13.12.1977
Sameinað þing: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

1. mál, fjárlög 1978

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram er það undir heldur óæskilegum kringumstæðum sem 2. umr. fjárl. fer fram. Hv. þm. vita væntanlega allir með hvaða hætti hefur verið haldið á málum að því er varðar afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1978, og væntanlega vita allir hv. þm. líka, hvernig hefur verið háttað störfum hér á Alþ. á undanförnum vikum. Hér hafa verið mjög stuttir þingfundir á undanförnum vikum og í mörgum tilfellum rætt um tiltölulega veigalítil mál, meðan beðið hefur verið eftir því að hæstv. ríkisstj. kæmist að niðurstöðu um það, með hvaða hætti hún ætlaði sér að mæta þeim vanda sem við blasir varðandi frágang og afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1978. Þessu hafa hv. þm. orðið vitni að á undanförnum vikum, og eins og fram kom í frásögn Morgunblaðsins miðvikudaginn 8. des, s.l. höfðu stjórnarflokkarnir þann dag, þingflokkar stjórnarflokkanna, rætt þann vandá, sem fram undan er, en það er að brúa það bil sem myndast hefur milli fjárlagafrv. og raunveruleikans, sagði Morgunblaðið. Þetta hefur verið það vandamál sem stjórnarliðar hér á Alþ. hafa setið á rökstólum um undanfarnar vikur og virðast að því er best verður séð ekki búnir að komast að niðurstöðu um, hvernig leysa skuli, a.m.k. hefur stjórnarandstöðunni ekki verið greint frá því. Það var í sama eintaki Morgunblaðsins greint frá því, að ráðgert væri að kynna stjórnarandstöðunni daginn eftir þær úrlausnir sem grípa ætti til til lausnar vandanum, þ.e.a.s. s.l. fimmtudag. Hér er um að ræða vinnubrögð, sem ég hygg að allir þm, séu sammála um að ekki nái nokkurri átt. Hér er um að ræða vinnubrögð, sem eru óvirðing við Alþ. og alþm. og á engan hátt á að liða, hvorki þessari hæstv. ríkisstj. né neinni annarri.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 1977 á s.l. hausti var það skýrt tekið fram, að lánsfjáráætlun fyrir árið 1977 yrði lögð fram í nóvembermánuði. Sú lánsfjáráætlun var lögð fram hér á Alþ. einum eða tveimur dögum áður en þinghlé var gert fyrir jól. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1978 er sagt, með leyfi forseta:

„Lánsfjáráætlun 1978 verður lögð fram á Alþ. í nóvembermánuði, en hana ber að skoða sem hluta af viðtækri stefnumótun í fjármálum og efnahagsmálum, sem fjárlagafrv. felur í sér. Lánsfjáráætlun mun stefna að sama marki og fjárlagafrv. að treysta fjárhagslegan grundvöll fyrir þjóðhagslega nauðsynlegar framkvæmdir jafnframt því sem aðhaldi sé beitt í því skyni að draga úr verðhækkunum og viðskiptahalla á næsta ári.“

Lánsfjáráætlun á samkv. boðun í fjárlagafrv. að leggjast fram í nóvember. Henni var útbýtt á borð þm í dag, 13. des., þ.e.a.s. þeim hluta af fjárlagadæminu sem viðkemur lánsfjáráætluninni. Henni er útbýtt sama daginn og 2. umr. um fjárl. fer fram á Alþingi.

Ég held að hvað sem líður stjórnmálalegum ágreiningi á Alþ. hljóti þm. allir að vera um það sammála, að vinnubrögð af þessu tagi ná ekki nokkurri átt. Það er beinlínis óvirðing við Alþ. að halda þannig á málum eins og hér hefur verið gert. Og það er því miður, þó hart sé að segja það, það er því miður orðið svo, að ekki virðist trúandi nema tiltölulega litlum hluta af því sem fram kemur, m.a.s. frá hæstv. ráðh., en það hlýtur að verða að skoða fjárlagafrv. sem frv. ríkisstj. í heild.

