13.12.1977
Sameinað þing: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

1. mál, fjárlög 1978

Jóhann Hafstein:

Herra forseti . Það eru nokkur orð sem ég vildi mæla fyrir brtt. sem við nokkrir þm. flytjum á þskj. 160, II. till. þar, en við erum flestir þeir sömu og fluttum þetta mál í fyrra, eins og þm. er kunnugt. Sverrir Bergmann kemur þarna inn sem varamaður. Hann á nú sæti í staðinn fyrir Einar Ágústsson utanrrh., sem var fim. málsins þá. Síðan eru það Magnús Kjartansson, Eggert G. Þorsteinsson og að lokum Albert Guðmundsson, sem einnig er borgarfulltrúi og borgarráðsmaður.

Hér þurfa auðvitað að koma til framlög bæði ríkis og bæjar. Um þetta atriði eru ekki lögbundin ákvæði enn þá, en ætti að geta orðið samkomulag um það. Ég átti í dag viðræður við borgarstjóra, sem sagði að það væri ekki framlag til sundlaugarinnar á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, sem kæmi fyrir einhvern næstu daga, en hún mundi ekki verða afgreidd að fullu fyrr en ettir áramót, sem er vafalaust vegna sambandsins við fjárl., og kemur þá einmitt til þess fyrir þann tíma að reyna að koma því áleiðis sem þarf.

Það hefur réttilega verið minnst á það af hv. 3. þm. Reykv., að forsaga þessa máls er mjög skuldbindandi fyrir þm. og líka reyndar ráðh., enda þótt fjvn. kunni að hafa sín rök fyrir brtt. sem hún hefur flutt, brtt. um þessa sundlaug, 3 millj. kr., sem er ekki nema lítill hluti af hönnunarkostnaði sundlaugarinnar. Í sjálfu sér hefur ekki enn þá farið fram tæknileg, endanleg hönnun á sundlauginni, en það lágu fyrir á s.l. vori áætlanir um aðallega tvær gerðir. Við skulum segja að kostnaðaráætlanir hafi verið eitthvað nálægt 200 millj. kr. Ef miðað væri við að tæknilegur hönnunarkostnaður væri um 7% af því, þá mundi hann einn nálgast 14 millj. kr. En það er rétt sem sagt hefur verið, að málefnalega séð var þessari till. vísað til ríkisstj. eftir till. fjvn. í fyrra, en þar segir m.a., að þar sem ekki var komið neinni fjárveitingu inn á fjárl. fyrir 1977 lítt fjvn. svo á, að í þáltill. þessari sé hreyft mikilsverðu nauðsynjamáli, sem athuga þurfi við undirbúning næstu fjárl., og fjvn. hafi orðið sammála um að leggja til, með þetta í huga að sjálfsögðu, að till. verði vísað til ríkisstj., og var það einróma gert.

Ég átti viðræður við aðila, sem um þessi mál fjalla, og hafði fulla ástæðu til að ætla að fjárframlög til sundlaugarinnar yrðu tekin inn á fjárl. 1978. En það kom til umr. hér, eins og menn muna, í byrjun þessa þings og þá var það álit bæði þm. og ráðh. að gert væri ráð fyrir fjárveitingu til þessarar sundlaugarbyggingar á vissum lið, sem til heilbrigðismála var ætlaður, og mundi fjvn. um það fjalla. Hún hefur að sjálfsögðu sín rök fyrir till. sinni, en hefur auðvitað aðstöðu til þess að athuga þau betur með hliðsjón af þeim miklu og ríku skuldbindingum sem ég tel að gagnvart mér og einnig gagnvart Alþ. og almenningi hafi legið fyrir um ærleg fjárframlög til þessa máls. Ég vil aðeins minna á það, að með hliðsjón af þessu lauk ég m.a. máli mínu um þetta mál fyrr í haust, þegar það var rætt, og sagði að ég teldi ekki að við þyrftum að lengja mikið umr. um þetta atriði, fjárframlög á fjárl. 1978, þar sem málið væri í höfn. En það verður náttúrlega ekki í höfn með svona framlagi, og þess vegna leggjum við til í þessari till. okkar, þessir þm. sem hana flytjum á þskj. 160, að veittar verði 50 millj. kr. á fjárl. til sundlaugarinnar.

Ég hygg að það mundi taka mjög lífinu tíma að ljúka þeirri tæknilegu áætlunargerð, sem þarf að ganga endanlega frá, og þá muni fást úr því skorið, hver kostnaðurinn mundi verða, en nokkuð hefur hann verið dreginn í efa í þeim áætlunum sem þegar lágu fyrir, og þess vegna, ef reiknað væri einnig með framlagi frá Reykjavíkurborg á næsta ári, mundi að verulegu leyti vera hægt að byrja allmyndarlega á byggingu þessarar sundlaugar, hversu langt sem bygging hennar næði nú, sem ég þori ekki að fullyrða um á þessu stigi.

