl. og hafði þó setið á fundum daglega og stundum tvisvar á dag allar götur frá því þing kom saman í haust. Þegar síðasti fundur n. fyrir 2. umr. var haldinn s.I. laugardag hafði n. enn ekki borist nein frásögn af því við hvaða vanda væri að etja við fjárlagaafgreiðsluna, hvað þá heldur að á góma hefði borið einhverjar hugmyndir um lausn slíks vanda.

Það hefði því engu breytt um störf fjvn. þótt við nm. hefðum verið sendir heim til okkar strax að lokinni þingsetningu í okt. og ekki kvaddir aftur til starfa við undirbúning fjárlagagerðar fyrr en á miðvikudag eða fimmtudag í síðustu viku.

Þeim mun alvarlegri sem vandinn samfara landsstjórninni er sagður vera, þeim mun minni virðist vandinn vera hér á hinu háa Alþingi. Þá eru alþm. minnst látnir hafa fyrir stafni þegar vandi þjóðarinnar er sagður mestur.

Ég get að sjálfsögðu nefnt mörg einstök dæmi um, hvernig fjvn. hefur verið sniðgengin og að litlu höfð af hæstv. ríkisstj. við fjárlagagerðina fram til þessa og eftir hvaða leiðum við nm. a.m.k. nm. stjórnarandstöðunnar, höfum orðið að leita okkur upplýsinga um þau mál sem landslög gera ráð fyrir að við eigum að fjalla um.

Eins og ég sagði áðan var nál. meiri hl. fjvn. dreift á Alþ. í gær. Þar segir svo neðarlega á bls. 1, með leyfi forseta:

„Samkvæmt síðustu áætlunum er gert ráð fyrir, að útgjaldahlið fjárlaga hækki um fulla 17 milljarða vegna kauphækkana 1. des.“ o.s.frv.

Ég vil taka það fram, að þó að við séum búnir að sitja í fjvn. í rösklega tvo mánuði, þá er þetta í fyrsta sinn, sem ég sem fjvn.- maður sé þessa tölu eða þessa spá. Við höfum spurt um þetta, eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, við höfum fengið neitun. Þetta er í fyrsta sinn sem við sjáum spár um það, hvað launahækkanirnar muni skapa mikil viðbótarútgjöld fyrir ríkissjóð miðað við fjárlagafrv. frá upphaflegri gerð þess. Þannig er staðið að málum í einni valdamestu n. þingsins.