Það hefur komið hér fram, og var raunar strax séð í gær, að minni hluti fjvn. hefur við þessa umr., 2. umr. um fjárl. fyrir árið 1978, ekki skilað nál. Hér hefur verið gerð grein fyrir ástæðum þess. Ég vil því taka það strax fram, að við erum algjörlega sammála þessari afstöðu minni hluta fjvn., að undir þeim kringumstæðum, sem nú ríkja og ríktu þegar slitið var fundi í fjvn. fyrir 2. umr. fjárl., var vart á annan hátt hægt að standa að málinu en þann að gefa ekki út nál., vegna þess kannske fyrst og fremst að neitað hefur verið um upplýsingar — fjvn.-mönnum hefur verið neitað um upplýsingar frá ríkisstofnun, fjárlaga- og hagsýslustofnuninni. Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að auðvitað er ekki við form. fjvn. eða meiri hluta fjvn. að sakast. Hér er fyrst og fremst um að sakast við hæstv. ríkisstj. Hún ber höfuðábyrgðina á því, með hvaða hætti er haldið á málum, eins og raun ber vilni í þessu tilviki. Ég tek svo sannarlega undir það, að óvirðing við Alþ. og alþm, af þessu tagi, að ríkisstofnun skuli neita að gefa upplýsingar um grundvallaratriði í ríkisbúskapnum og fjárlagagerðinni, nær ekki nokkurri átt, — og í hvaða þjóðþingi skyldi það verða liðið að embættismenn höguðu sér á þennan hátt? Verðugasta svar hv, þm. við vinnubrögðum eins og hér hafa verið viðhöfð hefði auðvitað verið það, að þeir hefðu allir sem einn vikið af fundi í mótmælaskyni við í fyrsta lagi vinnubrögð hæstv. ríkisstj. og í öðru lagi vinnubrögð þeirrar ríkisstofnunar sem hefur neitað að gefa upplýsingar um fjárlagagerðina.

Það er í mínum huga orðið stórkostlega mikið vafamál, hvort við í raun og veru búum við þingræði hér á Íslandi, eins og að málum hefur verið staðið og vinnubrögð hafa verið á undanförnum árum. Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að þessi 2. umr. um fjárl. er sýndarmennskuumræða í þess orðs fyllstu merkingu. Hér er hrein sýndarmennska á ferðinni því það liggur í raun og veru ekkert fyrir um það, a.m.k. ekki hjá stjórnarandstöðunni, með hvaða hætti á að brúa það bil sem fram kemur í nál. meiri hluta fjvn. að sé milli tekjuhliðar, eins og mál standa nú, og gjaldahliðar á fjárl. fyrir árið 1978, eins og nú er gert ráð fyrir að þau verði afgreidd. Það vantar a.m.k. 7 milljarða upp á það að dæmið gangi upp.

Talið er í nál. að það verði um 17 milljarðar sem hér sé um að ræða, en eftir því sem nýjustu upplýsingar leiða í ljós sé einungis um að ræða 10 milljarða kr. tekjuaukningu miðað við breyttar forsendur frá því sem voru þegar frv. var lagt fram. Hvernig á að brúa þetta bil? Stjórnarandstaðan hefur enga vitneskju fengið um það frá hæstv. ríkisstj. fyrr en nú í dag, að strax upp úr hádegi, þegar Dagblaðið og Vísir komu út, sáu menn fregnir um það, með hvaða hætti ætti að brúa bilið. Hvort þessar fréttir eru sannar eða ekki skal ég ósagt láta að sinni, en þetta eru þær fyrstu fregnir, sem a.m.k. ég sem stjórnarandstæðingur fæ um það, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar sér að standa að afgreiðslu fjárl., um tekjuöflun á móti því sem útgjaldahliðin mun segja til um á fjárlögunum.