Endurhæfing fatlaðra manna hefur færst mjög í vöxt í heiminum. Það var einkum eftir síðustu heimsstyrjöld sem hún byrjaði í Ameríku t.d., og síðan held ég að það séu sárafáar borgir í Ameríku sem hafa ekki einhverja endurhæfingarmiðstöð innan sinna vébanda. Þetta hefur einnig breiðst út víða í Evrópu og einnig í Asíu og víðar og oft með hjálp þeirra frumherja í þessum málum sem voru í Bandaríkjunum eftir síðustu heimsstyrjöld. Við Íslendingar þurfum ekki mikið að skammast okkar, því að við vorum að vissu leyti komnir á undan þessum aðilum varðandi slíkar stöðvar, og á ég þar við Reykjalund, og ýmsar fleiri miðstöðvar til endurhæfingar og aðstöðu vil ég minna á, að eru mjög merkar fyrir okkur Íslendinga, sem einstaklingar hafa staðið að, hæði Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Sjálfsbjörg og margir fleiri aðilar.

Það er að vísu rétt, að það er víða þörf í þessum efnum, en einhvers staðar verður að byrja og aldrei verður verkinu lokið ef hvergi verður byrjað. Mér fundust heldur leið orðaskipti, sem fóru fram um þetta í fyrra á opinberum vettvangi, að ekki væri komin nein sundlaug við Landsspítalann. En það mundi ekki spilla fyrir henni, að veitt yrði fé til sundlaugar við Borgarspítalann. Ég hef verið minntur á það af sumum, að ég hafi ekki látið byggja þessa sundlaug þar meðan ég var heilbrrh. En það vill nú svo einkennilega til, að það var enginn sem minnti mig á það, að það væri byrjað á að grafa fyrir sundlaug þar, og voru þó mörg verk varðandi Landsspítalann sem ég vann að sem heilbrrh., bæði í sambandi við geislastofnun þar eða sérstakt húsrými, sem byggt var vegna sérstakrar geislunar vegna krabbaveiki, og upphaf að kvensjúkdómadeild og annað slíkt og áframhald á byggingu Landsspítalans og stækkun Landsspítalalóðarinnar eins og kunnugt er. Enginn minntist þá á byggingu sundlaugar við Landsspítalann (Gripið fram í.) Það var enginn sem minnti þig á þetta heldur. Þarna hafa auðvitað átt sér stað nokkur mistök. En ég álít að einmitt bygging við Grensásdeild, sundlaugarbygging til þess að gefa sjúklingunum, sem þar eru í endurhæfingu, möguleika á því að geta synt og æft sig í vatni, sem talið er mjög mikils virði bæði hér og annars staðar, muni aðeins verða til þess að ýta á eftir slíkum byggingum víðar og við Landsspítalann ekki síst.

Ég skal ekki orðlengja um þetta mál hér nú. En ég minni á það að lokum, að ég hafði sjálfur alveg fulla ástæðu til þess á s.l. vori að gera ráð fyrir því, að inn á fjárlög 1978 yrði tekið framlag til þessarar sundlaugar, og í byrjun þessa þings vorum við þm. látnir skilja svo, að það væri í raun og veru gert, því að það mundi vera á öðrum lið, sem var allstór, eitthvað á annan milljarð kr., til ýmiss konar heilbrigðismála.

Ég veit ekki hvort það er ástæða fyrir mig til þess að hafa fleiri orð um þetta. En ég minni á það, að bæði almenningur og þm. og þó sérstaklega fatlaðir menn, sem hér voru og fylgdust með þessum málum í haust, höfðu rökstudda ástæðu til þess að ætla að rösklega yrði frá því gengið að myndarlegt framlag kæmi frá ríkissjóði á fjárl. 1978 til þessarar sundlaugarbyggingar. Ég vil þess vegna mega vona að þetta mál geti þannig farið við afgreiðslu þessara fjárl., að betur rætist úr en horfir með þessari smáu till. frá fjvn. um 3 millj. kr. Þó að hún kunni að hafa haft einhverjar ástæður fyrir þeirri áætlun sinni vænti ég þess, að hún sé reiðubúin til að endurskoða það eitthvað áður en yfir lýkur og málinu megi koma það langt á veg á þessu ári með fjárframlögum frá ríki og bæ, að það sé sannmæli, sem ég sagði á sínum tíma í haust, að í raun og veru væri málið fjárhagslega komið í höfn.