13.12.1977
Sameinað þing: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

1. mál, fjárlög 1978

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Ég átti þess naumast von, að hæstv. fjmrh. sýndi þá reisn að færa fram með einhverjum hætti afsökun sína vegna þess að okkur fulltrúum minni hl. í fjvn. hefur verið neitað um upplýsingar fyrir 2. umr. um þann vanda sem nú er við að etja við fjárlagagerð, neitað um upplýsingar sem hann hafði undir höndum. Auðvitað sér hæstv. ráðh. — jafnvel hann — að þessi frammistaða er algerlega óverjandi, vegna þess að þessar upplýsingar voru til. Hann hefur nú í dag, eftir að 2. umr. er hafin, verið að tína fram þessar upplýsingar, sem okkur var neitað um, og lætur það fylgja með, að hann ætti líklega sjálfur að skrifa nál. minni hl. Það getur svo sem verið gott að njóta aðstoðar góðra manna þegar eitthvað þarf að semja, — það ætti hæstv. ráðh. að þekkja, kannske betur en ýmsir aðrir.

Hv. 6. þm. Sunnl., form. fjvn., og hv. 4. þm. Norðurl. e., sem reyndu að bera í bætifláka fyrir þá afstöðu að neita minni hl. n, um upplýsingar, sem fyrir hendi voru um útgjaldahækkanir á fjárlagafrv., vita það nákvæmlega jafnvel og ég, að þegar forstöðumaður Tryggingastofnunar ríkisins kom á fund í fjvn. fyrir ríflega hálfum mánuði að minni ósk, þá óskaði ég eftir því, að Tryggingastofnunin sendi fjvn. áætlun um þær hreytingar sem ætla mætti að yrðu á útgjöldum almannatrygginga frá því sem áætlað væri í fjárlagafrv. vegna breyttra forsendna frá því að það var samið. Þeir vita einnig báðir, að ég gekk eftir þessum upplýsingum oftar en einu sinni, og á síðasta fundi n. spurði ég enn eftir þessum upplýsingum, en þær fengust ekki. Hér er um að ræða beiðni um upplýsingar um breytingar á útgjaldalið, sem er svo stór þáttur ríkisútgjalda að breytingin ein frá fjárlagafrv. vegna nýrra forsendna nemur milljörðum kr. Öllum beiðnum um upplýsingar um þessar væntanlegu hækkanir var neitað og það þó margsinnis væri gengið eftir þeim. Á síðasta fund í fjvn., nú s.l. laugardag, komu fulltrúar Þjóðhagsstofnunar samkv. minni beiðni og gerðu grein fyrir áætluðum hækkunum á tekjuþáttum fjárlagafrv. Þeir gerðu það skýrt og greinilega eins og þeirra var von og vísa.

Forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar lauk máli sínu með því að segja, að hann gerði ráð fyrir því, að af hálfu fjárlaga- og hagsýslustofnunar yrði á sama hátt gerð grein fyrir áætlun um breytingar á útgjaldaliðum. Í þeim töluðu orðum virtist formaður n. vilja láta fundinum lokið, en áður hafði verið tilkynnt, að þetta yrði síðasti fundur n. fyrir 2. umr., enda var lítill tími til stefnu ef umr, átti að fara fram á þriðjudag. Ég óskaði þá eftir því, að fulltrúi fjárlaga- og hagsýslustofnunar, sem sat fundinn og hafði setið allflesta fundi n. þegar gera þurfti grein fyrir breytingum á útgjaldaliðum á fjárlagafrv. varðandi einstakar stofnanir, skýrði frá áætluðum breytingum á helstu útgjaldaþáttum, en því var neitað. Síðasta fundi fyrir 2. umr. var þar með slitið. Það þarf því ekkert að deila um það, að fulltrúum minni hl. í fjvn. var ekki útvegað yfirlit frá Tryggingastofnun ríkisins um áætlaðar útgjaldahækkanir almannatrygginga, eins og margbeðið var um, og að sá fulltrúi fjárlaga- og hagsýslustofnunar, sem látinn var mæta á þeim fundi, sem búið var að tilkynna sem síðasta fund n. fyrir 2. umr., neitaði að veita umbeðnar upplýsingar. Þessu verður ekki haggað með neinu móti. Og gagnvart slíkum vinnubrögðum var ekki annað fyrir minni hl. n. að gera en fresta því fram yfir 2. umr. að gefa út nál. í von um að þessar upplýsingar yrðu síðar látnar af hendi fyrir n. alla, en ekki einungis fyrir meiri hl. hennar.

