13.12.1977
Sameinað þing: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

1. mál, fjárlög 1978

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. 2. umr. fjárl. fer fram nú við nokkuð sérstakar kringumstæður, þar sem minni hl. fjvn. hefur ekki skilað neinu nál. Ég hygg að það muni vera rétt sem hér hefur komið fram, að það hafi varla gerst áður. Það hefur komið fram hjá öllum þeim, sem skipa minni hl. í hv. fjvn., að þeir aðilar telja að ekki hafi legið fyrir nauðsynlegar upplýsingar til þess að í rauninni væri hægt að taka afstöðu til fjárlagaafgreiðslunnar að þessu sinni. Ég tel að hér sé um mjög alvarlegt mál að ræða sem óhjákvæmilega þurfi að staldra við og skoða nokkru nánar.

Það gefur auðvitað auga leið, að ekki er hægt að ganga út frá eðlilegri afgreiðslu á fjárl. nema fyrir liggi t.d. sæmilega góð grg. frá ríkisstj. um grundvallarbreytingar sem orðið hafa frá því að fjárlagafrv, var samið eða lagt fram og fram að afgreiðslutíma, varðandi t.d. breytingar á tekjuhlið og eins varðandi þýðingarmestu breytingar á útgjaldahlið. Mér sýnist af öllu því, sem komið hefur fram við þessar umr., að það sé ljóst mál, að nauðsynlegar upplýsingar um þessi atriði hafi verið fádæma seint á ferðinni. Mér sýnist t.d. að ef efni þess bréfs, sem dagsett er í gær og var nú í dag sent hv, alþm. sem trúnaðarmáli en hæstv, fjmrh, hefur nú lesið upp hér á þingi, ef efni þess hefði verið komið til fjvn. fyrir nokkrum dögum, 4, 5 eða 8 dögum, þá hefði sennilega ekki þurft að koma til þessa árekstrar. En hvað getur það verið í raun og veru sem hefur valdið því, að þessar upplýsingar, sem er að finna í þessu bréfi, lágu ekki fyrir? Það er alveg óskiljanlegt í rauninni að ekki hafi verið hægt að gera eðlilega grein fyrir því, við hverju mátti búast varðandi tekjuhlið frv., hvað hún gæti hækkað miðað við þá tekjustofna sem fjárlagafrv. er byggt á. Mér sýnist líka að það hefði átt að vera auðvelt í sjálfu sér fyrir hæstv. fjmrh. og ráðunauta hans að gefa einnig upp, hvað augljóst væri að hækka þyrfti útgjaldahlið frv. vegna samninga og annarra ákvarðana sem búið var að taka fyrir alllöngu. Þessi atriði hefðu öll átt að geta legið fyrir. Þá hefði það einnig Legið fyrir af sjálfu sér, að hér var um vanda að ræða varðandi afgreiðslu fjárlagafrv. sem var á milli í og 8 milljarða kr. Það virtist skorta tekjur sem því næmi eða lækka þyrfti útgjöld sem þessari fjárhæð næmi. Og ég get ekki séð annað en það hefði einnig átt að vera eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. væri búin að gera fjvn., sem hafði með afgreiðslu málsins að gera fyrir þingið, grein fyrir því í öllum aðalatriðum, hvernig hún hugsaði sér að bregðast við þessum vanda. Þetta hefur allt saman tafist, og mér sýnist að þetta blandist að nokkru leyti saman við þann ljóta síð, sem ég tel að hafi mjög ágerst í seinni tíð, ekki aðeins hjá þessari ríkisstj. heldur hjá fleirum, að gera minna og minna úr 2. umr, við afgreiðslu fjárl. og geyma sífellt stærri og stærri hluta sjálfrar fjárlagaafgreiðslunnar til 3. umr. Það tel ég í rauninni vítaverða aðferð, og ber að vara við henni og hverfa frá henni. Vissulega er ekki óeðlilegt, að nokkur hluti afgreiðslunnar geti dregist til 3. umr., eins og oft hefur átt sér stað, en öll meginafgreiðslan á vitanlega að liggja fyrir við 2. umr., svo að þm. geti tekið afstöðu til málsins á því stigi og markað afstöðu sína og flutt brtt. Síðan ætti 3. umr. aðeins að vera til minni háttar breytinga þar á eftir. En þessi aðferð, að draga jafnvel þýðingarmestu upplýsingar fram á síðustu stund, geyma sem mest af afgreiðslunni til 3. umr. og hafa hana síðan daginn áður eða svo að þing er leyst upp og þm, fara í jólaleyfi, þetta er í rauninni alveg fráleitt og endar með því, að þm. geta í rauninni ekki komið neinu af því fram, hvorki í umr. né á annan hátt, sem þeir vildu koma fram við afgreiðslu fjárl. Ég efast ekkert um að störf fjvn.-manna eru mikil — það þekki ég vel frá þeim tíma sem ég vann í fjvn. — og hafa þau eflaust aukist allverulega síðan ég átti sæti þar. En þau störf, sem þar eru unnin, eiga ekki að þurfa að hafa í rauninni nein áhrif á það, að hæstv. fjmrh. og ráðunautar hans geti tekið saman þessar grundvallarupplýsingar og látið þær liggja fyrir svo tímanlega að í rauninni sé hægt að standa með eðlilegum hætti að afgreiðslu málsins úr n. við 2. umr., og þá væri hægt að komast hjá slíkum árekstrum eins og þeim sem nú hafa komið upp.

Auk þess vil ég svo taka það fram, að ég tel að það sé orðið aðkallandi að staðið sé að fjárlagaafgreiðslu með öðrum hætti en gert hefur verið hér um alllanga hríð. Það er alveg augljóst, að ekki er hægt að einangra afgreiðslu fjárl. út af fyrir sig, þ.e.a.s. þau fjármál sem snerta ríkissjóðinn og fyrirtæki hans í þrengri merkingu, frá annarri fjármálaafgreiðslu í landinu. Og í rauninni er þetta viðurkennt með gerð lánsfjáráætlunar og þeirri grundvallarstefnumörkun, sem í henni felst. Ég tel að þær lánsfjáráætlanir, sem gerðar hafa verið þrjár í röð, fyrir árin 1976, 1977 og nú fyrir árið 1978, stefni í þessu tilfelli mjög í rétta átt og gefi mjög þýðingarmiklar upplýsingar um stöðuna í fjármálum almennt og móti stefnuna. Ég vil hins vegar segja, að það er rangt, sem hér hefur komið fram, að aldrei hafi verið gerðar svona áætlanir áður. Þær hafa að vísu ekki verið kallaðar lánsfjáráætlanir. Það var um alllangan tíma sem gerðar voru alveg hliðstæðar áætlanir með mjög góðum grg., en þær voru kallaðar framkvæmdaáætlanir og lánsfjáráætlanir. Þær voru gerðar, En lengi var það svo, að ekki þótti fært að leggja þessar áætlanir fyrir Alþ. og gefa Alþ. kost á að ræða þær fyrr en komið var nokkuð fram á vetur, fram í mars- eða aprílmánuð.