Í útvarpsfréttum í gær var svo haft eftir form. fjvn., að n, hefði að undanförnu setið á rökstólum til að fjalla um, hvernig mæta eigi þessum útgjaldaaukningum vegna kjarasamninga BSRB og annarra launahækkana. Ég verð að segja alveg eins og hv. síðasti ræðumaður. að mér kom þetta mjög á óvart vegna þess að ég hafði ekki orðið var við að þessi mál hefðu nokkurn tíma verið rædd í fjvn, a.m.k. ekki í þeirri n. sem ég á sæti í. Þá hlýtur að vera búið að stofna einhverja allt aðra fjvn. hér í þinginu, ef þessi mál hefur borið þar á góma, vegna þess að sú fjvn. sem við fulltrúar stjórnarandstöðunnar höfum setið í, hefur ekki einu sinni rætt það, hver þessi vandi vegna kauphækkananna væri talinn vera, hvað þá heldur að n. hafi fjallað um það hvernig ætti að mæta honum ! Og sem enn eitt dæmi um það hvernig að þessum málum er staðið vildi ég skýra frá því. að í grg. með fjárlagafrv, er sagt að lánsfjáráætlun verði lögð fram í nóvembermánuði. Að sjálfsögðu var það ekki gert. Það var verið að dreifa henni hér í þingsal núna rétt áðan. En í nóvembermánuði fékk fjvn. heimsókn frá byggingarnefnd Landsspítalans. Þá var frá því skýrt svona í framhjáhlaupi af form. byggingarnefndarinnar, að sá vandi sem væri við að etja varðandi gerð lánsfjáráætlunar þessa dagana, væri að skera erlendar lántökur niður úr 24.5 milljörðum í 20 milljarða. Fjvn. skipuð þjóðkjörnum fulltrúum hafði aldrei heyrt á þetta minnst. Þetta er eitt af verkefnunum, sem við eigum að ræða. Þetta er eitt af verkefnunum, sem lofað var að við fengjum til umfjöllunar í nóvembermánuði. Ég sem fjvn.-maður hafði aldrei heyrt á þetta minnst. Ég hafði mínar upplýsingar frá form. byggingarnefndar Landsspítalans. Hvaðan í veröldinni hafði hann sínar upplýsingar, sem nú virðast vera réttar? Er það með þessum hætti, sem fulltrúar Alþ. í fjvn. þingsins eiga að fá sínar upplýsingar, ef skyldi vera að einhverjir menn utan úr bæ, sem kæmu á fundi n., vildu virða n. svo mikils að veita henni upplýsingar um málefni sem hún á að fjalla um? Þannig höfum við farið að því alþm. að afla okkur frétta, — þeir menn úr hópi þjóðkjörinna fulltrúa í þessari stofnun, sem Alþ. sjálft hefur valið til þess að fjalla um fjármál ríkisins og gerð fjárlaga. Við höfum þurft að vera á höttunum eftir lausafregnum hingað og þangað að úr þjóðfélaginu til þess að fá eitthvað að vita um það verkefni sem okkur er ætlað að fjalla um. Við höfum engar upplýsingar um þessi mál fengið sem alþm. eða fjvn: menn. Sennilega hefur hæstv. ríkisstj. ætlast til. að við tækjum upp það, sem kallast rannsóknarblaðamennska, til þess að fá einhverjar fréttir. A.m.k. virðast blöðin vera miklu betur upplýst en við. Ég vil aðeins vekja athygli hv. alþm. á forsíðu Dagblaðsins í dag. Þar skýrir fréttamaður Dagblaðsins frá ýmsu sem hann þykist vita um hvaða aðgerðir séu í aðsigi hjá hæstv. ríkisstj. til þess að leysa fjárlagavandann. Þar er t.d. tekið fram, að blaðamaður Dagblaðsins viti af því, að ráðgerð sé hækkun á sjúkratryggingagjaldi um tæpa 2 milljarða, Þegar ég var nýbúinn að lesa þessa frétt í Dagblaðinu kom ég hingað niður í Alþ. og settist í sætið mitt, — og hvað mætti mér þá? Frv. til l um breyt. á l. nr. 9 o.s.frv., um breyt. á l. um almannatryggingar. Og hvers eðlis skyldi nú þetta frv. vera? Jú, um að hækka sjúkratryggingagjald til þess að færa ríkissjóði tekjuauka upp á 1.9 milljarða. M.ö.o.: upplýsingar blaðamanns Dagblaðsins voru réttar. Ég sem alþm. og fjvn.-maður hafði aldrei um þetta heyrt. Svona er farið að umgangast okkur þm., svona er farið að umgangast ýmsar valdamestu n, þingsins.

Ég get talið upp fleiri atriði sem getið er um í þessari Dagblaðsfrétt. Í lið nr. 2 er talað um sérstakan skatt af gjaldeyri og jafnvel ferðamannaskatt. Þetta hefur aldrei borið á góma í fjvn., þetta eru till. sem aldrei hafa borist til þingflokkanna, a.m.k. ekki stjórnarandstöðunnar. Þetta eru hugmyndir, sem ég hef aldrei heyrt ræddar inni í þessum þingsal eða stofnunum Alþ. þeim stofnunum sem eiga að stjórna þjóðarskútunni. Rétt áðan barst mér eitt bréfið enn. Það voru í því ýmsar upplýsingar frá hæstv. ráðh. sem merktar eru trúnaðarmál. Ég má því ekki staðfesta hér á Alþ. hvort þessar fregnir Dagblaðsins eru réttar eða rangar, en blaðamaðurinn þykist vera alveg viss um hvað hann er að fullyrða. Þá eru ýmsar fréttir í þessari blaðafregn líka um efnisatriði lánsfjáráætlunar sem lögð var fram í dag. Það er sérstök undirnefnd fjvn., sem kjörin var til þess að fjalla um lánsfjáráætlun, — og hvað skyldi hún hafa haldið marga fundi? Engan. Undirnefnd fjvn., sem á að fjalla um lánsfjáráætlun íslenska ríkisins fyrir árið 1978, hefur engan fund haldið. Fjvn. veit ekki til þess, að það sé verið að semja um lánsfjáráætlun, en blöðin vita. það. (Gripið fram í: Hverjir voru í nefndinni?) Undirnefnd fjvn.? Ég tel, að fulltrúi úr stjórnarandstöðunni í þeirri n. hafi verið hv. þm. Geir Gunnarsson. Ég veit ekki til þess, að sú n, hafi haldið fund.

