13.12.1977
Sameinað þing: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

1. mál, fjárlög 1978

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru örstuttar almennar hugleiðingar og síðan fáein orð um þau atriði sem fjvn, hefur þegar afgreitt.

Ég vil hefja mál mitt með því að þakka samnefndarmönnum mínum í fjvn. að mörgu leyti ánægjulegt samstarf og þá sér í lagi form. n., hv, þm. Steinþóri Gestssyni. Það er ljóst að þeir, sem þar stjórna, hafa þurft að lúta annarra leiðsögn, og öll vinnubrögð markast af því hve dæmalaus frammistaða hinnar sterku ríkisstj. er varðandi fjárl. og ákvörðunaratriði um mikilvægustu málaflokka þar, Hins vegar hlýtur seta í fjvn. að vekja ýmsar áleitnar spurningar, en þar skal aðeins að einu vikið.

Enn er það svo í hugum margra, og það á að vera það með réttu, að nefndin sé fjvn. Allir, sem gerst til þekkja, vita þó að í mörgu tilliti er um nafnið eitt að ræða. Sums staðar er allt harðlæst og lokað af ríkisstj. eða skálkaskjóli hennar, hagsýslunni. Í öðrum tilfellum er hlutverkið það eitt að skipta allt of knöppu framkvæmdafé, sem þó má hvergi hreyfa til heildarhækkunar. Og svo eru reyndar fáeinir málaflokkar þar sem einhver tilfærsla má eiga sér stað, þar sem n. í raun og veru er fjvn.

Varðandi skiptingu framkvæmdafjár í hina ýmsu þætti er venjulega um mikinn niðurskurð að ræða frá upphaflegum till. viðkomandi rn. Þessi viðkomandi rn. upplýsa svo gjarnan viðkomandi aðila, í þessu tilfelli oftast nær sveitarstjórnarmenn sem þarna eiga hagsmuna að gæta, um sínar till. sem eigin staðfastan vilja, en hafi svo verið skornar niður, ekki af þeim sameiginlega eða af hæstv. fjmrh., heldur af fjvn. Ég kann þessum vinnubrögðum eða „taktík“ illa, því öll ríkisstj., ráðh. allra rn., bera vissulega sina ábyrgð gagnvart þeim tölum öllum sem fjárlagafrv. endanlega setur fjvn. til að skipta, og þá duga hvergi til óskatölur einhverra ráðh., e.t.v. um 100% frá þeim raunveruleika sem þeir sjálfir gerast ábyrgir að.

Varðandi vinnubrögð í n. sjálfri, fyrst ég minntist á þau áðan, má enginn misskilja mig svo, að þau hafi á nokkurn hátt verið lakari en þau voru t.d. á s.l. ári og efni stóðu til nú varðandi þessa afgreiðslu. Ríkisstj. var aðeins of sein til flestra þeirra hluta sem máli skiptu. Því er niðurstaða okkar í minni hl. nú sú að geyma nál. til 3. umr. þar sem óvissuatriðin séu svo yfirþyrmandi nú varðandi niðurstöður allar — a.m.k. voru það óvissuatriði þegar að því kom að fara að skila nál., en síðan hefur mikil og fróðleg speki verið hér flutt.

Sér á parti er svo það, að núna fyrst vorum við að sjá t.d. hinar svokölluðu björgunartill. ríkisstj. Áður hefur verið á það minnst í þessum umr. að aðeins voru gefnar — mjög lauslega þó — upp áætlaðar tekjubreytingar frv. á þegar mörkuðum tekjustofnum. Þegar aftur á gjaldahliðina var minnst og upplýsinga krafist um helstu liði þar, þá var því einfaldlega neitað. Það hefur einnig verið upplýst hér áður. Hv. þm. Geir Gunnarsson óskaði fyrir margt löngu eftir áætlun Tryggingastofnunar ríkisins um útgjaldaauka næsta árs. Ítrekaðar beiðnir báru engan árangur og er þó um að ræða einn stærsta liðinn í breytingunum milli ára, ef ekki þann stærsta. Þannig var um fleira. Ríkisstj, hafði ekki haft tíma, enda máske engin furða þegar litið er til þess, að jafnvel ráðh. hófu umr. utan dagskrár frekar en að gera ekki neitt. Annars mun ég hér og nú vísa til þess, sem hv, þn:. Geir Gunnarsson ræddi um. Það skýrir að fullu afstöðu okkar í Alþb.