Menn hafa auðvitað séð það betur og betur, að það er alveg nauðsynlegt að afgreiða á sama tíma fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun og þá stefnumörkun sem þar er tekin í þýðingarmiklum framkvæmdamálum og fjárhagsmálum, því að það er auðvitað þannig, að stór hluti af framkvæmdum á vegum ríkisins og ríkisstofnana er að verulegu leyti fyrir utan hið þrönga fjárlagafrv., og kemur það að meira eða minna leyti inn í lánsfjáráætlun ég þá heildarstefnumörkun sem þar er ákveðin. Því vil ég minnast á þetta, að þrátt fyrir þessar áætlanir, sem gerðar hafa verið og ég tel verulega til bóta, hefur alltaf farið svo, að það hefur ekki gefist neinn tími til þess hér á Alþ. að ræða þessi mál með eðlilegum hætti og í samhengi. Á s.l. ári eða þegar verið var að afgreiða fjárl. fyrir yfirstandandi ár, 1977, var lánsfjáráætlunin svo seint á ferðinni að það var með naumindum að hæstv. fjmrh. gat gert grein fyrir henni í örstuttu máli áður en þm, fóru í jólaleyfi, en engar umr, gátu farið fram um þetta þýðingarmikla plagg. Það var síðan ætlunin að taka upp umr. síðar um þá stefnu, sem fólst í lánsfjáráætluninni, en úr því varð aldrei. Það er rétt að lánsfjáráætlunin, þó að fundið hafi verið að því nú að hún hafi verið seint á ferðinni að þessu sinni, er þó ögn fyrr á ferðinni en síðast, og núna er þó nokkurt tækifæri til þess að ræða lánsfjáráætlunina og fjárlagafrv. samhliða, sem ég tel alveg nauðsynlegt. Satt að segja dreg ég það nokkuð í efa að allir hv. alþm., — eða a.m.k, finnst mér menn taka þessum málum svo létt hér á Alþ., — hafi gert sér grein fyrir því, hvað í rauninni felst í þessum lánsfjáráætlunum eins og þær eru upp setta nú, því að raunverulega er það svo, með þessum áætlunum er verið að taka ákvarðanir í fjármálum um gífurlega stór atriði sem varða öll fjármál ríkisins á öðrum sviðum en þeim sem beint snerta fjárlögin. Það er t.d. verið að marka stefnuna um það, hver skuli verða starfsemi allra helstu stofnfjársjóða í landinu á komandi ári. Það er verið að taka ákvörðun um það, hver geti orðið umsvif Fiskveiðasjóðs t.d. varðandi framkvæmdir í sjávarútvegsmálum á komandi ári. Það er verið að taka ákvarðanir um það, hvaða fjárhagsmöguleika Stofnlánadeild landbúnaðarins eigi að hafa. Hið sama gildir að sjálfsögðu um iðnað og aðra stofnlánasjóði. Það er verið að marka stefnu hvernig skuli staðið að helstu stórframkvæmdum í landinu. Við vitum að fjárlagafrv. sem slíkt segir ekki nema að örlitlu leyti til um það, hvernig að þessum málum skuli staðið.

Því miður er það svo, að í þá lánsfjáráætlun, sem hér liggur fyrir nú, vantar enn þá allmikið af upplýsingum um mjög þýðingarmikil atriði varðandi þessi mál öll. Það kemur t.d. ekki nægilega skýrt fram, hver verða í raun og veru öll umsvif eins stærsta fyrirtækis í landinu. Landsvirkjunar, þess mikla ríkisfyrirtækis. Það kemur að vísu fram, hvað áætlað er að það fyrirtæki geti tekið mikið af lánum. En það kemur hins vegar ekki nægilega vel fram, hvorki í fjárlagafrv, né lánsfjáráætlun, hver heildarumsvif þessa fyrirtækis gætu orðið, ekki hliðstætt við ýmis önnur fyrirtæki. Það skortir líka á að í fjárlagafrv, séu gerð skil á eðlilegan hátt stóru ríkisfyrirtæki, sem orðið er þó að lögum, en það er Járnblendifélagið og sú framkvæmd sem það stendur fyrir. í að hefði auðvitað átt að taka inn í fyrirtækjakaflann í fjárlagafrv. Þó að þarna sé ekki hafinn formlegur rekstur, þá eru slíkar stofnframkvæmdir byrjaðar þar, að átt hefði að taka það fyrirtæki upp í þann kafla. Þessi fyrirtæki eiga ekki að liggja utan við þennan heildarramma.

Það er skoðun mín að í rauninni sé ekki hægt að standa eðlilega að afgreiðslu fjárlagafrv. eins og komið er án þess að mörkuð sé meginstefnan varðandi þjóðarbúskapinn í heild, Það er gert að talsverðu leyti í lánsfjáráætluninni, þó að það sé að mínum dómi ekki fullnægjandi.

Mig langar að víkja að nokkrum almennum atriðum, þrátt fyrir þá aðstöðu sem við höfum nú að þessu sinni, því að umr. um jafnþýðingarmikið mál og hér er á ferðinni verður að fara fram að kvöldi til og nóttu, þegar margir alþm. telja sér ekki skylt að sitja fund, — að ég tali nú ekki um sjálfa ráðh., sem telja þetta fyrir neðan virðingu sína líklega flestir, nema þá fjmrh. sem er skyldugur að vera við umr. eins og þessa . Ég álít að þetta hefði í raun og veru átt að verða ein aðalumr. á Alþ., sem hefði gjarnan átt að standa. nokkra daga og á dagfundum, þar sem rætt væri um horfurnar í efnahagsmálum almennt séð og þan viðfangsefni, sem þar er við að glíma, og þá stefnu, sem er verið að móta, hvernig skuli mæta þessum viðfangsefnum. Ég veit að það er í rauninni ætlast til þess, að þessi umr. verði varla um annað en nokkrar smærri brtt, sem einstakir þm. flytja, menn tali fyrir þeim að formi til og svo sé þessu lokið. Mig langar samt til þess að víkja hér að nokkrum almennum atriðum, þótt ég skuli nú stytta mál mitt vegna þess hvernig allt er í pottinn búið.