Það er ekki annað en hneyksli þegar svona lagað kemur upp, þegar framkvæmdavaldið og handhafar þess bregða á það ráð að neita Alþ. og n. Alþ. um upplýsingar um viðfangsefni sem löggjafanum er ætlað að leysa. Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að mikið vatn hefur til sjávar runnið frá því Alþ. var endurreist á Íslandi og frá þeim tíma þegar því var falið löggjafarhlutverk sitt. Lengi vel framan af voru verkefni Alþ. frekar einföld og auðunnin og þingmennska aukastarf sem leyst var af höndum á fáum vikum á ári hverju. Viðfangsefni Alþ. voru þá fá og skýr og verkin fyrst og fremst fólgin í því, að þm. tóku endanlega afstöðu, völdu og höfnuðu milli fárra og augljósra valkosta. En síðan þetta var hefur mikið vatn til sjávar runnið og miklar breytingar orðið á eðli þeirra starfa, sem vinna þarf á Alþ. Nú er talið nauðsynlegt að Alþ. sitji að störfum meginhluta ársins og umfangsmesta n. þingsins, fjvn., starfi raunar allt árið með stuttum hléum. Eins og í öðrum þjóðþingum hefur þróunin orðið sú, að sífellt meiri verk ættu að hafa færst yfir í hendur löggjafans eftir því sem þjóðfélagið verður flóknara og margbrotnara, þingið ætti að hafa frumkvæði um lausnir, og þingmennskan er orðin aðalstarf. En þrátt fyrir þessar ytri breytingar, lengingu þingsins, aukna möguleika til þingstarfa og það að þingmennska er orðin aðalstarf, er vinnuskipulagið hér á Alþ. samt sem áður enn upp á gamla móðinn, eins og var þegar þingmennska var aukastarf og þingið sat aðeins fáar vikur á ári. Meginhluta þingtímans sitjum við þm. aðgerðalausir og bíðum tillagna annarra. Stofnunin sem slík hefur ekkert frumkvæði, og það er orðið svo, eins og fram hefur komið við þessa fjárlagaafgreiðslu, að henni eða réttara sagt n. Alþ. er ekki einu sinni heimilað lengur að fylgjast með, að fá upplýsingar um þann vanda sem Alþ. er ætlað að leysa. Og gegn þessari þróun ber þm. að sjálfsögðu að standa. Það er ekki aðeins nauðsynlegt að gera þær breytingar á starfsháttum bingsins, sem ýta undir sjálfstæði þess og frumkvæði í málatilbúnaði, eins og t.d. felst í till. um bætta starfshætti Alþ. sem form. Alþfl., Benedikt Gröndal. hefur haft forustu um að flytja hér á Alþ., en það er ekki síður, þó að slíkar breytingar séu ekki gerðar, nauðsynlegt að standa vörð um rétt þingsins og þm. innan þess takmarkaða ramma sem núverandi starfshættir setja.

Herra forseti. Þetta er eitt af mikilvægustu verkefnum þínum og starfsfélaga þinna hér í þinginu. Þið eruð kjörnir af okkur þm., ekki aðeins til þess að stýra fundum okkar, heldur til þess að standa vörð um sjálfstæði og réttindi þessarar stofnunar og þeirra sem þar starfa. því hljótið þið, herra forseti, að taka til mjög alvarlegrar athugunar þær athugasemdir, sem við þm., fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjvn., höfum nú gert í sambandi við vinnubrögð í þeirri n. Aðalatriðið er ekki hvort við fáum okkar upplýsingar sem stjórnarþm. eða stjórnarandstæðingar. Aðalatriðið er sú aðstaða sem við höfum sem alþm., því sá sem er í stjórn í dag er gjarnan í stjórnarandstöðu á morgun. Og sem þm., sem kjörnir eru í frjálsum kosningum, eigum við ekki að vera háðir um upplýsingar og frásagnir velvild handhafa framkvæmdavaldsins á hverjum tíma, heldur eigum við að hljóta slík svör í krafti þess valds, sem við höfum frá þjóðinni, og þess réttar, sem sú stofnun á að hafa þar sem störf okkar fara fram. Ég vil leyfa mér að hvetja forseta Alþ. til þess að sjá svo um, að réttindi þm, og réttur þingsins í þessum sökum séu á engan hátt sniðgengin.