Hins vegar vildi ég aðeins fara fáeinum orðum um þau mál, sem þegar hafa verið afgreidd á þskj. 148. Ég átti sæti í undirnefnd skólamála og þar var vandinn vissulega mikill, því mjög vantar á að eðlilegt áframhald verði á skólabyggingum, þó mismunur á till. rn. og frv. í þessu efni væri ekki eins hrikalegur og sums staðar annars staðar. Raunframlög hafa að sjálfsögðu staðið í stað og fáar nýjar byggingar er því unnt að taka inn þrátt fyrir mikla og aðkallandi þörf. Á það hefur svo hv. þm. Geir Gunnarsson bent rækilega, hve raungildislækkunin hefur orðið mikil á tíma þessarar hæstv. ríkisstj. einmitt til þessara framkvæmda og raunar til allra félagslegra framkvæmda.

Í fyrra kom fram mjög eindregin ósk um það, að fjölbrautaskólarnir væru ekki færðir undir liðinn „framlög til grunnskólabygginga“. Nú hefur það verið gert, að þeir hafa verið teknir sérstaklega út úr, og ég vil þakka form. n. það og vona að eftir því verði farið í framtíðinni. Mér er hins vegar ljóst að það leysir engan sérstakan vanda. Eftir sem áður vantar mikið á að fjárveitingar séu nægilegar í þessu sambandi. Það er svo rétt að minna á það, að margar þessar byggingar, sem við erum þarna að veita fé til, eru óhóflega dýrar, svo að er útilokuð einnig fjármögnun heiman að, nema á mörgum árum, allt upp undir áratug. Þar skera íþróttabyggingarnar sig úr, að mér finnst, og ég veit dæmi um það frá mínum heimastað, að svo sé líkast sem allt sé þar gert sem dýrast í byggingu — það er fallegt að vísu, en miður hagkvæmt að sama skapi. Þetta gildir um fleira, og ég fullyrði að með betra eftirliti með teikningu og hönnun þessara mannvirkja yfirleitt mætti spara umtalsverðar fjárhæðir.

Enn einu sinni skal það gagnrýnt, að í frv. til fjárl. er héraðs- og iðnskólum skipt sérstaklega, þ.e.a.s. ákveðinni upphæð er deilt niður á ákveðna skóla. Þetta gerir tillöguflutning illkleifan, þó á væri þörf. Fjvn. hefur margoft beðið um að þetta yrði aðeins í einni tölu heildartölu, sem síðan yrði skipt af n. Ég tel alveg sérstaka nauðsyn á því með héraðsskólana, þar sem nú er staðið á vegamótum varðandi framtíð þeirra, og vil jafnframt leggja áherslu á það, að brýn þörf er á að gera nákvæma úttekt á framtíðarstöðu héraðsskólanna, svo hægt sé að gera sér grein fyrir því, hvar fjárveitinga er í raun og veru þörf og í hvað skuli þá sérstaklega ráðist.

Meðal þeirra mála, sem komu rétt snöggvast i,m á borð okkar í skólamálanefnd, voru vandamál fræðsluskrifstofanna varðandi húsnæði þeirra. Það var eðlilega ekki hægt að taka þær inn á þann lið, til þess var hann þegar fyrir fram of knappur. Ég hlýt enn að vona, að úr vanda þeirra verði leyst og trúi vart öðru, því fræðsluskrifstofurnar gegna nú í dag mjög þýðingarmiklu hlutverki hjá okkur úti á landsbyggðinni. Það er til vansa ef þær verða olnbogabörn með sín margþættu verkefni og viðtæka verksvið. Um þau mál ræði ég ekki frekar hér, en bíð 3. umr. í þeirri von að þar rætist úr.