Og það er rétt sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði hér áðan. Að vísu fékk ég sent trúnaðarbréf frá hæstv. fjmrh- varðandi þetta, sem ég hef ekki frekar en hv. þm. Sighvatur Björgvinsson heimild til að gera efnislega heyrinkunnugt um hugmyndir ríkisstj. um afgreiðslu á þessu. Það er raunar komið fram eitt frv. um hækkun á sjúkratryggingagjaldi, sem kann að gefa ríkissjóði um 1.9 milljarða. Annað höfum við ekki fengið vitneskju um frá hæstv, ríkisstj. Að vísu hafa heyrst um það ýmsar sögusagnir úti um hvippinn og hvappinn, hvaða hugmyndir væru uppi, en engin formleg vitneskja hefur verið af hálfu hæstv. ríkisstj. lögð fram í þessum efnum. Og lái hver sem vill stjórnarandstöðunni, að hún skuli ekki treysta sér til að gefa út nál. í þeirri stöðu sem málið og nú komið í. Ég a.m.k. er ekkert hissa á því, þó að þeir minnihlutamenn í fjvn. hafi tekið þá ákvörðun að standa með þessum hætti að umr. nú, því að mínu viti væri það miklu meira ábyrgðarleysi ef staðið væri að útgáfu nál. um málefni sem í raun og veru tiltölulega lítið sem ekkert er vitað um hvernig á að ráða fram úr og hvernig standi, en neitað hefur verið upplýsingum um það í sumum tilvikum hvernig málin í raun og veru stæðu að því er varðaði fjárlagadæmið í heild. (Gripið fram í: Var hv. þm. á fundinum?) Það skiptir kannske ekki meginmáli hvort hv. þm. hefur verið á fundinum sjálfur, — en það er gagnspurning til hv. þm. Lárusar Jónssonar. Var hann á fundinum? Hafi það breytt einhverju um það, hvort ég hafi á fundi verið eður eigi, upplýsingarnar hefðu komið hefði ég verið, þá er ég orðinn mikils virði innan veggja fjvn. og miklu meira virði en ég sjálfur gerði mér í hugarlund. Ég heyri, að þessi hv. þm. metur mig það mikils í n. að hann gerir jafnvel ráð fyrir því, að mér hefði ekki verið neitað um upplýsingar, sem fulltrúar hinna stjórnarandstöðuflokkanna hefur neitað um. Kannske er það, — ja ég veit ekki hvort ég á að segja: víti til að varast og best að passa upp á það sérstaklega að mig vanti ekki á fundi í fjvn., þannig að mál séu þá öll í lagi og á hreinu, ef það er lækningaraðferðin.

Ég hygg samt að það hefði engu breytt um þetta þó ég hefði setið þennan fund. Ég hygg að fulltrúi hagsýslustofnunar hefði neitað eigi að síður. (Gripið fram í.) Ég hef enga trú á því og væni ekki þá fulltrúana, hv. þm. Geir Gunnarsson og hv. þm. Sighvat Björgvinsson, að þeir skýri ekki rétt frá. Ég skora því á hv. þm. Lárus Jónsson að greina frá því hér, ef hann vænir þá um að segja ekki rétt frá því sem þarna gerðist. Ég vænti þess, að hann geri það þá í ræðu hér á eftir. Ef hann er að láta í veðri vaka að þessir hv. þm. fari með ósannindi, þá er best að það komi fram frá þessum hv. þm. (Gripið fram í.) Ég hef enga ástæðu til þess að væna þá um að segja ekki satt. En hitt er svo annað mál að ég veit mörg dæmi þess, að margur hver meirihlutamaðurinn í fjvn. hefur verið það úti á þekju, ekki bara í ár, heldur mörg undanfarin ár, að þeir hafa ekki haft hugmynd um það, hvort búið væri að afgreiða þetta eða hitt málið í meiri hl. n. eða n. allri. Þar hefur alls konar ruglingur átt sér stað, og það gefur kannske skýrari og betri mynd af því hvert hugarfar ríkir hjá sumum meirihlutamönnum í fjvn., þannig að þetta skeyti beinist frekar að einhverjum úr þeirra hópi en að þeim stjórnarandstæðingum þar.