Við stöndum frammi fyrir því, eins og þessi mál liggja fyrir í dag, að í fjárlagafrv., sem lagt var fram í þingbyrjun, í októbermánuði, var gert ráð fyrir að heildarútgjöld þess yrðu í kringum 124 milljarða. Sýnilegt er, miðað við þær upplýsingar sem liggja nú fyrir í dag, að heildarútgjöld frv. fara nokkuð yfir 140 milljarða. Síðustu fjárl. voru í kringum 89 milljarða, rétt tæpir 90 milljarðar. Fjárl. fara að þessu sinni augljóslega upp í 143 milljarða. Vel má vera að sú tala eigi enn eftir að hækka eitthvað. Það, sem liggur því fyrir, er að fjárl. hækka nú á milli ársins 1977 og ársins 1978 um ca. 54 milljarða eða rétt í kringum 60%. Þetta er ein sú mikilvæga staðreynd sem við stöndum frammi fyrir.

Svo kemur lánsfjáráætlunin. Hún segir okkur að gert sé ráð fyrir að í opinberar framkvæmdir eða ríkisframkvæmdir svonefndar fari rúmlega 10 milljarðar, eða um 10.5 milljarða verði að ræða í lántökur til þess að standa undir hreinum ríkisframkvæmdum til viðbótar við þetta. Þetta er aðeins hærri upphæð en var á síðustu lánsfjáráætlun. Breytingin verður aðeins sú, að nú er gert ráð fyrir heldur minna erlendu lánsfé í sambandi við þessar framkvæmdir en áður var en mun meira af innlendu lánsfé til framkvæmda.

Þessi áætlun segir okkur líka að við það sé miðað, að heildarfjárfestingin í landinu eigi að verða á næsta ári í kringum 126 milljarða kr., en muni reynast á þessu ári í kringum 101 milljarð. Þetta fór nú heldur betur fram úr áætlun síðustu lánsfjáráætlunar, því að þar var aðeins gert ráð fyrir 85 milljarða fjárfestingu, en fjárfestingin hefur orðið 101 milljarður á þessu ári. Okkur er líka sagt, og það er gerð sæmileg grein fyrir því í lánsfjáráætluninni, að reiknað sé með því, að þessar miklu stofnframkvæmdir upp á 126 milljarða, svona rétt aðeins undir því, sem fjárlagaútgjöldin öll verða, eigi að fjármagna að 96% af tekjum ársins, það eigi að taka þetta af framleiðsluverðmæti þjóðarinnar, af því að það er ekki gert ráð fyrir því, að við aukum að þessu leyti, nema sáralítið skuldir okkar við útlönd.

Það er býsna fróðlegt að gera sér grein fyrir því, í hvað þessi fjárfesting á að fara og í hvað hún hefur farið t.d. á þessu ári. Það er augljóst að nú eins og áður fer þessi mikla fjárfesting að langsamlega mestu leyti í svonefndar stórframkvæmdir. Þarna kemur Grundartangi til sögunnar á þessu ári, og er gert ráð fyrir að hann taki til sín 8 milljarða af þessu framkvæmdafé og hlutur hans hækki mjög verulega frá yfirstandandi ári. Það er einnig augljóst að áfram er haldið, vegna þeirrar stefnumótunar sem gerð hefur verið áður, að fjárfesta svo milljörðum skiptir í raforkuframkvæmdum, m.a. vegna Grundartanga og annarra stórframkvæmda. Auðvitað þyrftum við ekki núna að gera ráð fyrir stórfelldum útgjöldum sem tengjast Hrauneyjafossvirkjun, ef ekki hefði verið tekin um það ákvörðun að selja Járnblendifélaginu um það bil helminginn af allri orkunni frá Sigöldu eða í kringum 70 mw. Auðvitað þyrftum við ekki að halda áfram þessari fjárfestingu með því álagi sem þetta hefur í för með sér á heildarefnahagskerfið. ef ekki væru þessar ástæður.

Það er alveg augljóst, að við höfum verið að taka af okkar eigin aflafé gífurlega háar fjárhæðir á undanförnum árum og leggja m.a. í Kröfluframkvæmd, í línulagnir á milli landsfjórðunga, í miklar hítaveituframkvæmdir og auðvitað síðast en ekki síst í stórvirkjanir eins og Sigöldu og nú Hrauneyjafossvirkjun. En það er rétt að menn geri sér grein fyrir því, að allt skapar þetta gífurlegt álag á efnahagskerfið og þungann af þessu verðum við að bera þangað til þessar framkvæmdir fara að skila einhverju teljandi í aðra hönd. Það hefur ekki einu sinni Sigalda gert hingað til. Hún hefur ekki skilað neinu teljandi í aðra hönd. Þar mætir maður aðeins á reikningum Landsvirkjunar nokkrum milljörðum í bein útgjöld vegna þeirrar framkvæmdar. Með þessum orðum er ég ekki að segja á neinn hátt að Sigalda eigi ekki eftir að leggja nokkuð með sér í tekjum. Ég vona líka fyrir mitt leyti að Krafla eigi eftir að gera það, þótt síðar verði, og ég reikna líka með því, að þeir tímar komi að hinar miklu línur, byggðalínan á milli Suðurlands og Norðurlands og aðrar slíkar langlínur, eigi eftir að koma íslenskri þjóð að miklu gagni. En það er algerlega þýðingarlaust annað en gera sér grein fyrir því, að þessar miklu framkvæmdir taka til sín fé frá þjóðarbúinu í heild, valda okkur miklum efnahagslegum erfiðleikum á meðan þær skila litlum eða engum arði, og þetta er stór hluti af þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í okkar efnahagsmálum.