Ekki vil ég nú vera neikvæður að öllu leyti, enda er margt sem við höfum verið algjörlega sammála um í þessari n., þótt allt séu það auðvitað smærri atriði, enda fáum við ekki að fjalla mikið um nema þau smærri atriði. Ég fagna því, hve myndarlega hefur verið tekið á tvennum framlögum til æskulýðsmála, þ.e. framlögum til Íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands. Ekki veit ég hvort þetta muni eiga að vera staðfesting á því, að íþróttamaður sé í n. kominn sem hittir í mark í fyrsta skoti. En hvað um það, gott er það engu að síður. Varðandi Íþróttasamband Íslands vil ég aðeins geta þess, að ég hef komist að því, að ekki eru framlögin ýkjahá frá þessu ágæta sambandi til íþróttasambandanna úti á landi, og væri betur að þessi stórhækkaða upphæð til þess núna kæmi þar til hækkunar alveg sérstaklega. Ég tek dæmi úr mínu kjördæmi: Íþróttahreyfingin á Austurlandi mun hafa fengið samtals eitthvað rúmar 200 þús. kr. á síðasta ári af þessum 32 millj. sem þá voru veittar til Íþróttasambands Íslands. Það eru í kringum 0.7%. Á Austurlandi er þó öflugt íþróttastarf og íbúatalan ekki 0.7% af þjóðinni, heldur nær tíu sinnum það. En nú skal sem sagt vonað að úr rætist við nær tvöföldun þessa framlags. Gjarnan hefði ég viljað að Ungmennafélag Íslands, sem gegnir miklu mikilvægara hlutverki fyrir landsbyggðina, hefði fengið a.m.k. ámóta hækkun, eða 23 millj. í stað 18, ef miðað er við hækkunina til ÍSÍ, en látum það vera. Allt er það gott sem í áttina fer.

Aðeins skal að heilsugæslumálum vikið, því hvergi mun hafa verið um eins langt bil að ræða milli till. rn. og raunveruleikans í fjárlagafrv. Þar kemur nú inn á Austurlandi ný heilsugæslustöð með framlag upp á 10 millj., á Búðum í Fáskrúðsfirði. Ég hef oft rætt um þessa stöð hér á Alþ. og flutt um hana till. og gert það m.a. í trausti þess, að viðkomandi ráðh. lofaði þessari stöð strax á fyrsta stjórnarári sínu. Allt þetta mál og afdrif þess hafa orðið til mikilla leiðinda á þessum stað, m.a. varðandi þann ágæta lækni sem þar var búsettur og flutti brott, og síðan hefur ástandið ekki verið of gott austur þar — skipti tíð á læknum — þó að það standi nú til bóta að sögn. En nú er þessi upphæð sem sagt komin inn í fjárl., byrjunarupphæð til þessarar heilsugæslustöðvar. En hún er þannig til komin, að áður niðurskornar fjárhæðir til tveggja annarra framkvæmda á Austurlandi voru enn færðar niður til þess að unnt væri að láta loforð ráðh. rætast í einhverju á kjörtímabilinu. Þm. Austurl. urðu að taka þessa stöðu þannig inn til þess að bjarga heiðri þessa hæstv. ráðh.