Það hefur komið hér fram, að á því, sem nú er lagt til að afgreiða, er um að ræða 123 millj. kr. hækkun á ýmsum póstum. Það er talið að fjárlagafrv, muni hækka a.m.k. um 17 milljarða frá því það var lagt fram og til endanlegrar afgreiðslu, þannig að mér sýnist að þeir hv. meirihlutaþm. í fjvn. hafi fengið að ráða tiltölulega litlum hluta af því ráðstöfunarfé sem ráðstafa á á næsta ári úr ríkissjóði til hinna ýmsu málaflokka, þar hafi hæstv. ráðh. verið miklu drýgri og notað sér betur skömmtunarvaldið, því þeir ætla sér að öllum líkindum að ráða ráðstöfun á um 1310–135 milljörðum, en hinir 8 þm. stjórnarliðsins í fjvn. eiga líklega að fá að ráða einhvers staðar á bilinu frá 500– 1000 millj., þ.e.a.s. 8 þm. stjórnarliðsins af 42, þ.e. ráðh., ráðstafa 130 milljörðum, en hinir 34 stjórnarliðarnir, sem eftir eru, fá kannske að ráða hvað gert verður við 500–1000 millj. í mesta lagi. Þetta er orðið þingræðið á Íslandi 1 Þetta er orðið það þingræði sem nú er búið við undir stjórn hæstv. ríkisstj , og nær auðvitað ekki nokkurri átt að bjóða þm. að standa þannig að málum, og ég er alveg bit á því, að enginn hv. stjórnarþm. skuli hafa bein í nefi til þess að segja: hingað og ekki lengra. Mig óar við því, að það skuli vera svo komið hér á Alþ., að 8 þm., sem eru hæstv. ráðh., skuli ráða svo lögum og lofum hér í stofnuninni, að hinir 34, sem eftir eru af stjórnarliðinu, fá engu um breytt og láta sig hafa það. Ég held því, að það sé kominn tími til þess — og þó fyrr hefði verið — að hv. þm. almennt uggi að sér í þessum efnum og láti hvorki hæstv. ráðh., hverjir sem þeir eru og á hvaða tíma sem er, né embættismannakerfið í landinu, ríkisstofnanirnar, ráða lögum og lofum um það, hvað hér er verið að gera og hér er verið að ákvarða. Það er komið allt of mikið af slíku.

Eins og hér hefur komið fram, held ég að það sé naumast um það að ræða í raunveruleika að tala um þá afgreiðslu, sem hér er nú verið að leggja til að gerð verði á fjárlagafrv. við 2. umr. Ég skal því ekki hafa um það mál öllu fleiri orð. En ég vil fyrir mitt leyti mótmæla harðlega þeim vinnubrögðum sem hér hafa verið viðhöfð, bæði af hálfu hæstv. ríkisstj. og einnig að það skuli liðast að ríkisstofnun skuli geta neitað þm. um upplýsingar, sem þeim ber skýlaus réttur til að fá.

Ég vil þó aðeins í áframhaldi af þessu vekja sérstaka athygli á einum þeim málaflokki sem hér er nú lagt til að afgreiddur verði. Það eru hafnamálin. í haust var útbýtt hér hafnaáætlun, Það plagg hefur legið hér án þess að það hafi verið rætt síðar. Með þeim till., sem hér liggja frammi um afgreiðslu á fjárveitingum til hafnarframkvæmda á næsta ári, er þessi fjögurra ára áætlun gerð gjörsamlega ómerk áður en hún kemur til umr. hér í þinginu, áður en hún er rædd. Það er ekki farið að ræða hana. Það er búið að ómerkja þetta plagg með tillöguflutningi af hálfu meiri hl. á Alþ. varðandi fjárveitingar á næsta ári. Auðvitað er óhæfa að standa þannig að málum, og ég tek fyllilega undir það sem hér kom fram áðan, að það fyrirheit hæstv. samgrh., sem gefið var á sínum tíma um auknar fjárveitingar til hinna almennu fiskihafna þegar lyki hinum miklu framkvæmdum í Grindavik og Þorlákshöfn, er gjörsamlega svikið, en þá var það loforð gefið, að þegar þeim framkvæmdum lyki skyldu verða auknar fjárveitingar til hinna almennu fiskihafna í landinu. Við þetta hefur á engan hátt verið staðið. Það þarf ekki að fjölyrða um það hér, hversu geysilega mikill þáttur það er í allri útgerð og fiskvinnslu að búa svo að fiskihöfnunum í landinu að þar geti átt sér stað eðlileg þróun, en það er síður en svo að slíkt sé gert. Hér er því um niðurskurð að ræða á framkvæmdum í hafnamálum. Hið sama má segja um grunnskólamálin, sem nú er lagt til að afgreiða, eins og hér hefur verið vikið að. Þar er hreinlega um niðurskurð að ræða.