Eins og ljóst er og þegar hefur verið fram tekið höfum við stjórnarandstæðingar í fjvn. hvorki fengið upplýsingar um eðli né umfang þess vanda sem við er að etja í fjárlagaafgreiðslunni nú. Við slíkar kringumstæður gefur auga leið, að ógerningur er að ræða fjárlagasmiðina sem heild eða þá stefnu sem þar er mótuð eða þar ætti að móta. Í stað þess að ræða málið á grundvelli slíkrar heildaryfirsýnar er þm, nú nauðugur sá kostur einn að ræða fjárl. á grundvelli þeirra till. um einstaka málaflokka, sem fyrir liggja, án þess að gera nema takmarkaða tilraun til að ræða þær sem hluta af heildarmynd.

Athyglisverðast er þó, þegar reynt er að gera sér grein fyrir hvert stefnir í fjárlagagerðinni nú, að öll þjónusta og allar framkvæmdir af því tagi sem fólgið er í því að fólkið fái eitthvað áþreifanlegt í staðinn fyrir peningana sem það leggur til ríkiskassans, allt slíkt er skorið niður. Hafnaáætlun hefur verið skorin niður áður en frá henni er gengið, eins og rakið var hér áðan. Ekki er staðið við fyrirheit stjórnvalda í sambandi við framkvæmdir við dagheimili. Niðurskurður á grunnskólum og fjölbrautaskólum er slíkur, að segja má að búið sé í raun réttri að fella grunnskólalöggjöfina úr gildi. Svona má áfram telja. Sjúkrahús og heilsugæsla eru skorin niður úr 2.2 milljörðum samkvæmt till, rn. í 1.3 milljarða, og það er varla að sá peningur nægi til þess að hægt sé svo mikið sem að standa við gerða verksamninga. M.ö.o.: niðurskurðarstefnan, sem talað er um að fólgin sé í þessu frv., er fyrst og fremst á þessum sviðum, að það eru skornar niður þær framkvæmdir og sú þjónusta þar sem fólkið fær áþreifanlega sönnun fyrir því að fjármunirnir, sem það leggur til sameiginlegra þarfa, komi að gagni. Allt annað er látið óhreyft. T.d. er algjörlega látið óhreyft það mikla fé sem gengur til þess að viðhalda ríkiskerfinu sjálfu. Allt, sem ríkisbáknið þarf til framfærslu fyrir sjálft sig, er látið ósnert. Allt það, sem ungir sjálfstæðismenn kalla bákn, er látið ósnert. Það er því ekki að furða þó að tveir þm. Sjálfstfl., þeir hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og Pétur Sigurðsson, hafi nýlega lagt fram hér á hinu háa Alþ. till. um niðurskurð í mannahaldi. Ég ætla ekki að fella neinn dóm um það hér, hvort þær till. eru réttlætanlegar eða ekki. En slíkar till. frá þm. Sjálfstfl. við þessar aðstæður sýna ekki annað en það, að þeir eru harðlega að mótmæla þeirri stefnu sem ég var að lýsa að fælist í fjárlagaafgreiðslu hæstv. ríkisstj. nú. Þeir eru að lýsa því yfir, að hæstv. núv. ríkisstj. vilji ekki báknið burt, heldur báknið kyrrt. Þeir eru að lýsa því yfir, að sú niðurstaða, sem fæst frá hæstv. ríkisstj, í sambandi við hennar tillögugerð, sé í því fólgin að láta báknið kyrrt, skera niður allt það sem áþreifanlegt er, sem menn finna fyrir að þeir fái í staðinn fyrir peningana, sem þeir borga í ríkissjóð með sköttum sínum og skyldum. Það má vel vera, að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og Pétur Sigurðsson fái eitthvað fyrir snúð sinn eins og Kiðhús fékk hérna áður fyrr, En sú ákvörðun þeirra að leggja þessa till. fram sýnir þó, að ekki eiga þeir von á miklu. Í sambandi við þá