Hér er að sjálfsögðu ekki um einustu fjárfestingarnar að ræða, því að við fjárfestum mikið í öðrum greinum. En ég hef bent á það nokkrum sinnum og geri það enn einu sinni, að við höfum nú um skeið dregið mjög við okkur fjárfestingu í þeim atvinnugreinum þjóðarinnar sem þó standa undir öllu þjóðarbúinu enn í dag. fjárfestingar okkar í sjávarútveginum í heild minnkuðu, jafnt í fiskveiðum sem fiskvinnslu, að magni til um hvorki meira né minna en 21% árið 1975 og um 11% árið 1976. Á þessu varð að vísu breyting á þessu ári með allmiklum skipakaupum, þannig að þá varð ekki á nýjan leik um samdrátt að ræða, eins og þó hafði verið spáð heldur var þá um nokkra aukningu að ræða. En nú er enn gert ráð fyrir því í þeirri lánsfjáráætlun, sem hér liggur fyrir, að um stórfelldan samdrátt verði að ræða, t.d. í sjávarútvegi okkar. Ég er ekki í neinum vafa um að þetta er ekki hyggilegt. Það er svo mikil þörf á því, að við getum gert betur en við gerum í rekstri sjávarútvegsins, svo að hann geti skilað meiri árangri en hann gerir í dag, að það er lífsnauðsynlegt að leggja áfram til fjármagn til að koma þessum umbótum fram. Og ég vil segja það enn einn sinni til viðbótar því sem ég hef sagt áður, að það leikur enginn minnsti vafi á því, að menn komast aldrei út úr þeim rekstrarlegu og efnahagslegu vandræðum, sem ganga yfir hér á suðvesturhorni landsins, á Reykjanessvæðinu og einnig á Snæfellsnesinu og víðar, án þess að lagt verði fram nýtt stofnfé, sem verði að vísu notað á hyggilegan hátt til þess að koma þarna fram nauðsynlegum umbótum.

Þær fjárfestingar, sem áttu sér stað í sambandi við breytingar á okkar fiskiskipaflota og aðallega hófust á árunum 1971 og 1972 og hafa síðan haldið áfram að meira eða minna leyti, það er lítill vandi að sanna mönnum með tölum að þær hafi skilað arði, — þeim arði sem þjóðin lifir á í dag. Og það fé, sem gengið hefur til fjárfestingar t.d. í okkar fiskvinnslu, hefur sannanlega skilað arði í þjóðarbúið. Það er því gáleysislega að farið að mínum dómi, þegar sú stefna er mörkuð í fjárfestingarmálum og framkvæmdamálum, að ár eftir ár er stefnan sú, að við ætlum að draga saman fjárfestingu, þó að við sjáum að nauðsynlegt er að halda henni áfram, í þýðingarmestu framleiðslugreinum þjóðarinnar. En til þess að fá tölur til þess að líta þokkalega út, þá er t.d. járnblendiframkvæmdinni allri upp á 8 milljarða blandað saman við atvinnuvegina og sagt, með því að leggja þar 8000 millj. til viðbótar við það sem á að fara í fjárfestingu hjá atvinnuvegunum, að þetta sé ekki mjög mikill samdráttur, en þó nokkur. Samdrátturinn er gífurlega mikill, og menn munu ekki komast langt með þessari stefnu.

Þetta á ekki bara við sjávarútveginn. Nákvæmlega það sama kemur út úr dæminu bæði í sambandi við landbúnað og varðandi iðnaðinn. Hitt er svo annað mál, að vitanlega er alltaf mikill vandi að sjá svo um að því fjármagni sem veitt er til fjárfestingar, t.d. því fé, sem veitt er til fjárfestingar í landbúnaði, eða því fé, sem veitt er til fjárfestingar í okkar iðnaði, sé ráðstafað á þann hátt, að líklegt sé að það skili arði, það þýði aukna framleiðslu hjá okkur og aukin verðmæti í þjóðarbúið. En það er rétt að menn geri sér grein fyrir því, að með þeirri lánsfjáráætlun, sem hér liggur fyrir, er verið að taka ákvörðun um að bæta einu árinu enn við og halda áfram að draga saman í fjárfestingunni í undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Og áfram þokast í þá átt að leggja fram fjármagn í stórframkvæmdir, ýmist beint í verksmiðjubyggingu eins og þá, sem er verið að gera uppi á Grundartanga, eða þær stórframkvæmdir sem slíkri verksmiðju verða að fylgja í sambandi við raforkuframleiðslu.

Það er svo mál út af fyrir sig, að í þessari lánsfjáráætlun, sem hér liggur fyrir, virðist vera tekin ákvörðun um að læsa öllu eins og það stendur norður við Kröflu. Það á ekki að láta neitt nýtt fjármagn í þá miklu framkvæmd, nema aðeins það fé sem þarf til þess að greiða afborganir og vexti af því sem í fyrirtækið er komið. Það á sýnilega ekki að bora meir og þar á ekki að gera neitt. Krafla á að standa eins og hún stendur. Þar er ekki gert ráð fyrir framkvæmdum nema upp á rétt 100 millj., sem munu víst fara að mestu leyti í að borga skuldir. Það er alveg augljóslega verið að taka ákvörðun um að yfirgefa mannvirkið eins og það stendur og bíða. Þetta er augljóst samkv. þeirri lánsfjáráætlun sem hér liggur fyrir. Það kann að vera að þeir, sem setja fram þessa till., séu búnir að gaumgæfa hana og niðurstaðan sé að halda þannig á málum. En ég segi: Það er voðalegt ef þetta á að verða niðurstaðan. Og þá hlýtur maður að spyrja, hve lengi eigi svo að bíða eftir alla þessa fjárfestingu, því að ekki kemur gufan af sjálfu sér inn á hverflana þarna, þó að hún kannske læðist með öðru móti í kringum byggingarnar þarna.

Það er líka augljóst á grg. sem fylgir þessari lánsfjáráætlun, að áætlanir af þessu tagi, sem hér liggja fyrir, eru ekki veruleikinn sjálfur. Það er sýnilegt að hægt er að víkja frá þeim. Ríkisstj. hefur líka sýnilega misst tökin á fyrri áætlun í mörgum greinum. T.d. fór það svo á þessu ári, að erlendar lántökur hafa orðið samkv. grg. í lánsfjáráætluninni rúmlega 28 milljarðar — 28 milljarðar 450 millj. kr. — og hinar erlendu lántökur fóru fram úr áætlun um 7600 millj. kr. um 7.6 milljarða. Það er auðvitað eðlilegt að ríkisstj. ákveði upp úr þessu að fara í bindindi næsta ár, nú ætli hún ekki að taka meira af erlendum lánum, nema þá rétt upp í afborganir og vexti. En það er rétt að gera sér grein fyrir því, að samkv. þessari lánsfjáráætlun er þó gert ráð fyrir því, að útvega á næsta ári 20 milljarða kr. í erlendum lánum. Það er gert ráð fyrir því. Ekki þyrfti nú mikið að gerast umfram það, sem gerðist á þessu ári, til þess að lántökurnar yrðu svipaðar og þær voru, þrátt fyrir þessa heitstrengingu. Ég held nefnilega að það þurfi að taka, þegar svona áætlun er gerð, miklu meira og betur tillit til þeirra staðreynda sem liggja fyrir.