Heilbrigðismálin eru ekki öll útrædd í n. Svo vill til í dag að ein þeirra stofnana, sem heyra undir heilbrrn., er 25 ára. Hún er að vísu ekki algjör sjúkrastofnun í þess orðs fyllstu merkingu. Hér á ég við Kópavogshælið, hæli fyrir þroskahefta. Tvennt háir þessari stofnun sérstaklega: þrengsli eru mikil og aðbúnaður allur er langtum lélegri en vera ber, en þó alveg sér í lagi að starfsmenn eru allt of fáir eða innan við einn á hvern vistmann. Þetta er talin allt of lág tala. Líklega væri nær að reikna með 11/2 starfsmanni á hvern vistmann þar til þess að viðunandi ástand næðist. Það er til marks um það, hve lögð er rík áhersla á þetta nú, að stjórnarnefnd ríkisspítalanna hefur lagt til allverulega fjölgun í sínum lokatillögum einmitt varðandi þetta hæli, um leið og hún hefur í raun og veru fallið frá öðrum beiðnum um aukningu starfsfólks. Það vill svo til, að ég er nokkuð kunnugur þessu máli og veit mætavel um þessa þörf og hef reyndar bent rækilega á hana í umr. um málefni þroskaheftra hér í þinginu. Um öll þessi mál hefur verið mikil umr. og alls staðar hefur verið um skilning og góðvild í garð hinna þroskaheftu að ræða. En það nægir ekki. Ég vona einlæglega að þetta hæli fái sína afmælisgjöf, þetta ágæta fólk, sem verður að láta aðra berjast fyrir sig sakir þess að það getur það ekki sjálft, fái sína afmælisgjöf fyrir 3. umr. Ég veit að til þess stendur hugur fjvn: manna allra, ef leyfi fæst að ofan til þess.

Aðeins skal ég fara nokkrum orðum um till. okkar fjögurra þm. á þskj. 150, þ.e.a.s. VI. till. þar, varðandi flugmálastjórn, um fjárfestingar í flugmálum. Við höfum látið það koma fram í n., að við teldum að í stað flugstöðvar í Reykjavík ætti að koma nýr tölul.: Til öryggismála á áætlunarflugvöllum samkv. frekari ákvörðun fjvn. og flugráðs. Þessi till. er svo flutt hér og er auðvitað ekki bein útgjaldaaukning, heldur aðeins eðlileg tilfærsla. Það hefur verið mjög á það bent af ýmsum hér í þinginu, þá ekki hvað síst flugráðsmönnum og nm. í svokallaðri flugvallanefnd, hve öryggismálin væru í hraklegu ástandi á flugvöllum okkar víðs vegar um land. Þar er síst af öllu ofsagt og mönnum kunnara en svo, að endurtaka þurfi hér. M.a. stendur í skýrslu flugráðs til okkar fjvn: manna, að með tilliti til röðunar forgangsverkefna hljóti að vera um að ræða flugöryggismálin sem númer eitt, að þau skuli sitja fyrir. Flugráð hefur sem sagt sjálft, þrátt fyrir þessa till. sína um 70 millj., lagt áherslu á að flugöryggismálin ættu að hafa algeran forgang. Við sölu flugskýlis hér í Reykjavík koma til tekna 70 millj., sem er hægt að ráðstafa á næsta ári til viðbótar til flugmála. Meiri hlutinn leggur til að sú upphæð fari í flugstöð í Reykjavík og hefur þar viss rök fyrir sínu máli. Við gerum þá till., að þessi upphæð verði veitt til öryggismála á áætlunarflugvöllum samkv. frekari ákvörðun fjvn. og flugráðs.

Ekki skal neitt úr því dregið, að flugstöðin gamla á Reykjavíkurflugvelli er alls ófullnægjandi, og auðvitað er hér um að ræða flugstöð allra landsmanna, svo menn haldi nú ekki að hér ráði einhver hreppapólitík. En á það má þá benda um leið, sem var reyndar gert áðan af hv. síðasta ræðumanni, að t.d. á Höfn í Hornafirði er aðeins um skúrræfil að ræða, og er það þó einn af þeim tíu flugvöllum landsins sem mest umferð er um, og svo er ástatt víðar. Það er því víða sem skórinn kreppir í þessum efnum. Það liggur fyrir annars vegar, að unnt væri að hefjast handa með þessar 70 millj. í heimanmund. Þessi tygging kostar nú nokkur hundruð millj. eftir þeirri teikningu sem til er og kallar því á mjög stóran hluta fjárfestingarfjár til flugmála á næstu árum. Ef hins vegar er litið á þetta frá öðru sjónarmiði, sem er meginatriðið að okkar dómi og meginástæðan til þessarar tillögugerðar, svo eindreginnar, sýnast hverfandi litlar líkur á notkun þessa fjár í þetta verkefni á næsta ári, þar sem svo virðist vera að nýja gerbreytta teikningu þurfi samkv. þeim upplýsingum sem við höfum fengið bestar. Þegar það svo liggur fyrir margítrekað af flugmálastjóra, flugráði og flugvallanefnd og síðast, en ekki síst af flugmönnunum sjálfum, að stórátak þurfi að gera í öryggismálum, þá virðist okkur einsýnt, eins og þessi mál standa í dag, að þessu fé eigi skilyrðislaust að verja til öryggismála eftir nánari ákvörðun fjvn. og flugráðs. Þetta er sett þannig inn til þess að betra tóm gefist til að íhuga og velja þau verkefni sem ganga eiga fyrir, en þar er af nógu að taka.