stefnu, sem fólgin er í afgreiðslu hæstv. ríkisstj. á fjárlagafrv. nú, þá minnir þetta talsvert á sögurnar um risaeðlurnar í fornöld. Okkur var sagt, og var það lengi haldið fyrir sannleik, að þessar risaeðlur hafi dáið út af því að 24 stundir sólarhringsins hafi ekki lengur nægt þeim til þess að éta. Þær hefðu þurft að éta allan sólarhringinn til þess að halda líkamsstarfseminni gangandi. Þær hefðu ekki lengur orku afgangs til þess að verja sig, ekki orku til að flytja sig á betri stað, til að flýja loftslagsbreytingar, ekki orku til að viðhalda tegundinni, allar stundir sólarhringsins hafi „dýnosárarnir“ staðið við það eitt að taka til sín fæðu bara til þess að halda sér gangandi. Og undir forustu hæstv. ríkisstj. er báknið orðið slíkur „dýnosár“. Þrátt fyrir stöðugt aukna skattheimtu, er ástandið orðið þannig, að fólkið er hætt að fá nokkuð fyrir peningana sína, „dýnosárinn“ er hættur að skila nokkrum sköpuðum hlut nema mat fyrir sjálfan sig, báknið, fyrst og fremst. (Gripið fram í: Er það þá ekki að deyja út?) Nei, það er lengi hægt að leggja á skatta. Það er lengi hægt að leggja á skatta. Til allrar hamingju fyrir íslenska ríkisbáknið er við völd ríkisstj., sem telur sig alltaf geta bætt við sköttum, eins og frv, til laga um sjúkratryggingagjaldið sýnir. Það er bara viðbótarfæða fyrir báknið, svolítið meiri matur fyrir „dýnosárinn“. En þetta er staðreynd að þrátt fyrir meira og meira fé, sem tekið er af hinum almennu borgurum í sköttum og skyldum, þá fá þeir minna og minna í staðinn, en meira og meira fer í það eitt að halda bákninu gangandi. Þetta veit ég auðvitað að þeim er ljóst, t.d. hv. þm. Pétri Sigurðssyni og Eyjólfi Konráð Jónssyni. Og ég veit það líka eða vona það, að hv, þm. Framsfl. sé þetta ljóst, vegna þess að ég trúi því ekki að sá flokkur geti miklu lengur kennt sig við félagshyggju sem stendur að slíkum niðurskurðarframkvæmdum eins og þetta fjárlagafrv, gerir ráð fyrir, þar sem allt, sem kemur almenningi og fólkinu í landinu að gagni, er skorið niður, en báknið sjálft er látið kyrrt.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort ég á að fara miklu lengra út í umr. um fjárl. nú að þessu sinni. Það hefur rignt yfir okkur stjórnarandstæðinga, ég veit ekki um hina, þennan síðasta klukkutíma alls kyns upplýsingum, sem við höfum beðið um dögum og vikum saman á fundum fjvn., en ekki fengið, en flestallar þessar upplýsingar eru merktar trúnaðarmál. Þó væri e.t.v. ekki úr vegi, þar sem svo bar við að skyndilega virðist ríkisstj. hafa áformað að ræða lánsfjáráætlun að þessu sinni, að fara örfáum orðum um það sem þar kemur fram. Þessa áætlun höfum við haft sem trúnaðarmál nú um nokkurra daga skeið og höfum því getað kynnt okkur hana, þó við hefðum ekki átt von á því, að hún yrði rædd nú. Mjög athyglisvert er að blaða lauslega í gegnum þessa skýrslu ríkisstj. um lánsfjáráætlun fyrir árið 1978, vegna þess að strax á fyrstu síðum kemur dómurinn um stjórnsemina. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þótt lánsfjáráætlanir áranna 1976 og 1977 hafi ekki gengið eftir í bókstaflegri merkingu má telja, að þær hafi gefið gagnlegt yfirlit yfir starfsemi lánastofnana.“