Ég verð t.d. að segja það um þessa áætlun, — sem mér finnst vera fengur í, ég endurtek það, að mér sýnist hún vera gerð þannig í mörgum greinum, — að ekki vildi ég eiga mikið undir því, að hún stæðist algerlega. Í þessari áætlun segir m.a. um þær forsendur, sem áætlunin er byggð á, orðrétt á þessa leið, með leyfi forseta:

„Í forsendum þjóðhagsspár er reiknað með, að unnt verði að halda verðbreytingum þannig í skefjum, að þær verði ekki meiri að meðaltali 1978 en í ár, og er þá miðað við fyrirsjáanlega þróun fram til miðs næsta árs, en töluvert dragi úr þeim síðari hluta ársins.“

Hver trúir þessu? Ég held að það liggi alveg augljóst fyrir, a.m.k. benda allar þær upplýsingar, sem ég hef fengið um það, til þess, að verðhækkanir verði mun meiri á þessu ári en hinu, nema þá það standi til að gera einhverjar þær ráðstafanir, sem að vísu er verið að snúast hér í kringum að eigi að koma til framkvæmda á miðju næsta ári eða nánar tiltekið eftir kosningar.

Það er fróðlegt að lesa þessar forsendur allar eins og þær eru tilgreindar. Hér segir: „Þessi forsenda þjóðhagsspárinnar felur þó þegar í sér að verulegu aðhaldi verði beitt á sviði opinberra fjármála, peningamála og verðlagsmála.“ Og svo segir enn fremur: „Að vexti einkaneyslunnar óheftum og án sérstaks viðnáms í peninga- og lánsfjármálum stefnir hins vegar í örari verðhækkanir og meiri viðskiptahalla en þjóðhagsspáin sýnir.“

Hvað þýðir þetta: Að vexti einkaneyslunnar óheftum stefnir í miklu meiri viðskiptahalla og í rauninni fer allt til fjandans? Auðvitað vitum við öll, sem hér erum, hvað þetta þýðir. Ef fólkið í landinu á að hafa þau fjárráð sem það hefur í dag, þá stefnir þetta á allt annað. Ef fjárráðin verða ekki tekin af mönnum með einhverjum hætti, stenst þetta ekki. Það er það sem verið er að segja. Það er eðlilegt að þeir, sem skrifa grg. fyrir þessu plaggi, endi þessa setningu alla á þessu, sem hér skal lesið: „Því miður er hættan sú, að þessar tölur séu of lágar fremur en of háar, og því brýnt að heita öllum tiltækum ráðum gegn þeim mikla verðbólguþrýstingi, sem nú einkennir þjóðarbúskapinn.“

Auðvitað er það, að þegar slík stefnumörkun er ákveðin sem felst í þessari lánsfjáráætlun og framkvæmdaáætlun og þegar er verið að afgreiða fjárlög fyrir komandi ár, þá vitanlega vakna spurningar um það, hvernig hæstv. ríkisstj. ætli að glíma við vandann í efnahagsmálum, ekki bara á þröngu sviði ríkissjóðs, heldur í þjóðarbúinu sem heild. Hvernig ætlar hún að glíma við þann vanda? Hvað hugsar hún sér að gera? Út af fyrir sig er það minnstur vandi að krækja saman fjárl. þannig að þar standist tölur á og það aðeins á pappír. Vandinn liggur auðvitað í því, hvað gerist á eftir í þjóðarbúinu. Spurning mín er t.d. þessi: Hvernig ætlar ríkisstj. að mæta þeim vanda sem sérfræðingar hennar hafa gert nokkra grein fyrir, við skulum segja varðandi fiskiðnaðinn í landinu? Það hefur nýlega komið skýrsla í okkar hendur sem segir að fiskiðnaður landsmanna sé nú rekinn með 2 500 millj. kr. halla — með 2.5 milljarða halla miðað við ársrekstur, ef telja eigi rekstraraðstöðu fiskvinnslunnar eðlilega gagnvart verðjöfnunarsjóðskerfinu. Hvernig á að mæta þessum vanda? Hvað gerist þegar að þessum vanda kemur?

Við vitum einnig að uppi eru kröfur um það og það af ofurskiljanlegum ástæðum, að það þurfi að hækka fiskverð nú um næstu áramót, vegna þess að þeir, sem eiga laun sín undir fiskverði, sjómennirnir, fengu enga launahækkun 1. okt. Þá var ákveðið óbreytt fiskverð, og þeir segja nú: Það kemur vitanlega ekki til mála í öllum þeim hækkunum, sem nú ganga yfir, að laun okkar standi alveg óbreytt. Hér verður að koma til fiskverðshækkun. — Útgerðarmennirnir taka sannarlega undir þetta með sjómönnunum og segja alveg útilokað að gert sé út áfram með óbreyttu fiskverði. Og hækki fiskverðið, þá eykst þessi vandi fiskvinnslunnar sem Þjóðhagsstofnun talar um í grg. sinni. Hvað hugsar hæstv. ríkisstj. sér að gera í þessum efnum?

Ég vil einnig spyrja: Hvað hugsar hún sér að gera í sambandi við þann vanda, sem nú er mest talað um á vegum þeirra landbúnaðarmanna? Það kemur í ljós að landbúnaðurinn er þannig rekinn, að um það verður ekki deilt að greinilegt er að tekjur bænda dragast nú aftur úr tekjum viðmiðunarstéttanna miklu meira en áður hefur gerst. Síðasti samanburður, sem birtur hefur verið frá Hagstofunni um þetta efni, sýnir að á árinu 1976 drógust bændur enn meira aftur úr en áður. Meðaltekjur bænda hækkuðu yfir árið ekki nema um 27% af þeim miklu lægri tekjum sem bændur höfðu þá að meðaltali, þegar viðmiðunarstéttirnar hækkuðu sínar tekjur um 33% af allmiklu hærri tekjugrunni. Og við vitum að bændur halda áfram fundarhöldum um allt land og gera sínar kröfur. Þeir hafa farið fram á það að söluskattur verði afnuminn af kindakjöti. Það er alveg augljóst mál að eitthvað verður að gera í málefnum landhúnaðarins, ef ekki á svo að fara að tekjur bændanna verði rétt í kringum helming af tekjum viðmiðunarstéttanna. Það er alveg augljóst. Ég á satt að segja erfitt með að trúa því, að ríkisstj. treysti sér til þess að standa þannig að þessum málum að hún látist hvorki sjá þetta né heyra, að þetta sé henni óviðkomandi og í þessum efnum þurfi hún ekkert að gera.