Ég rakti það í ræðu minni fyrr í dag, að vissulega hefði oft skort á við 2, umr. um fjárlagafrv. að fyrir fjvn. hafi legið lausn þess vanda sem við hafi verið að etja hverju sinni. Það er rétt, lausn fjárlagavandans eða ákvörðun ríkisstj. um aðgerðir hefur ekki ávallt legið fyrir við 2. umr. fjárl. Þetta tók ég skýrt fram sjálfur fyrr í dag. Stundum, t.d. það ár sem hv. 6. þm. Sunnl. tilgreindi, verða breytingar, svo sem á launum, svo skömmu áður en 2. umr. fer fram að upplýsingar liggja ekki fyrir, og þá er ekki um það að fást. hví hef ég einnig orðið fyrir í minni hl. og ekki fundið að. En hitt er annað og verra og veldur því, að full ástæða er til að grípa til sérstakra aðgerða, þegar neitað er um upplýsingar sem ríkisstj. hefur, en neitar að láta af hendi við minni hl. fjvn. áður en aðalumr. um fjárlagafrv. fer fram. Það, sem nú hefur gerst í fyrsta sinn, svo að ég viti til, og það sem veldur afstöðu okkar minnihlutamanna nú, er að okkur hefur ómótmælanlega verið neitað um upplýsingar, sem ríkisstj. hafði á hendinni um það, við hvern vanda er að glíma, neitað um upplýsingar um áhrif breyttra forsendna á útgjaldaþætti fjárlagafrv. Þetta hefur ekki gerst áður meðan ég hef átt sæti í fjvn., og ég minnist þess aldrei í minni formennskutíð í fjvn., að minni hl. hafi verið neitað um nokkrar upplýsingar, sem hann bað um. Það er jafnan mjög misjafnt hve miklar upplýsingar hafa legið fyrir. Stundum hefur fulltrúi Þjóðhagsstofnunar komið á fundi fjvn. fyrir 2. umr., stundum ekki. Það hefur fyrst og fremst farið eftir því, hvort óskað hefur verið eftir því, að hann mætti, og það, hvort ósk um slíkt kemur fram eða ekki, fer eftir því, hvort verulegra breytinga er að vænta á tekjuliðum frá því, sem fram kemur í fjárlagafrv.

Ég minnist þess ekki, að neinum aðila hafi verið neitað um upplýsingar, sem fyrir hafa legið um áætlaðar breytingar á gjalda- eða tekjuhlið, fyrr en nú. Ástæðan fyrir þörf á því, að sérstök grein sé gerð fyrir þessum atriðum, getur verið mjög misjafnlega mikli, eins og ég áðan greindi. Ef ekkert sérstakt hefur gerst varðandi forsendur, sem fjárlagafrv. er byggt á, þar til það kemur til 2. umr. er ekki ávallt ástæða til að fá um breytingarnar sérstaka skýrslu fyrir 2. umr. Nú var meiri nauðsyn á þessum upplýsingum en jafnvel nokkru sinni fyrr, þar sem um stórfelldar breytingar er að ræða á þeim grundvelli, sem fjárlagafrv. er byggt á. Og það sem skiptir máli: Það var vitað um að þessar upplýsingar voru til.

Nú er fjárlagafrv. markleysa vegna breytinga á forsendum þess og alls engin leið að ræða fjárlagagerð án þess að fá þær upplýsingar sem voru til og um hafði verið beðið, en neitað var að láta af hendi. Viðbrögðin við slíkum aðgerðum gagnvart minni hl. n. nú, þegar svo mjög hefur raskast grundvöllur fjárlagafrv., hlutu að verða þau, að við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í n. skiluðum ekki nál. fyrir 2. umr.

Ég tók það fram í ræðu minni í dag, að það, sem er sérstakt við vinnubrögð hæstv. ríkisstj. nú, er ekki það, að fjvn. hafi ekki verið kynnt úrræði stjórnarflokkanna til að leysa þann vanda að ná endum saman. Það hefur æðioft gerst áður, þó að best væri fyrir alla að slíkar upplýsingar gætu legið fyrir við 2. umr., en þess er ekki ávallt að vænta. Nei, það, sem er sérstætt og einstakt, er að minni hl. fjvn. hefur óvefengjanlega verið neitað um upplýsingar, sem ríkisstj. hafði í höndunum og eru grundvöllur allra umr. um fjárlagaafgreiðsluna, upplýsingar um áhrif breyttra forsendna á gjaldahlið frv., neitað um upplýsingar um þann vanda, sem við er að etja, þótt upplýsingarnar væru til. Það að neita minni hl. fjvn. um þessar upplýsingar, sem þó voru til, er að sjálfsögðu mjög alvarleg og ámælisverð ákvörðun, einkum þar sem auðsætt er, að báðar hliðar fjárlagafrv. eru markleysa, eins og best sést á því, að nú hefur verið upplýst að sveiflurnar frá frv. nemi meira en 17 milljörðum kr. og það væri fráleitt að ætlast til þess, að minni hl. n. skili nál. um frv. þegar hann hefur ekki fengið þessar upplýsingar. 2. umr. um fjárl. undir þessum kringumstæðum er merkingarlaust formsatriði.

Það kórónar svo frammistöðuna þegar hv. 4. þm. Norðurl. v. lýsir því einfaldlega yfir hér áðan, að það hefði átt að nægja stjórnarandstöðunni að lesa tölurnar sem fyrst voru birtar í nál. meiri hl. fjvn. eftir hádegi á mánudag. Sú aths. sýnir e.t.v. betur en allt annað, að hér voru engin mistök á ferðinni af hálfu stjórnarflokkanna. Sú aths. er nánast fullkomin játning á því, að þessum grundvallarupplýsingum, sem stjórnarflokkarnir höfðu undir höndum, hefur verið haldið fyrir stjórnarandstöðunni — ekki af mistökum, eins og hv. 4. þm. Norðurl. v. hélt fram í upphafi ræðu sinnar, heldur af ásettu og yfirlögðu ráði.