M.ö.o.: lýst er yfir því strax í upphafi að þó að áætlanaþáttur lánsfjáráætlunar hafi reynst algjör markleysa þessi tvö ár sem sérstök lánsfjáráætlun hefur verið gerð, hafi áætlunin verið ansi góð svona sem sérstakt yfirlit yfir það sem gert var árin á undan. Með þessu er hæstv. ríkisstj. sem ég vænti að beri ábyrgð á þessari skýrslu, auðvitað að dæma sjálfa sig, eigin stjórnsemi. Þá segir á bls. 4, en þar er talað um að mörkuð hafi verið mjög skýr stefna um aðhald í fjármálum ríkisins, eins og t.d.í nýframkomnum frv. um ríkisfjármál. Mér er spurn: Hvaða nýframkomnu frv.? Hvaða nýframkomin frv. eru hér á Alþ. um ríkisfjármál þar sem mörkuð er stefna um aukið aðhald í fjármálum ríkisins? Ég hef ekki orðið var við að búið sé að leggja slík frv, fram. Þá er líka talað um ofar á síðunni, með leyfi forseta, áhrif „aðgerða, sem fram koma í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálunum 1978.“ Með leyfi að spyrja, hvar er það frv.? Hver leggur það fram? Um hvað fjallar það? Er ætlunin að lánsfjáráætlun sé rædd án þess að fylgi með þau frv., sem boðuð eru í upphafi lánsfjáráætlunar sem einn viðamesti þátturinn í þeirri stefnumörkun, sem lánsfjáráætluninni er ætlað að marka? Þetta er aðeins sýnishorn af stjórnleysinu og vitleysunni, sem farið er að viðgangast nú á síðustu dögum þessarar fjárlagaafgreiðslu, þar sem till. eru að dynja yfir okkur nú á síðasta klukkutímanum, raunverulega án þess að hægri höndin á hæstv. ríkisstj. viti hvað sú vinstri er að gera.

Þá segir hér um lánsfjármarkaðinn á bls. 5 bar sem talað er um hvernig fyrri áætlanir hafi reynst í framkvæmdinni. Það er talað um árið 1976, að þá hafi lánsfjáráætlun farið úr skorðum, ekki vegna þess að einkaaðilarnir hafi farið fram úr því sem þar var áætlað, Þar segir: „Einkaaðilar fengu svipað fjármagn og að var stefnt, en opinberir aðilar tóku til sín alla aukningu lánsfjár, sem varð frá gerðri áætlun.“ Það var sem sagt stjórnin af hálfu hins opinbera sem brást. Það var hún, sem ónýtti lánsfjáráætlunina fyrir árið 1976. Það voru ekki einkaaðilarnir sem tóku til sín meiri lán en lánsfjáráætlunin gerði ráð fyrir. Þeir fengu ekki krónu meira. Nei, það var hinn opinberi „sektor“, það var hann sem skorti stjórnunina og aðhaldið. En hvernig skyldi það hafa verið á árinu 1977? Nákvæmlega það sama, fyrst og fremst hinn opinberi „sektor“ í lánsfjáráætluninni, sem ekki stóðst.

Svona mætti halda áfram og tíunda þessi atriði í þessari lánsfjáráætlun lengi dags.

Ég vil aðeins að lokum taka það fram, að samkvæmt þeirri verkaskiptingu, sem áformuð var í fjvn., er það undirnefndar að fjalla fyrst um þessa áætlun og skýra hana svo og ræða á fundi n., og ætlast ég að sjálfsögðu til þess, að þau vinnubrögð séu í heiðri höfð.

En ég vil aðeins í sambandi við þetta rétt í lokin vekja athygli á tveimur atriðum: Í fyrsta lagi því, að samkv. fljótlegum yfirlestri á þessari lánsfjáráætlun liggur það algjörlega fyrir, að mjög á að draga saman seglin hvað varðar fjárveitingar úr öllum opinberum lánasjóðum, stofnlánasjóðum atvinnuveganna, fjárfestingarlánasjóðum og þar með töldum Byggingarsjóði ríkisins. Þar er verið t.d. að boða stórfelldan samdrátt í íbúðarhúsabyggingum um land allt. Menn hafa haft þungar áhyggjur af ástandinu eins og það hefur verið nú að undanförnu, þegar ákaflega lítið hefur verið byggt, og þrátt fyrir þessar litlu íbúðarhúsabyggingar hefur ástandið hjá Byggingarsjóði ríkisins verið þannig, að hann hefur verið langt á eftir með sínar lánveitingar. En í lánsfjáráætluninni er boðaður enn frekari samdráttur og þá fyrst og fremst og einkum og sér í lagi á Byggingarsjóði ríkisins og lánveitingum hans. Og hver halda menn að afleiðingin verði fyrir atvinnulíf í landinu. eins og nú er komið málum með milli 30–40% verðbólgu, þegar í senn eru dregin saman seglin í rekstrarlánakerfinu hjá bönkunum með miklu aðhaldi í lánveitingum og miklum vaxtahækkunum og jafnframt boðaður í lánsfjáráætlun mikill samdráttur í stofnlánasjóðum atvinnuveganna? Afleiðingin getur ekki orðið nema sú ein, að þegar kemur fram á árið 1978 tekur við hreint kreppuástand í atvinnumálum á Íslandi, og má búast við að um mitt árið eða seinni hluta ársins verði farið að bera á mjög alvarlegu atvinnuleysi. Þessi stefna er alvarleg stefna, sú alvarlega stefna sem boðuð er í skýrslu ríkisstj. um lánsfjáráætlun.