Forsvarsmenn iðnaðarins í landinu hafa gert kröfur um það að um frestun verði að ræða á tollalækkunum á innfluttum iðnaðarvörum samkv. EFTA-samningi. Við vitum einnig að Þjóðhagsstofnun hefur gert sérstaka úttekt á afkomu ullar- og skinnaiðnaðarins í landinu, þar sem í ljós kemur að um stórfellt tap er að ræða, og við vitum öll að uppi eru kröfur um miklar fjárgreiðslur eða stuðning við þessar atvinnugreinar. Ég spyr um það, um leið og hér er verið að afgreiða fjárl. fyrir næsta ár og marka stefnuna í peninga- og fjármálum: Hvernig hugsar ríkisstj. sér að mæta þessum vanda? Ef hún hugsar sér að mæta þessum vanda á sama hátt og hún hefur yfirleitt gert áður, þ.e.a.s. með því að lækka gengi krónunnar, leggja á nýja skatta fyrir ríkið, þá þýðir það auðvitað enn þá aukna verðbólgu í landinu, aukna dýrtíð, og launasamningar standa þannig, að þá hækka öll laun svo að segja sjálfkrafa, þar sem ekkert er undan dregið. Hvernig ætlar ríkisstj. að mæta þessum vanda — eða hefur hún alls ekki gert sér neina grein fyrir því, hvernig skuli takast á við þennan vanda? Ég tel fyrir mitt leyti, að eðlilegast væri að hér færi fram ítarleg umræða, einmitt um leið og lánsfjáráætlun er lögð fram og grg. sú, sem henni fylgir, liggur fyrir um þessi atriði sem öll hafa vitanlega sínar verkanir á afkomu ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja engu síður en á afkomu atvinnuveganna í landinu.

Ég skal nú ekki eyða miklu lengri tíma til þess að ræða þessi mál almennt, þó að það væri freistandi. En ég vil aðeins segja það í leiðinni að ég held að það sé enginn vafi á því, að sá tími er auðvitað liðinn og liðinn fyrir löngu að hæstv. ríkisstj. geti fleytt sér út úr þessum málum með því að tala í sífellu um að hún hafi tekið við vondu búi og af því stafi allur þessi vandi. Auðvitað væri býsna gaman að ræða um það, hvernig búið var sem ríkisstj. tók við, af því að það vill svo vel til, og ég ætla aðeins að minna menn á það, — en ég er tilbúinn að fara í að rekja það mál hér ef menn vilja ræða það, — að það fór fram opinber úttekt á ástandinu eins og það var þegar ríkisstj. tók við, og þessi úttekt, sem Þjóðhagsstofnun gerði, liggur fyrir og frá henni verður ekkert vikið. Úttektin um það leyti sem ríkisstj. tók við var t.d. þannig varðandi ríkissjóð, þar stendur skýrum stöfum, að um það leyti sem ríkisstj. tók við hafi tekjur og gjöld ríkissjóðs verið í jafnvægi, það mætti búast við því, að tekjurnar á árinu 1974 færu 5300 millj. kr. fram úr áætlun fjárl. og gjöldin einnig um sömu upphæð. Þetta stóð nú ekki verr en það, að því er úttektin segir, að þarna var jöfnuður. En þá var bara nær engin skuld við Seðlabankann. Nú er ekki því að heilsa. Þessi úttekt segir líka hvernig t.d. var ástatt í gjaldeyrismálum. Þá áttum við enn þá til gjaldeyrisvarasjóð. Og tölurnar liggja auðvitað fyrir í þessari úttekt. Miðað við verðgildi peninganna í dag áttum við yfir 6000 millj. í gjaldeyrisvarasjóði. Nú skuldum við orðið Alþjóðagjaldeyrissjóðnum yfir 13 milljarða og höfum í rauninni lifað á skuldasöfnun í langan tíma. Í þessari úttekt Efnahagsstofnunarinnar, svo ég aðeins minni menn á hana, sagði líka um stöðu atvinnuveganna í landinu, að sjávarútvegurinn hefði aldrei haft eins hagstætt rekstrarár og árið á undan, árið 1973, aldrei síðan menn fóru að mæla það eitthvað í tölum almennt séð. Og úttektin bætti við: „Afkoman hefur verið óhreytt og góð fram á mitt ár.“ Það var einmitt það.

Hún var góð og óbreytt fram á mitt ár. Og úttektin var líka þannig varðandi iðnaðinn, að afkoma hans var betri en hún hafði verið um langan tíma. — Svona lítur þetta vonda bú út þegar menn líta yfir úttektina sem Efnahagsstofnunin gerði og gaf út á sínum tíma, að ég ekki minnist á það, hverjar voru langtímaskuldir við útlönd þá og hverjar þær eru nú.

En svo kom ný ríkisstj. og dagurinn 1. sept. 1974 rann upp, og þá dúndraði yfir okkur fyrsta gengislækkunin. Síðan liðu 5 mánuðir og þá kom næsta gengislækkun og síðan hefur verið stanslaust gengissig, þannig að á þeim tíma sem núv. ríkisstj. hefur verið við völd hefur erlendur gjaldeyrir hækkað í verði um rúm 124% að meðaltali. Þetta þýðir auðvitað það, að allar innfluttar vörur hafa hækkað að meðaltali um 120%. En það hefur ekki aðeins dugað að þannig væri haldið á gengismálum með tilheyrandi afleiðingum á öðrum sviðum, ríkisstj. hefur síðan líka bætt við nýjum skatti ofan á skatt, og hún leikur sér að því, eins og við þekkjum, að leggja á bráðabirgðavörugjald, tímabundið vörugjald heitir það enn í lögum. Það átti að standa aðeins í 5 mánuði, en er búið að standa talsvert á þriðja ár og virðist lifa góðu lífi, því það á að framlengja það allt næsta ár.