Ég ítreka það, að hjá okkur er engin andstaða við nýja flugstöðvarbyggingu í Reykjavík. Við teljum aðeins, að áður en ákvörðun er um það tekin og fé til þess veitt þá þurfi að liggja skýrt fyrir, svo sem um aðrar opinberar framkvæmdir, hvers konar byggingu eigi að reisa, að það sé komin sú teikning, sem á að gilda, af þessari byggingu og síðast, en ekki síst kostnaðaráætlun um hana, eins og hún á að verða í endanlegri mynd. Ekkert af þessu veit ég til að liggi fyrir. Við höfum a.m.k. ekki fengið neinar upplýsingar um það. Í ljósi þess, að til þessa verði varið þessum 70 millj. nú og þeim kannske komið í lóg, ef á að nota þessa gömlu teikningu, sem kann að vera þó hún þyki allt of dýr og óhagkvæm, þarf vitanlega að tryggja flugmálunum í heild aukið fjármagn áður en ráðist er í framkvæmd sem getur skipt upphæð sem er ámóta eða gæti orðið ámóta og allt fé sem fer til fjárfestingar í flugmálum í dag miðað við fjárlagafrv. nú. Hin ástæðan fyrir tillöguflutningi okkar er sú, að þetta snertir hina knýjandi nauðsyn að bæta úr öryggisútbúnaði flugvalla um, allt land. Þarf ekki að kynna hv. þm. það frekar.

Ég fagna því hins vegar — og vil þakka það — að sú samþykkt var gerð í fjvn. að tillögu okkar Alþb.-manna þar, að sjúkraflugvallaupphæðin nú, 32.6 milljónum, skuli skipt í samráði við fjvn.

Að lokum örfá orð um litla till. sem ég flyt á þskj. 150, um viðbót við fjárveitingu sem snertir dýralæknisbústað á Breiðdalsvík. Ráðuneytisstjórinn í landbrn. kynnti okkur á dögunum aukna fjárþörf til byggingar dýralæknisbústaða almennt. Hann nefndi þá sérstaklega að bústað vantaði á Breiðdalsvík fyrir dýralækni sem hefur verið skipaður þar í embætti fyrir stuttu. Þegar svo brtt, komu fyrir okkar sjónir frá meiri hl. var ekkert framlag í þessa framkvæmd tekið þar inn af sama rn. Það var aðeins farið í það, sem fyrir var, og bætt þar við. Breiðdalsvík var þar af leiðandi ekki með í þeirri upptalningu sem fylgdi með. Ég saknaði hennar úr þessari upptalningu og gat þess í n. og vildi gera litla till. um 5 millj. kr. til að hefja framkvæmdir þar á næsta ári. Þarna þarf að koma upp bústað fyrr en síðar og rétt að merkja hann þegar á næsta ári. Frekari rökstuðning fyrir því tel ég óþarft að hafa uppi. Hér er um það litla upphæð að ræða, að mér þykir sjálfsagt að hún komi þarna inn, úr því verið er að hreyfa þessar upphæðir á annað borð.