Og svo að lokum eitt atriði, sem mig langaði til þess að vekja athygli á, sem kemur fram á bls. 8 í þessari áætlun þar sem fjallað er um það, hvernig á að sækja það takmarkaða lánsfé, sem þó á að vera til ráðstöfunar á næsta ári, og hverjir eigi að inna. það af hendi. Þar kemur fram, að áætlað er að framlög lífeyrissjóðanna í landinu í þetta lánakerfi hækki um 85.2%. Og hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að með einhverjum ráðum, góðum eða illum, ætlar hæstv. ríkisstj. að draga til sín, draga inn í opinbera fjárfestingalánasjóði svo til allt ráðstöfunarfé hinna frjálsu lífeyrissjóða í landinu.

Þessum tveimur atriðum vil ég vekja athygli á í lok ræðu minnar og læt svo umr. um fjárlagafrv. sjálft og stefnu þess lokið.

Ég vil aðeins í lokin vekja athygli á brtt. sem við flytjum þrír þm., eða auk mín hv. þm. Karvel Pálmason og hv. þm. Kjartan Ólafsson, í sambandi við hafnarframkvæmdir á Vestfjörðum. Við leggjum til. að framlög til Tálknafjarðarhafnar hækki úr 700 þús. í 3 millj. og 700 þús. Þarna er um að ræða stað sem engar fjárveitingar hefur fengið til eins eða neins, að undanskilinni mjög óverulegri fjárhæð til dagheimilisbyggingar, öll þau ár sem núverandi hæstv. ríkisstj. hefur setið að völdum. Þarna er um að ræða stað sem á við mjög erfiðar hafnaraðstæður að búa, sem verða allsendis ófullnægjandi þegar komin verða þar ný og stórvirk veiðiskip, sem koma munu til Tálknafjarðar á næstu vikum. Til þess að mæta þeim þörfum er nauðsynlegt að verja talsverðu fé til hafnarframkvæmda á þessum stað, og við sem sé gerum till. um að það fé verði 3.7 millj., sem ekki nægir þó nema til þess að ljúka u.þ.b., helmingi þeirra framkvæmda, sem áætlað er að þurfi til þess að hafnaraðstæður á Tálknafirði séu slíkar, að þar geti skuttogari athafnað sig.

Þá gerum við það að till. okkar einnig að framkvæmdir sem hafnaáætlun gerir ráð fyrir í Hólmavík, en á að skera niður samkv. till. fjvn., verði teknar inn aftur. Hér er um að ræða hækkun úr 7.2 millj. upp í 18.2 millj. og fyrir það fé á fyrst og fremst að vinna við dýpkun hafnarinnar í Hólmavík, en inn í höfnina er mjög mikill sandburður og er ástand nú orðið þannig, að bátar Hólmvíkinga standa í sandinum í höfninni og er nauðsynlegt að dæla honum burt. Við gerum það að till. okkar, að þessi framkvæmd verði unnin eins og hún var áformuð í hafnaáætlun, sem lögð hefur verið á borð þm. og fjárveitingar í því skyni verði hækkaðar úr 7.2 millj. í 18,2 millj.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara frekari orðum um fjárl. almennt við þessa umr., en mun að sjálfsögðu áskilja mér rétt til að taka aftur til máls síðar, einkum og sér í lagi um lánsfjáráætlunina, ef hæstv. fjmrh. mælir fyrir henni síðar á fundum þingsins.