Þessar nýju álögur til viðbótar við þá tekjustofna, sem voru fyrir, og svo auðvitað gengislækkunarstefnan ásamt með vaxtahækkunarstefnu þeirri, sem nú er að reka flestan heilbrigðan atvinnurekstur í strand, þetta hefur leitt til þeirrar verðbólgu sem við stöndum frammi fyrir í dag. Það er auðvitað algjörlega tilgangslaust að ætla að neita þeirri staðreynd, að það eru gengislækkanir, það eru nýjar skattaálögur, sem allar hafa gengið út í verðlag, það eru vaxtahækkanirnar og það eru gífurlegar hækkanir á þjónustu opinberra aðila sem eru ástæðurnar fyrir því, að verðlagið í landinu hefur hækkað og ríkisstj. getur auðvitað ekki endalaust borið það fyrir sig, sem henni tókst í byrjun, að þetta stafaði af því, að verð á útflutningsvörum okkar hefði lækkað. Það er rétt, verð á okkar útflutningsvörum lækkaði á árinu 1975. En það liggur líka fyrir hvernig hefur farið með þetta, verðlag og viðskiptakjörin og þjóðarframleiðsluna. Ég hef hér fyrir framan mig plagg frá Þjóðhagsstofnun, þar sem fram kemur sérstök vísitala yfir útflutningsverð okkar, meðaltal yfir útflutningsverð eða verð á útfluttum vörum þjóðarinnar. Enn fremur hef ég aðra vísitölu í þessu plaggi sem sýnir innflutningsverðið. Og aðeins sem dæmi um það, hvernig þetta hefur hreyst, þá þótti dágott útflutningsverð sem við bjuggum við árið 1973, það metár. Þá var vísitala útflutningsverðs, á árinu 1973, 242 stig. Hún fór upp í 293 stig árið 1974. Hún fór aftur niður í 262 stig árið 1975, en síðan upp í 310 stig árið 1976, og nú árið 1977 spáir Þjóðhagsstofnun að hún verði 359 stig, hefur aldrei verið neitt viðlíka eins há, og viðskiptakjörin eru nú orðin eins og þau hafa verið best áður og þjóðarframleiðslan hefur vaxið. Það er eðlilegt að menn spyrji þegar svona hefur tekist til: Hver ósköpin hafa gerst í þessu landi? Framleiðslan er seld á háu verði, framleiðslan er meiri en nokkru sinni áður, en eigi að síður er hér allt á fjórum fótum í efnahagsmálum. Ég segi, að ef þeir sem ráða fara ekki að hugsa sig um, hvort ekki sé eitthvað vitlaust af því sem þeir hafa verið að gera, þá er þeim í rauninni ekki viðbjargandi — alveg útilokað.

Það er enginn vafi á því, að öll skilyrði eru fyrir hendi í þjóðarbúi okkar núna til þess að það ætti að vera hægt að borga þau laun vandræðalaust sem nú eru í gildi. Það ætti að vera hægt, En eitt mjög mikilvægt atriði í þeim efnum er það, að þannig sé staðið að málum að t.d. fjárfestingin í landinu sé ekki með þeim hætti að við tökum milljarða á milljarða ofan og leggjum þá í eitt eða annað sem skilar ekki neinum arði, En það er þetta sem hefur verið gert. Og eins og ég hef sagt áður, þá vil ég að það sé alveg skýrt, þannig að það sé ekki snúið neitt út úr því fyrir mér, að sumar þessar framkvæmdir sem kallað hafa til sín þetta mikla fjármagn, eru í eðli sínu ekki vondar. Þetta eru framkvæmdir sem eiga eftir að skila okkur arði siðar meir. En vitanlega verðum við að stilla því í hóf, hvað við ráðumst í mikið á hverjum tíma, því ef við skiljum of litinn hluta eftir í hina almennu neyslu, þá verður því svarað m.a. af launþegasamtökunum með því, að menn gera kröfu um hækkun kaupsins og knýja það fram, og við lendum í sömu vandræðum og áður.

Skoðun mín er sú í sambandi við þá fjárlagaafgreiðslu, sem hér er stefnt að, og þá lánsfjáráætlun, sem hér er gerð grein fyrir, að þetta stefni allt saman í sömu átt og að undanförnu, stefni í þá átt sem við getum ekki lengur haldið í, þar þarf að verða á breyting. Ég held að hæstv. ríkisstj. verði að fara að átta sig á því að algjörlega tilgangslaust er að nota útjaskaðar lýsingar á því sem hún er að gera. Eitt er það sem allir þekkja. Stefna ríkisstj., eins og hér hefur verið margendurtekið og maður les daglega í blöðum stjórnarinnar, er að beita aðhaldi í ríkisfjármálum. Aðhaldið kemur fram í þessu: Frá árinu í ár, 1977, til næsta árs eiga fjárl. að hækka um 60%. Þar styðst ég beinlínis við þær tölur sem liggja fyrir, Síðan er þetta endurtekið dag eftir dag í Morgunblaðinu: Þeir eiga lof skilið fyrir það, að þeir beita aðhaldi í ríkisfjármálum. — Sér er nú hvað aðhaldið. Svona aðhald fer að mínum dómi með okkur, ef við notum svona aðhald miklu lengur.

Svo er þetta, sem líka er endurtekið sí og æ, að stefnan sé sú, að ríkisstj. sé að veita viðnám gegn verðbólgu. Alltaf er hún í baráttunni við verðbólguna. Daginn sem hún stórhækkar alla vexti er hún í slag við verðbólguna. Og sé gefin út tilkynning um einhverja mikla verðhækkun einhvers staðar, auðvitað til þess að koma í veg fyrir að það verði einhver hallarekstur hjá því fyrirtæki, þá er sagt: Þetta stefnir líka í þá átt að koma í veg fyrir verðbólgu, — þó að það sé bein verðhækkun. Og allar skattahækkanir, sem hér eru samþ, og fara út í verðlagið, allar eru þær gerðar til þess að veita viðnám gegn verðbólgunni. Og auðvitað er gengislækkunarstefnan sjálf alltaf þáttur í baráttunni við verðbólguna.