En áður en ég lýk máli mínu vil ég aðeins víkja hér að brtt. sein ég stend að. Það er í fyrsta lagi brtt., sem ég flyt ásamt hv, þm. Kjartani Ólafssyni og Sighvati Björgvinssyni. Hún er við liðinn ferjubryggjur. Till. er um það, að inn komi nýr liður á eftir 9. lið, sem verði „Bæir, 10 millj.“ Hér er um það að ræða að lengja ferjubryggjuna í Bæjum. Það hefur verið knúið á af heimamönnum á undanförnum árum að fá þetta framkvæmt, og þeir leggja mjög upp úr því, að í þetta verði ráðist. Raunar hefði þurft að gera þetta fyrr, en málum er þannig háttað, að það er orðið svo grunnt við bryggjuna að miklum vandkvæðum er bundið oft og tíðum að athafna sig með Djúpbátinn við bryggjuna. Á þessu ári voru framkvæmdar nokkrar viðgerðir á bryggjunni í Bæjum, en hér er sem sagt fyrst og fremst um það að ræða að lengja bryggjuna. Að sjálfsögðu þyrfti að gera þetta í einum áfanga, og er talið að 10 millj. kr. mundu nægja til þess að fullgera þetta í einum áfanga. Og um það snýst þessi brtt. Það þarf ekki að vekja á því athygli að hér er um að ræða geysilega mikla og nauðsynlega framkvæmd, Þó að hér sé ekki um háa fjárupphæð að ræða, þá kemur þessi framkvæmd að gagni geysilega stórum hluta bænda og öðrum í Inn-Djúpi, því þarna fara miklir flutningar með framleiðslu af þessu svæði og síðan aðdrætti alla frá Ísafirði. Ég vænti þess fastlega að þessi till. njóti stuðnings hér í þinginu. Ég á ekki von á því, að hún mæti neinni andstöðu, og vænti þess, að hún verði samþ.

Í öðru lagi er kannske rétt að bæta aðeins við það, sem áður hefur komið fram um brtt. á þskj. 160, þ.e. varðandi lið 16, Súðavík. Sá staður er ekki nýtt umfjöllunarefni hér á hv. Alþ. Það hafa a.m.k. tvö undanfarin ár verið haldnar margar og kannske langar ræður um fjárveitingar til þess staðar. En í stuttu máli er um það að segja, að á þessu ári var hafin framkvæmd við byggingu á grjótgarði, sem þarna á að koma út frá landinu, og til þess veittar 22 millj. kr. á fjárl. Það er talið að framkvæmdakostnaður við þetta mannvirki á þessu ári nemi um 45 millj. kr. Þarna er um að ræða grjótgarð sem hefur náð rétt liðlega hálfri þeirri lengd sem honum er í raun og veru ætluð, og það gefur auga leið að afar óæskilegt er þó ekki sé meira sagt, að ætla sér að framkvæma ekkert við þetta mannvirki á árinu 1978, en eins og till. meiri hl. fjvn. nú eru, þá er ekki gert ráð fyrir neinni fjárveitingu til framkvæmda í hafnarmálum í Súðavík á árinu 1978. Þessi till. okkar er um það, að í staðinn fyrir 6.5 millj. komi 30 millj, kr. fjárveiting og með því ætti að vera hægt að fara langt með það að ljúka þessu mannvirki, a.m.k. ætti að vera hægt að ganga frá því þannig að það lægi ekki undir skemmdum. En greinilegt er að verði skilið við mannvirkið eins og það er nú er fullkomin hætta á því, að það verði fyrir áföllum og skemmist að meira eða minna leyti. Um þetta er þessi till., og það þarf ekki að taka fram, ég veit að allir þm. Vestfjarða og vitamálastjóri hafa fengið um þetta hvatningu frá þeim Súðvíkingum nú. Þeir leggja á það höfuðáherslu að þarna fáist inn fjárveiting, veruleg fjárveiting til þess að halda þessu verki áfram, og ég vænti þess og raunar tel það víst að allir þm. Vestf. séu sammála um þetta og að þeir styðji málið með þeim hætti, að það nái fram að ganga við endanlega afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1918, þegar að henni kemur, með hvaða hætti sem að því verður staðið, þeirri lokaafgreiðslu fjárl. fyrir árið 1978.