Ég álít að hæstv, ríkisstj. þurfi að endurskoða verulega stefnu sína í fjárfestingarmálum. Nú hefur t.d. verið bent á að það sé alveg augljóst, að við séum að stefna út í miklu meiri vanda uppi á Grundartanga í Hvalfirði fjárhagslega og peningalega séð heldur en nokkurn tíma var í sambandi við Kröflu. Kröfluvandinn er þó varla nema upp á 9 milljarða eða þar um bil, þó að þar eigi nú að nema staðar og láta hana vera eins og hún er. En Grundartangi nemur alveg örugglega þrefaldri þeirri upphæð. Hann kemur til með að jafngilda þremur Kröflum. Þegar lögin um Grundartangaframkvæmdina voru samþ., lágu þær upplýsingar fyrir, að miðað við það verðlag, sem þá var upp gefið yrði örugglega 800 millj. kr. tap á rekstri verksmiðjunnar á einu ári. Nú benda nýjustu upplýsingar til þess, að tapreksturinn verði miklu meiri, og ég hef margbent á það sem er verra, að við erum líka að selja þessari verksmiðju raforku fyrir upphæð sem er undir réttu verði. Ég held að kominn sé tími til þess, að hæstv. ríkisstj. t.d. taki fjárfestingu eins og þessa til endurskoðunar, stöðvi framkvæmdirnar við járnblendiverksmiðjuna, geymi sér að taka slík lán og spari okkur að leggja á íslenskt þjóðarbú bæði tapreksturinn og fjármagnskostnaðinn sem fylgir í kjölfar þeirrar framkvæmdar. Það er enginn vafi á því, að hægt væri að nota hluta af þessu fjárfestingarfé á miklu skynsamlegri hátt. Það væri hægt að nota féð, sem í þetta er lagt, til þess m.a. að efla þær greinar íslensks iðnaðar sem eru líklegastar og bestar og mundu skila í þjóðarbúið miklum mun meiri verðmætum en við getum fengið út úr þessari verksmiðju. Eða þá að við legðum þetta í vaxandi mæli í að lyfta okkar þýðingarmestu framleiðslu, sjávarútveginum, og þar nefni ég fyrst til fiskiðnaðinn, upp á hærra framleiðslustig þannig að þar fáist miklu meiri nettóhagnaður en í dag fæst, því það er enginn vafi á að hægt er að koma því fram. En aðalatriðið er að þetta fæst ekki með því að halda hér uppi óbreyttri stefnu, Ég tel að afgreiðsla fjárlagafrv. í þeirri mynd, sem það liggur fyrir hér nú, tákni í rauninni óbreytta stefnu í efnahagsmálum.

Herra forseti. Ég ætla svo einnig að gera í örstuttu máli grein fyrir brtt. sem ég stend að eða hef þegar flutt. Þær brtt, er að finna á þskj. 150. Þar flyt ég ásamt hv. 7. landsk. þm., Helga Seljan, brtt, um tvær hafnir á Austurlandi. Gert er ráð fyrir því, að á næsta ári verði varið til hafnargerðar á Seyðisfirði 30 millj, kr. og til Djúpavogs 30 millj. kr. Þessar fjárveitingar eru báðar í fullu samræmi við þá hafnaáætlun sem hér hefur verið lögð fram. Í henni er gert ráð fyrir 30 millj. kr. framkvæmdum á hvorum staðnum fyrir sig. Báðir þessir staðir hafa lagt mikla áherslu á að hægt væri að koma þessum framkvæmdum fram. Hér er um býsna öfluga framleiðslustaði að ræða sem búa við erfið skilyrði í hafnamálum, og t.d. á Seyðisfirði yrði hægt að koma við miklu hagkvæmari vinnubrögðum ef sú bryggja yrði byggð sem þarna er ráðgerð. Svipað er að segja um Djúpavog. Ég vænti þess, að hv. fjvn, taki þessa till, og skoði hana, þannig að hún geti fengist samþ., það verði tekið tillit til hennar.

Þá flyt ég ásamt hv. 5. þm. Norðurl. v., Ragnari Arnalds, till, á þskj. 161. Það er till. í þremur liðum. Það er í fyrsta lagi, að framlög til ríkislögreglunnar á Keflavíkurflugvelli verði lækkuð um rétt u.þ.b. helming. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir rúmlega 142 millj. til ríkislögreglu á Keflavíkurflugvelli. Við erum báðir á þeirri skoðun að rétt væri að fella þennan lið niður með öllu. En það er ekki líklegt að það verði raunhæft á þessu ári, og því gerum við ráð fyrir að lækka þessa fjárveitingu um helming, og ætti að vera hægt að koma fram þessum sparnaði á þessu ári. Það er skoðun okkar að beinn lögreglukostnaður á Keflavikurflugveili eigi að vera okkur óviðkomandi.

Í öðru lagi leggjum við til, að að því verði stefnt að leggja niður sendiráð Íslands í Brussel, sem er fyrst og fremst sendiráð okkar hjá NATO. Við teljum að auðvelt sé að sinna þeim verkum, sem þarf að sinna í Brussel. frá sendiráðinu í París, og því leggjum við til, að stefnt verði að því að leggja þetta sendiráð niður, en gerum ráð fyrir því í till. okkar að lækka þennan kostnað á þessu ári úr rúmum 58 millj. í 25 millj. kr.

Þá leggjum við í þriðja lagi til, að beint fjárframlag til Atlantshafsbandalagsins verði fellt niður, en það nemur nú um 26 millj, kr.

Þá flytjum við einnig á þessu sama þskj, till. um að felld verði niður úr heimildargr., þ.e.a.s. 6. gr. fjárlagafrv., heimild til handa ríkisstj. til þess að kaupa 3., 4. og 5. hæð húseignarinnar að Laugavegi 166. Þetta er hið margumtalaða Víðishús, og við leggjum til að ríkisstj, fái ekki heimild til að kaupa þetta bús. Nóg er gert, — ég hef þegar minnst á það — af röngum fjárfestingum og illa völdum þó þessi bætist ekki ofan á allt hitt. Og við viljum gjarnan að sá haldi áfram að eiga þetta hús sem á það nú og ríkið verði laust við það. Við leggjum því til að þessi liður falli niður.

Þá flyt ég á þessu sama þskj. till, um það, að bætt verði við nýjum lið til útgjalda varðandi stjórn flugmála, þar sem gert er ráð fyrir að verja 20 millj. kr. til 1, áfanga að flugstöðvarbyggingu á Höfn í Hornafirði. Það þarf ekki mörgum orðum um það að fara. Ég býst við að margir hv. þm. hafi komið á flugvöllinn á Höfn í Hornafirði og séð hvers konar aðbúnað menn verða að sætta sig við þar, en þar er svo hrakleg aðstaða að það er til skammar. Ég álít, að ekki verði undan því vikist að hefja framkvæmdir við byggingu flugstöðvar á þessum þýðingarmikla framleiðslustað sem Höfn í Hornafirði er, og legg því til, að tekin verði upp byrjunarfjárveiting í þessu skyni, 20 millj. kr.

Ég vil svo aðeins henda á það, að þó að ég og við gerum hér ráð fyrir nokkuð auknum útgjöldum, þá gerum við þó till. um sparnað sem er öllu meiri en sem nemur þeim útgjöldum sem við fitjum hér upp á. Ætti því að vera hægt að samþ. útgjaldatill. okkar, þar sem við leggjum greinilega fram peninga til að standa undir þeim framkvæmdum.